Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

59/2000 Akurhlíð

Ár 2003, fimmtudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru, Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður

Fyrir var tekið mál nr. 59/2000, kæra rekstraraðila verslunar að Akurhlíð 1, Sauðárkróki á ákvörðun umhverfis- og tækninefndar Skagafjarðar frá 6. september 2000 um að synja umsókn kæranda frá 5. ágúst 2000 um tilhögun bílastæða og aðkeyrslu að versluninni og breytingu á legu Sæmundarhlíðar í samræmi við teikningar forráðamanns kæranda, dags. 8. júlí 2000.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. október 2000, sem barst nefndinni 10. október sama ár, kærir E, forráðamaður Raðhúss hf., Raftahlíð 4, Sauðárkróki, fyrir þess hönd, þá ákvörðun umhverfis- og tækninefndar Sauðárkróks frá 6. september 2000, er sveitarstjórn staðfesti 19. september 2000, að synja umsókn kæranda um breytingu á tilhögun bílastæða á lóðinni nr. 1 við Akurhlíð Sauðaárkróki, aðkeyrslu að lóðinni og breytingu á legu götunnar Sæmundarhlíðar framan við lóðina samkvæmt teikningum Einars Sigtryggssonar, dags. 8. júlí 2000.  Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Verslunin Hlíðarkaup er til húsa að Akurhlíð 1, Sauðárkróki og er reksturinn á hendi Raðhúss hf. kæranda í máli þessu.  Að norðanverðu liggur lóðin að Raftahlíð en að Sæmundarhlíð í austur.  Fyrir sunnan verslunarhúsið eru bílastæði ætluð viðskiptavinum en auk þess eru bílastæði norðan megin við húsið.  Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt.

Byggingarfulltrúi Sauðárkróks sendi kæranda bréf, dags. 14. júní 1996, þar sem greint var frá bókun umferðarnefndar bæjarins á fundi nefndarinnar hinn 5. júní 1996.  Bókunin var svo hljóðandi:  „Vegna ófremdarástands í umferðarmálum framan við Hlíðakaup, vill umferðarnefnd beina því til eigenda að gengið verði frá bílastæðum við verslunina, í samræmi við skipulag, sem allra fyrst.”  Í bréfi til byggingarnefndar Sauðárkróks, dags. 1. september 1997, fór einn eigenda kæranda þess á leit að lóðarmörkum Akurhlíðar 1 yrði breytt að austanverðu þannig að Sæmundarhlíð yrði færð um 5,5 metra frá húsinu á kafla og gangstétt við götuna yrði færð að verslunarhúsinu.  Jafnframt var farið fram á að leyfð yrðu bílastæði austur af húsinu.  Tilefni beiðninnar var sögð sú að með breytingunni yrði aðkoma að versluninni bætt, útsýni yrði betra og með því dregið úr slysahættu.  Byggingarnefnd svaraði erindinu í bréfi, dags. 9. september 1997, og tilkynnti að afgreiðslu málsins væri frestað og byggingarfulltrúa falið að kanna möguleika á breyttri legu Sæmundarhlíðar við verslunina.  Hallgrímur Ingólfsson teiknaði upp drög að skipulagi lóðar kæranda þar sem Sæmundarhlíð er færð fjær verslunarhúsinu, gert ráð fyrir bílastæðum að austanverðu og viðbyggingu við húsið til norðurs.

Forsvarsmaður kæranda ritaði síðan umhverfis- og tækninefnd Skagafjarðar bréf, dags. 25. nóvember 1998, þar sem vísað var til fyrrgreinds erindis til byggingarnefndar Sauðárkróks og þess farið á leit að hugmynd um skipulag verslunarlóðarinnar að Akurhlíð 1, sem fram kæmi á teikningu Hallgríms Ingólfssonar, yrði samþykkt af nefndinni.  Afgreiðsla málsins væri aðkallandi vegna fyrirhugaðra malbikunarframkvæmda á lóðinni.  Á fundi nefndarinnar 27. nóvember 1998 var bókað að nefndin óskaði eftir að gerður yrði afstöðuuppdráttur af svæðinu.  Forsvarsmaður kæranda ítrekaði óskir sínar um afgreiðslu málsins í bréfi, dags. 19. apríl 1999, og á fundi umhverfis- og tækninefndar 2. júní 1999 var ákveðið að vísa erindinu til tæknideildar til úrvinnslu þar sem það yrði skoðað í skipulagslegu tilliti og gert kostnaðarmat.  Hinn 8. ágúst 1999 var ítrekuð beiðni um afgreiðslu umsóknar um viðbyggingu við verslunarhúsið að norðanverðu og áðurnefnda færslu götunnar framan við verslunina og sá dráttur sem orðinn var á afgreiðslu málsins átalinn.  Erindið var tekið fyrir á fundi umhverfis- og tækninefndar Skagafjarðar hinn 1. september 1999 þar sem fram kom að nefndin hafi látið gera afstöðumynd af svæðinu en ljóst væri að framkvæmdirnar myndu kosta sveitarfélagið margar milljónir króna.  Málið yrði afgreitt af nefndinni þegar fullnægjandi upplýsingar lægju fyrir.  Kæranda var tilkynnt um þessa afgreiðslu nefndarinnar í bréfi, dags. 10. september 1999, og jafnframt á það bent að á fundinum hafi komið fram efasemdir um að umbeðin færsla Sæmundarhlíðar nægði til að gera fullnægjandi bílastæði framan við verslunina að Akurhlíð 1 og yrði að skoða málið nánar.  Afgreiðsla á umsókn kæranda um viðbyggingu biði deiliskipulagningar lóðarinnar.

Hinn 1. febrúar 2000 sendi forráðamaður kæranda umhverfis- og  tæknideild og sveitarstjórn bréf og óskaði eftir afgreiðslu á umsókn um viðbyggingu á norðurhluta lóðar að Akurhlíð 1.  Jafnframt sendi hann hinn 2. febrúar 2000 annað bréf til sömu aðila þar sem vakin var athygli á óafgreiddum erindum um bílastæðamál lóðarinnar og annan frágang.  Sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum hinn 1. febrúar 2000 að umhverfis- og tækninefnd afgreiddi til næsta fundar sveitarstjórnar tillögur um skipulagsmál að Akurhlíð 1 og þar með verslunarinnar Hlíðarkaups samkvæmt erindi eigenda og forráðamanna allt frá árinu 1997.  Málið var síðan tekið fyrir á fundi umhverfis- og tækninefndar hinn 16. febrúar 2000 og eftirfarandi bókun gerð:  „Umhverfis- og tækninefnd getur ekki fallist á að breyta veglínu Sæmundarhlíðar gengt versluninni Hlíðarkaup hf.  Nefndin áréttar gildandi skipulag á svæðinu og óskar eftir því við eigendur Hlíðarkaups að þeir gangi frá bílastæðum sunnan við verslunina í samræmi við samþykkta byggingarnefndarteikningu 27.10.1981.  Umsókn á stækkun á versluninni til norðurs um allt að 15 m. er nú til afgreiðslu hjá nefndinni og felur hún byggingarfulltrúa að kynna þá umsókn hlutaðeigandi nágrönnum.  Frágangi lóðarmarka Akurhlíðar 1 að vestan og Brennihlíðar 1, 3 og 5 að austan er nauðsynlegt að ljúka og er umhverfis- og tækninefnd tilbúin að koma að lausn þess máls.”   Þessi afgreiðsla nefndarinnar var samþykkt á fundi sveitarstjórnar hinn 7. mars 2000 og kæranda tilkynnt um niðurstöðuna með bréfi, dags. 9. mars 2000, þar sem jafnframt var greint frá bókun eins nefndarmanna umhverfis- og tækninefndar þess efnis að færsla Sæmundarhlíðar til austurs væri forsenda fyrir því að umferðaröryggi yrði tryggt vegna verslunarstarfseminnar að Akurhlíð 1.

Umhverfis- og tækninefnd samþykkti leyfi til stækkunar verslunarhússins að Akurhlíð 1 til norðurs um 15 metra á fundi sínum hinn 8. júní 2000 en áréttaði að gengið yrði frá lóð hússins sem allra fyrst í samræmi við gildandi skipulag lóðarinnar.  Forsvarsmaður kærandi sendi bæjaryfirvöldum bréf, dags. 5. ágúst 2000, ásamt tveimur teikningum með umbeðnu skipulagi lóðarinnar að Akurhlíð 1, sem fólu í sér breytta tilhögun bílastæða, aðkeyrslu að verslunarhúsinu og færslu Sæmundarhlíðar framan við verslunarhúsið.  Erindið var tekið fyrir á fundi umhverfis- og tækninefndar hinn 6. september 2000 þar sem því var hafnað og bókun nefndarinnar frá 16. febrúar 2000 um sambærilegt erindi kæranda var ítrekuð.  Sveitarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar hinn 20. september 2000.

Kærandi sætti sig ekki við þessar málalyktir og kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að umbeðnar breytingar á bílastæðum og aðkomu við verslunarhúsið  að Akurhlíð 1 helgist af umferðaröryggissjónarmiðum og viðleitni við að bæta aðkomu stærri bíla að versluninni.

Núverandi skipulag lóðarinnar sé til baga.  Bílastæði séu sunnan verslunarinnar með einni aðkoma frá Sæmundarhlíð og þar vilji safnast fyrir snjór í norðanáttum.  Þróun mála hafi því orðið sú að viðskiptavinir, og þá sérstaklega á stærri bílum, leggi bílum sínum austanvert við verslunina í götukanti Sæmundarhlíðar.  Núverandi ástand og skipulag skapi vandræði, m.a. þar sem útsýni þeirra sem leið eigi hjá skerðist.

Kærandi hafi af þessum sökum farið fram á að Sæmundarhlíð yrði færð austar framan við verslunina þannig að rými skapaðist við verslunarhúsið þar sem leggja mætti bílum.  Sú ráðstöfun yki umferðaröryggi á svæðinu og kæmi í veg fyrir að stærri bílum væri bakkað úr á Sæmundarhlíðina.  Hafi kærandi haft samráð við aðila sem þekktu til umferðarmála á staðnum við útfærslu tillögu sinnar.  Jafnframt hafi kærandi lýst sig reiðubúinn að taka þátt í kostnaði bæjarins við umbeðnar framavæmdir enda talið brýnt að koma málum þessum í lag.  Bendir kærandi á að sveitarstjórnum sé skylt að taka tillit til umferðaröryggis við skipulagningu byggðar samkvæmt 108. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, þar sem fram komi að þess skuli gætt að hús falli vel að lóð, aðkomu og bílastæðum.

Kærandi telur að engin haldbær rök búi að baki hinni kærðu ákvörðun.  Málsmeðferð erindis hans hafi verið ómálefnaleg og hafi þar haft áhrif afstaða formanns umhverfis- og tækninefndar sveitarfélagsins, sem einnig sitji í sveitarstjórn, sem mótast hafi af stöðu hans sem stjórnarformanns samkeppnisaðila kæranda í verslunarrekstri.  Kærandi hafi gert þá kröfu að viðkomandi aðili viki sæti við meðferð mála hans hjá bæjaryfirvöldum en þeirri málaleitan hafi í engu verið sinnt.

Málsrök Skagafjarðar:  Sveitarfélagið bendir á að skipulagsyfirvöld hafi haft verulegar áhyggjur af umferðaröryggi við verslunina að Akurhlíð 1.  Ítrekað hafi verið eftir því leitað við forráðamenn verslunarinnar að gengið yrði frá lóð og bílastæðum við húsið.  Innan lóðar hafi ekki verið gengið frá neinum bílastæðum og viðskiptavinir verslunarinnar leggi bílum sínum framan við aðalinngang hennar úti í götusvæði Sæmundarhlíðar, sem sé skilgreind sem tengibraut í gildandi aðalskipulagi Sauðárkróks.

Bæjaryfirvöld hafi látið kanna breytta legu Sæmundarhlíðar í kjölfar erinda kæranda og látið áætla kostnað við mögulegar breytingar.  Í framhaldi af því hafi umhverfis- og tækninefnd sveitarfélagsins á fundi sínum hinn 16. febrúar 2000 ekki getað fallist á breytta legu götunnar við verslunina en áréttað að gengið yrði frá bílastæðum sunnan verslunarinnar í samræmi við samþykkta byggingarnefndarteikningu frá 27. október 1981.  Þessi afstaða var ítrekuð við afgreiðslu nefndarinnar hinn 6. september 2000 á erindi kæranda um færslu Sæmundarhlíðar, sem nú hefur verið kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun fól í sér synjun umhverfis- og tækninefndar Skagafjarðar á beiðni kæranda um breytingu á legu Sæmundarhlíðar framan við verslun kæranda að Akurhlíð 1, Sauðárkróki og útfærslu bílastæða og aðkomu að versluninni í samræmi við teikningar, dags. 8. júlí 2000, sem undirritaðar eru af forráðamanni kæranda.  Kærandi telur að málsmeðferð erindis hans hafi verið ábótavant sökum vanhæfis eins nefndar- og sveitarstjórnarmanns, en auk þess séu engin haldbær rök fyrir synjun sveitarstjórnaryfirvalda.

Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga nr. 371993 fer um sérstakt hæfi sveitarstjórnarmanna og annarra þeirra sem starfa við stjórnsýslu sveitarfélaga eftir sveitarstjórnarlögum.  Um sérstakt hæfi sveitarstjórnarmanna er fjallað í 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og gildir það ákvæði um aðila í nefndum á vegum sveitarstjórna samkvæmt 47. gr. laganna.  Í nefndri 19. gr. segir að sveitarstjórnarmanni beri að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.  Formaður umhverfis- og tækninefndar, sem jafnframt sat í sveitarstjórn, var stjórnarformaður hjá samkeppnisaðila kæranda í verslunarrekstri.  Tók hann þátt í meðferð og ákvörðun á erindi kæranda í nefndinni og í sveitarstjórn.  Ekki verður talið að umdeild ákvörðun, er snertir skipulagningu á lóð kæranda og nánasta umhverfi, sé svo vaxin að valdi vanhæfi umrædds nefndarmanns vegna fyrrgreindrar stöðu hans og verður hinni kærðu ákvörðun því ekki hnekkt af þeim sökum.

Umdeilt erindi kæranda um breytingu á fyrirkomulagi bílastæða á verslunarlóð hans og aðkomu að lóðinni fól í sér breytingu á vegarstæði Sæmundarhlíðar við verslun kæranda.  Tilefni beiðninnar var, að sögn kæranda, að auka umferðaröryggi við verslunina.  Til þess að rými fengist fyrir vegrein, samsíða Sæmundarbraut, framan við verslunina þyrfti að færa umræddan veg frá lóðarmörkum kæranda.  Sú breyting hefði í för með sér ráðstöfun á landi sveitarfélagsins til greindra nota.

Skipulagsyfirvöldum ber við skipulagningu umferðarmannvirkja og lóða að tryggja sem best örugga umferð fólks og farartækja með hliðsjón af 2. mgr. 9. gr., sbr. 1. gr.  skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og skulu eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum þeirra sem hagsmuna eiga að gæta um mörkun stefnu og skipulagsmarkmið, sbr. 4. mgr. 9. gr. laganna.  Í skipulags- og byggingarlögum er ekki að finna lagaheimildir til handa íbúum sveitarfélaga til þess að knýja á um einstakar lausnir til þess að ná greindum markmiðum eða að fá sveitarfélag knúið til að leggja land sitt undir tiltekna notkun í þessu skyni.   Slík ráðstöfun á landi sveitarfélags verður því ráðin með samningum einkaréttarlegs eðlis en ekki skipulagsákvörðunum.  Að þessu virtu verður hin kærða ákvörðun ekki felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar en jafnframt vegna beiðni kæranda um frestun á afgreiðslu málsins í tilefni af samningaumleitunum málsaðila um lausn þess.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á þeirri ákvörðun umhverfis- og tækninefndar Skagafjarðar frá 6. september 2000 að synja umsókn kæranda, samkvæmt teikningu hans, dags. 8. júlí 2000, um skipulag bílastæða á lóðinni að Akurhlíð 1, Sauðárkróki og breytingu á aðkeyrslu að henni ásamt breytingu á legu götunnar Sæmundarhlíðar framan við lóðina.

 
____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Óðinn Elísson