Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

17/2001 Vesturgata

Ár 2003, fimmtudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl. varamaður.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2001, kæra eiganda fasteignarinnar að Vesturgötu 121, Akranesi, á ákvörðun byggingarnefndar Akraness frá 19. janúar 1999, að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á ytra byrði hússins að Vesturgötu 119, Akranesi, klæðningu hússins og skiptingu fasteignarinnar í eignarhluta. 

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. apríl 2001, er barst nefndinni hinn 30. apríl sama ár, kærir Erla S. Árnadóttir hrl., fyrir hönd B ehf., eiganda fasteignarinnar að Vesturgötu 121, Akranesi þá ákvörðun byggingarnefndar Akraness frá 19. janúar 1999 að heimila breytingar á ytra byrði hússins að Vesturgötu 119, Akranesi, er fólu m.a. í sér gerð tveggja innkeyrsludyra, klæðningu þess og skiptingu í eignarhluta.  Bæjarstjórn Akraness samþykkti þessa ákvörðun á fundi sínum hinn 26. janúar 1999.  Kærandi gerir þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi.

Málavextir:  Húsið að Vesturgötu 119 er L-laga bygging og er húsið að Vesturgötu 121 áfast skammhlið þess, þannig að byggingarnar mynda U-laga form.  Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt.

Á fundi byggingarnefndar Akraness hinn 19. janúar 1999 var samþykkt byggingarleyfisumsókn eiganda fasteignarinnar að Vesturgötu 119, Akranesi um breytingar á ytra byrði hússins og skiptingu þess í sjálfstæða eignarhluta.  Heimilað var að klæða húsið að utan og gera tvær keyrsludyr á bakhlið hússins út í port sem fasteignirnar að Vesturgötu 119 og 121 mynda.  Á byggingarnefndarteikningum, sem samþykktar voru hinn 26. janúar 1999, er gert ráð fyrir umferðarrétti meðfram húsinu að Vesturgötu 121 að fyrirhuguðum keyrsludyrum að Vesturgötu 119.  Umrædd byggingarleyfisumsókn var ekki grenndarkynnt.

Kærandi mun hafa haft samband við byggingaryfirvöld á Akranesi vegna umræddra framkvæmda og voru honum kynntar greindar byggingarnefndarteikningar á fundi með byggingarfulltrúa hinn 27. mars 2001.  Kærandi taldi vafa leika á um umferðarrétt eigenda fasteignarinnar að Vesturgötu 119 um lóð sína sem ráð var fyrir gert í umdeildu byggingarleyfi og óskaði eftir ýmsum gögnum um lóðarsamninga fyrir umræddar fasteignir í bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 5. apríl 2001.

Með bréfi, dags. 25. apríl 2001, var útgáfa umdeilds byggingarleyfis kærð til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir og með bréfi, dagsettu sama dag, fór kærandi fram á við bæjarstjórn Akraness að ákvörðun um veitingu byggingarleyfisins frá 26. janúar 1999 yrði endurskoðuð.

Af gögnum, sem úrskurðarnefndinni hafa borist eftir móttöku kæru í málinu, kemur fram að byggingarnefnd hafnaði beiðni kæranda um endurskoðun hinnar kærðu ákvörðunar á fundi sínum hinn 22. maí 2001.  Jafnframt liggur fyrir að byggingarleyfishafi krafðist lögbanns á aðgerðir kæranda til að hindra umferð að umdeildum keyrsludyrum og var lögbann lagt á hindrun umferðar hinn 2. maí 2001.  Með dómi héraðsdóms Vesturlands uppkveðnum hinn 19. september 2001 var kærandi sýknaður af kröfum byggingarleyfishafa um staðfestingu lögbannsins og viðurkenningu á umdeildum umferðarrétti.  Með dómi Hæstaréttar uppkveðnum hinn 12. júní 2002 var málinu vísað frá héraðsdómi.

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess, til stuðnings kröfu sinni um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, að ekki hafi verið gætt ákvæðis 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um grenndarkynningu áður en umdeilt byggingarleyfi hafi verið veitt.

Ekki sé fyrir hendi umferðarréttur byggingarleyfishafa um lóð kæranda svo sem gert sé ráð fyrir í hinu kærða byggingarleyfi.  Af heimildum er snerti umræddar lóðir megi ráða að umferðarrétturinn hafi verið í þágu annarra fasteigna.  Þá sé ekki í ljós leitt að reglum um brunavarnir hafi verið fullnægt við veitingu leyfisins.  Jafnframt kunni að vera að byggingarleyfið sé fallið brott sökum tímafresta skipulags- og byggingarlaga.

Málsrök Akranesbæjar:  Vísað er til þess að byggingarnefnd hafi fallist á umdeilda byggingarleyfisumsókn þar sem hún væri í fullu samræmi við skipulags- og byggingarlög.  Í byggingarleyfinu hafi m.a. verið gert ráð fyrir tvennum keyrsludyrum með aðkomu úr porti við bakhlið hússins að Vesturgötu 119 fyrir nýja eignarhluta í húsinu.  Búið hafi verið að saga fyrir öðrum dyrunum er ágreiningur hafi komið upp milli kæranda og byggingarleyfishafa um umferðarrétt að dyrunum á vordögum árið 2001.

Bæjaryfirvöld telji að forsvarsmönnum kæranda hljóti að hafa verið ljóst síðla árs 1999 eða á árinu 2000, þegar hafist var handa um breytingar að Vesturgötu 119, að bæjaryfirvöld hafi veitt leyfi til breytinga á umræddri fasteign.  Sagað hafi verið fyrir umdeildum dyrum fyrri hluta vetrar 2000 eða í upphafi árs 2001 eða að minnsta kosti meira en mánuði áður en málið hafi verið kært til úrskurðarnefndarinnar.  Kæran sé dagsett 25. apríl 2001 og móttekin hinn 30. sama mánaðar.  Fram komi í kærunni að kæranda hafi verið kynntar byggingarnefndarteikningar á fundi með byggingarfulltrúa hinn 27. mars 2001 og sé það skoðun bæjaryfirvalda að kæran hafi borist að liðnum kærufresti.

Kærandi hafi ekki gert reka að því á árunum 1999 og 2000 að kanna heimildir byggingarleyfishafa til framkvæmda og hvers eðlis þær væru þótt full ástæða hafi verið til þess af hans hálfu teldi hann framkvæmdirnar raska hagsmunum sínum.  Ljóst sé að kærufrestur hafi verið löngu liðinn er kæra barst og beri því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Til stuðnings þeirri ályktun skírskota bæjaryfirvöld til úrskurða nefndarinnar frá 22. apríl 1998 í máli nr. 9/1998 og frá 1. desember 1999 í máli nr. 47/1999.

Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna kærumáls þessa en úrskurðarnefndinni hefur ekki borist umsögn hans af því tilefni.

Úrskurðarnefndin fór á vettvang hinn 8. febrúar 2002 og kynnti sér aðstæður á staðnum.

Niðurstaða:  Af gögnum málsins verður ráðið að ástæða kærumáls þessa sé umferðarréttur sem gert er ráð fyrir í umdeildu byggingarleyfi vegna keyrsludyra sem veitt er leyfi fyrir á bakhlið hússins að Vesturgötu 119, Akranesi.  Akranesbær gerir kröfu um að málinu verði vísað frá þar sem kæra sé of seint fram komin.

Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur vegna ákvarðana í byggingarmálum einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um ákvörðun.  Við það verður miðað að kæranda hafi fyrst orðið kunnugt um efni umdeilds byggingarleyfis á fundi með byggingarfulltrúa hinn 27. mars 2001, enda liggur ekki fyrir með óyggjandi hætti að honum hafi verið ljóst efni leyfisins fyrr.  Samkvæmt 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 telst dagur sá sem frestur er talinn frá ekki með í frestinum og lendi lokadagur frests á almennum frídegi lengist fresturinn til næsta opnunardags þar á eftir.  Kærufrestur í máli þessu reiknast samkvæmt þessu frá 28. mars 2001.  Hinn 28. apríl 2001 bar upp á laugardag og lauk kærufrestinum því ekki fyrr en á mánudeginum 30. apríl 2001, eða sama dag og kæran barst úrskurðarnefndinni.  Eins og atvikum er háttað verður ekki fallist á að kæra í máli þessu hafi borist að liðnum kærufresti og er krafa um frávísun málsins ekki tekin til greina.

Umdeilt byggingarleyfi fól í sér heimild til að gera keyrsludyr á bakhlið hússins að Vesturgötu 119 út í port er liggur að húsi kæranda.  Tilkoma þeirra hefði í för með sér umferð bíla meðfram húsi hans og gat hann því átt hagsmuna að gæta vegna fyrirhugaðra framkvæmda.  Þar sem umrætt leyfi studdist ekki við deiliskipulag bar að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga áður en byggingarleyfið var veitt, sbr. 3. mgr. 23. gr. laganna. 

Fyrir liggur að grenndarkynning vegna umdeilds byggingarleyfis fór ekki fram og átti kærandi því ekki kost á að gæta hagsmuna sinna áður en leyfið var veitt.  Þótt byggingarleyfi skapi ekki umferðarrétt verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi vegna fyrrgreinds annmarka.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarnefndar Akraness frá 19. janúar 1999 um veitingu byggingarleyfis fyrir breytingum á fasteigninni að Vesturgötu 119, Akranesi er felld úr gildi.

_____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Óðinn Elísson