Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

47/1999 Brautarholt

Ár 1999, miðvikudaginn 1. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 47/1999; kæra P, Brautarholti, Kjalarnesi á ákvörðunum byggingarnefndar Kjalarneshrepps frá 27. janúar 1998 og 4. júní 1998 um að veita leyfi til byggingar tveggja svínahúsa og þjónustuhúss í landi Brautarholts á Kjalarnesi.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags 27. september 1999, sem barst nefndinni hinn 28. sama mánaðar, kærir Guðjón Ólafur Jónsson hdl. f.h. P, Brautarholti, Kjalarnesi ákvarðanir byggingarnefndar Kjalarneshrepps frá 27. janúar 1998 og 4. júní 1998 um að veita leyfi til byggingar tveggja svínahúsa og þjónustuhúss í landi Brautarholts.  Hinar kærðu ákvarðanir voru staðfestar af hreppsnefnd Kjalarneshrepps hinn 26. febrúar og 4. júní 1998.  Kærandi krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Um kæruheimild vísar kærandi til 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997 um úrskurðarnefnd samkvæmt 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 10. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.

Málavextir:  Kærandi kveðst búa á óðalsjörðinni Brautarholti á Kjalarnesi.  Segir í kærunni að jörðin sé óðalsjörð sem kærandi, ásamt bróður sínum, J, hafi tekið við af foreldrum þeirra árið 1967. Þeir bræður hafi rekið kúabú á jörðinni frá 1953, grasmjölsverksmiðju frá 1964 og graskögglaverksmiðju frá 1972.  Árið 1982 hafi J og synir hans hafið uppbygging á nútíma svínabúi á jörðinni, en einhver svínarækt hafi verið þar allt frá árinu 1957.  Eigi þeir og reki fyrirtækið Svínabúið Brautarholti ehf.  Jörðinni hafi að hluta til verið skipt með landskiptagerð árið 1989.  Árið 1997 hafi forsvarsmenn Svínabúsins Brautarholti ehf. kynnt hugmyndir sínar um nýtt og stærra svínabú á jörðinni þar sem væru 560 gyltur að meðaltali á ári, í stað 270 áður.  Hafi búið átt að vera í 325 metra fjarlægð frá íbúðarhúsi kæranda og hafi undanþága verið fengin frá ákvæði heilbrigðisreglugerðar um 500 metra lágmarksfjarlægð slíks bús frá íbúðarhúsi.

Á fundi byggingarnefndar Kjalarneshrepps þann 8. janúar 1998 hafi uppdrættir af tveimur svínahúsum verið lagðir fram til kynningar og á fundi sínum þann 27. janúar 1998 hafi nefndin samþykkt uppdrættina með fyrirvara um samþykki sveitarstjórnar.  Hreppsnefnd hafi staðfest samþykkt byggingarnefndar á fundi sínum 26. febrúar 1998.  Byggingarnefnd hafi síðan samþykkt byggingu þjónustuhúss við svínahúsin þann 4. júní 1998 og hafi hreppsnefnd staðfest þá samþykkt sama dag.

Kærandi kveðst hvorki hafa fengið tilkynningu um að fyrir lægi umsókn um byggingarleyfi né hafi sér verið gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við fyrirhugaða byggingu.  Hafi honum verið með öllu ókunnugt um að leyfi hefði verið gefið út fyrir byggingu umræddra mannvirkja fyrr en byggingarfulltrúinn í Reykjavík hafi svarað fyrirspurn lögmanns hans, dags. 24. ágúst 1999, með bréfi, dags. 31. ágúst 1999.  Hafi honum því verið ómögulegt að kæra veitingu leyfanna fyrr.  Vísar kærandi í þessu sambandi til 1. mgr. 2. gr. reglug. nr. 621/1997 og gr. 10.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.

Kærandi kveðst byggja kröfu sína um að framangreind byggingarleyfi verði felld úr gildi á því að ekki hafi legið fyrir samþykkt deiliskipulag eða meðmæli Skipulagsstofnunar, sbr. 2. mgr. 43. gr. og 3. tl. ákvæðis til bráðabirgða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, ekki hafi farið fram lögbundin grenndarkynning, sbr. 7. mgr. 43. gr. sömu laga, honum hafi ekki verið tilkynnt um að málið væri til meðferðar eða á annan hátt gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum, sbr. 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og að meðalhófs- og rannsóknarreglur stjórnsýslulaga hafi verið brotnar, sbr. 10. og 12. gr. laganna.

Niðurstaða:  Samkvæmt yfirliti byggingarfulltrúans í Reykjavík, sem tók við umsjón byggingarmála á Kjalarnesi eftir sameiningu Kjalarneshrepps við Reykjavíkurborg um mitt ár 1998, hófust hinar umdeildu byggingarframkvæmdir að Brautarholti í júní 1998.  Ber yfirlitið með sér að framkvæmdum hefur verið haldið áfram, án þess að hlé hafi orðið á, allt frá þeim tíma og fram til 23. júlí 1999, en þann dag er staðfest að hús 1 og 2 og þjónustuhús séu fokheld.  Kærandi býr örskammt frá byggingarstað og verður að ætla að honum hafi verið kunnugt um framkvæmdir á staðnum enda þótt honum hafi ekki verið tilkynnt formlega um leyfi byggingarnefndar fyrir þeim.  

Samkvæmt 4. mgr. 39. greinar laga nr. 73/1997 getur hver sá er telur rétti sínum hallað með samþykkt byggingarnefndar eða sveitarstjórnar skotið málinu til úrskurðarnefndar innan mánaðar frá því honum varð kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar.  Til þess verður að ætlast að þeir sem telja framkvæmdir, sem hafnar eru, andstæðar hagsmunum sínum leiti sér upplýsinga um heimildir fyrir þeim.  Kærandi spurðist fyrst fyrir um byggingarleyfi fyrir umræddum framkvæmdum rúmu ári eftir að ætla verður að honum hafi verið orðið um þær kunnugt og nokkru eftir að umdeildar byggingar höfðu verið reistar og gerðar fokheldar.  Verður að telja að kærufrestur hafi þá verið löngu liðinn og ber því, með vísun til 28. greinar stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru P, Brautarholti, Kjalarnesi á ákvörðunum byggingarnefndar Kjalarneshrepps frá 27. janúar 1998 og 4. júní 1998, staðfestum af sveitarstjórn hinn 26. febrúar og 4. júní 1998, um að veita leyfi til byggingar tveggja svínahúsa og þjónustuhúss í landi Brautarholts á Kjalarnesi er vísað frá úrskurðarnefndinni.