Ár 2003, miðvikudaginn 16. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 16/2001, kæra eiganda fasteignarinnar að Haukanesi 4, Garðabæ, á ákvörðun skipulagsnefndar Garðabæjar frá 10. janúar 2001, að synja um leyfi til að yfirbyggja svalir fasteignarinnar.
Á málið er nú lagður svofelldur
Úrskurður.
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. apríl 2001, er barst úrskurðarnefndinni hinn 24. apríl sama ár, kærir Elísabet Sigurðardóttir hdl., fyrir hönd S, kt. 101037-4609, Haukanesi 4, Garðabæ, þá ákvörðun skipulagsnefndar Garðabæjar frá 10. janúar 2001, að synja umsókn kæranda um leyfi til að yfirbyggja svalir hússins að Haukanesi 4, Garðabæ. Bæjarstjórn Garðabæjar staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi hinn 18. janúar 2001.
Málavextir: Kærandi sótti um byggingarleyfi fyrir yfirbyggingu á svölum hússins að Haukanesi 4 í Garðabæ. Fól umsóknin í sér gerð sólskála á stórum hluta svala hússins með því að yfirbyggja þær og mun flatarmál skálans vera 13,6 fermetrar.
Skipulagsnefnd bæjarins tók umsóknina fyrir og ákvað að grenndarkynna hana sem óverulega breytingu á deiliskipulagi og bárust athugasemdir frá eiganda fasteignarinnar að Haukanesi 6, Garðabæ. Var umbeðnum framkvæmdum mótmælt, m.a. með þeim rökum að framkvæmdin raskaði afstöðu milli húsa og skerti útsýni. Skipulagsnefnd afgreiddi málið af sinni hálfu á fundi hinn 6. desember 2000 með eftirfarandi bókun: „Farið hefur fram grenndarkynning vegna umsóknar Sólvers H. Guðnasonar Haukanesi 4 um byggingu sólskála á svölum hússins að Haukanesi 4. Í umsókninni felst að byggt er yfir svalir að mestu. Hluti svalanna þ.e. sá hluti sem er á vesturgafli hússins er utan byggingarreits. Að grenndarkynningu lokinni hafa borist tvö erindi með athugasemdum undirrituð af sama aðila þ.e. Sigurði Sigurjónssyni Haukanesi 6, dags. 15. nóv. 2000, þar sem byggingu sólskálans utan við byggingarreit er mótmælt. Er m.a. talið að verið sé að raska afstöðu á milli húsa og útsýni. Skipulagsnefnd mælir ekki með umræddri breytingu í ljósi framkominna athugasemda.” Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti þessa afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi sínum hinn 21. desember 2001.
Kæranda var tilkynnt um synjun byggingarleyfisumsóknarinnar með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 27. desember 2000, þar sem vakin var athygli á kæruheimild og kærufresti.
Með bréfi, dags. 1. janúar 2001, mótmælti kærandi afgreiðslu málsins og fór fram á að bæjaryfirvöld endurskoðuðu ákvörðun sína. Erindið var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar hinn 10. janúar 2001 og taldi nefndin að framkomnar athugasemdir kæranda í bréfi hans frá 1. janúar 2001 gæfu ekki tilefni til að breyta fyrri ákvörðun. Bæjarstjórn Garðabæjar staðfesti þessa afgreiðslu á fundi hinn 18. janúar 2001 og var kæranda tilkynnt um niðurstöðu málsins með bréfi, dags. 22. janúar 2001.
Kærandi undi ekki þessum málalokum og kærði ákvörðun bæjaryfirvalda til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.
Málsrök kæranda: Kærandi telur að hin kærða ákvörðun hafi ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993 og með henni hafi bæjaryfirvöld fórnað mikilvægum hagsmunum kæranda fyrir órökstudda og minni hagsmuni eiganda nágrannaeignar.
Bent er á að rökstuðning skorti fyrir ákvörðun bæjaryfirvalda að synja umsókn kæranda og þær athugasemdir, sem fram hafi komið við grenndarkynningu og skipulagsnefnd geri að sínum, eigi ekki við rök að styðjast. Ófullnægjandi sé að hafna erindi kæranda með þeim rökum að umbeðin framkvæmd raski afstöðu milli húsa og útsýni í því ljósi að engar athuganir, mælingar eða kannanir hafi verið framkvæmdar af hálfu skipulagsnefndar er renni stoðum undir þær fullyrðingar. Kærandi heldur því fram að af gögnum málsins megi ljóst vera að umbeðin framkvæmd skerði hvorki útsýni frá húsinu að Haukanesi 6 né raski afstöðu milli húsa. Fyrirhugaður sólskáli hafi ekki meiri áhrif á útsýni og afstöðu húsa en svalahandrið sem nauðsynlegt sé að reisa á viðkomandi svölum til þess að gera þær löglegar.
Er á því byggt að hin kærða ákvörðun uppfylli hvorki fyrirmæli 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 né 21. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rökstuðning. Rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið gætt og ekki hafi verið farið að meðalhófsreglu 12. gr. laganna við ákvarðanatökuna þar sem verulegir hagsmunir kæranda séu fyrir borð bornir án þess að fyrir liggi haldbær rök fyrir þeirri niðurstöðu.
Kærandi telur að kæra til úrskurðarnefndarinnar sé nægilega snemma fram komin miðað við atvik máls. Kærandi hafi með bréfi, dags. 1. janúar 2001, beðið um endurskoðun ákvörðunar bæjarstjórnar sem tilkynnt hafi verið með bréfi, dags. 27. desember 2000. Hafi málið verið tekið upp að nýju og kærufrestur þar með rofinn.
Afstaða bæjarstjórnar hafi verið tilkynnt til kæranda með bréfi, dags. 22. janúar 2001. Í þeirri tilkynningu hafi kæranda ekki verið bent á kæruheimild til æðra stjórnvalds, kærufrests ekki getið eða bent á rétt kæranda til þess að fá skriflegan rökstuðning frá viðkomandi stjórnvaldi, en að hans mati skorti rökstuðning fyrir umdeildri ákvörðun. Tilkynning ákvörðunarinnar hafi ekki verið í samræmi við 20. gr. stjórnsýslulaga og þar með hafi réttarvernd kæranda og möguleikar hans á málskoti verið í hættu. Með hliðsjón af þessu og með vísan til 27. og 28. gr. stjórnsýslulaga telur kærandi að taka beri kæru hans til efnislegrar meðferðar.
Málsrök Garðabæjar: Bæjaryfirvöld gera þá kröfu að ákvörðun bæjarstjórnar um að hafna umsókn kæranda standi óröskuð.
Umsókn kæranda sé í raun beiðni um byggingarleyfi fyrir 13,6 fermetra sólskála og með þeim framkvæmdum yrði farið út fyrir byggingarreit samkvæmt samþykktum teikningum. Framkvæmdin feli því í sér frávik frá gildandi lóðarskilmálum sem eðlilegt sé að gefa hugsanlegum hagsmunaaðilum kost á að tjá sig um.
Hús kæranda sé á svæði þar sem skipulag byggi á skilmálum sem settir hafi verið á sínum tíma um byggingar á Arnarnesi. Umsókn kæranda hafi falið í sér óverulega breytingu á skipulagi og hafi hún verið grenndarkynnt í samræmi við 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga og aðilum sem kynnu að eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir, sbr. 7. mgr. 43. gr. laganna. Fram hafi komið athugasemdir frá nágranna kæranda þar sem framkvæmdum utan byggingarreits hafi verið mótmælt.
Að hálfu Garðabæjar sé litið svo á að þegar fram komi athugasemdir, sem almennt geti talist málefnalegar frá aðilum sem sannanlega eigi hagsmuna að gæta, verði ekki vikið frá gildandi skilmálum um byggingu húsa. Telja verði að aðilar eigi að geta treyst því að við byggingu mannvirkja verði farið að gildandi skilmálum og ekki verði heimiluð frávik nema að fengnu samþykki hagsmunaaðila. Bæjaryfirvöld telji því ekki unnt að fallast á umsókn kæranda og ganga með því á hagsmuni nágranna.
Niðurstaða: Kærufrestur vegna ákvarðana um byggingarmál er einn mánuður frá því að aðila varð kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og gengur sá frestur framar almennum kærufresti stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 1. mgr. 27. gr. þeirra laga.
Með afgreiðslu bæjarstjórnar Garðabæjar hinn 21. desember 2000 á byggingarleyfisumsókn kæranda var tekin ákvörðun sem var kæranleg til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga. Erindi kæranda til bæjaryfirvalda, dags. 1. janúar 2001, fól í sér beiðni um endurupptöku fyrri ákvörðunar eins og heimilað er í 24. gr. stjórnsýslulaga. Endurupptökubeiðnin var sett fram innan kærufrests á afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar kæranda. Skipulagsnefnd Garðabæjar tók erindið fyrir á fundi sínum hinn 10. janúar 2001 og var m.a. bókað að „Athugasemdir í ofangreindu erindi breyta ekki afstöðu skipulagsnefndar og ítrekar hún bókun sína frá 06.12.00.” og samþykkti bæjarstjórn Garðabæjar þessa afgreiðslu hinn 18. janúar 2001.
Skilja verður afgreiðslu skipulagsnefndar og bæjarstjórnar hinn 10. og 18. janúar 2001 svo að beiðni kæranda um endurupptöku fyrri ákvörðunar hafi verið hafnað og hafi kærufrestur fyrri ákvörðunar farið að líða að nýju eftir að kæranda var tilkynnt um þá afstöðu, sbr. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Svar bæjaryfirvalda við erindi kæranda frá 1. janúar 2001 var dagsett hinn 27. janúar 2001 og rann kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt þessu út í síðasta lagi í febrúarlok 2001 eða nokkrum vikum fyrir dagsetningu kæru og móttöku.
Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að vísa beri kæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Meginregla stjórnsýslulaganna er að vísa beri kæru frá að liðnum kærufresti og verður að skýra undantekningar frá meginreglunni þröngt.
Í tilkynningu bæjaryfirvalda til kæranda um efnislega afgreiðslu umsóknar hans, dags. 27. desember 2000, var gerð grein fyrir kæruheimild hans til úrskurðarnefndarinnar og kærufresti en eins og fyrr er rakið telur úrskurðarnefndin að seinni tilkynning til kæranda hafi falið í sér synjun á endurupptöku fyrri ákvörðunar. Í ljósi þessara aðstæðna verður ekki talið tilefni til að víkja frá meginreglu 28. gr. stjórnsýslulaga um frávísun kæru að liðnum kærufresti með þeim rökum að dráttur á málskoti kæranda sé afsakanlegur.
Hin kærða ákvörðun fól í sér afstöðu bæjaryfirvalda til umsóknar kæranda um yfirbyggingu svala á fasteign hans að Haukanesi 4, Garðabæ. Af því sem fram er komið í málinu verður ekki ráðið að byggingarnefnd bæjarins hafi afgreitt umsóknina svo sem fyrir er mælt í 2. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en málið hefði átt að sæta meðferð eftir 7. mgr 43. gr. sömu laga. Með hliðsjón af framansögðu telur úrskurðarnefndin að kærandi eigi þess enn kost að leita lögmæltrar afgreiðslu byggingarnefndar á erindi sínu og mæla veigamiklar ástæður því ekki með því að taka kærumál þetta til efnislegrar meðferðar. Verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
____________________________
Ásgeir Magnússon
___________________________ _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir