Ár 2004, fimmtudaginn 24. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.
Fyrir var tekið mál nr. 61/2003, kæra eiganda landspildu í landi Sólheimakots í Mosfellsbæ á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 26. ágúst 2003 um að hafna umsókn um leyfi til að endurbyggja sumarbústað á landspildunni.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi, dags. 2. október 2003, til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni sama dag, kærir Einar Jónsson hdl., f.h. Ó, Vesturbrún 3, Reykjavík, samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 26. ágúst 2003 um að hafna umsókn hans um leyfi til að endurbyggja sumarbústað á landspildunni. Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar hinn 3. september 2003.
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að lagt verði fyrir skipulags- og byggingarnefnd Mosfellsbæjar að taka umsóknina til afgreiðslu að nýju og ljúka málinu með útgáfu byggingarleyfis í samræmi við umsókn kæranda.
Málavextir: Með afsali, dags. 26. október 1973, eignaðist kærandi máls þessa 1,5 ha spildu úr eignarlandi Sólheimakots í Mosfellssbæ. Á landinu stendur sumarhús í hans eigu sem var byggt á árunum 1979 og 1980 samkvæmt byggingarleyfi Mosfellshrepps frá 25. júní 1979.
Með bréfi, dags. 20. ágúst 2003, óskaði kærandi eftir heimild til að fjarlægja núverandi hús og byggja nýtt, nánast á grunni þess gamla. Erindinu var synjað á fundi skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar 26. ágúst 2003 með svohljóðandi bókun: „Sumarhúsið er á svæði sem er almennt opið svæði samkvæmt gildandi aðalskipulagi og því getur nefndin ekki fallist á erindið“. Bæjarstjórn staðfesti afgreiðsluna á fundi hinn 3. september 2003.
Þessari niðurstöðu vildi kærandi ekki una og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.
Málsrök kæranda: Kærandi heldur því fram að um sé að ræða lítið sumarhús sem þarfnist nú verulegrar og kostnaðarsamrar endurnýjunar. Af þeirri ástæðu hafi hann sótt um leyfi til að fjarlægja núverandi hús og byggja nýtt nánast á grunni þess gamla. Þeirri beiðni hans hafi verið synjað. Rök skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar fyrir synjuninni hafi verið þau að ,,Sumarhúsið er á svæði sem er almennt opið svæði samkvæmt gildandi aðalskipulagi…”.
Kærandi bendir á að á umræddu svæði séu fjórar sumarhúsalóðir, merktar 1-4 á uppdrætti. Reitur kæranda sé nr. 1 en á reit nr. 2 standi nýlegt sumarhús. Reitir nr. 3 og 4 hafi ekki verið seldir. Í nágrenninu séu nokkur eldri hús og fjölmörg sumarhús, enda skipulögð sumarhúsabyggð skammt frá.
Kærandi heldur því fram að með þeirri ákvörðun að synja um leyfi til að endurbyggja sumarbústaðinn á grunni þess gamla sé vegið að ráðstöfunarrétti hans sem eiganda landsins til réttmætrar og eðlilegrar nýtingar þess. Í þrjá áratugi hafi kærandi átt land það sem um ræði og notað undir sumarbústað í rúm 20 ár. Nýting landsins undir sumarhús hafi frá byggingu hússins verið samkvæmt heimild skipulagsyfirvalda og í samræmi við útgefið byggingarleyfi. Ef kæranda sé nú meinað að endurnýja bygginguna, sé brostinn grundvöllur fyrir notum hans á eigninni. Slík skerðing á nýtingu eignar í einkaeigu verði ekki gerð án samþykkis eiganda sem ekki þurfi að þola slíka skerðingu bótalaust, skv. 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 10. gr. laga nr. 97/1995. Þegar af þeirri ástæðu sé synjunin um byggingarleyfið ólögmæt.
Kærandi bendir á að eiganda mannvirkis beri að halda við eign sinni og þegar kostnaður við endurnýjun sé orðinn meiri en bygging nýs húss mæli sanngirnisrök með því að bygging hússins verði heimiluð. Þá liggi fyrir að það hús sem ætlunin sé að reisa muni falla betur að landslaginu og sé vandaðri bygging en sú sem nú standi á spildunni. Kærandi hafi alla tíð talið að um sumarbústaðasvæði væri að ræða, enda standi yfir bygging sumarhúsa í nágrenninu og nýlegt sumarhús standi á aðliggjandi sumarhúsalandi, reit nr. 2. Þannig sé um að ræða sumarhúsabyggð og ekki verði synjað um áframhaldandi landnotkun á sumarhúsalandi í einkaeigu þar sem mannvirki standi einungis með vísan til þess að landnotkun hafi verið breytt í almennt opið svæði, án samráðs við eignarréttarhafa.
Af rökstuðningi fyrir synjun byggingarleyfisins verði ráðið að einungis vegna þess að svæðið hafi verið skipulagt sem almennt opið svæði verði þar ekki veitt leyfi til byggingar hússins. Þannig sé eignarlóð kæranda í skipulagi svæðisins skilgreind sem almennt opið svæði en ekki frístundabyggð, þrátt fyrir að teljast sumarbústaðasvæði samkvæmt áratuganotkun og yfirliti eignar hjá byggingareftirliti. Þá sé svonefnd frístundabyggð rétt utan við umrætt land, eða um 200 metrum frá. Því virðist sem mörk frístundabyggðar í aðalskipulagi frá árinu 2003 hafi verið dregin rétt handan við land kæranda, án samráðs við hann. Á þeim grunni virðist synjun um byggingarleyfi vera reist.
Kærandi telur orsök synjunarinnar vera mistök við gerð aðalskipulagsins, þar sem tvær sumarhúsalóðir hafi af einhverjum ástæðum orðið útundan og láðst hafi að tilkynna eigendum þeirra þá breytingu sem varð á skipulaginu sem varði verulega hagsmuni þeirra.
Málsrök Mosfellsbæjar: Krafa skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar er að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála staðfesti hina kærðu ákvörðun.
Af hálfu Mosfellsbæjar er á það bent að fyrsta aðalskipulag sem gert hafi verið fyrir Mosfellsbæ hafi verið samþykkt á árinu 1983. Samkvæmt því hafi land það sem sumarbústaður kæranda standi á verið utan skipulagðrar frístundabyggðar og hafi verið það ávallt síðan. Það sé því misskilningur að nýsamþykkt aðalskipulag hafi breytt þessu.
Samkvæmt 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé allt land skipulagsskylt. Í skipulagsáætlunum skuli mörkuð stefna um landnotkun og þróun byggðar. Samkvæmt 16. gr. laganna beri sveitarstjórn ábyrgð á því að gert sé aðalskipulag fyrir sveitarfélagið. Þar skuli sett fram stefna sveitarstjórnar um landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, umhverfismál og þróun byggðar í sveitarfélaginu. Í greinargerð með aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002 til 2024 komi fram að ákveðin svæði séu skipulögð fyrir frístundabyggð. Þar segi að sumarhús megi einungis reisa innan svæða sem afmörkuð séu fyrir frístundabyggð og í samræmi við samþykkt deiliskipulag. Innan slíkra svæða verði einungis hús sem hvorki séu ætluð né notuð til heilsársbúsetu. Þá komi þar fram að ekki verði heimilt að byggja við, endurbyggja eða byggja ný sumarhús utan svæða fyrir frístundabyggð. Einungis verði um að ræða eðlilegt og nauðsynlegt viðhald slíkra eigna. Þegar slík hús hafi lokið hlutverki sínu, gengið úr sér eða verið fjarlægð, sé gert ráð fyrir því að skipulögð landnotkun samkvæmt aðalskipulagi taki við. Sumarhús kæranda sé utan skipulagðs frístundabyggðarsvæðis. Sveitarfélagið sé bundið af því skipulagi sem það hafi samþykkt og Mosfellsbæ því óheimilt að gefa út byggingarleyfi til kæranda fyrir byggingu nýs og stærra sumarhúss.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar um að hafna umsókn kæranda um leyfi til að endurbyggja sumarhús á landspildu í landi Sólheimakots, Mosfellsbæ. Skipulags- og byggingarnefnd hafnaði beiðni kæranda með vísan til þess að sumarhúsið sé samkvæmt aðalskipulagi innan almenns opins svæðis.
Gildandi aðalskipulag Mosfellsbæjar var samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar hinn 12. febrúar 2003, afgreitt af Skipulagsstofnun hinn 15. maí 2003 og staðfest af umhverfisráðherra hinn 8. júlí 2003. Samkvæmt aðalskipulagsuppdrættinum er spilda kæranda sem er úr landi Sólheimakots innan opins óbyggðs svæðis og er ekki gert ráð fyrir sumarhúsi kæranda á spildunni.
Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skulu framkvæmdir sem byggingarleyfi heimilar vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag. Fallist er á þau rök bæjarstjórnar fyrir hinni kærðu ákvörðun að umdeild byggingarleyfisumsókn kæranda samrýmist ekki gildandi aðalskipulagi og verður því hinni kærðu ákvörðun bæjarstjórnar ekki hnekkt.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar er hafnað.
________________________________
Ásgeir Magnússon
______________________________ _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadótti