Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

5/2001 Áminning

Ár 2002, fimmtudaginn 5. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2001, kæra húsasmíðameistara á ákvörðun  byggingarfulltrúa Hvolhrepps frá 2. febrúar 2001 að veita honum áminningu vegna sumarhúss að Kotvelli 11, Hvolhreppi.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. febrúar 2001, kærir Erla S. Árnadóttir hrl., fyrir hönd B húsasmíðameistara, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hvolhrepps frá 2. febrúar 2001 að veita kæranda áminningu vegna sumarhúss að Kotvelli 11, Hvolhreppi.

Málavextir:  Hamraverk ehf., sem er einkahlutafélag í eigu kæranda, seldi hinn 12. ágúst 1998 Valgerði Andrésdóttur sumarhús og flutti það á lóð hennar að Kotvelli 11, Hvolhreppi í september það ár.  Sumarhúsið var smíðað á verkstæði Hamraverks ehf. í Hafnarfirði.  Byggingarnefnd Hvolhrepps veitti lóðarhafa byggingarleyfi fyrir sumarhúsinu á lóðinni á fundi sínum hinn 26. ágúst 2000 og var tilkynnt um veitt leyfi með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 27. ágúst 2000.  Í bréfinu var leyfishafa tilkynnt að áður en framkvæmdir hæfust skyldu byggingarstjóri og iðnmeistarar árita eyðublað er bréfinu fylgdi og það síðan sent ásamt staðfestingu á ábyrgðartryggingu byggingarstjóra til embættisins.  Byggingarleyfisgjöld voru greidd hinn 7. september 2000. 

Hinn 2. febrúar 2001 sendi byggingarfulltrúi Hvolhrepps kæranda svohljóðandi bréf er varðaði lokaúttekt á umræddu sumarhúsi:  „Til mín hefur leitað Valgerður Andrésdóttir, Grettisgötu 39 Reykjavík, varðandi lokaúttekt á sumarhúsi sem þú seldir henni.  Samkvæmt úttektarbók byggingarfulltrúa fóru engar lögboðnar úttektir fram og allar áritanir og ábyrgðir meistara og byggingarstjóra vantar.  Þessar vanefndir voru kynntar fyrir byggingarnefnd Hvolhrepps, sem átaldi þær harðlega og mér falið að ganga frá málinu.  Málið var borið undir lögmann Skipulagsstjóra ríkisins.  Í framhaldi af því er þér hér með veitt alvarleg áminning vegna þessara brota á byggingar og skipulagsreglugerðum.  Til þess að ljúka málinu er þér gefinn frestur til 23. febrúar 2001að ganga frá áritun meistara og byggingarstjóra hússins og ganga frá samkomulagi við byggingarfulltrúa um úttektir hússins.  Verði sá frestur ekki nýttur mun byggingarfulltrúi óska þess við ráðherra að þú verðir sviptur löggildingu, þar sem hér er um ítrekað brot að ræða.”

Kærandi skaut þessari áminningu til úrskurðarnefndarinnar eins og fyrr greinir og sendi jafnframt afrit hennar til byggingarnefndar Hvolhrepps ásamt bréfi, dags. 13. febrúar 2001, þar sem færð voru fram rök fyrir því að byggingarfulltrúi hreppsins hafi verið vanhæfur til þess að fara með mál kæranda og því lýst yfir að kærandi væri reiðubúinn til samstarfs við sveitaryfirvöld til þess að fjalla um umrætt sumarhús að því marki sem þörf væri á. 

Málsástæður kæranda:  Kærandi telur hina kærðu ákvörðun byggingarfulltrúa haldna ýmsum annmörkum er leiða eigi til ógildingar hennar.

Í fyrsta lagi séu engin efnisleg rök fyrir ákvörðuninni.  Teikningar hússins hafi verið samþykktar af byggingarnefnd, byggingarleyfi gefið út og húsið útsett af byggingarfulltrúa.  Bendir kærandi á 121. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um vottorð byggingarfulltrúa varðandi byggingareiningar sem byggðar séu utan lóðar.  Ekki hafi tíðkast að lokaúttektir færu fram vegna sumarhúsa af þessu tagi eða að formlegar áritanir meistara hafi verið afhentar.  Þá sé fullyrðing um ítrekað brot af hálfu kæranda órökstudd. 

Í öðru lagi leiki vari á hvort greindri áminningu sé beint að réttum aðila.  Hamraverk ehf., seljandi greinds sumarhúss, jafnt sem kærandi séu bærir til að taka að sér starf byggingarstjóra samkvæmt 2. mgr. 51. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Bróðir lóðarhafa, sem sé rafvirkjameistari, hafi annast rafmagnsinntak hússins en kærandi hafi aldrei tekið formlega að sér starf byggingarstjóra við niðursetningu hússins.

Í þriðja lagi skorti hina kærðu ákvörðun þann skýrleika sem gera verði kröfu til um stjórnvaldsákvarðanir.  Áminningin beri ekki með sér hvaða brot á ákvæðum skipulags- og byggingarreglugerðar kærandi eigi að hafa framið.

Í fjórða lagi telur kærandi byggingarfulltrúa þann sem með mál hans fór hafa verið vanhæfan til meðferðar málsins. Byggingarfulltrúinn sé aðili að dómsmáli er varði efndir kaupsamnings um sumarhús er Hamraverk ehf. framleiddi.  Í því máli beri byggingarfulltrúinn fyrir sig galla á því húsi.  Eigi 6. tl. 1. mgr. 32. gr. stjórnsýslulaga hér við.

Í fimmta lagi hafi ólögmætum aðferðum og sjónarmiðum verið beitt við meðferð máls kæranda.  Fram komi í bréfi byggingarfulltrúa, þar sem umdeild áminning sé veitt,  að málið hafi verið borið undir lögmann Skipulagsstjóra ríkisins.  Hvergi sé í lögum heimild til þessarar málsmeðferðar.  Hins vegar sé þessi leið farin áður en ráðherra ákveður hvort svipta skuli hönnuði löggildingu vegna ítrekaðra brota af hans hálfu.

Í sjötta lagi brjóti hin kærða ákvörðun í bága við ákvæði 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um andmælarétt.  Kæranda hafi ekki verið gert viðvart um að mál hans væri til meðferðar hjá byggingarnefnd og hafi ekki átt þess kost að tjá sig um efni ávirðinga sem á hann voru bornar áður en hin kærða ákvörðun var tekin.  Bendir kærandi á að samkvæmt 1. mgr. 59. gr. skipulags- og byggingarlaga hafi áminning til byggingarstjóra sérstakar réttarverkanir.

Málsrök byggingarnefndar Hvolhrepps:  Úrskurðarnefndin kallaði eftir athugasemdum og sjónarmiðum byggingarnefndar og gögnum er málið vörðuðu með bréfi, dags. 20. september 2001, en því bréfi hefur ekki verið svarað.  Verður því að líta svo á að frekari gögn sé ekki að hafa er málið varðar og að byggingarnefnd sjái ekki ástæðu til að koma á framfæri frekari athugasemdum og sjónarmiðum vegna málsins umfram það sem fram kemur í fyrrgreindu áminningarbréfi til kæranda.

Niðurstaða:  Í 59. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er fjallað um úrræði gagnvart brotum byggingarstjóra og iðnmeistara.  Í 1. mgr. ákvæðisins segir að byggingarnefnd geti veitt byggingarstjóra eða iðnmeistara sem ábyrgð ber á byggingarframkvæmdum áminningu brjóti viðkomandi ákvæði laga, reglugerða eða samþykkta um skipulags- og byggingarmálefni. 

Í áminningarbréfi því sem er tilefni kærumáls þessa og undirritað er af byggingarfulltrúa kemur ekki fram að byggingarnefnd Hvolhrepps hafi tekið ákvörðun um að áminna kæranda vegna ætlaðra brota á ákvæðum byggingar- og skipulagsreglugerðar.  Þá er ekki að finna í málinu gögn er sýna að slík ákvörðun hafi verið tekin af hálfu byggingarnefndar.  Verður af þessum sökum að telja umrædda stjórnvaldsákvörðun, að áminna kæranda, marklausa þar sem byggingarfulltrúa brast vald til þess að taka hana.  Að þessari niðurstöðu fenginni þykir ekki þörf á að taka afstöðu til málsástæðna kæranda fyrir kröfu hans um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í málinu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarfulltrúa Hvolhrepps frá 2. febrúar 2001, að veita kæranda áminningu vegna ætlaðra brota á byggingar- og skipulagsreglugerðum vegna sumarhúss að Kotvelli 11, Hvolhreppi er ógild.

 

____________________________
Ásgeir Magnússon

 

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir