Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

10/2002 Laufásvegur

Ár 2002, miðvikudaginn 15. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2002, kæra fimm eigendur íbúða að Laufásvegi 19, Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. apríl 2002 um að veita byggingarleyfi fyrir tengibyggingu á lóð nr. 21-23 við Laufásveg.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. maí 2002, sem barst nefndinni 7. sama mánaðar, kæra fimm eigendur íbúða að Laufásvegi 19 í Reykjavík, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. apríl 2002 um að veita byggingarleyfi fyrir tengibyggingu á lóð nr. 21-23 við Laufásveg.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur 2. maí 2002.  Krefjast kærendur þess að hin kærða ákvörðun verði ógilt.  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. maí 2002, sem nefndinni barst 10. sama mánaðar, krefjast kærendur þess að framkvæmdir við bygginguna verði stöðvaðar.

Eftir að krafa kærenda um stöðvun framkvæmda barst úrskurðarnefndinni var skrifstofustjóra byggingarfulltrúans í Reykjavík þegar gert viðvart um kæruna og framkomnar kröfur.  Jafnframt var fulltrúa byggingarleyfishafa, sem er Sendiráð Bandaríkjanna, gert viðvart um málið.  Hefur úrskurðarnefndin aflað nánari upplýsinga um hið umdeilda byggingarleyfi frá byggingarfulltrúa.  Jafnframt hafa borist mótmæli byggingarleyfishafa við kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu kærenda að umræddar framkvæmdir verði stöðvaðar.

Málavextir:  Í þessum þætti málsins verður einungis gerð stuttlega grein fyrir málavöxtum og aðeins að því marki er þýðingu hefur við ákvörðun um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Byggingarleyfishafi, Sendiráð Bandaríkjanna, sótti um leyfi til þess að byggja tengigang úr stálgrindareiningum milli húsa sendiráðs Bandaríkjanna á lóðinni nr. 21-23 við Laufásveg og nr. 34 við Þingholtsstræti í Reykjavík samkvæmt framlögðum uppdráttum.  Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði og var ákveðið að kynna umsóknina fyrir nágrönnum, m.a. kærendum.

Erindið var til kynningar frá 1. mars til 2. apríl 2002.  Athugasemdir bárust frá kærendum þar sem fyrirhuguðum framkvæmdum var mótmælt á meðan enn væru óleyst lóðarmál húss kærenda, en vandamál hafa skapast í kjölfar þess að baklóð að Laufásvegi 19 hefur verið skilin frá eigninni og ráðstafað til Sendiráðs Bandaríkjanna ásamt bílskúrum sem þar standa.

Af hálfu byggingaryfirvalda þóttu athugasemdir kærenda ekki standa í vegi fyrir því að veita mætti leyfi það sem um var sótt og var leyfið veitt hinn 24. apríl 2002 en byrjað mun hafa verið á framkvæmdum við bygginguna hinn 6. maí 2002.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að hið umdeilda byggingarleyfi sé andstætt lögvörðum hagsmunum þeirra.  Tilkoma fyrirhugaðrar tengibyggingar muni auka á umferð um baklóðina við hús þeirra, en lóðin að Laufásvegi 17-19 sé í fasteignamati skráð ein óskipt lóð og hafi eigendur greitt skatta og skyldur af allri lóðinni í hlutfalli við eignarhluti sína í húsunum.

Þá hafi arkitekt byggingarinnar verið viðstaddur afgreiðslu málsins í skipulags- og byggingarnefnd sem varamaður í nefndinni og ekki vikið sæti heldur einungis setið hjá við afgreiðslu málsins, en það hafi að mati kærenda verið ófullnægjandi.

Málsrök byggingarfulltrúa:  Af hálfu byggingarfulltrúa er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda mótmælt og vísað til fyrirliggjandi gagna, m.a. umsagnar Ívars Pálssonar, lögfræðings, f.h. skipulags- og byggingarsviðs, um athugasemdir kærenda við grenndarkynningu málsins.  Telur embætti byggingarfulltrúa engin rök standa til þess að fallast beri á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda mótmælt.  Ekki sé viðurkennt að tengibyggingin liggi að öðrum lóðamörkum en Þingholtsstrætis 30, en fyrir liggi skriflegt samþykki eigenda þeirrar eignar fyrir hinni umdeildu byggingu.  Byggingaryfirvöld hafi veitt leyfi fyrir byggingunni svo sem lög standi til og séu framkvæmdir á lóð sendiráðsins í samræmi við það leyfi. 

Niðurstaða:  Óumdeilt er að framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi eru innan marka lóðar Sendiráðs Bandaríkjanna.  Með ákvörðun um stöðvun framkvæmda á lóðinni væri lagt fyrir borgarstjórn Reykjavíkur að framfylgja henni með aðstoð lögreglu ef þörf krefði, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Slík íhlutun íslenskra stjórnvalda væri andstæð þeim réttindum sem sendiráðinu eru tryggð með Vínarsamningnum um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, en með lögum nr. 16/1971 var ríkisstjórn Íslands veitt heimild til aðildar að samningnum fyrir Íslands hönd.  Nýtur sendiráðssvæðið friðhelgi samkvæmt ákvæði 22. greinar samningsins en jafnframt njóta sendierindrekar friðhelgi og eru undanþegnir framkvæmdarvaldslögsögu móttökuríkis samkvæmt 31. gr. hans.  Er það ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að mæla fyrir um réttarvörslu sem væri andstæð þjóðréttarlegum skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt framansögðu og ekki yrði af þeim sökum haldið uppi.  Er kröfu kærenda í máli þessu um stöðvun framkvæmda því hafnað.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda við tengibyggingu á lóð Sendiráðs Bandaríkjanna við Laufásveg í Reykjavík er hafnað.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                             Ingibjörg Ingvadóttir