Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

24/2003 Borgartún

Ár 2003, fimmtudaginn 15. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður.

Fyrir var tekið mál nr. 24/2003, kæra H ehf., Borgartúni 23 og B ehf. Borgartúni 29, Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. janúar 2003 um að veita leyfi til að reisa átta hæða steinsteypt skrifstofuhús ásamt geymslu- og bílakjallara á lóðinni nr. 25-27 við Borgartún í Reykjavík.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

Úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Með bréfi, dags. 8. apríl 2003, sem barst úrskurðarnefndinni sama dag, kæra H ehf., Borgartúni 23 og B ehf., Borgartúni 29, Reykjavík ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. janúar 2003 um að veita leyfi til að reisa átta hæða steinsteypt skrifstofuhús ásamt geymslu- og bílakjallara á lóðinni nr. 25-27 við Borgartún í Reykjavík.

Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur hinn 30. janúar 2003.  Kærendur krefjast ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og að framkvæmdir við nýbyggingu að Borgartúni 25-27 verði stöðvaðar meðan úrskurðarnefndin hafi kærumál þetta til meðferðar.

Áður höfðu kærendur, ásamt fleiri eigendum eignarhluta að Borgartúni 23 og 29, með bréfi, dags. 20. ágúst 2002, kært ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 5. júní 2002 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi lóðanna nr. 25-27 og 31 við Borgartún og staðfestingu borgarráðs á þeirri samþykkt hinn 14. júní 2002 og er það kærumál enn til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Á byggingarleyfi það sem kært er í mál þessu sér stoð í hinni kærðu skipulagsákvörðun og er ógildingarkrafa kærenda reist á sömu sjónarmiðum og þeir tefla fram til stuðnings kröfu sinni um ógildingu skipulagsákvörðunarinnar.

Úrskurðarnefndin hefur nú aflað nauðsynlegra gagna til þess að unnt sé að taka til úrlausnar kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda, en greinargerð Reykjavíkurborgar og gögn í málinu bárust úrskurðarnefndinni hinn 14. þessa mánaðar.  Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik.  Atvikum verður hér einungis lýst í stuttu máli að því marki sem nauðsynlegt þykir við úrlausn um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

Á árinu 1993 var samþykkt af borgaryfirvöldum deiliskipulag fyrir götureit, sem afmarkast af Sæbraut til norðurs, Kringlumýrarbraut til austurs, Borgartúni til suðurs og Höfðatúni til vesturs.  Í því skipulagi var almennt gert ráð fyrir nýtingarhlutfallinu 0,7 á lóðum reitsins.  Frá þeim tíma hefur starfsemi á svæðinu breyst verulega og hafa risið þar nýbyggingar fyrir skrifstofur og ýmis konar þjónustu í stað eldri bygginga þar sem m.a. var miðstöð fyrir vöruflutninga, rekstur vörubílastöðvar og önnur áþekk starfsemi.  Hafa frá árinu 1998 verið gerðar átta breytingar á deiliskipulagi svæðisins vegna breyttrar nýtingar þess.  Taka þessar breytingar til allra lóða á reitnum nema lóðar móttökuhúss Reykjavíkurborgar, Höfða, og lóða kærenda, en síðasta breytingin tekur til lóðanna nr. 25-27 og 31 og var sú breyting kærð til úrskurðarnefndarinnar eins og áður er getið.  Breytingar þessar hafa lotið að því að breyta byggingarmagni og fyrirkomulagi bygginga á lóðunum og hefur nýtingarhutfall fyrir einstakar lóðir á svæðinu verið hækkað, að sögn borgaryfirvalda í samræmi við stefnumörkun Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016 um bætta nýtingu athafnahverfa.

Deiliskipulag fyrir reit þann sem tekur til lóðanna nr. 25-27 og 31 var auglýst til kynningar hinn 8. febrúar 2002.  Allmargar athugasemdir bárust frá nágrönnum, þar á meðal kærendum.  Lutu þær að ýmsum atriðum er varða aðkomu að umræddum lóðum, sem eru baklóðir með aðkomu um framlóðir, m.a. á mörkum lóða kærenda.  Auk þess voru athugasemdir gerðar við stærð, hæð og fyrirkomulag bygginga á lóðunum, hækkað nýtingarhlutfall, aukna umferð, skert útsýni, hæðarsetningu o.fl.

Athugasemdum þessum var svarað og verður ekki annað ráðið en að skipulagstillagan hafi hlotið lögboðna málsmeðferð.  Kærendur vildu hins vegar ekki una ákvörðun borgaryfirvalda á málinu og kærðu samþykkt tillögunnar til úrskurðarnefndarinnar svo sem fyrr greinir. 

Nýbygging er risin á lóðinni nr. 31 við Borgartún á grundvelli hins umdeilda skipulags og hefur bygging þess húss ekki sætt andmælum af hálfu kærenda, enda stendur það fjær eignum þeirra en fyrirhuguð nýbygging á lóðinni nr. 25-27, sem kröfur kærenda taka til.  Eru framkvæmdir við grunn þeirrar byggingar hafnar fyrir nokkru og hefur verið unnið að fleygun klappar til undirbúnings byggingar bílgeymslu, sem vera á undir lóð hússins að hluta. 

Málsrök kærenda:  Kærendur styðja kröfu sína um stöðvun framkvæmda við umrædda nýbyggingu þeim rökum að til úrlausnar sé krafa um ógildingu byggingarleyfis fyrir henni.  Sú krafa sé á því byggð að krafist hafi verið ógildingar skipulagsákvörðunar þeirrar sem leyfið eigi sér stoð í.  Verði fallist á kröfur kærenda um ógildingu skipulagsákvörðunarinnar sé sjálfgefið að byggingarleyfið verði einnig fellt úr gildi.  Óviðunandi sé að hin umdeilda bygging rísi meðan ekki hafi verið skorið úr um lögmæti hinnar kærðu skipulagsákvörðunar.  Á henni séu ýmsir ágallar, sem leiða eigi til ógildingar hennar.  Hafi m.a. skort á að fullnægjandi samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila við skipulagsgerðina en að auki fari skipulagið efnislega með ýmsum hætti í bága við hagsmuni kærenda langt umfram það sem lögmætt geti talist.  M.a. leiði skipulagið af sér stóraukna umferð um lóðir kærenda frá því sem verið hefði eftir fyrra skipulagi svæðisins og sé ekki tryggt að ný aðkoma um lóð hússins nr. 31 við Borgartún nýtist með fullnægjandi hætti.  Hækkun bygginga skerði útsýni, ákvæði skorti um viðhald umferðarreinar að baklóðum og ekki sé tryggður viðunandi frágangur lóðamarka.  Telja kærendur að hagur þeirra hafi verið fyrir borð borinn í þágu hagsmuna einstakra lóðarhafa og valdi breytingarnar umtalsverðri röskun á notkunarmöguleikum eigna þeirra og rýri þær í verði.  Vísa þeir og til athugasemda sem þeir settu fram við skipulagsyfirvöld við meðferð skipulagstillögunnar og fyrir liggja í máli þessu.  Telja kærendur að ágallar á skipulagsákvörðuninni og á málsmeðferð við undirbúning hennar eigi að leiða til ógildingar.

Málsrök borgaryfirvalda:  Af hálfu borgaryfirvalda er aðallega krafist frávísunar á málum kæranda bæði hvað varðar kæru þeirra á hinni umdeildur skipulagsákvörðun og á byggingarleyfinu.  Séu báðar þessar kærur of seint fram komnar.

Verði ekki fallist á frávísunarkröfuna er þess krafist á þessu stigi málsins að hafnað verði kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Komið hafi verið til móts við sjónarmið kærenda í ýmsum efnum, m.a. hafi verið tryggt við skipulagsgerðina að önnur aðkomuleið að lóðinni nr. 25-27 við Borgartún bættist við þá aðkomu sem sé um lóðir kærenda og vegi það upp á móti aukinni umferð vegna hækkaðs nýtingarhlutfalls.  Grunnflötur nýbyggingar hafi verið minnkaður og húsinu þannig komið fyrir að það skerti útsýni sem minnst.  Sé ekki um verulega skerðingu að ræða og fráleitt að hún geti leitt til ógildingar.  Komið hafi verið til móts við kærendur varðandi hæðarsetningu nýbyggingar o.fl. og séu engar málsástæður kærenda þess eðlis að leitt geti til ógildingar deiliskipulagsbreytingarinnar.  Kæra þeirra vegna byggingarleyfisins sé alfarið á því byggð að deiliskipulagið muni sæta ógildingu og sé hún ekki studd öðrum sjálstæðum málsástæðum.  Engin rök standi því til þess að fallast megi á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Úrskurðarnefndin kynnti byggingarleyfishafa framkomnar kröfur kærenda og var honum gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum í málinu en ekkert svar hefur borist frá honum af því tilefni.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu.  Verður ekki gerð nánari grein fyrir röksemdum aðila í bráðabirgðaúrskurði þessum, en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn þessa þáttar málsins.

Niðurstaða:  Úrskurðarnefndin fellst ekki á þá kröfu borgaryfirvalda að vísa beri málum kærenda frá nefndinni, a.m.k. ekki hvað varðar kæru þeirra á hinni umdeildu skipulagsákvörðun.  Þykir verða að miða upphaf kærufrests í því máli við birtingu hinnar kærðu ákvörðunar í B-deild Stjórnartíðinda og barst kæran í því vel innan kærufrests miðað við það tímamark.  Ekki þykir þurfa að skera úr um það hvort vísa eigi frá máli kærenda varðandi byggingarleyfið áður en úrskurðað verði um kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda, enda einsýnt að ógilding skipulagsákvörðunarinnar, ef á hana yrði fallist, myndi sjálfkrafa hafa í för með sér að byggingarleyfið félli úr gildi.  Verður krafa kærenda um stöðvun framkvæmda því tekin til úrlausnar.

Eins og að framan er rakið hefur deiliskipulag svæðisins innan Borgartúns, Höfðatúns, Sæbrautar og Kringlumýrarbrautar verið tekið til endurskoðunar í áföngum á undanförnum árum og er hið umdeilda skipulagssvæði hið síðasta hvað varðar endurskoðun skipulags þeirra lóða er liggja að Sæbraut.  Hafa breytingar þessar miðað að endurbyggingu húsa á lóðum á svæðinu og hefur nýtingarhlutfall þeirra jafnframt verið hækkað.  Verður ekki annað ráðið en að þessar skipulagsbreytingar hafi verið í fullu samræmi við stefnumörkun Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016.

Enda þótt eðlilegra hefði verið að taka deiliskipulag umrædds svæðis til endurskoðunar í heild verður að telja að eins og komið var hafi borgaryfirvöldum verið rétt að endurskoða deiliskipulag umræddra lóða, svo sem gert var.  Verður ekki heldur séð að þeir ágallar hafi verið á málsmeðferð við undirbúning og gerð skipulagsbreytingarinnar að ógildingu varði.

Af hálfu kærenda hefur áhersla verið lögð á að breytingunni fylgi aukin umferð og aukin nýting umferðarkvaðar um lóðir þeirra, umfram það sem þeir hafi mátt vænta. Muni óviðunandi ástand skapast í umferðarmálum svæðisins vegna hins aukna byggingarmagns.  Á þessi sjónarmið virðast borgaryfirvöld hafa fallist, enda er í hinu umdeilda skipulagi gert ráð fyrir nýrri aðkomu að lóðinni nr. 25-27 við Borgartún um lóðina nr. 31, til viðbótar þeirri aðkomu sem fyrir var á mörkum lóða kærenda.  Með þessari nýju kvöð um umferð um lóðina nr. 31 er í skipulaginu tryggt að haga má umferðarmálum á svæðinu þannig að skipulagsbreytingin valdi ekki meiri röskun á hagsmunum kærenda hvað umferð varðar en verið hefði að óbreyttu skipulagi.  Með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins þykja þessar ástæður því ekki líklegar til þess að varða ógildingu hinnar kærðu skipulagsákvörðunar.  Aðrar málsástæður kærenda þykja heldur ekki þess eðlis að líklegt sé að þær leiði til ógildingar.

Með hliðsjón af framansögðu og með tilliti til þess að vænta má efnisúrlausnar í máli kærenda áður en langt um líður þykja ekki efni til að fallast á kröfu þeirra um að framkvæmdir við nýbyggingu að Borgartúni 25-27 verði stöðvaðar og verður þeirri kröfu því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir við nýbyggingu að Borgartúni 25-27 verði stöðvaðar til bráðabirgða.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Óðinn Elísson