Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

67/2000 Boðahlein

Ár 2002, fimmtudaginn 12. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn, Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 67/2000, kæra íbúar að Boðahlein 28, Garðabæ á afgreiðslu byggingarnefndar Garðabæjar frá 28. september 2000 varðandi ágreining um skipulagsskyldu skúrbygginga á lóðunum nr. 10, 14, 15 og 19 við Boðahlein Garðabæ.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem barst nefndinni 25. október 2000, kærir Bragi Kristjánsson hdl. fyrir hönd H, íbúa að Boðahlein 28, Garðabæ, afgreiðslu byggingarnefndar Garðabæjar frá 28. september 2000 á erindi kæranda ofl. um lögmæti skúrbygginga á lóðunum nr. 10, 14, 15 og 19 við Boðahlein.  Kærandi gerir þá kröfu að úrskurðað verði að umræddar skúrbyggingar séu skipulagsskyldar.

Málavextir:  Við Boðahlein í Garðabæ standa lítil raðhús, rúmlega 80 fermetrar að flatarmáli, sem ætluð eru til íbúðar fyrir eldri borgara og tengjast þjónustukjarna Dvalarheimilis aldraðra sjómanna í Hafnarfirði.  Í götunni munu vera um 30 íbúðir en bílskúr fylgir um þriðjungi þeirra.  Fyrir svæðið gildir deiliskipulag sem samþykkt var í skipulagsnefnd Garðabæjar hinn 23. október 1983.  Í því skipulagi er ekki vikið að skúrum á lóðum húsa við götuna.

Á árinu 1999 munu einstakir íbúðareigendur við Boðahlein hafa sett niður skúra á lóðum sínum og var leitað álits byggingarfulltrúa á því hvort slíkir skúrar væru háðir leyfi byggingaryfirvalda.  Ekki mun hafa verið gerð krafa um byggingarleyfi fyrir umræddum skúrum en á það bent að við staðsetningu þeirra ætti að hafa samráð við nágranna.

Með bréfi til byggingarfulltrúans í Garðabæ, dags. 13. júní 1999, var komið á framfæri óánægju hóps íbúa við Boða- og Naustahlein í tilefni af því að reistir höfðu verið geymsluskúrar á lóðum tveggja íbúðarhúsa við Boðahlein.  Var það mat þeirra er að bréfinu stóðu að með þessum framkvæmdum væri farið inn á vafasama braut og var því mótmælt að slíkar byggingar væru leyfðar enda væru þær til mikilla lýta.  Var því beint til byggingarfulltrúa að tekið yrði á málinu og farið að vilja meirihluta íbúa á svæðinu.  Hinn 18. október 1999 ritaði lögmaður íbúanna bréf til byggingarnefndar Garðabæjar og bæjarstjóra þar sem mótmæli íbúanna voru ítrekuð og þar bent á að skúrar við Boðahlein væru orðnir þrír.

Byggingarfulltrúi svaraði erindinu með bréfi, dags. 29. febrúar 2000.  Þar var upplýst að ekkert formlegt leyfi hafi verið veitt fyrir umræddum skúrum.  Hins vegar hafi á sínum tíma verið spurst fyrir um heimildir til að hafa slíka skúra á lóðum.  Í bréfinu kemur fram það mat byggingarfulltrúa að skúrbyggingar af umræddum toga séu á mörkum þess að vera leyfisskyldar þar sem um sé að ræða færanlega hluti á lóð en áhersla lögð á að samráð sé haft við nágranna um slíkar framkvæmdir, sérstaklega ef vænta megi útsýnisskerðingar af þeirra sökum.  Í bréfinu var lýst yfir að byggingaryfirvöld ætli að halda að sér höndum í málinu að svo stöddu enda vonast til  að sættir tækjust í málinu milli íbúa með milligöngu félags húseigenda í götunum.

Með bréfi til byggingarnefndar Garðabæjar, dags. 26. júlí 2000, var afgreiðslu byggingarfulltrúa á erindinu skotið til byggingarnefndar Garðabæjar með vísan til 6. mgr. 8. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Þess var krafist að nefndin tæki málið formlega til meðferðar og tæki efnislega afstöðu til erindisins með rökstuddum hætti.  Erindið var afgreitt af hálfu byggingarnefndar á fundi hinn 28. september 2000 með því að tekið var undir sjónarmið byggingarfulltrúa í bréfi hans, dags. 29. febrúar 2000.  Lögmanni kæranda var tilkynnt um afgreiðsluna í bréfi, dags. 2. október 2000.

Kærandi sætti sig ekki við afgreiðslu málsins og skaut því til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi byggir málskot sitt á því að umdeildir skúrar falli undir 4. kafla skipulags- og byggingarlaga og séu skipulagsskyldir.

Kærandi mótmælir, sem órökstuddri, þeirri túlkun byggingarnefndar að hinir umdeildu skúrar séu færanlegir hlutir á lóð.  Með tilvist skúranna, sem fari fjölgandi, sé verið á óskipulegan hátt að koma upp skúrum við Boðahlein í andstöðu við megin þorra íbúa götunnar en skúrarnir séu til mikillar óprýði.

Byggingarleyfisskyldar framkvæmdir verði að vera í samræmi við skipulag samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga og samkvæmt 56. gr. laganna skuli byggingarfulltrúi stöðva framkvæmdir sem fara í bága við skipulag og fjarlægja þær.

Andmæli byggingarnefndar:  Hin kærða afgreiðsla byggingarnefndar er á því reist að vafa sé undirorpið að umræddir skúrar á lóðum húsa við Boðahlein séu þess eðlis að sækja þurfi um byggingarleyfi fyrir þeim þar sem um sé að ræða færanlega hluti á lóð.

Á það er bent að íbúar þurfi að hafa samráð við nágranna um staðsetningu slíkra skúra, sérstaklega ef hætta sé á skerðingu útsýnis eða íbúðarhús séu lágreist í kring.  Byggingarnefnd telur samþykktar sambýlisreglur fyrir íbúa í Boðahlein frá desember 1984 vettvangsgrundvöll fyrir lausn málsins og vísar í því sambandi til 6. gr. reglnanna.

Andmæli eigenda Boðahleinar 10 og 15:  Eigendum fasteignanna að Boðahlein 10, 14, 15, og 19, þar sem umdeildir skúrar standa, var með bréfi, dags. 22. ágúst 2002, gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum vegna málsins.  Eigandi að Boðahlein 15 hafði símasamband við skrifstofu úrskurðarnefndarinnar hinn 27. ágúst 2002 og kom á framfæri upplýsingum og athugasemdum af sinni hálfu vegna málskotsins og eigandi Boðahleinar 10 kom á framfæri sjónarmiðum sínum í ódagsettu bréfi er barst nefndinni hinn 2. september 2002.

Hjá greindum fasteignareigendum kom fram að ástæðan fyrir því að umræddir skúrar voru settir á lóðirnar hafi verið sú að engin geymsla sé í íbúðum við Boðahlein þar sem geyma mætti nauðsynleg verkfæri, svo sem garðáhöld og sláttuvél.  Aðeins 10 íbúðum í götunni fylgi bílskúr þar sem kostur sé að geyma slík verkfæri en fasteignir þeirra séu ekki í þeim hópi.  Skúrarnir séu aðeins um 4 fermetrar að flatarmáli og þeir hafi verið keyptir í Hagkaupum tilbúnir til samsetningar og séu ekki varanlega skeyttir við jörð.

Leitað hafi verið til byggingaryfirvalda í Garðabæ vegna skúranna og þar hafi ekki verið talið að sérstakt leyfi þyrfti fyrir þeim.  Allir þeir sem settu niður skúra á lóð sinni hafi haft samráð við nágranna sína um staðsetningu þeirra.  Séu þeir allir staðsettir á baklóðum húsanna að undanskildum einum skúr sem færður hafi verið að beiðni nágranna.  Skúrarnir hafi óveruleg áhrif á umhverfið og hafi ekki skapað vandamál.  Benda eigendurnir á að ekki yrði það til aukinnar prýði að hafa amboð og sláttuvélar blasandi við á lóðum fasteigna í götunni eins og raunin yrði ef skúranna nyti ekki við.

Loks benda þeir á að víða í Garðabæ og annars staðar séu sambærilegir skúrar á lóðum fasteigna án þess að byggingaryfirvöld hafi séð ástæðu til að krefjast byggingarleyfis fyrir þeim.

Úrskurðarnefndin leitaði eftir atbeina byggingarfulltrúa Garðabæjar við að mæla umdeilda geymsluskúra og leiddu þær mælingar í ljós að skúrarnir eru 1,85 metrar á breidd, 2,44 á lengd, vegghæð 1,73 metrar og mænishæð 2,12 metrar.

Niðurstaða:  Mál þetta snýst um hvort umdeildir skúrar séu skipulagsskyldir að lögum og háðir byggingarleyfi.

Í 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kveðið á um þær framkvæmdir sem háðar eru byggingarleyfi.  Þar er um að ræða byggingu húsa, breytingu á útliti, notkun og niðurrif ásamt gerð annarra mannvirkja sem falla undir 4. kafla laganna.  Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laganna taka ákvæði kaflans til hvers konar bygginga, ofan jarðar og neðan, en í 2. mgr. ákvæðisins eru talin upp mannvirki er tengjast samgöngum, veitum og fjarskiptum sem undanþegin eru byggingarleyfi en féllu ella undir 1. mgr. ákvæðisins.  Í 3. mgr. 36. gr. er síðan kveðið á um að mannvirki, sem undanþegin séu byggingarleyfi, skuli byggð í samræmi við skipulagsákvæði 3. kafla laganna en úrskurðarnefndin skuli skera úr um vafa um byggingarleyfisskyldu mannvirkis.  Í byggingarreglugerð nr. 441/1998, gr. 4.14, er hugtakið „bygging” skilgreint sem hús, byggt á staðnum eða sett saman úr einingum og í gr. 4.26 er hugtakið „mannvirki” skýrt sem jarðföst framkvæmd, t.d. virkjun, hús, brú, línumastur eða skiltastandur.

Af greindum laga- og reglugerðarákvæðum og öðrum lagaákvæðum 4. kafla skipulags- og byggingarlaga verður ráðið að kaflinn tekur fyrst og fremst til bygginga og annarra mannvirkja sem teljast varanleg og jarðföst.  Af 3. mgr. 36. gr. er ljóst að einstök mannvirki geta verið undanþegin byggingarleyfi umfram þau sem talin eru upp í 2. mgr. ákvæðisins.

Geymsluskúrarnir á lóðunum að Boðahlein 10, 14, 15, og 19 eru um 4,5 fermetrar að flatarmáli og voru settir saman úr einingum á staðnum en eru ekki varanlega festir við jörð og engar lagnir eru við þá tengdar.  Verða þeir því hvorki taldir vera hús né annars konar mannvirki í skilningi ákvæða byggingarreglugerðar eða samkvæmt almennri málvenju heldur lausafé sem hægt er að færa úr stað án vandkvæða eins og gert var við einn skúranna að beiðni nágranna. 

Um skipulagsskyldu er fjallað í 1. mgr. 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þar segir að allt landið sé skipulagsskylt og bygging húsa og annarra mannvirkja og aðrar framkvæmdir og aðgerðir sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. ákvæði 27. og 43. gr. laganna um veitingu framkvæmdaleyfis og byggingarleyfis.  Ákvæði skipulags- og byggingarlaga og skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 er varða gerð og innihald skipulagsáætlana lúta fyrst og fremst að tilhögun leyfisskyldra mannvirkja og framkvæmda auk atriða svo sem ákvörðun um landnotkun svæða, nýtingarhlutfall, afmörkun lóða og frágang og umferðarmannvirki.  Ekki er þar að finna ákvæði um skipulagsskyldu lausafjár eða muna á lóðum íbúðarhúsa.  Í 3. kafla byggingarreglugerðar nr. 441/1998 eru hins vegar ýmis ákvæði er varða umbúnað og framkvæmdir á lóðum.  Í 71. gr. er staðsetning hjólhýsa, gáma, báta, torgsöluhúsa og sambærilegra hluta utan þar til skipulagðra svæða háð stöðuleyfi byggingarnefndar.   Í greininni er ekki vikið að lausum smáskúrum.

Að virtum greindum laga- og reglugerðarákvæðum er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að skúrarnir séu hvorki háðir byggingarleyfi samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga né að staðsetning þeirra þurfi að eiga stoð í skipulagsáætlun.  Þá falla þeir ekki undir ákvæði 71. gr. byggingarreglugerðar um stöðuleyfi.

Þá kemur ekki til álita að framkvæmdaleyfi þurfi fyrir skúrunum samkvæmt 27. gr. laganna enda verður staðsetning þeirra á umræddum lóðum ekki metin meiri háttar framkvæmd sem áhrif hafi á umhverfið og ásýnd þess með hliðsjón af smæð þeirra og því að þeir eru ekki jarðfastir.

Hins vegar er umbúnaður á lóðum háður eftirliti byggingaryfirvalda samkvæmt 4. mgr. 41. gr. skipulags- og byggingarlaga og 61. gr. byggingarreglugerðar, auk þess sem grenndarreglur geta haft áhrif á það hvort og þá hvar smáskúrar sem hér um ræðir megi vera á lóðum.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Umdeildir geymsluskúrar á lóðunum nr. 10, 14, 15 og 19 við Boðahlein í Garðabæ eru ekki leyfisskyldir samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 og falla ekki undir skipulagsskyldu.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________                  _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                           Ingibjörg Ingvadóttir