Ár 2002, fimmtudaginn 19. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 31/2001, kæra eins eiganda fasteignarinnar að Barðavogi 21 í Reykjavík á ákvörðun setts byggingarfulltrúa í Reykjavík frá 18. apríl 2001, að vísa frá beiðni hans um endurupptöku á umsókn um staðfestingu á skiptingu fasteignarinnar í þrjár íbúðir.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. júní 2001, er barst nefndinni hinn 27. sama mánaðar, kærir Halldór Jónsson hdl., fyrir hönd M, eiganda hluta fasteignarinnar að Barðavogi 21, Reykjavík, þá ákvörðun setts byggingarfulltrúa í Reykjavík að vísa frá beiðni hennar um endurupptöku þeirrar ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur að hafna umsókn eigenda Barðavogs 21 að fá samþykktar þrjár íbúðir í húsinu. Skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur staðfesti afgreiðsluna hinn 30. maí 2001 og borgarstjórn hinn 7. júní sama ár.
Kærandi gerir þá kröfu að afgreiðsla umsóknar um skiptingu fasteignarinnar í þrjár íbúðir verði endurupptekin og tekin til greina.
Málavextir: Deiliskipulagsuppdráttur fyrir staðgreinireit 1.433.0, er liggur norðan Barðavogs og austan Skeiðavogs, var samþykktur í ágúst 1966. Á uppdrættinum er sýnt skipulag fyrir 11 lóðir og eru lóðamörk, byggingarreitir og bílastæði sýnd. Skilmálar fyrir einbýlishúsalóðir við Barðavog voru samþykktir í skipulagsnefnd í nóvembermánuði 1966 og kemur þar fram að á lóðunum skuli reisa einnar hæðar einbýlishús og að óheimilt sé að hafa fleiri en eina íbúð í hverju húsi. Byggingarnefndarteikning af húsinu að Barðavogi 21 var samþykkt hinn 27. júlí 1967. Þrír eigendur voru að húsinu frá byrjun og átti hver um sig þriðjung fasteignarinnar. Hinn 15. maí 1970 var undirritað afsal um einn eignarhlutann er taldist vera tvö herbergi, eldhús og bað í suðvestur hluta hússins ásamt hlutdeild í sameign. Með þinglýstum sameignarsamningi eigenda hússins frá 6. júní 1976 voru eignarhlutar þeirra í fasteigninni sérgreindir í þrjár íbúðir í suðaustur, suðvestur og norðaustur hluta hússins ásamt hlutdeild í sameiginlegu rými. Taldist hver eignarhluti vera þriðjungur fasteignarinnar. Samkvæmt fyrirliggjandi kaupsamningum og afsölum hafa eignarhlutarnir gengið kaupum og sölum sem sérstakar íbúðir og skráðar sem slíkar hjá Fasteignamati ríkisins og í veðmálabókum sýslumannsembættisins í Reykjavík. Kærandi eignaðist íbúðina í norðaustur hluta hússins með kaupsamningi, dags. 30. desember 1999, og er þar tilgreint að hluti kaupverðs skuli greiddur með fasteignaveðbréfi skiptanlegu í húsbréf og á það einnig við um kaupsamning um íbúð í suðaustur hluta hússins, dags. 15. júní 2000. Afsal var gefið út til kæranda hinn 6. janúar 2000.
Hinn 18. október 2000 lagði kærandi, ásamt öðrum eigendum fasteignarinnar að Barðavogi 21, inn byggingarleyfisumsókn þar sem farið var fram á að staðfest yrði áður gerð breyting fasteignarinnar úr einbýlishúsi í þriggja íbúða hús. Þeirri umsókn var hafnað á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 29. nóvember 2000 með þeim rökum að umsóknin færi í bága við gildandi skipulag og með hliðsjón af fordæmisgildi slíkrar ákvörðunar. Var sú ákvörðun nefndarinnar staðfest í borgarstjórn Reykjavíkur þann 7. desember sama ár. Kærandi leitaði atbeina lögmanna um framhald málsins en synjunin var ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar innan kærufrests.
Með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 13. febrúar 2001, óskaði kærandi eftir því að fyrrgreind ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar yrði endurupptekin og að eignarhluti kæranda í húsinu yrði samþykktur sem íbúð. Beiðninni fylgdu gögn er bentu til þess að umrædd fasteign hafi verið nýtt sem þrjár íbúðir frá byggingu hússins og opinber skráning fasteignarinnar endurspeglaði þá staðreynd. Hinn 18. apríl 2001 komst settur byggingarfulltrúi að þeirri niðurstöðu, meðal annars með vísan til umsagnar skrifstofustjóra borgarverkfræðing, dags. 30. mars 2001, að vísa bæri málinu frá embættinu þar sem ný gögn hefðu ekki verið lögð fram er breyttu niðurstöðu nefndarinnar frá 29. nóvember 2000.
Með bréfi, dags. 10. maí 2001, kærði lögmaður kæranda greinda niðurstöðu setts byggingarfulltrúa til skipulags- og byggingarnefndar sem tók kæruna fyrir á fundi hinn 30. maí 2001. Á fundinum lá fyrir umsögn Borgarskipulags frá 29. maí 2001 og var ákvörðun setts byggingarfulltrúa, um að vísa endurupptökubeiðninni frá, staðfest með vísan til greindrar umsagnar Borgarskipulags. Borgarstjórn Reykjavíkur staðfesti þá afgreiðslu hinn 7. júní 2001.
Kærandi undi ekki málalyktum og kærði synjun endurupptökubeiðninnar til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.
Málsrök kæranda: Krafa um endurupptöku ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar frá 29. nóvember 2000 er studd þeim rökum að við ákvörðunina hafi ekki legið fyrir gögn er sýndu fram á að í húsinu að Barðavogi 21 hafi frá upphafi verið þrjár íbúðir og opinber skráning fasteignarinnar við það miðuð.
Gögn þau sem lögð hafi verið fram með beiðni um endurupptöku málsins sýni þá staðreynd að í húsinu séu og hafi verið þrjár íbúðir í yfir þrjátíu ár og hafi umsókn íbúðareigenda því ekki falið í sér breytingu á fasteigninni heldur hafi verið óskað eftir staðfestingu á skiptingu hússins í þrjár íbúðir sem gerð hafi verið fyrir áratugum. Enginn hafi fett fingur út í þetta fyrirkomulag þótt umræddar íbúðir hafi gengið kaupum og sölum með tilstilli fasteignasala og Íbúðalánasjóður hafi veitt fasteignalán vegna þeirra. Lóðarskrárritari Reykjavíkur hafi áritað yfirlýsingu um skiptingu fasteignarinnar án athugasemda hinn 7. desember 1968 og margsinnis áritað samþykki sitt á afsöl fyrir íbúðunum. Eignaskiptasamningur um fasteignina frá 6. júní 1975 beri einnig með sér að um þrjár íbúðir hafi verið að ræða í húsinu. Íbúar hússins hafi því mátt vænta þess að borgaryfirvöld gerðu ekki athugasemdir við skipan mála.
Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa byggi á því að samþykki umsóknar kæranda færi í bága við gildandi skipulag svæðisins og að áritanir lóðarskrárritara, eignaskiptasamningur og skráning Fasteignamats ríkisins breyti engu þar um. Bendir kærandi í þessu sambandi á að mál kæranda sé sérstakt þar sem þrátt fyrir gildandi deiliskipulag virðist allir opinberir aðilar, sem hafi með skráningu fasteignarinnar að gera, hafa talið og staðfest að um hafi verið að ræða hús með þremur samþykktum íbúðum Er á það bent að dæmi séu fyrir því að íbúðir hafi verið samþykktar í bága við gildandi skipulag.
Samþykki umsóknar kæranda yrði einungis staðfesting á ástandi sem ríkt hafi um áratuga skeið og hefði enga efnislega breytingu í för með sér. Unnt sé að víkja frá kröfum um fjölda bílastæða og standi það því ekki í veginum fyrir samþykki umsóknarinnar. Þá verði að hafa í huga við mat á fordæmisgildi slíkrar ákvörðunar að aðstæður sem raktar hafi verið geri mál Barðavogs 21 einstakt. Loks skírskotar kærandi til væntingarsjónarmiða þar sem yfirvöld hafi gefið íbúum hússins ástæðu til að ætla að í því væru þrjár íbúðir.
Málsrök byggingarfulltrúa: Borgaryfirvöld gera þá kröfu að ákvörðun setts byggingarfulltrúa frá 18. apríl 2001, um að vísa endurupptökubeiðni kæranda frá, standi óröskuð.
Bent er á að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 fyrir endurupptöku stjórnvaldsákvörðunar séu ekki fyrir hendi í máli þessu.
Ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 29. nóvember 2000, sem farið sé fram á að verði endurupptekin, hafi verið byggð á því að umsókn kæranda um samþykki borgaryfirvalda fyrir þremur íbúðum í húsinu að Barðavogi 21 færi í bága við gildandi deiliskipulag svæðisins.og með hliðsjón af fordæmisgildi gagnvart öðrum eigendum fasteigna við götuna.
Gögn þau er kærandi hafi lagt fram með endurupptökubeiðni sinni bendi til að þrjár íbúðir hafi verið í húsinu frá byggingu þess og sé því ekki mótmælt af hálfu borgaryfirvalda. Hins vegar breyti skráning fasteignarinnar hjá Fasteignamati ríkisins, sýslumannsembætti eða áritanir lóðarskrárritara á afsöl og sameignarsamning eigenda fasteignarinnar ekki gildandi deiliskipulagi eða víki því til hliðar. Það sé hlutverk skipulagsnefnda og sveitarstjórna að breyta skipulagi samkvæmt núgildandi og eldri lögum. Með skiptingu fasteignarinnar í þrjár íbúðir á sínum tíma hafi skipulagsskilmálar verið brotnir og núverandi innréttingar hússins séu ekki í samræmi við samþykktar byggingarnefndarteikningar frá árinu 1967. Þá hafi verið litið til fordæmisgildis þess að samþykkja þrjár íbúðir í einbýlishúsi gagnvart öðrum einbýlishúsum á svæðinu við ákvarðanatökuna og hvaða afleiðingar slík breyting gæti haft með tilliti til bílastæða og byggðamynsturs.
Gögnin sem fylgdu endurupptökubeiðni kæranda breyti í engu um þær forsendur sem leiddu til þeirrar niðurstöðu að umsókn eigenda fasteignarinnar að Barðavogi 21 um samþykki þriggja íbúða í húsinu hafi verið hafnað. Umsóknin hafi farið í bága við gildandi skipulag og sé yfirvöldum óheimilt að veita byggingarleyfi sem samræmist ekki skipulagsáætlunum. Telja borgaryfirvöld því að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga um endurupptöku stjórnvaldsákvörðunar sé ekki fyrir hendi.
Borgaryfirvöld mótmæla, sem órökstuddum, fullyrðingum kæranda um að fordæmi séu fyrir því að íbúðir séu samþykktar í andstöðu við gildandi skipulag og að viðurkennt sé að formkröfur skipulags standi ekki alltaf í vegi fyrir samþykkt slíkra mála.
Afgreiðsla borgaryfirvalda á umræddu máli hafi ekki getað orðið önnur en hún varð með tilliti til gildandi skipulagsskilmála en kæranda hafi í bréfi setts byggingarfulltrúa frá 18. apríl 2001 m.a. verið bent á að sækja um breytingu á skipulagi svæðisins til þess að mögulegt væri að samþykkja þrjár íbúðir í húsinu. Kærandi hafi hins vegar ekki látið á það reyna en skipulags- og byggingarnefnd hafi ekki tekið afstöðu til slíks erindis.
Niðurstaða: Í máli þessu er um það deilt hvort skilyrði hafi verið til að endurupptaka þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 29. nóvember 2000 að synja umsókn kæranda o.fl. að samþykktar yrðu þrjár íbúðir í húsinu nr. 21 við Barðavog.
Með endurupptökubeiðni kæranda fylgdu gögn er sýndu fram á að í húsinu hafi verið þrjár íbúðir um áratuga skeið og skráning fasteignamats og þinglýst skjöl hjá sýslumannsembættinu í Reykjavík um fasteignina og áritanir lóðarskrárritarans í Reykjavík á afsöl og sameignarsamning um fasteignina bentu til hins sama. Í málinu verður því að taka afstöðu til þess hvort þessar upplýsingar hafi getað haft þýðingu um efnislega niðurstöðu skipulags- og byggingarnefndar í málinu og kærandi eigi því rétt til að fá ákvörðunina endurupptekna samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Sú ákvörðun skipulags og byggingarnefndar, að synja umsókn íbúa hússins að Barðavogi 21 um að samþykktar yrðu þrjár íbúðir í húsinu, var studd þeim rökum að slík tilhögun færi í bága við gildandi skipulag og samþykki umsóknarinnar hefði fordæmisgildi gagnvart öðrum lóðarhöfum á svæðinu.
Skilmálar þeir, sem hér um ræðir, mæla fyrir um að óheimilt sé að hafa fleiri en eina íbúð í húsum á umræddu svæði og telja verður skilmála þessa gilda sem deiliskipulagsskilmála fyrir svæðið samkvæmt 11. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laganna er óheimilt að veita byggingarleyfi, m.a. fyrir breyttri notkun húss, nema leyfið sé í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir. Fallast verður á það með borgaryfirvöldum að sú staðreynd, að í húsinu hafi verið þrjár íbúðir um áratuga skeið í andstöðu við skipulagsskilmála, hafi ekki getað breytt efnislegri niðurstöðu í málinu að óbreyttu skipulagi. Skráning umræddrar fasteignar hjá fasteignarmati og sýslumannsembætti eða áritanir lóðarskrárritara á afsöl og sameignarsamning vegna fasteignarinnar skipta hér ekki sköpum enda ekki um ræða bær stjórnvöld til skipulagsákvarðana. Þau gögn sem kærandi lagði fram með endurupptökubeiðni sinni gátu því ekki haft áhrif á greinda niðurstöðu sem byggir á ótvíræðum lagafyrirmælum. Að þessu virtu verður synjun setts byggingarfulltrúa á beiðni um endurupptöku málsins ekki hrundið. Kærandi á hins vegar þann kost að leita samþykkis borgaryfirvalda fyrir breytingu á umræddu deiliskipulagi, sem bent er á í bréfi setts byggingarfulltrúa, þar sem hin kærða ákvörðun var kynnt kæranda og í umsögn borgaryfirvalda til úrskurðarnefndarinnar í kærumáli þessu.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Synjun setts byggingarfulltrúa í Reykjavík frá 18. apríl 2001, um endurupptöku ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar frá 29. nóvember 2000 að hafna umsókn íbúa hússins að Barðavogi 21 í Reykjavík um staðfestingu á skiptingu fasteignarinnar í þrjár íbúðir, er staðfest.
____________________________________
Ásgeir Magnússon
___________________________ _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir