Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

7/2000 Hvammur

Ár 2000, föstudaginn 25. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2000; krafa hreppsnefndar Skorradalshrepps um úrlausn ágreinings um framkvæmdaleyfi og um stöðvun framkvæmda Eflingar – stéttarfélags við borun eftir heitu vatni í landi félagsins að Hvammi í Skorradal.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. febrúar 2000, sem barst nefndinni sama dag, kærir sveitarstjórn Skorradalshrepps framkvæmdir Eflingar – stéttarfélags við borun eftir heitu vatni í landi félagsins að Hvammi í Skorradal og krefst þess að þær verði stöðvaðar með stoð í ákvæði 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Með hliðsjón af bókun hreppsnefndar Skorradalshrepps á fundi hinn 17. febrúar 2000 verður jafnframt að skilja erindi kæranda svo að með heimild í 2. mgr. 27. gr. laga nr. 73/1997 sé krafist úrlausnar um ágreining hans við Eflingu um það hvort framkvæmdir félagsins séu háðar framkvæmdaleyfi.  Í greinargerð Atla Gíslasonar hrl., f.h. Eflingar, dags. 21. febrúar 2000, er þess krafist að kærunni verði vísað frá en ella að henni verið hafnað og að Skorradalshreppi verði gert að greiða Eflingu málskostnað að mati nefndarinnar.  Í bréfi Árna Grétars Finnssonar hrl., f.h. Skorradalshrepps til úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. febrúar 2000, eru kröfur kæranda um stöðvun framkvæmda og úrlausn ágreinings um framkvæmdaleyfi áréttaðar.  Þá er þess krafist að frávísunarkröfu Eflingar verði hafnað og að Efling greiði kæranda málskostnað að mati úrskurðarnefndarinnar.

Málavextir:  Á árinu 1988 keypti verkamannfélagið Dagsbrún 17,5 ha landspildu úr landi Hvamms í Skorradal.  Spilda þessi er nú í eigu Eflingar – stéttarfélags, sem stofnað var við samruna Dagsbúnar og Framsóknar, Verkakvennafélagsins Sóknar og Félags starfsfólks í veitingahúsum í árslok 1998, en við sameininguna yfirtók hið nýja félag eignir, réttindi og skyldur þeirra félaga sem að stofnun þess stóðu.

Á árinu 1993 voru gerðar rannsóknir á vegum Skorradalshrepps á möguleikum á hagnýtingu jarðhita á umræddri landspildu og munu þær rannsóknir hafa leitt til jákvæðrar niðurstöðu.  Samkomulag varð hins vegar ekki um nýtingu jarðhita á spildunni.  Gekkst sveitarfélagið þess í stað fyrir borun eftir heitu vatni í landi Stóru – Drageyrar, sunnan Skorradalsvatns, og varð góður árangur af þeirri framkvæmd.  Var borhola þessi virkjuð og er sveitarfélagið eigandi borholunnar og dælubúnaðar við hana.  Einkahlutafélag var stofnað um rekstur dreifikerfis hitaveitu frá holunni og er sveitarfélagið meðal hluthafa í félaginu.

Efling hefur haft uppi áform um að bora eftir heitu vatni á umræddri landspildu sinni.  Hófst undirbúningur að framkvæmd borunar í byrjun febrúar 2000.  Hinn 2. febrúar  ritaði oddviti Skorradalshrepps, f.h. sveitarstjórnar, bréf til Eflingar þar sem lýst er þeirri skoðun að áður en framkvæmdir geti hafist þurfi að liggja fyrir framkvæmdaleyfi frá sveitarstjórn.  Er af því tilefni óskað upplýsinga um áformað afl fyrirhugaðrar jarðvarmavirkjunar.  Einnig er sett fram sú skoðun sveitarstjórnar að skipulag þurfi að liggja fyrir af umræddu svæði áður en til framkvæmda geti komið.  Þá er í bréfinu hafður uppi áskilnaður um greiðslu kostnaðar, sem sveitarfélagið hafi haft af rannsóknum á svæðinu, svo og um ábyrgð á hugsanlegum breytingum sem borun Eflingar kunni að hafa á vatnsborð og þrýsting í borholunni á Stóru – Drageyri.

Í símbréfi Atla Gíslasonar hrl., f.h. Eflingar, til hreppsnefndar hinn 3. febrúar 2000 er lýst þeirri skoðun að ekki sé áskilið leyfi til þeirrar rannsóknar og leitar, sem fyrirhuguð sé.  Vísar lögmaðurinn, um heimildir umbjóðanda síns, til 2. mgr. 4. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu. 

Frekari bréfaskriftir hafa gengið milli deiluaðila að undanförnu, án þess að ágreiningur þeirra hafi verið til lykta leiddur. 

Með bréfi Eflingar til orkumálastjóra, dags. 7. febrúar 2000, var Orkustofnun tilkynnt um áform félagsins, með vísan til 2. mgr. 4. gr. laga nr. 57/1998.  Hélt Efling jafnframt áfram undirbúningi framkvæmda og mun borun þegar hafa verið hafin er sveitarstjórn vísaði ágreiningi aðila til úrskurðarnefndarinnar með bréfi hinn 18. febrúar 2000 eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Í bréfi lögmanns kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. febrúar 2000, er gerð nánari grein fyrir kröfum og málsástæðum kæranda.  Jafnframt koma í bréfinu fram andsvör við málsástæðum, sem fram koma í greinargerð Eflingar til nefndarinnar, dags. 21. febrúar 2000.

Af hálfu kæranda vísast til 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr.73/1997, svo og 2. mgr. 27. gr. sömu laga, um heimild úrskurðarnefndar til að fjalla um og kveða upp úrskurð í málinu.  Þá er vísað til bréfa sveitarstjórnarinnar til Eflingar og lögmanns félagsins og bréfa til Orkustofnunar og svarbréfa starfsmanna hennar.  Í þessum bréfum komi fram efnisatriði, rökstuðningur og lagasjónarmið sveitarstjórnarinnar.

Mótmælt er staðhæfingum um vanhæfi sveitarstjórnar í málinu.  Sveitarstjórn sé ekki að gera annað en sinna skyldum sínum sem stjórnvald.  Til þess hafi hún umboð og til þess sé hún kosin.  Staða og eignir einstakra sveitarstjórnarmanna leiði ekki til þess að Eflingu sé heimilt að virða að vettugi lagaákvæði um nauðsyn á framkvæmdaleyfi frá sveitarstjórn til umræddra framkvæmda.

Því er mótmælt að kæra sé of seint fram komin.  Efling hafi ekki tilkynnt sveitarfélaginu um fyrirhugaða jarðborun.  Af henni hafi sveitarstjórn frétt af tilviljun, en brugðist þá þegar við, með bréfi 2. febrúar s.l. og bent félaginu á að óheimilt væri að hefja þessar framkvæmdir án tilskilins framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar.  Stéttarfélagið hafi virt þessa ábendingu sveitarstjórnar að vettugi, en lögmaður félagsins tilkynnt með bréfi 7. febrúar s.l. þá einhliða ákvörðun félagsins, að borun myndi hefjast þá í vikunni og muni borunin hafa byrjað nokkru síðar.  Sveitarstjórn hafi þá neytt þeirra kosta sem lög heimili og kært málið til úrskurðarnefndar.  Allur kostnaður, óþægindi og aðrar afleiðingar þess, sem Efling kunni að hafa af því að frekari boranir verði stöðvaðar þar til framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar liggi fyrir séu því á ábyrgð félagsins, enda hafi það hafið framkvæmdir algjörlega á eigin ábyrgð.  Sjálft hafi stéttarfélagið ekki sinnt um lögboðna tilkynningaskyldu sína um jarðborunina til Orkustofnunar, skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 57/1998, fyrr en með bréfi, dagsettu 7. febrúar s.l.

Sveitarstjórn telji umrædda framkvæmd tvímælalaust vera háða framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar.  Hér sé verið að bora vinnsluholu en ekki til rannsóknar eða leitar eftir heitu vatni.  Öll gögn málsins staðfesti þetta og í greinargerð Eflingar sé m.a. staðfest að rannsóknir og leit eftir heitu vatni hafi farið fram í umræddu landi í Hvammi 1993.  Telja verði að borun vinnsluholu niður á 800 metra dýpi, ásamt tilheyrandi fóðringum, sé meiriháttar framkvæmd í skilningi laganna.  Staðhæfingar stéttarfélagsins um að hér sé um leitar- og rannsóknarholu að ræða séu ekki í samræmi við gögn og staðreyndir málsins, heldur hreint yfirskin.

Varðandi tilvísun Eflingar til laga nr.57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, þá hafi sjónarmið sveitarstjórnar til 2. mgr. 4. gr. og 10. gr. laganna þegar verið skýrð í bréfi sveitarstjórnar til lögmanns Eflingar frá 17. febrúar s.l.  Því til viðbótar skuli sérstaklega vísað til 3. mgr.1. gr. laganna þar sem segi: „Um rannsóknir og nýtingu samkvæmt þessum lögum gilda einnig náttúruverndarlög, skipulags- og byggingarlög og önnur lög sem varða rannsóknir og nýtingu lands og landsgæða.”  Ljóst sé af þessu lagaákvæði, að umræddar borunarframkvæmdir þurfi samþykki sveitarstjórnar, þ.e. framkvæmdaleyfi hennar og ennfremur kunni einnig að reyna á ákvæði náttúruverndarlaga.

Kærandi tekur fram, að nokkur þeirra lagaákvæða, sem reifuð séu í bréfi sveitarstjórnar til stéttarfélagsins frá 2. febrúar s.l. og ekki snerti beint framkvæmdaleyfið, kunni á síðara stigi að skipta máli, svo sem byggingarleyfi, ef til þess komi að stéttarfélagið reisi hús yfir borholuna, svo sem líklegt verði að teljast.  Hafi þessara lagaákvæða verið getið til upplýsingar fyrir Eflingu.  Engin skilyrði séu sett af sveitarstjórn um byggingarleyfi, eða frekari framkvæmdir síðar, á þessu stigi málsins, enda þau mál ekki til umfjöllunar og verði afgreidd lögum samkvæmt af sveitarstjórn þegar þar að komi.  Snerti þau því á engan hátt afstöðu sveitarstjórnar til veitingar framkvæmdaleyfis, sem sé sjálfstæð ákvörðun.

Um þá málsástæðu Eflingar að sveitarstjórn hafi enga hagsmuni af því að framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar sé áskilið vegna umræddrar jarðborunar sé bent á að kenningar hafa komið fram um að hitavatnsholan, sem boruð hafi verið og virkjuð í landi Stóru-Drageyrar, kunni að fá vatn sitt frá sömu æð og Efling sé nú að bora í.  Telji sveitarstjórn fulla ástæðu til að láta kanna þetta og athuga nánar hvernig með skuli fara, ef þetta reyndist á rökum reist. Kunni hér m.a. að reyna á ákvæði 9. gr. vatnalaga nr. 15/1923, sérstaklega 3. tölulið, sbr. upphaf 10. gr. laganna.  Hér kunni því að vera til staðar miklir hagsmunir.

Loks er því haldið fram að í greinargerð Eflingar séu víða missagnir.  Eru í bréfi lögmanns kæranda tilfærð dæmi sem hann telur staðfesta að svo sé, en ekki þykir hafa þýðingu að rekja nánar staðhæfingar kæranda í þessu efni.

Málsrök Eflingar:  Af hálfu Eflingar er á því byggt að kröfur kæranda séu bæði formlega og efnislega rangar.  Kröfurnar séu óljósar og með öllu órökstuddar, einkum þó krafa um stöðvun framkvæmda þegar í stað.  Kærandi geri enga grein fyrir því í kærunni hvers vegna ástæða sé til þess að stöðva framkvæmdir og krafan sé auk þess allt of seint fram komin.  Kærandi hafi vitað þegar um síðustu mánaðarmót að til stæði að hefja rannsókn og leit í landinu með borun.  Þrátt fyrir þetta hafi hann ekki aðhafst neitt fyrr en framkvæmdir hafi verið búnar að standa yfir í tæpa viku, með ærnum tilkostnaði.  Stöðvun framkvæmda muni hafa verulegan aukakostnað í för með sér og sé auk þess vafasöm út frá öryggis- og tæknilegum sjónarmiðum.  Réttarstaða kæranda muni á engan hátt breytast eða hann verða fyrir tjóni þótt borun vegna rannsóknar og leitar verði fram haldið og lokið.  Kærandi geti tryggt eðlilega hagsmuni sína þegar komi að hagnýtingu hugsanlegs jarðvarma, sem engin ákvörðun hafi verið tekin um, enda ekki tímabært.  Þá megi ljóst vera að verði talið skylt að lögum að leita eftir framkvæmdaleyfi sé kæranda ekki stætt á öðru en að veita leyfið og geti ekki bundið það þeim ólögmætu skilyrðum og ótilhlýðilegu þvingunum sem raun beri vitni.  Krafa kæranda um framkvæmdaleyfi sé beinlínis notuð sem skálkaskjól til að ná fram öðrum óviðkomandi kröfum og óeðlilegum hagsmunum.  Mat og samanburður á hagsmunum aðila leiði til þeirrar augljósu niðurstöðu að þröngri undantekningarheimild 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997 verði ekki beitt.  Deila um formsatrið,i sem snerti enga efnislega hagsmuni kæranda, eigi ekki að leiða til stöðvunar framkvæmda.  Kærandi verði eins settur þótt sótt sé um leyfi eftir á í kjölfar úrskurðar verði framkvæmdaleyfi áskilið.  Krafa kæranda um stöðvun framkvæmda samrýmist þannig ekki tilgangi nefnds lagaákvæðis.

Til þess sé einnig að líta, að verulegur vafi leiki á því hvort framkvæmdaleyfi þurfi yfir höfuð til rannsóknar og leitar.  Um rannsókn og leit sem nú fari fram á vegum Eflingar gildi sérlög, það er lög nr. 57/1998.  Í 36. gr. laga nr. 73/1997 séu þessar framkvæmdir Eflingar beinlínis undanþegnar byggingarleyfi.  Þá sé ljóst að ákvæði 27. gr. laga nr. 73/1997 um framkvæmdaleyfi taki aðeins til meiriháttar framkvæmda, sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breyting lands með jarðvegi eða efnistöku.  Rannsókn og leit Eflingar sé hvorki meiriháttar framkvæmd né hafi hún áhrif á umhverfi í skilningi lagagreinarinnar.  Hér sé ekki um að ræða framkvæmd við hitaveitu, hvað þá meiriháttar, sbr. einnig 9. kafla rgl. nr. 400/1998.  Málið sé alls ekki komið á það stig.  Umhverfið verði óbreytt eftir borun að öðru leyti en því að lítill stútur, u.þ.b. 40 cm á hæð og 30 cm að þvermáli, mun standa upp úr jörðinni, minna áberandi en girðingarstaur eða lítið grenitré.  Borholan sem slík breytir engu um hagnýtingu landsins í framtíðinni eða núverandi skipulagi þess.  Ákvæði 27. gr. laga nr. 73/1997 taki alls ekki til allra framkvæmda, sbr. athugsemdir í nefndaráliti um greinina.  Þá séu hagmunir kæranda varðandi kostnað af tilraunaborunum og borholu í öðru landi tryggðir með lögum nr. 57/1998.  Rétt sé að minna á að umrædd landsspilda Eflingar sé eignarland og beri að túlka öll ákvæði sem takmarki eignar- og afnotarétt félagsins þröngt út frá stjórnarskrárákvæðum um friðhelgi eignarréttar.  Loks sé þess að geta að sveitarstjórnir hafa ekki gert kröfu um framkvæmdaleyfi vegna rannsóknar og leitar að jarðhita.

Af hálfu Eflingar er því ennfremur haldið fram að sveitarstjórn Skorradalshrepps hafi ekki staðið rétt að samþykkt um kröfur gegn Eflingu og kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Formlegur úrskurður sveitarstjórnar liggi ekki fyrir.  Verði málið því ekki kært til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 10. kafla rgl. nr. 400/1998.

Loks er því haldið fram að sveitarstjórnin sjálf og ýmsir fulltrúar hennar séu beinlínis vanhæfir í málinu í skilningi 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 vegna náinna hagsmunatengsla við Hitaveitu Skorradals, sér í lagi oddviti hennar, Davíð Pétursson.  Séu kröfur sveitarstjórnarinnar að svo vöxnu máli, og málsmeðferð öll, að engu hafandi.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Úrskurðarnefndin leitaði umsagnar Skipulagsstofnunar um álitaefni máls þessa með bréfi, dags. 21. febrúar 2000.  Í umsögn stofnunarinnar, sem barst nefndinni samdægurs, segir svo:

„Í deiliskipulagi Hvamms í Skorradal, sem samþykkt var af skipulagsstjóra ríkisins þann 23. ágúst 1995, er sýnd staðsetning borholu fyrir kalt vatn á svæðinu, auk dreifikerfis þess. Fyrirhuguð heitavatnsborhola er ekki sýnd í gildandi deiliskipulagi.

Samkvæmt gögnum málsins mun fyrirhugað, eða þegar hafið, að bora eftir heitu vatni í landi Hvamms í Skorradal á grundvelli rannsókna sem Jarðboranir hafa gert fyrir Skorradalshrepp. Þær rannsóknir leiddu í ljós að heitt vatn væri að finna á tveimur stöðum í hreppnum, í Hvammi og að Stóru-Drageyri, þar sem vinnsla er þegar hafin. Því er væntanlega um að ræða vinnsluholu en ekki rannsóknarholu, sbr. bréf Orkustofnunar til Skorradalshrepps, dags. 10. febrúar 2000. Framkvæmdin nú mun felast í borun allt að 800 m djúprar holu. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvaða framkvæmdir fylgja boruninni, t. d. hvort gera verður sérstakar ráðstafanir til að koma bornum að eða hvernig dreifingu þess vatns sem upp kann að koma verður háttað.

Samkvæmt grein 9.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, sbr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, skulu meiri háttar framkvæmdir, sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess vera í samræmi við skipulagsáætlanir og óheimilt er að hefja slíkar framkvæmdir, sem ekki eru háðar byggingarleyfi, fyrr en að fengnu framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar. Tekið er fram að meiri háttar framkvæmdir við dreifi- og flutningskerfi hitaveitna séu háðar framkvæmdaleyfi.

Lögmaður landeigenda, Atli Gíslason hrl., hefur haldið því fram að framkvæmd sú sem hér um ræðir sé ekki háð framkvæmdaleyfi þar sem hún sé unnin skv. lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Skipulagsstofnun vill í því sambandi benda á 1. gr. laganna, þar sem sérstaklega er tekið fram að um rannsóknir og nýtingu samkvæmt þeim gildi einnig náttúruverndarlög, skipulags- og byggingarlög og önnur lög sem varða rannsóknir og nýtingu lands og landsgæða. Lög nr. 57/1998 útiloka því ekki að ákvæði skipulags- og byggingarlaga um framkvæmdaleyfi geti átt við.

Skipulagsstofnun telur sig ekki hafa nægilegar upplýsingar um fyrirhugaða framkvæmd eða áhrif hennar á umhverfið og ásýnd þess til að taka afstöðu til framkvæmdaleyfisskyldu hennar, en bendir á að dreifikerfi hitaveitna er ein þeirra framkvæmda sem taldar eru upp í dæmaskyni um framkvæmdir sem háðar eru framkvæmdaleyfi skv. skipulags- og byggingarlögum og skipulagsreglugerð.”

Niðurstaða: Eins og að framan er getið hefur lögmaður Eflingar krafist þess að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Ekki er fallist á þá málsástæðu að á hafi skort að fyrir lægi kæranleg stjórnvaldsákvörðun sveitarstjórnar.  Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 73/1997 má leita úrlausnar úrskurðarnefndarinnar þegar vafi leikur á um það hvort framkvæmdaleyfi þurfi til ákveðinnar framkvæmdar.  Verður að skilja ákvæði þetta svo að hvor aðili um sig geti leitað úrlausnar nefndarinnar samkvæmt ákvæðinu, án þess að fyrir liggi formleg afgreiðsla sveitarstjórnar um ágreininginn.  Jafnframt því að leita úrlausnar nefndarinnar skv. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 73/1997 telur úrskurðarnefndin að unnt sé að krefjast stöðvunar framkvæmda, enda tekur ákvæði 5. mgr. 8. gr. sömu laga til allra ágreiningsmála sem nefndin fær til meðferðar, eftir því sem við getur átt, óháð því við hvaða málskotsheimild er stuðst.  Þá verður ekki fallist á að það leiði til frávísunar kröfu um stöðvun framkvæmda að hún sé of seint fram komin, sé krafan sett fram innan kærufrests.  Tómlæti um að setja fram slíka kröfu getur hins vegar haft áhrif á efnislega niðurstöðu um kröfuna.  Engin önnur rök þykja eiga að leiða til frávísunar málsins og verður frávísunarkröfu Eflingar því hafnað.

Úrskurðarnefndin telur að fyrir liggi fullnægjandi málsreifun, málsgögn og rannsókn máls til þess að unnt sé nú þegar að ljúka efnisúrlausn málsins.  Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda í úrskurðarformi, en heimildir kærða til að halda framkvæmdum áfram ráðast af niðurstöðu nefndarinnar um það álitaefni hvort framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 73/1997 hafi þurft fyrir framkvæmdunum.

Framkvæmdir þær, sem um er deilt í málinu, eiga sér stoð í heimildum laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu.  Við framkvæmdirnar ber þó jafnframt að gæta ákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, eftir því sem við á, enda sérstaklega til þeirra vísað í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 57/1998.  Verður því að skera úr um það hvort hinar umdeildu framkvæmdir séu þess eðlis að til þeirra hefði þurft framkvæmdaleyfi skv. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 73/1997.

Ákvæði 27. gr. laga nr. 73/1997 um framkvæmdaleyfi var sett að tilhlutan umhverfisnefndar Alþingis við meðferð frumvarps til skipulags- og byggingarlaga.  Í nefndaráliti umhverfisnefndar, sem fylgdi breytingartillögum nefndarinnar, segir að ákvæðið eigi við um framkvæmdir sem ekki séu háðar byggingarleyfi og hafi áhrif á umhverfið og breyti ásýnd þess.  Falli skógrækt, landgræðsla og efnistaka til dæmis þar undir.  Enda þótt síðar hafi verið sett sérákvæði um landgræðslu- og skógræktaráætlanir í 5. mgr. 27. gr. með 4. gr. laga nr. 135/1997, um breytingu á skipulags- og byggingarlögum  nr. 73/1997, bendir bæði orðalag 1. mgr. 27. gr. og nefndarálit umhverfisnefndar um ákvæðið eindregið til þess að fyrir löggjafanum hafi fyrst og fremst vakað að framkvæmdaleyfi þyrfti til framkvæmda sem hefðu í för með sér varanlegar og sýnilegar breytingar á umhverfinu.

Nánari ákvæði um framkvæmdaleyfi voru sett með skipulagsreglugerð nr. 400/1998.   Í grein 9.1 í reglugerðinni eru taldar ýmsar framkvæmdir sem háðar eru framkvæmdaleyfi.  Er framkvæmda við borun eftir vatni ekki getið þar sérstaklega og verður ekki leitt af ákvæði reglugerðarinnar að slíkar framkvæmdir séu fortakslaust háðar framkvæmdaleyfi.  Verður því að meta í hverju tilviki hvort borun eftir vatni hafi þau áhrif á umhverfið að framkvæmdaleyfis sé þörf.

Við mat á því hvort umrædd borhola sé háð framkvæmdaleyfi verður ekki litið til þess að gerð hennar kunni að hafa áhrif á það jarðhitakerfi sem borað er í.  Eru önnur réttarúrræði tiltæk leiði borunin til skerðingar á lögvörðum hagsmunum kæranda.  Verður heldur ekki litið til þess hvort borhola Eflingar telst rannsóknarhola eða vinnsluhola enda breytir það engu um áhrif hennar á umhverfið.  Komi til virkjunar holunnar mun það hins vegar hafa í för með sér leyfisskyldar framkvæmdir, en kærða verður ekki nú gert að sækja um leyfi til þeirra framkvæmda, enda enn óséð hver árangur verður af boruninni og þá hvort, hvenær eða með hvaða hætti komið gæti til nýtingar á holunni.

Eins og aðstæðum er háttað á borunarstað í landi Eflingar verður ekki séð að borholan  hafi í för með sér þær varanlegu breytingar á ásýnd lands að framkvæmdaleyfis hafi verið þörf til að ráðast mætti í gerð hennar.  Er þá áskilið að rask vegna framkvæmda við borholuna verði afmáð að framkvæmdum loknum.  Var kærða því ekki skylt að sækja um framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar fyrir hinum umdeildu framkvæmdum.

Hæfi sveitarstjórnar eða einstakra sveitarstjórnarmanna þykir ekki koma til álita við úrlausn máls þessa, enda ekki til umfjöllunar formleg stjórnvaldsákvörðun, sem ógildanleg kynni að vera á grundvelli vanhæfissjónarmiða.  Verður málsástæða Eflingar, er varðar  vanhæfi og hagsmunatengsl, því ekki tekin til frekari umfjöllunar.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hreppsnefnd Skorradalshrepps hafi verið rétt að leita úrlausnar nefndarinnar um ágreining málsaðila með þeim hætti sem gert var.  Janfnframt er það niðurstaða nefndarinnar að kærða hafi ekki verið skylt að afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar áður en ráðist var í gerð umræddrar borholu og að honum sé heimilt að ljúka framkvæmdum við borun og frágang borholu og borunarsvæðis, án framkvæmdaleyfis.  Verður kröfum kæranda í málinu því hafnað.

Lagaheimild skortir til að úrskurða megi aðilum málskostnað fyrir úrskurðarnefndinni.  Ber því að vísa kröfum aðila um kærumálskostnað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu sveitarstjórnar Skorradalshrepps um að úrskurðað verði að framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar þurfi til borunar eftir heitu vatni, sem hafin er á vegum Eflingar – stéttarfélags í landi félagsins að Hvammi í Skorradal.  Jafnframt er hafnað kröfu kæranda um að framkvæmdir við borunina verði stöðvaðar.  Kröfum málsaðila um kærumálskostnað er vísað frá úrskurðarnefndinni.