Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

38/1999 Mýrarvegur

Ár 2000, mánudaginn 21. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 38/1999; kæra KV og KI á samþykkt bæjarstjórnar Akureyrar frá 18. maí 1999 um deiliskipulag við Mýrarveg, norðan Akurgerðis á Akureyri.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. júlí 1999, er barst nefndinni hinn 20. sama mánaðar, kærir María Thejll hdl. f.h. KV og KI, Kotárgerði 12, Akureyri, deiliskipulag við Mýrarveg, norðan Akurgerðis, Akureyri, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda þann 21. júní 1999.  Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að krafist sé ógildingar samþykktar bæjarstjórnar Akureyrar frá 18. maí 1999 á umræddu deiliskipulagi og að það verði fellt úr gildi.

Málavextir:  Í maí 1997 barst skipulagsnefnd Akureyrar umsókn um byggingarlóð á horni Akurgerðis og Mýrarvegar samkvæmt tillöguuppdráttum sem fylgdu umsókninni.  Var óskað eftir því að skipulagsnefnd léti gera breytingar á þágildandi skipulagi, þannig að heimilað yrði að reisa íbúðir eldri borgara á umræddu svæði, en í aðalskipulagi var svæði þetta skilgreint sem opið svæði, útivistarsvæði.  Á fundi þann 13. júní 1997 fól nefndin skipulags- og umhverfisstjóra, ásamt byggingarfulltrúa, að gera athugun á heildarskipulagi svæðisins.  Haustið 1997 voru unnar frumtillögur að skipulagi íbúðasvæðis við norðurhluta Mýrarvegar og athugaðir margir mismunandi möguleikar á uppbyggingu svæðisins.  Á fundi skipulagsnefndar 28. nóvember 1997 var skipulagsdeild falið að gera nánari athugun á stærð og staðsetningu húsa á svæðinu, auk þess sem ákveðið var að kynna málið fyrir nágrönnum og öðrum bæjarbúum.  Almennur kynningarfundur var haldinn þann 11. desember 1997, þar sem kynntar voru tvær tillögur að skipulagi reitsins og var í þessum tillögum gert ráð fyrir allt að sjö hæða fjölbýlishúsum á svæðinu.  Á fundi þessum kom fram nokkuð almenn andstaða gegn byggingu hárra fjölbýlishúsa á svæðinu en ekki virðist hafa komið fram veruleg andstaða gegn því að umrætt svæði yrði að hluta nýtt fyrir íbúðarbyggingar. 

Á sama tíma og unnin voru frumdrög að deiliskipulagi umrædds svæðis stóð yfir endurskoðun aðalskipulags Akureyrar.  Voru við þá endurskoðun m.a. gerðar breytingar á skilgreindri landnotkun á umræddu svæði til samræmis við áform um uppbyggingu þess.  Nýtt aðalskipulag Akureyrar var samþykkt af bæjarstjórn hinn 19. maí 1998 og staðfest af umhverfisráðherra 4. september sama ár.  Er þar gert ráð fyrir byggðareit fyrir íbúðir aldraðra á hluta þess svæðis við norðurenda Mýrarvegar sem áður var skilgreint sem opið svæði til útivistar og, ef til kæmi, sem vegstæði fyrir tengingu Mýrarvegar til norðurs, en í hinu nýja aðalskipulagi er horfið frá fyrri áformum um lagningu vegar til norðurs eftir svæðinu.

Tillaga að deiliskipulagsramma fyrir byggingarlóð á svæðinu var samþykkt á fundi skipulagsnefndar hinn 17. júlí 1998.  Var lóðin auglýst til umsóknar með þeim skilmálum að umsókn skyldi fylgja frumtillaga að skipulagi lóðar og húsgerð í samræmi við samþykktan skipulagsramma.  Var við það miðað að tillaga að deiliskipulagi yrði síðan unnin í samráði við lóðarhafa á grundvelli frumtillögu hans.  Var lóðinni úthutað með þessum hætti hinn 17. október 1998 og lét lóðarhafi vinna nánar úr frumtillögu sinni.  Var tillaga þessi síðan kynnt á almennum borgarafundi hinn 3. febrúar 1999.  Nokkur andstaða kom fram á fundi þessum við hæð fyrirhugaðra húsa á lóðinni, auk athugasemda um einstök atriði, einkum fyrirkomulag bílastæða.

Vegna framkominna athugasemda voru gerðar nokkrar minni háttar breytingar á tillögunni og var hún síðan auglýst með lögskyldum hætti sem tillaga að deiliskipulagi svæðisins.  Mótmæli bárust frá fjölmörgum íbúum og eigendum fasteigna við Kotárgerði, Mýrarveg og Hamarsstíg.  Voru athugasemdir þessar ræddar á fjórum fundum skipulagsnefndar og samþykkti meirihluti nefndarinnar tillöguna með minniháttar breytingum, sem einkum vörðuðu fyrirkomulag bílastæða, á fundi sínum hinn 11. maí 1999.  Var skipulagstillagan samþykkt á fundi bæjarstjórnar Akureyrar hinn 18. maí 1999 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 21. júní 1999 að fenginni lögboðinni umsögn Skipulagsstofnunar.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er því er haldið fram að deiliskipulag svæðisins sé ekki í samræmi við samþykkt aðalskipulag, auk þess sem það brjóti gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og reglugerða. Byggja þeir á eftirgreindum málsástæðum:

Því er haldið fram að uppdráttur sá, sem lagður hafi verið til grundvallar við kynningu deiliskipulagsins þann 3. febrúar 1999, hafi ekki verið fullnægjandi.  Hafi hlutföll og afstaða hinna fyrirhuguðu bygginga verið röng og hafi deiliskipulagstillagan því ekki verið kynnt með fullnægjandi hætti.  Ekki komi fram á teikningum hver sé brúttógrunnflötur hverrar hæðar fyrir sig, auk bílageymslu.  Af því leiði að ekki sé hægt að staðreyna hvort uppgefið nýtingarhlutfall í deiliskipulaginu sé rétt, en það sé sagt vera 0,76 og sé þá ekki reiknað með bílageymslum neðanjarðar.  Þá hafi ekki verið gerð viðhlítandi grein fyrir þeim breytingum á aðalskipulagi sem gerðar hafi verið sem undanfari tillögu að deiliskipulagi svæðisins.  Upplýsingar hafi því ekki verið nægar í deiliskipulagstillögu þeirri sem kynnt hafi verið fyrir íbúum og hafi því ekki verið fullnægt ákvæði 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um kynningu deiliskipulagsins.  

Þá halda kærendur því fram að óheimilt sé að reikna ekki með bílageymslum neðanjarðar við útreikning nýtingarhlutfalls skv. skilgreiningu í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 gr. 1.3.  Af þeim teikningum sem lagðar hafi verið fram á kynningarfundinum 3. febrúar 1999 virðist mega ráða að grunnflötur bílageymslunnar sé stærri en hæðanna 5 og megi því leiða að því sterkar líkur að nýtingarhlutfall lóðarinnar sé meira en 1,0.  Nýtingarhlutfallið 1,0 sé hæsta hlutfallið sem leyfilegt sé skv. aðalskipulagi fyrir 4-5 hæða hús og hafi því ákvæði aðalskipulags um nýtingarhlutfall verið brotin í deiliskipulaginu svo og ákvæði 23. gr. laga nr. 73/1997.  Þar af leiði að deiliskipulagið sé ólögmætt.

Kærendur telja að ekki hafi verið leitað eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa og annarra þeirra sem hagsmuna hafi átt að gæta með þeim hætti sem lög áskilji um mörkun stefnu og skipulagsmarkmið.  Vitna kærendur þessu til stuðnings til ákvæða 4. mgr. 9. gr. laga nr. 73/1997, sbr. 5. mgr. 23. gr. laganna, og greinar 3.2. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998. 

Þá benda kærendur á að í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1997 sé áréttað, að meðal markmiða laganna sé að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulags- og byggingarmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.  Sama ákvæði sé að finna í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, grein 1.1.  Í grein 2.3. í staðfestum hluta aðalskipulags Akureyrar 1998-2018 séu þessi lagafyrirmæli ítrekuð.  Þessara ákvæða hafi ekki verið gætt við undibúning og gerð hins umdeilda deiliskipulags og eigi það að leiða til ógildingar þess.

Kærendur benda á að í 5. mgr. 9. gr. laga nr. 73/1997 komi fram að gera skuli grein fyrir áhrifum skipulagsáætlunar, einstakra markmiða hennar og ráðgerðra framkvæmda á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag, m.a. með samanburði þeirra kosta sem til greina komi.  Enginn samanburður hafi verið gerður á öðrum kostum á byggingum fyrir aldraða, hvorki sjálfstæður né í deiliskipulagstillögunni.  Því hafi málið verið unnið þvert gegn fyrirmælum lagagreinarinnar og ekki verið sýnt fram á það af skipulagsyfirvöldum að enginn annar sambærilegur kostur á byggingum fyrir aldraða hafi verið mögulegur.  Enginn skortur sé á lóðum í bænum svo sem skýrt komi fram í aðalskipulagstillögu.  Það liggi þannig fyrir að þörfin fyrir íbúðir af því tagi sem hér um ræði sé ekki fyrir hendi né nokkur lóðaskortur.  Þannig hafi deiliskipulagið ekki verið unnið í samræmi við 5. mgr. 9. gr. laga nr. 73/1997.  Þar af leiðandi geti það ekki talist gilt.

Kærendur árétta að 2. mgr. gr. 3.1.3. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 kveði á um að í aðalskipulagi skuli sett fram stefna sveitarstjórnar um landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, umhverfismál og þróun byggðar.  Þar sé mörkuð stefna varðandi þéttleika byggðar og byggðarmynstur.  Orðið „byggðarmynstur” sé skilgreint svo í grein 1.3. í skipulagsreglugerð:  „Fyrirkomulag byggðar og landnotkunar, s.s. húsagerðir, hæð húsa, þéttleiki byggðar og tegundir landnotkunar.”  Í 7. mgr. 9. gr. laga nr. 73/1997 segi að svæðis-, aðal- og deiliskipulag skuli vera í innbyrðis samræmi.  Deiliskipulag vegna húsbygginga við Mýrarveg sé alls ekki í samræmi við aðalskipulag né bæjarmynd Akureyrar eins og henni sé lýst í tillögu að aðalskipulagi, sem vitnað sé til í staðfestum hluta aðalskipulags Akureyrar 1998-2018.  Bent hafi verið á að atriði, sem sögð séu mæla með nýtingu lóðarinnar í þeim tilgangi að byggja fyrir aldraða, standist engan veginn og því séu forsendurnar rangar og ólögmætar.  Auk þess séu fyrirhugaðar byggingar á svæðinu alls ekki fyrir aldraða eins og haldið hafi verið fram, enda sé aldursmark það sem miðað hafi verið við einungis 55 ár.  Þá hafi ekki verið gætt ákvæða 4. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997 um að bæja- og húsakönnun skuli höfð til hliðsjónar við gerð deiliskipulags í þegar byggðum hverfum.  Hljóti að verða að fella deiliskipulagið úr gildi vegna þessa og vegna ósamræmis við aðalskipulag, sbr. m.a. 7. mgr. 9. gr. laga nr. 73/1997.

Kærendur telja að með deiliskipulaginu sé brotið gegn ákvæði 4. mgr. greinar 4.2.2. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, þar sem áskilið sé að við deiliskipulagningu íbúðarsvæða skuli þess jafnan gætt að í íbúðum og á lóðum íbúðarhúsa sé sem best hægt að njóta sólar, útsýnis, skjóls og friðsældar.  Í bókun skipulagsnefndar frá 11. maí 1999 segi orðrétt:  „Skipulagsnefnd telur augljóst að nýbyggingar á svæðinu skv. tillögunni breyta heildarmynd þess og hafa áhrif á allt umhverfi sitt….  Einnig breyta þau útsýni norður eftir Mýrarvegi.  Húsin munu varpa skugga á nokkrar lóðir við Kotárgerði og Mýrarveg þegar sól er í austri og vestri og munu þeir skuggar ná inn á vesturlóðir nokkurra húsa við Mýrarveg síðdegis, jafnvel þegar sólargangur er lengstur.”  Ljóst sé að deiliskipulagið standist ekki samkvæmt þessu.  Þarna sé verið að viðurkenna brot á nærliggjandi húseigendum og brot á tilvitnuðu reglugerðarákvæði.  Ekki sé hægt að fallast á að slíkt sé heimilt þegar ekki hafi verið sýnt fram á neina nauðsyn né almannahagsmuni því tengda að byggja á svæði því sem um sé deilt.  Það sé óyggjandi krafa íbúanna að eignarréttur þeirra verði virtur.

Kærendur telja ennfremur að með deiliskipulaginu sé brotið gegn markmiðum aðalskipulags um samfellt útivistarsvæði og möguleikar til útivistar og leiksvæði barna eru skertir langt umfram það sem aðalskipulag gerir ráð fyrir.  Einnig séu ákvæði aðalskipulags um hverfisvernd brotin með deiliskipulaginu.  Þá fái ekki staðist sá málatilbúnaður skipulagsnefndar að bygging húsanna sé í samræmi við þau markmið aðalskipulags að öldruðum verði gert mögulegt að búa sjálfstætt á eigin heimili eins lengi og kostur sé.  Ekki hafi verið sýnt fram á að þörf fyrir slíkt húsnæði hafi verið óyggjandi og mikil.  Auk þess liggi fyrir að aðrar hentugar lóðir hafi verið fyrir hendi.

Loks telja kærendur að meðferð málsins í skipulagsnefnd og bæjarstjórn hafi verið ólögmæt.  Haldnir hafi verið 16 fundir um skipulag svæðisins við Mýrarveg í skipulagsnefnd á tímabilinu 13. júní 1997 til 10. febrúar 1999.  Formaður skipulagsnefndar á þeim tíma sé mágur lóðarhafa, en umsókn hans um byggingu á svæðinu í maí 1997 hafi orðið þess valdandi að farið var í það að breyta landnotkun svæðisins og deiliskipuleggja það.  Hafi formaður skipulagsnefndar setið alla fundi utan einn, auk þess að sitja alla fundi í bæjarstjórn og bæjarráði um málið.  Með þessu hafi verið brotið gegn 2. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Einnig megi draga hæfi annarra nefndarmanna í efa, sbr. 6. tl. 3. gr. laga nr. 37/1993, þar sem formaður nefndarinnar hafi ekki vikið sæti strax í upphafi svo sem skylt hafi verið.  Leiði þetta vanhæfi til þess að öll meðferð málsins í skipulagsnefnd og hjá bæjarráði sé ógild svo og allar ákvarðanir um málið.  Telja kærendur að vinnsla málsins hjá skipulagsnefnd og bæjarstjórn, svo og úthlutun lóðarinnar, hafi verið ólögmæt á grundvelli stjórnsýslulaga.  Allar teikningar og upplýsingar varðandi byggingarnar hafa verið unnar af lóðarhafa og nefndin í raun ekki verið hæf til að fjalla hlutlaust um þær.  Af þeim sökum sé deiliskipulagið ógilt, enda ekki unnið á lögformlegan hátt af til þess bærum aðilum skv. stjórnsýslulögum.

Málsrök Akureyrarbæjar:  Í greinargerð skipulagsstjóra Akureyrar eru reifuð sjónarmið bæjarins og afstaða til einstakra atriða kærunnar.

Viðurkennt er að er að önnur sniðmynd teiknistofunnar Form, sem verið hafi meðal kynningargagna deiliskipulagstillögunnar, hafi verið ónákvæm, þannig að skakkað hafi nokkrum metrum í staðsetningu nýbyggingar.  Öll önnur gögn hafi hins vegar verið greinargóð og rétt.  Ekki verði séð að skekkjan hafi haft áhrif á mat nágranna á tillögunni  auk þess sem hún hafi verið einum í vil en öðrum í óhag.  Geti þessi skekkja engum úrslitum ráðið um gildi hins umdeilda deiliskipulags. 

Að því er varðar þá málsástæðu kærenda að nýtingarhlutfall sé of hátt er tekið fram að í deiliskipulagi sé unnið með nýtingarhlutfall til þess að stýra byggingarmagni á lóð.  Í umræddri deiliskipulagstillögu sé nýtingarhlutfall greinilega tilgreint og tekið fram að það eigi ekki við neðanjarðarbílageymslu.  Í þessu felist að einungis sé átt við sýnilegan hluta byggingarinnar ofanjarðar.  Það sé síðan hlutverk byggingarfulltrúa að sannreyna að aðalteikningar séu í samræmi við deiliskipulag en upplýsingar um brúttóflatarmál bygginga þurfi ekki að koma fram í deiliskipulagi.  Í greinargerð skipulagsins sé skýrt tekið fram við hvað nýtingarhlutfall skuli miða, þ.e. byggingar ofan jarðar, auk þess sem ákvæði séu um stæðafjölda í neðanjarðarbílageymslu.  Í þessum ákvæðum sé ekkert falið (eða leynilegt) byggingarmagn, sem haft geti áhrif á umfang nýbygginganna ofan jarðar þannig að áhrif hefði á útsýni frá nágrannalóðum, birtu, skugga eða innsýn.  Í aðalskipulagi Akureyrar 1998 – 2010 sé viðmiðunartafla um nýtingarhlutfall við deiliskipulag nýrra íbúðarsvæða.  Í aðalskipulaginu segi enn fremur: „Á þeim svæðum eða reitum þar sem í gildi er deiliskipulag gildir það nýtingarhlutfall sem þar er skilgreint.”  Heimilt sé því að ákvarða annað og hærra nýtingarhlutfall í deiliskipulagi en tilgreint sé í viðmiðunartöflu aðalskipulagsins.

Því er mótmælt að kynningu deiliskipulagstillögunnar hafi verið áfátt.  Þótt ólík sjónarmið hafi komið fram og aðrir hagsmunir en hagsmunir nágranna verið teknir til greina verði ekki þar með sagt að kynning hafi einungis verið til málamynda til þess að uppfylla lagaákvæði.  Báðir kynningarfundirnir um málið hafi haft í för með sér breytingar á fyrirliggjandi tillögu.  Með skipulagsgerðinni hafi verið stefnt að því að bæta möguleika eldra fólks á búsetu í þessum bæjarhluta auk þess sem leitast hafi verið við að þétta byggðina og auka hagkvæmni hennar.  Þessa þætti, hagsmuni heildarinnar, hafi meirihluti skipulagsnefndar metið þyngri en athugasemdir nágranna.  Rétt sé að minna á að í skipulaginu (aðalskipulagsþætti þess) felist að fallið sé frá gerð safnbrautar um svæðið frá Mýrarvegi niður á Dalsbraut.  Taka beri mið af þessu þegar vegin séu og metin áhrif nýbygginganna á nágrennið.

Mótmælt er fullyrðingu kærenda um að deiliskipulagið byggi á „ólögmætum og röngum forsendum.”  Enda þótt neðra aldurstakmark fyrir íbúa í umræddum nýbyggingum sé lægra en menn miði eftirlaunaaldurinn við, eða miðað hafi verið við í könnun húsnæðisnefndar, sé engu að síður um að ræða íbúðir ætlaðar eldri borgurum.  Í greinargerð deiliskipulagsins, séu taldar upp þær kannanir og athuganir sem gerðar hafi verið áður en ráðist hafi verið í umrætt verk.  Þótt nægjanlegt byggingarland sé fyrir hendi utan núverandi byggðar beri bæjarstjórn á hverjum tíma að gæta hagkvæmni í uppbyggingu bæjarins, þannig að ekki verði opin byggingarsvæði út um allar þorpagrundir með tilheyrandi offjárfestingu í stofnkerfum samfélagsins.  Þétting byggðar sé í raun mun mikilvægari þáttur í skipulagi bæjar sem búi við hægan vöxt eða stöðnun en menn hafa almennt viljað gera sér grein fyrir.  Þótt bent sé á að þörf fyrir íbúðarhúsnæði fyrir eldra fólk verði meiri á síðari hluta kjörtímabilsins en nú, megi ekki draga þá ályktun, eins og gert sé í kærunni, að slík þörf sé ekki fyrir hendi í dag.

Þegar metin sé sú breyting, sem hið umdeilda deiliskipulag hafi í för með sér, verði að líta til þess að umrædd lóð sé á svæði sem ætlað hafi verið fyrir safnbraut norður úr hverfinu.  Opna svæðið hefði því  að mestu orðið að „helgunarsvæði” götunnar og umhverfið mótast af því.  Þetta svæði, sem að hluta sé tekið undir byggingarlóð, sé um 50 – 65 m breitt og liggi milli tveggja ólíkra íbúðarhverfa og skilji þau að ásamt Mýrarvegi.  Tilheyri hverfin sitt hvoru skólahverfinu, sitt hvoru tímaskeiðinu í uppbyggingu bæjarins og séu hvort um sig afgerandi heildir með sameiginleg og ólík einkenni hvort um sig.  Nýja lóðin sé nálægt nokkrum íbúðarlóðum og hafi áhrif á þær.  Þrátt fyrir þessa nálægð verði ekki hægt að segja að húsin muni standa inni í miðju íbúðarhverfi.  Með hliðsjón af forsendum og þessum aðstæðum á skipulagssvæðinu hafi ekki verið talin ástæða til sérstakrar greiningar á húsagerðum næstu íbúðarhverfa áður en unnin yrði skipulagstillaga fyrir svæðið.  Hins vegar sé ljóst að bygging húsanna muni hafa áhrif á umhverfið og breyta því á afgerandi hátt.  Samþykkt skipulagsins hafi verið gerð vitandi vits í þessu efni, en jafnframt í ljósi þess að afstaða milli húsa og aðstæður yrðu síst verri en á ýmsum öðrum stöðum í bænum og menn megi gera ráð fyrir í þéttbýli yfirleitt.  Hvort samþykkt skipulagsins og bygging húsanna skapi nágrönnum einhvern bótarétt sé öðrum látið eftir að skera úr um.

Mótmælt er þeirri staðhæfingu kærenda að ný lóð á svæðinu sé í mótsögn við aðalskipulagið, enda gert ráð fyrir henni þar.  Auk þess megi nefna starfsmarkmið í kaflanum um félags- og fræðslumál – húsnæði fyrir aldraða, þar sem segi:  „Með fjölbreyttum húsagerðum og íbúðastærðum innan hverfa hafi aldraðir kost á að búa áfram í sínu hverfi þegar þeir vilja flytja í minna eða hentugra húsnæði. … Lóðir fyrir húsnæði sem sérstaklega er ætlað öldruðum verði í boði þar sem stutt er í þjónustu og liggi vel við almenningssamgöngum.”

Um þá málsástæðu að formaður skipulagsnefndar hafi verið vanhæfur við meðferð málsins er vísað til framlagðrar álitsgerðar, þar sem m.a. sé bent á að um hæfi nefndarmanna í nefndum sveitarfélaga gildi hæfisreglur sveitarstjórnarlaga og séu tilvitnanir kærenda til hæfisreglna stjórnsýslulaga nr. 37/1993 því ekki á rökum reistar.  Séu ekki gerðar jafn ríkar hæfiskröfur til sveitarsjónarmanna og þær sem stjórnsýslulög kveða á um.  Ekki verði séð að seta umrædds nefndarmanns hafi haft áhrif á ákvarðanir nefndarinnar, og fyrir liggi að öðrum nefndarmönnum hafi verið kunnugt um mágsemd þá sem kærendur telja að valdið hafi vanhæfi nefndarmannsins.  Þá sé áréttað að umræddur nefndarmaður hafi einungis verið formaður skipulagsnefndar á síðasta kjörtímabili, sem lokið hafi vorið 1998, en fullyrt sé í kærunni að hann hafi gengt því starfi allan vinnslutíma verks þess sem um ræði. 

Um þá staðhæfingu kærenda að óeðlilegt hafi verið að lóðarhafi ætti hlut að skipulags- og hönnunarvinnu varðandi byggingar á umræddu svæði sé vísað til skipulagsreglugerðar nr. 400/1008 kafla 3.1.4, en þar segi: „Tillaga að deiliskipulagi getur einnig verið unnin á vegum landeigenda eða framkvæmdaraðila og á kostnað þeirra.”

Andmæli kærenda:  Úrskurðarnefndin taldi, með vísun til 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ástæðu til þess að gefa lögmanni kærenda kost á að tjá sig um greinargerð skipulagsstjóra Akureyrar í málinu, sem að framan er rakin.  Með bréfi, er barst úrskurðarnefndinni þann 2. febrúar 2000, áréttar lögmaður kærenda fyrri málsástæður, m.a. að kærendum hafi verið lofað að umrætt svæði yrði ekki skipulagt, án fulls samráðs og samvinnu við nágranna.  Við þetta loforð hafi ekki verið staðið.  Þá telja kærendur nú að eftir breytingu, sem gerð hafi verið á skipulagstillögunni, hafi bílastæðum verið fækkað svo að ekki sé fullnægt ákvæði 3.1.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 um lágmarksfjölda bílastæða.  Leiði þetta brot á reglugerðarákvæðinu fortakslaust til ógildingar á deiliskipulaginu, enda með öllu óheimilt að breyta tillögunni, sem gert hafi ráð fyrir tilskildum fjölda bílastæða, á þennan hátt án nokkurrar kynningar eða raka.  Þá er vikið að skuggavarpi nýbygginganna og telja kærendur að eins og atvikum sé háttað, sé um svo verulega skerðingu á birtu og útsýni að ræða að ákvörðunin verði að teljast andstæð ákvæði greinar 4.2.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 og því ólögmæt.  Eigi því að fella umrædda ákvörðun úr gildi og eigi hugsanlegur bótaréttur kærenda ekki að leiða til annarrar niðurstöðu.

Um vanhæfi nefndarmanns benda kærendur á að sé litið til hæfisreglu 19. gr. sveitarstjórnarlaga megi ljóst vera að honum hafi borið að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu málsins.  Þetta hafi hann ekki gert utan einu sinni.  Eigi þetta að varða ógildingu meðferðar málsins í heild.

Að öðru leyti fela andsvör kærenda í sér frekari reifun sjónarmiða þeirra og andmæli við málatilbúnaði skipulagsstjóra Akureyrar, sem ekki þykja efni til að rekja hér sérstaklega.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Úrskurðarnefndin leitaði umsagnar Skipulagsstofnunar um kæruefni máls þessa.  Í umsögn stofnunarinnar segir m.a.

 „Kærendur gera athugasemd við að bæjaryfirvöld hafi ekki staðið við yfirlýsingar og loforð þess efnis að frekari skipulagsvinna á umræddu svæði yrði ekki framkvæmd án samráðs við nágranna hins fyrirhugaða húss, en slík loforð hafi verið gefin á kynningarfundi sem haldinn var í desember 1997 þar sem kynnt var hugmynd að því deiliskipulagi sem er rót þessa deilumáls. Auk þess gera kærendur athugasemd við framsetningu tillögu að aðalskipulagi Akureyrarbæjar 1998-2018. Þá er vitnað til 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 (sbl.) og því haldið fram að grenndarkynning samkvæmt þeirri grein hafi verið ófullnægjandi.

Samkvæmt 1. ml. 1. mgr. 25. gr. sbl. ber sveitarstjórn að auglýsa og kynna samþykkta tillögu að deiliskipulagi. Það ber að gera með sama hætti og ef um aðalskipulag er að ræða, sbr. 1. og 2. mgr. 18. gr. sbl., en þar er hinum lögboðna kynningarferli lýst. Í máli því sem hér er til umfjöllunar fóru skipulagsyfirvöld Akureyrar samkvæmt sbl. hvað varðar kynningu og auglýsingu hins umdeilda skipulags. Samkvæmt gögnum málsins voru auglýsingar þeirra fullnægjandi m.t.t. tímamarka og möguleika bæjarbúa á að koma að athugasemdum og verður því ekki gerð athugasemd við þá hlið málsins. Skipulagsstofnun vill í þessu sambandi benda á að skipulagsyfirvöldum er ekki skylt lögum samkvæmt að halda kynningarfundi vegna framkominna tillagna um breytingar á deiliskipulagsáætlunum. Í grein 3.2. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 segir aðeins að leitast skuli við að marka stefnu og áherslur skipulagstillögu í sem mestri samvinnu við íbúa og aðra hagsmunaaðila og kynna áform um skipulagsgerð með áberandi hætti, s.s. með auglýsingum, dreifibréfum og fundum og leita eftir skoðunum þeirra varðandi helstu áherslur. Í gögnum málsins kemur fram að skipulagsyfirvöld Akureyrar hafi leitast við að kynna framkomnar tillögur með ofangreindum aðferðum.

II. Deiliskipulag stangast á við aðalskipulag, laga- og reglugerðarákvæði.

Kærendur halda því fram að hið umdeilda deiliskipulag sé ólögmætt þar sem kynningargögn hafi verið ófullnægjandi að því leyti að á þeim séu röng hlutföll og röng afstaða milli bygginga, auk þess sem ekki sé hægt að sannreyna samkvæmt þeim hvort uppgefið nýtingarhlutfall í deiliskipulaginu sé rétt, en það sé sagt vera 0,76 þegar ekki sé reiknað með bílageymslum neðanjarðar. Þá telja kærendur að óheimilt sé að reikna ekki með bílageymslum neðanjarðar við útreikning á nýtingarhlutfalli, skv. grein 1.3. í skipulagsreglugerð.

Skipulagsstofnun telur sig ekki færa til þess að meta hvort að framlögð kynningargögn hafi verið ófullnægjandi m.t.t. til rangra hlutfalla eða afstöðu milli húsa.  Skipulagsstofnun mun því ekki taka afstöðu til þessa atriðis.

Kærendur gera athugasemd við að ekki sé gerð grein fyrir brúttógrunnfleti hverrar hæðar fyrir sig, auk bílageymslu, á teikningum þeim sem lagðar voru fram til kynningar. Af því leiði að ekki sé hægt að sannreyna hvort að uppgefið nýtingarhlutfall í deiliskipulaginu er
rétt. Skipulagsstofnun vill í þessu sambandi benda á að í grein 62.1 í byggingarreglugerð nr. 411/1998 segir að hverju húsi skuli fylgja lóð og fari stærð hennar eftir ákvæðum deiliskipulags. Þá segir ennfremur að nýtingarhlutfall miðað við gólfflöt og lóðarstærð skuli vera í samræmi við gildandi skipulag. Sé jafnframt litið til skilyrða þeirra sem sett
eru fyrir útgáfu byggingarleyfis í 1. tl. 1. mgr. 44. gr. sbl. sést að ekki má gefa út slíkt leyfi án þess að byggingarfulltrúi áriti aðaluppdrætti, en skv. 1. mgr. 40. gr. sbl. er það í verkahring hans að ganga úr skugga um að aðaluppdrættir séu í samræmi við gildandi
skipulag, lög og reglugerðir. Samkvæmt grein 18.1 í gildandi byggingarreglugerð eru aðaluppdrættir heildaruppdrættir að mannvirki, ásamt afstöðumynd þess, en jafnframt segir í grein 18.18 að á afstöðumynd skuli rita flatarmál lóðar og byggingar- og nýtingarhlutfall miðað við lóðarstærð. Með hliðsjón af þessu telur Skipulagsstofnun ekki
ástæðu til þess að gera athugasemd við hin framlögðu gögn hvað þetta varðar enda sé ekkert í gildandi skipulags- og byggingarlögum eða skipulagsreglugerð nr. 400/1998 sem skyldi sveitarstjórn til að setja upplýsingar um brúttóflatarmál í deiliskipulag. Við umfjöllun um byggingarleyfisumsóknir ber að ganga úr skugga um hvort fyrirhugaðar
framkvæmdir séu í samræmi við skipulag, m.a. um nýtingarhlutfall.

Kærendur telja að hið kærða deiliskipulag brjóti gegn samþykktu Aðalskipulagi Akureyrar 1998-2018 þar sem óheimilt sé að reikna ekki með bílageymslum neðanjarðar í nýtingarhlutfalli skv. grein 1.3. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Hvað þessa athugasemd kærenda varðar vísar skipulagsstofnun til 8. mgr. greinar 3.1.4. í sömu reglugerð. Þar
segir eftirfarandi: „Ef gert er ráð fyrir bílastæðum neðanjarðar í deiliskipulagi er með hliðsjón af því heimilt að auka nýtingarhlutfall umfram það sem kveðið er á um í aðalskipulagi.” Skipulagsstofnun telur í ljósi þessa að Akureyrarbæ hafi verið heimilt að ákveða að nýtingarhlutfall samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi skyldi vera hærra en kveðið er á um í gildandi aðalskipulagi bæjarins.

Kærendur bera því við að ekki hafi verið fylgt ákvæðum sbl. um þátttöku almennings í gerð skipulagsáætlana og vitna til 4. mgr. 9. gr. sbl. og greinar 3.2. í skipulagsreglugerð. Skipulagsstofnun bendir á að í 4. mgr. 9. gr. sbl. segir að við gerð skipulagsáætlana skuli eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa og að í grein 3.2. í skipulagsreglugerð segir að leitast skuli við að marka stefnur og áherslur í skipulagstillögu í sem mestri samvinnu við íbúa. Ekki verður talið að þessar greinar mæli fyrir um ófrávíkjanlega lögboðna skyldu um samvinnu við almenning við gerð deiliskipulagsáætlana en ljóst er að Akureyrarbær hélt engu að síður kynningarfundi og auglýsti þá báða ítarlega með dagblaðs- og útvarpsauglýsingum auk þess að senda dreifibréf til nágranna fyrirhugaðra bygginga.

Kærendur telja fyrirmælum 3. mgr. 1. gr. sbl. um markmið laganna ekki
hafa verið fylgt. Skipulagsstofnun telur að því markmiði laganna að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulags- og byggingarmála sé náð með því að skipulagsyfirvöld gæti þess að fara eftir þeim málsmeðferðarreglum sem lögin mæla fyrir um. Í máli því sem hér er til
umfjöllunar verður ekki annað séð en að Akureyrarbær hafi staðið að allri málsmeðferð á réttan máta, þ.e.a.s. deiliskipulagstillagan var kynnt og auglýst og íbúum bæjarins gefinn kostur á að skila inn athugasemdum eins og sbl. gera ráð fyrir. Bæjaryfirvöldum ber ekki
skylda til þess að taka athugasemdir til greina sé rökstutt á fullnægjandi hátt hvers vegna ekki sé unnt að verða við þeim. Skipulagsstofnun telur það hafa verið gert í fundargerð skipulagsnefndar frá 11. maí 1999 og telur því ekki ástæðu til athugasemda hvað þetta
atriði varðar.

Kærendur telja að 5. mgr. 9. gr. sbl. hafi ekki verið fylgt í málsmeðferð skipulagsyfirvalda þar sem ekki hafi verið gerður samanburður á öðrum kostum á bygginum til þeirra nota, sem fyrirhugaðar byggingar eru ætlaðar, hvorki sjálfstæður né í deiliskipulagstillögunni.
Skipulagsstofnun vill í því sambandi benda á að í greinargerð með hinu kærða deiliskipulagi (bls. 3) er gerð grein fyrir könnunum sem gerðar voru vegna undirbúnings málsins en tekur ekki afstöðu til innihalds þeirra.

Í kæru kemur fram að fyrirhuguð bygging samræmist, að mati kærenda, ekki
byggðamynstri gildandi aðalskipulags, sbr. skilgreiningu á því hugtaki í grein 1.3. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Skipulagsstofnun bendir á að hið kærða deiliskipulag er í samræmi við staðfest aðalskipulag Akureyrarbæjar og verður því ekki ógilt vegna sjónarmiða um byggðamynstur.

Kærendur gera athugasemd við skuggavarp af hinum fyrirhuguðu byggingum, sem þeir telja að muni skapa sér tjón, og mótmæla því að íbúum hverfisins sé gert að fara dómstólaleiðina til þess að ná fram rétti sínum. Í fundargerð skipulagsnefndar Akureyrar frá 11. maí 1999 er eftirfarandi bókun: „Skipulagsnefnd telur augljóst að nýbyggingar á svæðinu skv. tillögunni breyta heildarmynd þess og hafa áhrif á allt umhverfi sitt, sérstaklega umhverfi nokkurra íbúðarhúsa við Kotárgerði og Mýrarveg […] Húsin munu varpa skugga á nokkrar lóðir við Kotárgerði og Mýrarveg þegar sól er í austri og vestri og munu þeir skuggar ná inn á vesturlóðir nokkurra húsa við Mýrarveg síðdegis, jafnvel þegar sólargangur er lengstur.” Með þessari bókun verður að líta svo á að bæjaryfirvöld hafi fallist á að hið kærða deiliskipulag geti haft í för með sér brot á rétti nágranna hinna fyrirhuguðu húsa.

Skipulagsstofnun getur þó ekki fallist á með kærendum að sveitarfélagið hafi gengið á rétt nágranna með ólögmætum hætti. Í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 er gert ráð fyrir því að skipulagsáætlanir geti haft í för með sér tjón sem talist geti bótaskylt, sbr. 33. gr. laganna, og verður því að telja að löggjafinn hafi litið svo á að sveitarfélagi sé heimilt að takmarka eignarrétt fasteignareigenda með skipulagsáætlunum gegn bótum. Hvort að skilyrði bótagreiðslna séu fyrir hendi í þessu máli tekur stofnunin hins vegar ekki afstöðu til.

III. Ólögmæt meðferð málsins hjá skipulagsnefnd og bæjarstjórn.
Skipulagsstofnun tekur ekki afstöðu til þessa kæruliðar þar sem hún telur sig ekki vera rétt stjórnvald til að veita umsögn um ágreining sem snýst um hugsanlegt vanhæfi embættismanna.

Niðurstaða Skipulagsstofnunar:

Með hliðsjón af framansögðu er það álit Skipulagsstofnunar að synja eigi kröfum kærenda um að hið kærða deiliskipulag verði ógilt.”

Málsgögn:  Við úrlausn málsins liggja fyrir úrskurðarnefndinni uppdrættir, skuggavarp og ljósmyndir af hinu umdeilda svæði og næsta nágrenni þess.  Þá hefur Akureyrarbær látið nefndinni í té stafrænar myndir sem sýna fyrirhugaðar nýbyggingar og afstöðu þeirra til nærliggjandi húsa.  Með hliðsjón af þessum gögnum hefur nefndin ekki talið þörf vettvangsgöngu í málinu.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið hófst undirbúningur að gerð hins umdeilda deiliskipulags upp úr miðju ári 1997.  Var skipulagning svæðisins til umfjöllunar á fundi skipulagsnefndar hinn 13. júní 1997 og á fundi hinn 28. nóvember sama ár fól nefndin skipulagsdeild að gera nánari athugun á stærð og staðsetningu húsa á svæðinu, auk þess sem ákveðið var að kynna málið fyrir nágrönnum og öðrum bæjarbúum.  Verður að telja að ákvörðun um að ráðast í skipulagningu svæðisins hafi legið fyrir áður en skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 tóku gildi, hinn 1. janúar 1998.  Kröfur um gerð, form og kynningu skipulagstillögunnar í upphafi ráðast því af ákvæðum eldri skipulagslaga nr. 19/1964 með síðari breytingum, og skipulagsreglugerðar nr. 318/1985, með síðari breytingum, sem í gildi var allt fram til 10. júlí 1998.  Voru kröfur þeirrar reglugerðar um kynningu og samráð við íbúa og hagsmunaðila við gerð skipulagstillögu ekki hinar sömu og settar voru með reglugerð nr. 400/1998.

Lögmæti þeirrar breytingar á landnotkun umrædds svæðis, sem gerð var við endurskoðun aðalskipulags Akureyrar á árinu 1998, kemur ekki til álita við úrlausn máls þessa.  Hefur nýtt aðalskipulag Akureyrar 1998-2018 hlotið staðfestingu umhverfisráðherra og sætir sú lögmætisathugun, sem í staðfestingunni felst, ekki endurskoðun úrskurðarnefndarinnar. Ákvæði aðalskipulags um landnotkun stóðu því ekki í vegi fyrir gerð deiliskipulags þess sem um er deilt í málinu.

Ekki verður fallist á það með kærendum að kynningu tillögu að umræddu deiliskipulagi hafi verið svo áfátt að varði ógildingu þess.  Við mat á kynningargögnum ber fyrst og fremst að líta til þeirra gagna sem lögð voru fram við auglýsingu tillögunar, og lágu frammi tilskilinn tíma til skoðunar og athugasemda, og verður ekki annað séð en að gögn þessi hafi verið fullnægjandi.  Þykir því ekki skipta máli þótt nokkurrar ónákvæmni hafi gætt í hluta þeirra gagna sem áður höfðu verið kynnt á fundi hinn 3. febrúar 1999. 

Ekki verður heldur fallist á það sjónarmið kærenda að í deiliskipulagi þurfi að tilgreina flatarmál bygginga.  Með nýtingarhlutfalli og ákvörðun byggingarreits eru byggingum settar skorður í deiliskipulagi.  Er það síðan hlutverk byggingarnefndar að gæta þess við afgreiðslu umsókna um byggingarleyfi að einstakar byggingar séu innan þeirra marka sem sett hafa verið í deiliskipulagi.  Sé nýtingarhlutfall byggingar of hátt fullnægir byggingarleyfi fyrir henni ekki því lagaskilyrði að vera í samræmi við gildandi skipulag.  Af því leiðir að byggingarleyfið kann að vera ógildanlegt.  Krafa um ógildingu deiliskipulags verður hins vegar ekki reist á þeim grundvelli að nýtingarhlutfall einstakrar byggingar kunni að vera of hátt og koma staðhæfingar kærenda um það efni því ekki til álita við úrlausn máls þessa, eins og það hefur verið lagt fyrir úrskurðarnefndina.

Ekki verður fallist á að hið umdeilda deiliskipulag sé í ósamræmi við aðalskipulag Akureyrar 1998-2018.  Í aðalskipulaginu er gert ráð fyrir íbúðarbyggð á umræddu svæði, sem í eldra skipulagi var opið útivistarsvæði.  Svæði þetta er á milli tveggja íbúðarhverfa og geta nýbyggingar á svæðinu því ekki talist byggingar inni í þegar byggðu hverfi.  Telur úrskurðarnefndin að ákvæði 4. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997 eigi því ekki við í málinu. Ekki verður heldur fallist á að sjónarmið og markmið aðalskipulags um byggðamynstur, hverfisvernd og samfellt útivistarsvæði hafi staðið í vegi fyrir gerð umrædds deiliskipulags. 

Eins og fram kemur í bókun skipulagsnefndar Akureyrar um málið, á fundi hinn 11. maí 1999, var nefndinni ljóst að nýbyggingar á svæðinu myndu skerða útsýni til norðurs eftir Mýrarvegi og varpa skugga á nokkrar lóðir við Kotárgerði og Mýrarveg.  Þrátt fyrir þetta var deiliskipulagstillagan samþykkt í nefndinni og síðar í bæjarstjórn Akureyrar.  Með þessum samþykktum tóku bæjaryfirvöld ákvörðun um að heimila að ráðist yrði í byggingar sem fyrirsjáanlega gætu haft í för með sér skerta nýtingarmöguleika og verðrýrnun tiltekinna fasteigna.  Var og með ákvörðunum þessum gengið gegn þeim sjónarmiðum sem fram eru sett í 4. mgr. greinar 4.2.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Ákvarðanir þessar voru hins vegar studdar málefnalegum rökum, svo sem um þéttingu byggðar, og með þeim stefnt að lögmætum markmiðum. Telur úrskurðarnefndin því að ákvarðanir þessar hafi verið bæjaryfirvöldum heimilar, enda beinlínis ráðgert í 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að skipulagsákvarðanir geti leitt til rýrnunar á verðgildi og nýtingarmöguleikum fasteigna, en eigendum er með ákvæðinu tryggður réttur til bóta fyrir sannanlegt tjón.

Í andsvörum kærenda við greinargerð skipulagsstjóra Akureyrar í málinu kemur fram sú málsástæða að ekki sé fullnægt kröfum 7. mgr. greinar 3.1.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 um lágmarksfjölda bílastæða.  Var skipulagsstjóra gefinn kostur á að tjá sig um þessa síðbúnu málsástæðu.  Hefur skipulagsstjóri upplýst að lagt hafi verið til grundvallar að bílastæðaþörf húsanna væri minni en áskilið sé í nefndu ákvæði. Um sé að ræða íbúðir aldraðra  og hafi verið áætlað að bílaeign íbúa hverrar íbúðar væri að meðaltali minni en almennt gerist um íbúðir sömu stærðar.  Þá leiði af staðsetningu húsanna að ferðaþörf sé í lágmarki, þar sem stutt sé í þá þjónustu sem íbúar komi til með að þarfnast að staðaldri.  Hafi því verið talið fullnægt skilyrðum tilvitnaðs ákvæðis til þess að víkja lítillega frá ákvæðinu um lágmarksfjölda bílastæða.

Úrskurðarnefndin telur, að enda þótt þessar forsendur hefðu með réttu átt að koma fram í greinargerð deiliskipulagsins, eigi sá ágalli ekki að leiða til ógildingar þess.  Fellst nefndin  efnislega á  rök skipulagsstjóra um að heimilt hafi verið að víkja frá lágmarksfjölda bílastæða með þeim hætti sem gert var, enda einungis um að ræða fækkun um fimm bílastæði fyrir bæði húsin, sem felur í sér 10% frávik frá því sem lágmarksákvæðið áskilur.  Verður deiliskipulagið því ekki ógilt af þessum sökum.

Úrskurðarnefndin fellst á það með kærendum að fyrrverandi formaður skipulagsnefndar Akureyrar hafi verið vanhæfur til setu í nefndinni, a.m.k. frá þeim tíma er mági hans var úthlutað byggingarlóð á hinu deiliskipulagða svæði hinn 17. október 1998.  Þess ber þó að gæta að hann tók ekki þátt í umfjöllun um málið þegar fjallað var um úthlutun lóðarinnar og að hann hafði þá látið af formennsku í nefndinni, en sat áfram í henni sem aðalmaður.  Bar honum þó með hliðsjón af 19. gr, sbr. 47. gr., sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 að gera meðnefndarmönnum sínum grein fyrir tengslum sínum við lóðarhafa og víkja sæti á fundum þegar fjallað var um skipulag svæðisins og málefni er snertu fyrirhugaðar byggingar þar.  Verður að átelja að þessa var ekki gætt.

Enda þótt fallist sé á að umræddur nefndarmaður hafi verið vanhæfur við meðferð málsins, leiðir það ekki sjálfkrafa til þess að ákvarðanir nefndarinnar verði ógiltar.  Veltur það á því hvort líklegt sé að afstaða og atkvæði hins vanhæfa nefndarmanns hafi getað ráðið úrslitum um niðurstöðu nefndarinnar.  Þegar litið er til þess að skipulagsnefndin er skipuð fimm mönnum og að ályktanir hennar í umræddu máli voru jafnan einróma, ef frá er talið sérálit eins nefndarmanns í tveimur tilvikum, verður ekki talið að vanhæfi nefndarmannsins eigi að leiða til ógildingar samþykktar nefndarinnar.  Þykir það styrkja þessa niðurstöðu að ákvörðun nefndarinnar var ekki lokaákvörðun, þar sem hún var háð samþykki bæjarstjórnar og gat því komið þar til endurskoðunar.  Samþykkt nefndarinnar var hins vegar staðfest í bæjarstjórn með  atkvæðum átta bæjarstórnamanna, en þrír greiddu atkvæði gegn samþykktinni.

Vegna staðhæfinga kærenda um að hinn vanhæfi nefndarmaður hafi einnig komið að málinu sem fulltrúi í bæjarráði og bæjarstjórn Akureyrar, hefur úrskurðarnefndin kynnt sér setu hans í stjórn bæjarins á þeim tíma sem hér skiptir máli.  Liggur fyrir að hann hefur ekki átt sæti í bæjarstjórn eða bæjarráði frá þeim tíma er ný bæjarstjórn var mynduð í júní 1998.  Að þessu athuguðu þykir vanhæfi nefndarmannsins ekki eiga að leiða til ógildingar  hinnar kærðu ákvörðunar.

Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á að þeir annmarkar hafi verið á undirbúning og gerð hins umdeilda deiliskipulags, eða á málsmeðferð bæjaryfirvalda, að leiða eigi til ógildingar þess.

Uppsaga úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega, framan af vegna sumarleyfa en síðar vegna tímafrekrar gagnaöflunar í málinu og anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum kærenda um að ógilt verði samþykkt bæjarstjórnar Akureyrar frá 18. maí 1999 um deiliskipulag við Mýrarveg á Akureyri, norðan Akurgerðis, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda þann 21. júní 1999.