Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

47/2004 Látraströnd

Ár 2004, fimmtudaginn 11. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 47/2004, kæra húseigenda að Látraströnd 9, Seltjarnarnesi á ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 4. mars 2004 um að veita leyfi til byggingar turns að Látraströnd 7, Seltjarnarnesi. 

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. september 2004, sem barst nefndinni sama dag, kæra S og B, Látraströnd 9, Seltjarnarnesi ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 4. mars 2004 um að veita leyfi til byggingar turns að Látraströnd 7, Seltjarnarnesi.  Hin kærða ákvörðun var afgreidd í bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar 10. mars 2004. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá krefjast þeir þess að úrskurðarnefndin úrskurði til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar. 

Úrskurðarnefndin hefur aflað gagna og leitað afstöðu byggingarleyfishafa og byggingaryfirvalda á Seltjarnarnesi til fyrirliggjandi kröfu um stöðvun framkvæmda og er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu.

Málavextir:  Hinn 12. desember 2002 var tekin fyrir á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar fyrirspurn frá eiganda hússins að Látraströnd 7 um leyfi til að byggja turn ofan á garðskála hússins að Látraströnd 7.  Fram kom að nefndur turn yrði 2,15 m upp fyrir aðalþak hússins.  Samþykkti nefndin að senda málið í grenndarkynningu.  Fram komu mótmæli frá nokkrum nágrönnum, þar á meðal kærendum.  Niðurstaða málsins varð sú að fyrirspurninni var hafnað á grundvelli niðurstöðu grenndarkynningar.

Hinn 5. júní 2003 var á ný tekin fyrir í skipulags- og mannvirkjanefnd fyrirspurn frá eiganda Látrastrandar 7 um byggingu turns ofan á garðskála hússins.  Nokkur breyting hafði verið gerð á fyrri uppdrætti og turninn lækkaður niður í 1,65 m yfir aðalþak hússins.  Skipulags- og mannvirkjanefnd samþykkti að senda málið aftur í grenndarkynningu.  Nokkur mótmæli bárust, þar á meðal frá eigendum Látrastrandar 9.  Var því fyrirspurninni hafnað en jafnframt bókað að nefndin gæti fallist á að turninn færi upp í sömu hæð og hæsti hluti hússins og á grundvelli þessa var leyfið veitt. 

Í málinu liggur fyrir að hið umdeilda glerþak garðskálans var sett upp hinn 23. september sl., en eigendur stöðvuðu framkvæmdir þegar ljóst var að afgreiðsla skipulags- og mannvirkjanefndar hafði verið kærð til úrskurðarnefndarinnar. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á það bent að við byggingu húsa við Látraströnd hafi hæðarpunktur verið staðlaður við hæsta punkt þaks.  Ef turnbygging sem þessi yrði heimiluð víðar þyrfti að skipuleggja staðsetningu þeirra á öllum húsunum í húsaröðinni þannig að þeir skyggðu ekki hver á annan. 

Þá byggja kærendur á því að grenndaráhrif turnbyggingarinnar verði veruleg þar sem hún muni skerða útsýni, bæði úr húsi og af lóð.  Einnig komi byggingin til með að rýra afnot af garði þeirra og að séð verði úr turninum inn í borðstofu hjá þeim.  Þá muni og byggingin lækka húseign þeirra umtalsvert í verði. 

Málsrök Seltjarnarnesbæjar:  Af hálfu skipulags- og byggingaryfirvalda á Seltjarnarnesi er þess krafist að kröfum kærenda um stöðvun framkvæmda verði hafnað.  Bent sé á að svo hagi til að húsið að Látraströnd 7 sé einnar hæðar með flötu þaki en á norður hlið hússins séu tveir veggfletir sem gangi 1,05 m upp fyrir þak.  Húsin sitt hvoru megin séu á háum sökkli sem gefi möguleika á bílskúr undir húsi.  Húsið sé því nokkuð lágreistara en húsin við hliðina og hefði því verið mögulegt að hafa svipaðan þakhalla og eru á nálægum húsum sem ekki hafi verið nýttir.  Því sé þakbreytingin ekki úr takt við hæð aðlægra húsa og að fullt tillit hafi verið tekið til athugasemda kærenda sem fram komu við grenndarkynningar varðandi hæðarsetningu.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu eigenda Látrastrandar 9 liggja fyrir sjónarmið þeirra til krafna kærenda þar sem neikvæðum grenndaráhrifum er mótmælt.    Ekki þykir ástæða á þessu stigi málsins að reifa sjónarmið byggingarleyfishafa frekar. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi föstudaginn 15. október 2004.  

Niðurstaða:  Eins og að framan greinir ákvað skipulags- og mannvirkjanefnd Seltjarnarnesbæjar á fundi sínum hinn 4. mars 2004 að veita leyfi það sem um er deilt í máli þessu.  Fyrir liggur að umdeildum framkvæmdum utanhúss var að mestu lokið er kæra barst úrskurðarnefndinni.  Þykir af þeim sökum ekki hafa þýðingu hér eftir að stöðva framkvæmdir meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni, en frekari framkvæmdir við bygginguna eru á ábyrgð og áhættu húseigenda.  Verður kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi verði stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________          _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                     Ingibjörg Ingvadóttir