Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

57/2000 Austurstræti

Ár 2002, fimmtudaginn 5. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 57/2000, kæra leigjanda og eiganda fasteignarinnar að Austurstræti 16, Reykjavík, á samþykkt skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur frá 21. ágúst 2000 um breytt deiliskipulag lóðarinnar nr. 18 við Austurstræti í Reykjavík, sem fól m.a. í sér heimild fyrir viðbyggingu úr gleri ofan á hluta fyrstu hæðar hússins á lóðinni.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfum til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. og 5. október 2000, er bárust nefndinni sömu daga kæra Homeportal.com á Íslandi ehf. og Kirkjuhvoll ehf. samþykkt skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur frá 21. ágúst 2000 um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina að Austurstræti 18 í Reykjavík, þar sem m.a. er gert ráð fyrir viðbyggingu ofan á þak hússins á lóðinni.  Deiliskipulagsbreytingin var staðfest af borgarráði hinn 29. ágúst 2000 og birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 20. október sama ár.  Í greindum kærum byggja kærendur á sömu eða svipuðum sjónarmiðum og fara hagsmunir þeirra saman.  Úrskurðarnefndin ákvað því að sameina kærumálin og var kærumál nr. 58/2000 sameinað kærumáli nr. 57/2000 sem fyrr barst.  Kærendur gera þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.

Málavextir:  Á miðborgarsvæði Reykjavíkur er í gildi deiliskipulag frá árinu 1988.  Á árinu 1998 var deiliskipulaginu breytt þar sem glerveggur var leyfður á framhlið tveggja neðstu hæða hússins að Austurstræti 18 og heimiluð framlenging kaffihúss með glerskála til suðurs á þaki fyrstu hæðar ásamt afgirtum þaksvölum.

Með bréfi, dags. 23. nóvember 1998, til skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur var sótt um leyfi fyrir þeim breytingum á húsinu að Austurstræti 18 að kaffihús á annarri hæð fengist framlengt út á þak fyrstu hæðar og þaksvalir stækkaðar í samræmi við teikningar frá 19. október 1998.  Nam umsótt stækkun alls 102 fermetrum og var gert ráð fyrir að viðbyggingin yrði úr gleri.  Fyrirspurn um erindið hafði áður verið send Borgarskipulagi sem hafði lagst gegn framkvæmdinni samkvæmt minnisblaði, dags. 11. nóvember 1998. 

Ný byggingarleyfisumsókn um sömu framkvæmdir barst skipulags- og umferðarnefnd með bréfi, dags. 19. janúar 1999, þar sem breytingar höfðu verið gerðar á útfærslu framkvæmdanna frá fyrri umsókn og var umfang þeirra samkvæmt umsókninni 99 fermetrar.  Erindið var tekið fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar hinn 25. janúar 1999 og lá jafnframt fyrir fundinum fyrrgreint minnisblað Borgarskipulags frá 11. nóvember 1998.  Nefndin samþykkti að grenndarkynna breytingu á deiliskipulagi svæðisins til samræmis við umsóttar framkvæmdir.  Við kynninguna bárust athugasemdir frá Karli J. Steingrímssyni f.h. Eignarhaldsfélagsins Kirkjuhvols ehf., framkvæmdastjóra Fítons ehf. og frá Húsafriðunarnefnd.  Borgarskipulag vann umsögn um athugasemdirnar, dags. 2. mars 1999, þar sem fram kom að nokkuð hafi verið gert til að minnka áhrif viðbyggingarinnar frá fyrri tillögu en mælt var enn gegn samþykkt framkvæmdanna.  Málið mun ekki hafa verið lagt fyrir skipulags- og umferðarnefnd að kynningu lokinni.

Á fundi byggingarnefndar hinn 9. mars 2000 var enn lögð fram byggingarleyfisumsókn þar sem sótt var um leyfi til þess að hækka útbyggða glerframhlið að Austurstræti 18 um eina hæð, byggja glerskála fyrir kaffisölu við suðurhlið 2. hæðar, loka þakgluggum á bakbyggingu og breyta þakinu í svalir. Einnig var óskað eftir samþykki fyrir áður gerðum breytingum á stigum í kjallara og á 1. hæð og opum í plötu 1. hæðar hússins.  Í þeirri umsókn hafði glerskálinn verið minnkaður í 68,4 fermetra.  Var málinu vísað til umsagnar Borgarskipulags.  Umsóknin var næst tekin fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar hinn 27. mars 2000 þar sem samþykkt var að kynna hagsmunaaðilum breytingu á deiliskipulagi til samræmis við greinda umsókn samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Umsóknin var í kynningu frá 29. mars til 27. apríl 2000 og bárust athugasemdabréf frá Karli J. Steingrímssyni f.h. Eignarhaldsfélagsins Kirkjuhvols ehf. og frá Fítoni, bæði dags. 10. apríl 2000.  Málið var tekið fyrir að nýju í skipulags- og umferðarnefnd þann 29. maí 2000 þar sem einnig voru lögð fram drög að umsögn Borgarskipulags, dags. 25. maí sama ár, þar sem gerð var sú tillaga um breytingu á umsóttum framkvæmdum að grindverk á þaksvölum yrði dregið inn frá þakbrúnum.  Á fundinum samþykkti nefndin að grenndarkynna tillöguna á ný með þeirri breytingu sem lögð var til í umsögn Borgarskipulags.

Í kjölfar þessarar samþykktar var unnin tillaga að breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar að Austurstræti 18 og hún grenndarkynnt fyrir hagsmunaaðilum að Lækjargötu 2, 2a og 4, Austurstræti 16 og 20 og Pósthússtræti 9 og 11.  Tillagan var í kynningu frá 9. júní til 8. júlí 2000. Við þá grenndarkynningu bárust athugasemdir við tillöguna frá Eignarhaldsfélaginu Kirkjuhvoli ehf. og Homeportal.com á Íslandi með bréfum, dags. 7. júlí 2000.  Tillagan var lögð fyrir skipulags- og umferðarnefnd á ný hinn 21. ágúst 2000 ásamt athugasemdunum og umsögn Borgarskipulags, dags. 17. ágúst 2000, og var skipulagstillagan samþykkt og vísað til borgarráðs.

Borgarráð staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum þann 29. ágúst 2000 með þeirri breytingu þó að gler í vesturhlið fyrirhugaðrar viðbyggingar skyldi vera ógegnsætt.  Fyrir afgreiðsluna hafði borgarráði borist bréf eiganda fasteignarinnar að Austurstræti 16, dags. 28. ágúst 2000, þar sem athugasemdir við deiliskipulagsbreytinguna voru áréttaðar.  Tillagan var síðan send Skipulagsstofnun til skoðunar skv. 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga og athugasemdaaðilum tilkynnt um afgreiðslu málsins með bréfi, dags. 5. september 2000.  Með bréfi, dags. 22. september 2000, tilkynnti Skipulagsstofnun að hún legðist ekki gegn því að auglýsing um gildistöku breytingarinnar yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda. Var auglýsing þar að lútandi birt þann 20. október 2000.

Kærendur sættu sig ekki við samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar og kærðu hana til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur styðja kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar með því að framkvæmd deiliskipulagsbreytingarinnar sé haldin ágöllum og heimiluð viðbygging og nýting þaks fyrstu hæðar að Austurstræti 18 raski hagsmunum þeirra óhæfilega.

Hvað varðar málsmeðferð skipulagsbreytingarinnar bendir annar kærenda á að hún hafi farið fram samkvæmt 2. mgr. 26. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997.  Samkvæmt greindri 2. mgr. 26. gr. laganna eigi að fara fram ítarleg grenndarkynning og í ljósi þess hafi átt að kynna öllum hagsmunaaðilum á deiliskipulagsreitnum breytingartillöguna en svo hafi ekki verið gert.  Ljóst megi vera við lestur 2. mgr. 26. gr. og 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 að til þess að þær eigi að fullu við þurfi að liggja fyrir fullgerð byggingarleyfisumsókn sem ekki sé í samræmi við gildandi skipulag.  Ekkert komi fram í þeim gögnum sem fengist hafi frá Borgarskipulagi að sú hafi verið raunin og því ekki rétt að auglýsa skipulagstillöguna með þeim hætti sem gert hafi verið.

Í 2. mgr. gr. 7.2.3 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 komi fram að kynning á óverulegum breytingum á deiliskipulagi skuli fara fram með sendibréfi til þeirra nágranna sem hagsmuna eigi að gæta.  Þar sem ekki hafi komið fram í gögnum Borgarskipulags að um hafi verið að ræða byggingarleyfisumsókn, verði að telja að umdeild grenndarkynning hafi átt að vera í samræmi við 2. mgr. gr. 7.2.3 í skipulagsreglugerð.  Við beitingu þess ákvæðis verði að líta til gr. 3.1.4 í reglugerðinni við endurskoðun deiliskipulags, en þar sé að finna þau atriði sem fram þurfi að koma í deiliskipulagi.  Í hinni kærðu skipulagsbreytingu sé ekki að finna ýmis þau atriði sem þar séu greind og alvarlegast sé að ekki sé sýnt fram á að greinum 7.5.1-7.5.4 í byggingarreglugerð sé fullnægt varðandi eldvarnir.

Staðfestum uppdrætti af deiliskipulagi Kvosarinnar hafi ekki fylgt greinargerð eða uppdráttur sem geri grein fyrir breytingum á nýtingarhlutföllum lóða og reits, bílastæðum gönguleiðum, byggingarreitum og fleiru eins og eðlilegt væri þegar deiliskipulagi væri breytt.  Upphafleg greinargerð deiliskipulagsins hljóti að þarfnast endurskoðunar á þeim atriðum.  Í 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga segi að farið skuli með óverulegar breytingar á deiliskipulagi samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laganna.  Með þeirri tilvísun séu gerðar kröfur til uppdrátta eins og um byggingarleyfisumsókn væri að ræða en uppdráttur hins kærða deiliskipulags fullnægi ekki þeim kröfum.  Af því leiði að uppdráttur, sem eigi að vera grundvöllur breytingar á deiliskipulagi og jafnframt að uppfylla ákvæði 2. mgr. 26. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, þurfi að vera betur úr garði gerður en uppdrátturinn sem til kynningar var.  Loks er á það bent að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Austurstræti 18 sé allt of hátt og umfram það sem Aðalskipulag Reykjavíkur 1996-2016 geri ráð fyrir og þrengi deiliskipulagsbreytingin kosti nágrannalóða á frekari nýtingu þeirra.

Þá telja kærendur að heimilaðar framkvæmdir með hinu breytta deiliskipulagi raski hagsmunum þeirra sem eiganda og leigjanda húsnæðis að Austurstræti 16.  Heimiluð viðbygging á þaki fyrstu hæðar að Austurstræti 18 valdi skuggavarpi á annarri og þriðju hæð Austurstrætis 16 og viðbyggingin, sem sé úr gleri, ásamt heimiluðum þaksvölum raski starfsskilyrðum og vinnuaðstöðu í þeim hluta húsnæðisins sem að viðbyggingunni snúi vegna nálægðar.  Séð verði inn um glugga annarrar og þriðju hæðar frá kaffihúsinu og þaksvölunum og hætta skapist vegna aðgengis fólks að bakhlið húsnæðis kærenda.  Heimilaðar framkvæmdir með deiliskipulagsbreytingunni muni rýra verðgildi fasteignarinnar að Austurstræti 16.

Málsrök skipulags- og byggingarnefndar:  Af hálfu borgaryfirvalda er gerð sú krafa að ákvörðun borgarráðs frá 29. ágúst 2000 um breytingu á deiliskipulagi varðandi lóðina nr. 18 við Austurstræti verði staðfest enda hafi deiliskipulagsbreytingin verið í fullu samræmi við lög og reglugerðir og með heimiluðum framkvæmdum sé ekki gengið svo á hagsmuni kærenda að varði ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Um óverulega breytingu á deiliskipulagi sé fjallað í 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Hin kærða deiliskipulagsbreyting sé minniháttar enda áhrif breytingarinnar lítil á deiliskipulagið í heild.  Grenndaráhrif hennar séu óveruleg, sérstaklega með tilliti til þeirrar breytingar sem áður hafði verið samþykkt á deiliskipulagi Kvosarinnar varðandi sömu lóð á árinu 1998.  Breytingin varði einungis eina lóð auk þess sem hún snerti hagsmuni tiltölulega fárra.  Óumdeilt sé að ekki þurfti að fara með tillöguna skv. 1. mgr. 26. gr. og auglýsa hana.

Eins og fram komi í skilgreiningu hugtaksins „grenndarkynning“ í grein 1.3 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 felist í því að nágrönnum, sem skipulagsnefnd telji að hagsmuna eigi að gæta, sé kynnt málið og gefinn kostur á að tjá sig innan ákveðins frests.  Með þessu sé verið að heimila einfaldari málsmeðferð en ef um verulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða.  Þeim skilningi kærenda að kynna hefði átt breytinguna fyrir öllum á deiliskipulagssvæði Kvosarskipulagsins sé því hafnað.  Hins vegar sé fallist á að með orðasamsetningunni „ítarleg grenndarkynning” í 2. mgr. 26. gr. sé m.a. verið að vísa til þess að kynningin skuli ná til þeirra sem hagsmuna eiga að gæta en jafnframt sé verið að vísa til þess að kynningargögn skuli vera með þeim hætti að auðvelt sé að átta sig á í hverju breytingin sé fólgin og hvaða áhrif hún hafi.  Reykjavíkurborg fullyrðir að í báðum þessum atriðum hafi kröfunni um ítarleika verið fullnægt. 

Eins og fram komi í öllum gögnum málsins, og kærendur fallist reyndar á í kæru sinni, var með hinni kærðu ákvörðun ekki verið að samþykkja byggingarleyfi að Austurstræti nr. 18.  Sú kynning sem fram hafi farið hafi verið kynning á óverulegri breytingu á staðfestu deiliskipulagi Kvosarinnar.  Hvorki í skipulags- og byggingarlögum né þeim stjórnvaldsreglum sem settar hafi verið á grundvelli þeirra komi framað forsenda fyrir deiliskipulagsbreytingu samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga sé að fyrir liggi fullgild byggingarleyfisumsókn.  Tillagan þurfti því ekki að uppfylla kröfur sem gerðar séu til aðaluppdrátta eins og þegar um byggingarleyfisumsókn er að ræða.

Sú fullyrðing annars kærenda að hin kærða breyting á deiliskipulagi sé ekki í samræmi við ákvæði greinar 3.1.4. í skipulagsreglugerð sé röng.  Hafa verði í huga að að hin kærða ákvörðun hafi verið breyting á staðfestu deiliskipulagi sem breytti aðeins byggingarmagni á einni lóð.  Sú stefna og skilmálar sem fram komi í greinargerð með upphaflegu deiliskipulagi gildi áfram.  Útfærsla bygginga á lóðinni hafi verið önnur en við gildistöku upphaflegs skipulags og því eðlilegt að nýjar skýringarmyndir séu sýndar auk þess sem þær gefi hagsmunaaðilum skýra mynd af því sem heimilt verði að byggja á lóðinni að Austurstræti 18.  Gögn þau sem til kynningar voru vegna umdeildrar deiliskipulagsbreytingar hafi sýnt gildandi skipulag og breytingar þær sem breytingartillagan hafi falið í sér.

Vegna skírskotunar kærenda til þess að ekki hafi verið tekið tillit til ákvæða greinar 75 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 bendir Reykjavíkurborg á það að víkja megi frá skilyrðum ákvæðisins um fjarlægð húss frá lóðarmörkum í skipulagi skv. gr. 75.4, og almennt sé um slíkt frávik að ræða í miðborg Reykjavíkur.  Við deiliskipulagsgerð sé ekki farið ofan í saumana á hönnun mannvirkis, efnisvali og öðrum atriðum er snerti brunavarnir heldur sé þess gætt við útgáfu byggingarleyfis að þeim kröfum sé fullnægt.  Hafi svo verið gert við útgáfu byggingarleyfis á grundvelli hins breytta deiliskipulags eins og samþykktir aðaluppdrættir af húsinu beri með sér, þar sem m.a. sé gert ráð fyrir vatnsúðunarkerfi í hinni umdeildu viðbyggingu.

Við mat á grenndaráhrifum umdeildrar deiliskipulagsbreytingar verði að hafa í huga að með breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar, sem samþykkt hafi verið í borgarráði Reykjavíkur 22. september 1998, hafi verið heimilað að byggja glerbyggingu ofan á 1. hæð hússins nr. 18 við Austurstræti og gera þar svalir.  Breyting sú sem fólst í hinni kærðu ákvörðun sé því ekki veruleg þrátt fyrir að glerbyggingin stækki nokkuð og heimilt verði að nýta stærri hluta þaksins sem svalir.  Þá verði að líta til þess að fasteignin að Austurstræti 16 sé ætluð fyrir atvinnustarfsemi og standi í miðborg Reykjavíkur og nálægð við önnur hús því mikil.  Í slíkum tilvikum verði að búast við vissu óhagræði sem slíkri nálægð fylgi.  Skuggavarp og skerðing útsýnis vegna glerbyggingarinnar verði lítið gagnvart fasteigninni að Austurstræti 16 og muni skuggavarps aðeins gæta á annarri hæð fram til kl. 10 að morgni við sumarsólstöður.   Bent er á að deiliskipulagið geri ráð fyrir að vesturhlið glerbyggingarinnar, sem snúi að Austurstræti 16, verði ógegnsæ eins og kærendur hafi krafist.  Þá sé veðrátta á Íslandi með þeim hætti að telja verði ólíklegt að þaksvalirnar verði í notkun nema lítinn hluta ársins.  Reykjavíkurborg telji jafnframt eins og aðstæðum sé háttað að hætta á innbrotum og skemmdarverkum vegna breytingarinnar aukist vart.   Í ljósi þessa telji Reykjavíkurborg að umdeild deiliskipulagsbreyting raski ekki hagsmunum kærenda í þeim mæli að réttlæti ógildingu skipulagsbreytingarinnar.

Komi til skoðunar önnur atriði við meðferð málsins en Reykjavíkurborg hafi þegar tekið afstöðu til er þess farið á leit að borgaryfirvöld fái að tjá sig sérstaklega um þau áður en úrskurður gangi í málinu.

Niðurstaða:  Kærendur byggja kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar annars vegar á því að hún hafi ekki verið réttilega framkvæmd en hins vegar með þeim rökum að viðbygging á þaki fyrstu hæðar hússins að Austurstræti 18 og þaksvalir sem heimilaðar eru með deiliskipulagsbreytingunni gangi verulega á hagsmuni kærenda.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting lýtur eingöngu að breytingu á fasteigninni að Austurstræti 18 en felur ekki í sér breytingar á almennum skilmálum deiliskipulags svæðisins.  Umrædd breyting felur í sér aukna nýtingu á lóð fasteignarinnar sem nemur 68,4 fermetrum með umdeildri viðbyggingu úr gleri og svölum á þaki fyrstu hæðar og fer nýtingarhlutfall lóðarinnar úr 3,2 í 3,3.  Verður að telja breytinguna að umfangi og eðli það lítilvæga að heimilt hafi verið að fara með hana að hætti 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Ekki er fallist á að við óverulega breytingu á deiliskipulagi samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga þurfi að liggja fyrir byggingarleyfisumsókn sem í einhverju víki frá gildandi skipulagi.  Minni háttar breytingar á deiliskipulagi geta byggst á ýmsum ástæðum og hvergi er að finna í lögunum umrætt skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins.  Þá verður ekki tekið undir þá skoðun að grenndarkynning samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laganna, sem vitnað er til í 2. mgr. 26. gr., hafi þurft að ná til allra á viðkomandi deiliskipulagsreit þar sem þeir verði að teljast hagsmunaaðilar í skilningi ákvæðisins.  Fram kemur í nefndri 7. mgr. 43. gr. laganna að grenndarkynning felist í því að nágrönnum sem hagsmuna eigi að gæta er kynnt málið og gefinn kostur á að tjá sig.  Hverjir teljast eiga hagsmuna að gæta verður að meta í hverju tilfelli með tilliti til aðstæðna og eðlis breytinganna.  Deiliskipulagsbreyting, sem bundin er við eina lóð og fullnægir því skilyrði 2. mgr. 26. gr. laganna að teljast óveruleg, snertir að jafnaði aðeins næstu nágranna þeirrar lóðar sem breytingin nær til.  Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en öllum þeim, sem eiga og nýta húsnæði umhverfis lóðina að Austurstræti 18, hafi verið kynnt fyrirhuguð deiliskipulagsbreyting á lóðinni og verður því ekki séð að grenndarkynningunni hafi verið ábótavant að þessu leyti.

Í gr. 5.5 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 eru ákvæði um það hvernig setja skuli fram breytingar á skipulagsáætlunum.  Gera þarf grein fyrir hvaða reit breyting eigi við í gildandi skipulagsáætlun, í hverju breytingin felist í máli og myndum og sýna þarf reit eins og hann er fyrir og eftir fyrirhugaða breytingu.  Skýra þarf merki og tákn sem á skipulagsuppdrætti standa en að öðru leyti skulu gögn vera í samræmi við gr. 5.1- 5.4 eftir því sem við á.

Við kynningu á hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu lá fyrir skipulagsuppdráttur er sýndi skýrt við hvaða reit breytingartillagan átti, í hverju hún var fólgin, útlit húss fyrir og eftir breytingu og breytt nýtingarhlutfall lóðarinnar að Austurstræti 18.  Grein 3.1.4 í skipulagsreglugerð, sem annar kærenda vísar til, á við um frumgerð deiliskipulags en ekki breytingar á staðfestu skipulagi.  Ekki er fallist á þá túlkun kæranda að skírskotun 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga til 7. mgr. 43. gr. laganna feli í sér kröfur um sambærilega uppdrætti eins og um byggingarleyfisumsókn væri að ræða.  Greind tilvísun á einungis við um framkvæmd grenndarkynningar eins og fyrr hefur verið rakið.  Framsetning hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var því í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og skipulagsreglugerðar.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 bls. 29 er tekið fram að fyrir deiliskipulögð svæði, svo sem Kvosina, gildi það nýtingarhlutfall sem þar sé staðfest en nýtingarhlutfall einstakra lóða verði þó alltaf breytilegt og ráðist það af staðháttum svo sem umfangi byggingar og nýtingarhlutfalli aðliggjandi lóða.  Komi fram tillaga þar sem verulega sé farið yfir það nýtingarhlutfall sem aðalskipulag geri ráð fyrir skuli unnið deiliskipulag og það auglýst samkvæmt skipulagslögum.  Á bls. 30 í nefndu aðalskipulagi Reykjavíkur kemur og fram að þær tölur um nýtingarhlutfall einstakra landnotkunarsvæða sem þar eru settar eru til viðmiðunar.  Þegar horft er til þessara atriða í aðalskipulagi verður að telja heimilt að víkja frá nýtingarhlutfallstölum aðalskipulags.  Sé frávik til hækkunar verulegt verður að gera hana með deiliskipulagsgerð en ella með grenndarkynningu á byggingarleyfisumsókn samkvæmt 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Hin kærða deilskipulagsbreyting verður þar af leiðandi ekki talin andstæð aðalskipulagi þótt þar sé vikið frá viðmiðunartölum aðalskipulagsins um nýtingarhlutfall.

Það fellur ekki innan verkahrings úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til hvort deiliskipulagsbreyting hafi í för með sér bótaskyldu, sbr. 3. mgr. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Verður því ekki tekin afstaða til þeirrar málsástæðu annars kæranda.

Kærendur benda á að heimiluð viðbygging og þaksvalir muni raska verulega hagsmunum þeirra.  Framkvæmdin valdi skuggavarpi á annarri og þriðju hæð að Austurstræti 16, nýting þaksvala og glerbyggingin raski starfsskilyrðum með því að séð verði inn um glugga frá glerbyggingunni og aðgengi fólks út á þakið valdi ónæði og  auki hættu á því að fólk komist að bakhlið hússins að Austurstræti 16.

Húsin að Austurstræti 16 og 18 standa í miðborg Reykjavíkur þar sem byggð er þétt og hátt nýtingarhlutfall lóða og húsin eingöngu nýtt undir atvinnustarfsemi.  Við slíkar aðstæður, þar sem nálægð húsa er mikil, er óhjákvæmilegt að mannvirki skyggi hvert á annað og séð verði inn um óbyrgða glugga milli bygginga.  Af mælingu á skuggavarpi á fasteign kærenda má ráða að það vari í tvo til þrjá tíma fyrir hádegi.  Að þessu virtu og með hliðsjón af því að deiliskipulag lóðarinnar að Austurstræti 18 fyrir umdeilda breytingu gerði ráð fyrir nýtingu þaksins á fyrstu hæð hússins verður ekki talið að deiliskipulagsbreytingin raski hagsmunum kærenda svo að ógilda eigi hina kærðu ákvörðun.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar sú að hafna beri kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar á lóðinni nr. 18 við Austurstræti.

Uppkvaðning úrskurðar í málinu hefur dregist verulega vegna þess málafjölda sem skotið hefur verið til nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um ógildingu á samþykkt skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur frá 21. ágúst 2000 um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina að Austurstræti 18 í Reykjavík er hafnað.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                       Ingibjörg Ingvadóttir