Ár 2002, föstudaginn 4. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn, Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 52/2000, kæra eins eiganda spildu úr landi jarðarinnar Óttarsstaða vestri, Hafnarfirði á ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 26. júlí 2000 um að synja umsókn kæranda um leyfi fyrir byggingu sumarbústaðar á nefndri landspildu.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. ágúst 2000, sem barst nefndinni hinn 31. sama mánaðar, kærir B, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 26. júlí 2000 að synja umsókn eigenda spildu úr landi Óttarsstaða, vestri Hafnarfirði um leyfi fyrir byggingu sumarbústaðar á landspildunni. Byggingarnefnd Hafnarfjarðar staðfesti afgreiðslu byggingarfulltrúa á fundi hinn 30. ágúst 2000 og hún hlaut síðan staðfestingu bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hinn 10. september sama ár. Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málavextir: Í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar er land Óttarsstaða vestri á svæði sem er merkt sem hafnar- og náttúruminjasvæði. Svæðið hefur ekki verið deiliskipulagt. Á jörðinni standa gömul bæjarhús og einhver sumarhús. Kærandi er eigandi að landspildu í landi Óttarsstaða í sameign með tveimur systkinum sínum, G og L.
Með bréfum til bæjaryfirvalda Hafnarfjarðar, dags. 23. júní og 9. júlí 1998, sótti kærandi um framkvæmdaleyfi til að reisa sumarbústað í landi Óttarsstaða sem fengi að standa þar til ársins 2002. Erindið var tekið fyrir á fundi byggingarnefndar Hafnarfjarðar hinn 22. júlí 1998 og afgreitt með svofelldri bókun:
„Ekki er búið að deiliskipuleggja umrætt svæði og nýting þess því óljós. Bent skal á að í landi Hafnarfjarðar eru til lausar lóðir til iðnaðarframkvæmda. Umsókn um framkvæmdaleyfi til að byggja sumarhús í landi Óttarstaða er því synjað.”
Hinn 7. apríl 1999 sótti kærandi að nýju um leyfi til að reisa sumarbústað í umræddu landi á grundvelli framkvæmda- og stöðuleyfis. Lýsti kærandi sig reiðubúinn að gangast undir kvöð sem tryggði að bústaðurinn stæði ekki í vegi fyrir deiliskipulagningu svæðisins þegar þar að kæmi. Erindið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs hinn 15. apríl 1999 og vísað til skipulagsnefndar til skoðunar. Á fundi ráðsins hinn 20. maí sama ár var umsókninni synjað með vísan til umsagnar skipulags- og umferðarnefndar. Þessi ákvörðun bæjarráðs var kærð til úrskurðarnefndarinnar en sú kæra var síðar afturkölluð.
Kærandi sendi síðan inn byggingarleyfisumsókn ásamt systkinum sínum hinn 17. júlí 2000 þar sem óskað var eftir leyfi til að byggja 61,7 fermetra sumarhús á 0,35 hektara landspildu þeirra í landi Óttarsstaða. Umsóknin var afgreidd á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 26. júlí 2000 með eftirfarandi bókun:
„Það er ekki sumarbústaðaland þarna skv. aðalskipulagi heldur að hluta náttúruminjasvæði, iðnaðarsvæði, hafnarsvæði og almennt opið svæði. Það er ekki til deiliskipulag og aðalskipulag heimilar ekki byggingu nýrra sumarbústaða. Byggingarfulltrúi ítrekar því synjun byggingarnefndar frá 22. júlí 1998.”
Kæranda var jafnframt bent á heimild til að skjóta ákvörðuninni til byggingarnefndar sem kærandi gerði fyrir hönd umsækjenda með bréfi, dags. 15. ágúst 2000. Þá skaut hann málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 30. ágúst 2000, þar sem fram kemur að svar hafi ekki borist frá byggingarnefnd og búist hann ekki við að nefndin hrófli við hinni kærðu ákvörðun byggingarfulltrúa. Þann sama dag afgreiddi byggingarnefnd erindi kæranda frá 15. ágúst 2000 og var afgreiðsla byggingarfulltrúa frá 26. júlí 2000 staðfest með skírskotun til forsendna hennar. Afgreiðsla byggingarnefndar var staðfest á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hinn 12. september 2000.
Málsrök kæranda: Skilja verður málskot kæranda svo að þar sé krafist ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar með eftirgreindum rökum og sjónarmiðum:
Kærandi bendir á að hann eigi um 120 hektara lands í jörðinni Óttarsstöðum vestri í landi Hafnarfjarðar. Hann hafi í þrígang sótt um leyfi til að reisa sumarhús á landspildu á jörðinni sem sé í eigu hans og tveggja systkina hans. Hafnarfjarðarbær hafi synjað öllum erindunum, hvort sem um hafi verið að ræða leyfi til að reisa sumarhús til flutnings eða hús sem fengi að standa á umræddri landspildu. Kærandi hafi lýst sig reiðubúinn að hlíta því að sumarhúsið yrði látið víkja, stæði það í vegi fyrir framkvæmd skipulags á svæðinu. Á síðustu 50 árum hafi verið á jörðinni sumarhús auk gömlu bæjarhúsanna. Þannig hafi á árinu 1981 verið reistur sumarbústaður í landi Óttarsstaða og um 1990 hafi gamall bústaður verið rifinn og nýr reistur á grunni hans. Í landi nágrannajarðarinnar Straums hafi verið heimilað að reisa byggingar fyrir listamenn. Bendir kærandi á að á sínum tíma hafi verið bústaður á spildu þeirri, sem hann hafi nú sótt um leyfi til að byggja á sumarhús.
Afstaða bæjaryfirvalda til byggingarleyfisumsóknar kæranda og fyrri umsókna feli í raun í sér að kærandi og meðeigendur hans séu sviptir nýtingarrétti á eign sinni og feli í sér brot á jafnræðisreglu með hliðsjón af þeirri nýtingu lands sem heimiluð hafi verið á svæðinu.
Vegna takmörkunar á nýtingarrétti sem bæjaryfirvöld hafi sett í skjóli aðalskipulags hafi kærandi og aðrir eigendur umræddrar jarðar boðið Hafnarfjarðarbæ land jarðarinnar til kaups en því boði hafi verið hafnað.
Andmæli byggingarnefndar: Á fundi byggingarnefndar hinn 10. október 2001 var tekið fyrir bréf úrskurðarnefndarinnar frá 11. september 2001 þar sem leitað var eftir afstöðu byggingarnefndar til málskots kæranda og óskað eftir gögnum er málið vörðuðu. Á fundinum var gerð svofelld bókun: „Byggingarnefnd ítrekar synjun byggingarfulltrúa og rökstuðning hans á umsókn um byggingu sumarbústaðs í landi Óttarstaða sbr. umsókn Birgis Sörenssen dags. 17.4.2000. Byggingarnefnd felur byggingarfulltrúa að senda úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála afrit af umbeðnum gögnum.” Úrskurðarnefndinni hefur ekki borist frekari rökstuðningur eða umsögn um hina kærðu ákvörðun.
Niðurstaða: Samkvæmt samanburði á afstöðumynd þeirri, sem fylgdi byggingarleyfisumsókn kæranda og gildandi aðalskipulagsuppdrætti Hafnarfjarðar frá árinu 1997, er gert ráð fyrir hafnarsvæði á þeim stað þar sem kærandi hugðist reisa sumarbústað. Jafnframt ber skipulagsuppdrátturinn með sér að á svæðinu séu náttúruminjar. Synjun byggingaryfirvalda á hinni kærðu umsókn byggir á skírskotun til þessarar skipulagsáætlunar.
Fallast má á þau rök kæranda að áætluð landnotkun aðalskipulagsins hafi skert að verulegu leyti nýtingarheimildir hans sem eins eiganda jarðarinnar Óttarsstaða vestri og bera afgreiðslur bæjaryfirvalda á erindum hans um nýtingu landsins undanfarin ár þess glöggt vitni.
Í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 er gert ráð fyrir að gildistaka skipulagsáætlana geti haft í för með sér röskun á fasteignarréttindum. Í 1. mgr. 32. gr. laganna er sveitarstjórnum veitt eignarnámsheimild, með leyfi ráðherra og að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar, þegar sveitarstjórn er nauðsyn á, vegna áætlaðrar þróunar sveitarfélagsins og samkvæmt staðfestu aðalskipulagi, að fá umráð fasteignarréttinda. Þá er í 33. gr. laganna gert ráð fyrir að ef gildistaka skipulags hafi í för með sér að verðmæti fasteignar lækki eða nýtingarmöguleikar hennar rýrni frá því sem áður var geti sá sem sýni fram á tjón krafið sveitarsjóð um bætur eða innlausn fasteignar.
Samkvæmt þessu raskar það ekki gildi skipulagsáætlana þótt þær gangi á eignarrétt manna en sveitarstjórnir eiga að gæta þess með hliðsjón af greindum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga, 4. mgr. 1. gr. og 4. mgr. 9. gr. sömu laga að umrædd réttindi verði ekki fyrir borð borin bótalaust. Það er hins vegar ekki hlutverk úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til bótaréttar vegna gildistöku skipulagsáætlana, samanber 3. mgr. 33. gr. laganna.
Byggingarleyfi skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Afstaða byggingaryfirvalda til byggingarleyfisumsóknar kæranda byggðist á gildandi aðalskipulagi fyrir svæðið og verður því ekki hjá því komist að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar er hafnað.
____________________________________
Ásgeir Magnússon
___________________________ _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir