Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

1/2000 Kringla

Ár 2000, miðvikudaginn 30. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn, Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, formaður nefndarinnar, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2000; kæra H, Malarási 4, Reykjavík á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes og Grafningshrepps frá 1. desember 1999 um að samþykkja deiliskipulag frístundabyggðar að Kringlu II í Grímsnesi og á ákvörðun um breytingu á svæðisskipulagi Þingvalla-, Grímsness og Grafningshreppa, er varðar landnotkun að Kringlu II og staðfest var af umhverfisráðherra hinn 4. október 1999.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags 17. janúar 2000, kærir H, Malarási 4, Reykjavík ákvörðun sveitarstjórnar Grímsness og Grafningshrepps frá 1. desember 1999 um að samþykkja deiliskipulag frístundabyggðar að Kringlu II í Grímsnesi og ákvörðun um breytingu svæðisskipulagi Þingvalla-, Grímsness og Grafningshreppa, sem staðfest var af umhverfisráðherra hinn 4. október 1999, varðandi landnotkun að Kringlu II.  Kæran barst nefndinni í símbréfi hinn 17. janúar 2000 en frumrit kærubréfs ásamt fylgiskjölum nokkrum dögum síðar.

Krefst kærandi þess að ákvörðun sveitarstjórnar um samþykkt deiliskipulags frístundabyggðar að Kringlu II verði felld úr gildi, svo og staðfesting ráðherra á nefndri breytingu svæðisskipulags Þingvalla-, Grímsness og Grafningshreppa.

Með símbréfi, dags. 2. maí 2000, krafðist Jón Magnússon hrl., f.h. kæranda þess að framkvæmdir á grundvelli hinna kærðu ákvarðana yrðu stöðvaðar og að þegar í stað yrði kveðinn upp úrskurður um það atriði, sbr. 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997.  Við eftirgrennslan kom í ljós að ekki voru hafnar framkvæmdir á svæðinu.  Lýsti Ævar Guðmundsson hdl., lögmaður eiganda Kringlu II, því yfir nokkru síðar að af hálfu umbjóðanda hans yrði ekki unnið að neinum framkvæmdum á grundvelli hinna kærðu ákvarðana meðan málið væri til meðferðar hjá nefndinni.  Hefur því ekki komið til þess að kveðinn væri upp úrskurður um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda og er ekki til þess vitað að nokkrar framkvæmdir hafi átt sér stað eftir að krafa um stöðvun þeirra var sett fram.

Málavextir:  Kærandi er eigandi að Kringlu I í Grímsnesi.  Munu eigendur Kringlu I og Kringlu II hafa viljað skipta óskiptu landi í sameign jarðanna en samkomulag ekki náðst um skiptin.  Kveður kærandi ágreining hafa verið um landstærð jarðanna og um það hvaða land tilheyrði hvorum eignarhluta.  Með bréfi, dags. 9. júní 1997, óskaði eigandi Kringlu II eftir því að skiptin yrðu ákvörðuð með landskiptagjörð samkvæmt ákvæðum laga nr. 46/1941.  Var landskiptagjörð gerð um jarðirnar og frá henni gengið af hálfu skiptamanna hinn 16. október 1997.  Er landskiptagjörð þessi samþykkt af sveitarstjórn, jarðanefnd og Bændasamtökum Íslands og staðfest í landbúnaðarráðuneytinu svo sem lög standa til.  Jafnframt var gjörðinni þinglýst.

Kærandi vildi ekki una landskiptagjörð þessari og krafðist yfirmats.  Yfirmatsnefnd komst að þeirri niðurstöðu, að þar sem ágreiningur væri um túlkun afsals fyrir Kringlu I væri henni ekki fært að skipta landinu.  Frestaði yfirmatsnefndin málinu þar til ágreiningur aðila, m.a. um landstærð, hefði verið leystur af þar til bærum aðilum.  Hefur landskiptamálið enga frekari meðferð hlotið fyrir yfirmatsnefndinni.

Eigandi Kringlu II mun hafa leitað eftir leyfi sveitarstjórnar til að skipuleggja svæði fyrir frístundabyggð í landi jarðarinnar.  Var samþykkt á fundi sveitarstjórnar hinn 12 maí 1998 að heimila að auglýst yrði deiliskipulag svæðisins.  Athugasemdir bárust frá Vegagerðinni og kæranda og voru þær teknar til umfjöllunar í sveitarstjórn á fundi hinn 25. ágúst 1998.  Var afgreiðslu skipulagsins frestað þar til skiptagjörð lægi fyrir, einnig yrði landnýtingu breytt í núgildandi svæðisskipulagi.  Breyting var gerð á landnýtingu svæðisskipulagsins fyrir Kringlu II og hún samþykkt á fundi sveitarstjórnar hinn 2. júní 1999.  Á fundi sveitarstjórnar hinn 7. júlí 1999 var deiliskipulag svæðisins tekið til umfjöllunar og var skipulagið samþykkt með vísun til þess að fyrir lægi landskiptagjörð á jörðunum Kringlu I og Kringlu II, samþykkt af hreppsnefnd Grímsneshrepps 4. nóvember 1997 og þinglýst 4. ágúst 1998.  Óveruleg breyting á skipulaginu var samþykkt á fundi sveitarstjórnar hinn 1. desember 1999.  Var skipulagið svo búið sent til umsagnar Skipulagsstofnunar.  Með bréfi til sveitarstjóra, dags. 16. desember 1999, tilkynnti Skipulagsstofnun að ekki væri gerð athugasemd við að tilkynning um gildistöku deiliskipulagsins yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er aðallega á því byggt að ekki hafi verið unnt að ganga frá þeim skipulagsbreytingum, sem kæran tekur til, þar sem ágreiningur hafi verið milli eigenda Kringlu I og II um landskipti og landstærð.  Ákvarðanir sveitarstjórnar og Skipulagsstofnunar séu af þessu sökum markleysa.  Landskiptagjörðin frá 16. október 1997 sé markleysa og andstæð lögum, enda hafi yfirmatsnefnd komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri unnt að framkvæma landskiptin fyrr en ágreiningur aðila hefði verið til lykta leiddur með dómi eða samkomulagi.  Af þessum ástæðum hafi ekki verið hægt að deiliskipuleggja land Kringlu II svo sem gert hafi verið og séu ákvarðanir sveitarstjórnar um skipulagið ekki reistar á lögmætum grundvelli.

Þá telur kærandi að málsmeðferð sveitarstjórnar hafi verið ólögmæt, m.a. hafi ekki verið gætt andmælaréttar hans og að rökstuðningi hafi verið áfátt.  Bæði hafi skort efnislegar og lagalegar forsendur fyrir hinum kærðu ákvörðunum og hafi ómálefnaleg sjónarmið og sérhagsmunir ráðið gerðum sveitarstjórnar.  Ákvarðanirnar séu andstæðar skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, lögum um landskipti nr. 46/1941, stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og sjónarmiðum um jafnræði borgaranna, sbr. 65. gr. stjórnskipunarlaga nr. 33/1944 með síðari breytingum.

Andmæli eiganda Kringlu II:  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. maí 2000, rekur Ævar Guðmundsson hdl., fh. J, eiganda Kringlu II, sjónarmið hans í málinu.  Er í bréfinu rakinn aðdragandi að áðurnefndri landskiptagjörð og málsmeðferð í landskiptamálinu og á það bent að yfirmatsnefnd hafi hafnað kröfu kæranda um að ógilda landskiptagjörðina.  Því sé landskiptagjörðin frá 16. október 1997 í gildi og hafi kæranda mátt vera það ljóst.  Allt að einu hafi hann látið hjá líða að bera landskiptagjörðina undir dómstóla og uni henni því í raun.  Ágreiningi eigenda Kringlu I og II hafi því lokið með umræddri landskiptagjörð.

Umsögn sveitarstjórnar:  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. maí 2000, gerir sveitarstjórn Grímsness og Grafningshrepps grein fyrir sjónarmiðum sínum í málinu.  Er í bréfinu ítarlega rakin meðferð sveitarstjórnar við undirbúning hinnar umdeildu ákvörðunar um deiliskipulag frístundabyggðar að Kringlu II.  Telur sveitarstjórn að málsmeðferðin hafi verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og að gætt hafi verið stjórnsýslulaga við meðferð málsins eftir því sem við hafi átt.  Svörum vegna athugasemda hafi verið beint til lögmanns kæranda, sem komið hafi athugasemdunum á framfæri og verði að telja að með því hafi andmælaréttar og tilkynningarskyldu verið gætt.  Þá hafi sveitarstjórn verið rétt að leggja til grundvallar ákvörðunum sínum þinglýsta landskiptagerð sem hafi lögformlegt gildi þrátt fyrir ágreining eigenda jarðarhlutanna.  Allvíða í sveitarfélaginu hafi jarðir eða jarðarhlutar verið teknir undir frístundabyggð þar sem hefðbundinn landbúnaður hafi lagst af á undanförnum árum.  Á Kringlu hafi hefðbundinn búskapur ekki verið stundaður um árabil.  Loks er áréttað að Skipulagsstofnun hafi ekki gert athugasemd við að gildistaka hins umdeilda deiliskipulags yrði auglýst í Stjórnartíðindum.

Athugasemdir kæranda:  Með símbréfi úrskurðarnefndarinnar hinn 6. júní 2000 var lögmanni kæranda gefinn kostur á að tjá sig um framkomin andmæli eiganda Kringlu I og umsögn sveitarstjórnar.  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. ágúst 2000, svarar lögmaður kæranda andmælum eiganda Kringlu II og telur þau ekki breyta neinu um þau kæruefni, sem um sé fjallað í málinu.  Ágreiningur hafi lengi verið milli eigenda Kringlu I og II um landstærð og hafi þetta komið fram við gerð margnefndrar landskiptagerðar.  Þá hafi afgreiðsla yfirmatsnefndar á landskiptamálinu hingað til ekki verið viðunandi en því máli sé ekki lokið.  Loks bendir lögmaðurinn á að nú liggi fyrir að ekkert aðalskipulag sé í gildi fyrir Grímsneshrepp.  Þegar af þeirri ástæðu standist ekki hið umdeilda deiliskipulag, sbr. 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þá verði ekki séð hvernig svæðisskipulag verði unnið og frágengið þar sem á skorti að aðalskipulag hafi verið gert.

Niðurstaða:  Auglýsing um staðfestingu umhverfisráðherra á breytingu þeirri á svæðisskipulagi Þingvalla-, Grímsness og Grafningshreppa, sem kærð er í máli þessu, var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 6. október 1999.  Kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar var því liðinn er kæra barst nefndinni hinn 17. janúar 2000, en miða verður upphaf kærufrests við hina opinberu birtingu staðfestingarinnar. Ber því að vísa þessum lið í kærunni frá nefndinni, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Leggja verður til grundvallar að hin þinglesna landskiptagjörð hafi gildi meðan henni hefur ekki verið hnekkt.  Kærandi hefur ekki, svo vitað sé, gert reka að því að höfða mál til ógildingar á henni eða leitað annarra leiða til þess að binda endi á ágreining eigenda Kringlu I og II um landstærð og landskipti.  Meðan svo horfir, er óráðið hverra hagsmuna kærandi á að gæta í málinu, en ekki er á færi úrskurðarnefndarinnar að skera úr réttarágreiningi eigenda Kringlu I og II um um landskiptin. Vegna þeirrar óvissu, sem ríkir um réttarstöðu kæranda, telur úrskurðarnefndin ekki ljóst að hann eigi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um gildi hins umdeilda deiliskipulags og verður kröfu hans um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar um samþykkt þess því einnig vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur tafist vegna tímafrekrar gagnaöflunar og síðar vegna sumarleyfa.

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda í máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.