Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

22/1998 Ingólfsstræti

Ár 1998, miðvikudaginn 7. október kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 22/1998; kæra eiganda Ingólfsstrætis 7a vegna byggingarleyfis fyrir viðbyggingu að Ingólfsstræti 7b, Reykjavík.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 25. júní 1998, sem barst nefndinni hinn 29. sama mánaðar, kærir E, Ingólfsstræti 7a, Reykjavík ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 14. maí 1998 um að veita leyfi til þess „að byggja 2. hæð og ris úr timbri í stað steinsteypu, einangra og múrhúða kjallara að utan, setja glugga á suðurvegg kjallara, breyta glugga á norðurhlið stigahúss og að klæða 1. og 2. hæð hússins á lóðinni nr. 7B við Ingólfsstræti að utan með bárujárni.“  Ákvörðun þessi var staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 4. júní 1998.  Kærandi krefst þess aðallega að samþykktar teikningar af Ingólfsstræti 7b verði felldar úr gildi en til vara að viðbyggingin verði tekin út af Eldvarnaeftirliti og að byggingaraðila verði sett tímamörk til að ljúka framkvæmdum.  Um kæruheimild vísast til 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997.  Þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni var hún ekki studd neinum gögnum og var kæranda gefinn kostur á að leggja fram nauðsynleg gögn.  Bárust nefndinni gögn í málinu hinn 13. júlí 1998 og var málið þá fyrst tækt til efnislegrar meðferðar.  Við meðferð málsins kom síðar í ljós að breytingar á húsinu nr. 7b við Ingólfsstræti kynnu að fara í bága við gildandi deiliskipulag.  Af þessu tilefni óskaði úrskurðarnefndin eftir skýringum byggingaryfirvalda í Reykjavík og ákvað jafnframt að lengja afgreiðslutíma málsins í allt að 3 mánuði skv. heimild í 4. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997.  Var kæranda tilkynnt þessi ákvörðun með bréfi dags. 14. september 1998.
 
Málavextir:   Húsið að Ingólfsstræti 7b var upphaflega teiknað árið 1923 og var þá gert ráð fyrir að það yrði tvær hæðir og ris en einhverra hluta vegna var húsið ekki byggt í þá hæð.  Umrætt hús stendur á svonefndum Iðnaðarmannareit, sem markast af Ingólfsstræti, Hallveigarstíg, Bergstaðastræti og Skólavörðustíg.  Fyrir svæði þetta var gert deiliskipulag og staðfest á árinu 1989.  Var í því skipulagi gert ráð fyrir að húsið yrði rifið og nýtt hús byggt í þess stað.  Með breytingu á deiliskipulagi, sem staðfest var hinn 30. júní 1994, var fallið frá fyrri áformum og lagt til að húsið fengi að standa áfram og að leyfð yrði ofanábygging samkvæmt teikningu frá 1923 að viðbættri lítils háttar stækkun, sem sótt hafði verið um.  Hinn 13. október 1994 veitti byggingarnefnd Reykjavíkur leyfi til þess að fullgera húsið samkvæmt byggingarleyfi frá 1. ágúst 1923 með smávægilegri hækkun á risi.  Árið 1995 var enn gerð breyting á deiliskipulagi svæðisins.  Var lóðin að Ingólfsstræti 7b þá minnkuð um 18 fermetra vegna breytinga á bílastæðum sunnan lóðarinnar en gangstéttarkvöð á lóðinni jafnframt felld niður.  Skipulagsbreyting þessi var staðfest 2. ágúst 1995. Á fundi byggingarnefndar Reykjavíkur hinn 14. september 1995 var minnkun lóðarinnar samþykkt.  Jafnframt var á sama fundi samþykkt breytt innra fyrirkomulag íbúðar á 1. hæð og innrétting íbúðar á  2. hæð og í risi ásamt leyfi fyrir áður gerðri íbúð í kjallara.  Á fundi byggingarnefndar hinn 14. desember 1995 var síðan samþykkt að leyfa að settar yrðu svalir á húsið og að anddyri kjallara yrði stækkað um 6 fermetra.  Í nóvember 1995 hófust framkvæmdir við viðbyggingu við húsið og hafa framkvæmdir við viðbygginguna og lagfæringar á húsinu staðið yfir frá þeim tíma.  Samkvæmt yfirliti um úttektir byggingarfulltrúa hefur verið unnið að verkinu í nóvember 1995 og síðan á vormánuðum 1996 til maíloka.  Framkvæmdir virðast síðan hafa legið niðri um alllangt skeið en hafist aftur í apríl 1997 og þá staðið fram undir lok þess árs. Í desember 1997 var gerð fyrirspurn til byggingarnefndar þess efnis hvort leyft yrði að byggja 2. hæð og ris hússins úr timbri með bárujárnsklæðningu í stað steinsteypu eins og áður hafði verið samþykkt.  Fyrirspurn þessi hlaut jákvæða umsögn og var í framhaldi af því sótt um leyfi fyrir þessum breytingum með formlegum hætti.  Kom málið til meðferðar á fundi byggingarnefndar hinn 8. apríl 1998 en var þá frestað til frekari skoðunar.  Á fundi byggingarnefndar hinn 14. maí 1998 var síðan samþykkt leyfi til að byggja  2. hæð og ris úr timbri með járnklæðningu í stað steinsteypu, ásamt nokkrum minni háttar breytingum.  Er þetta sú ákvörðun, sem kærð er í máli þessu, en af gögnum málsins má ráða að nokkurrar óánægju hefur gætt á undanförnum árum meðal næstu nágranna varðandi áform um viðbyggingu við Ingólfsstræti 7b og það hvernig að framkvæmdum hefur verið staðið.

Málsrök kæranda:  Kærandi telur að ekki hafi verið gætt nægilega vel að eldvörnum við gerð teikninga að breytingum á Ingólfsstræti 7b og við samþykkt þeirra.  Á milli húsanna nr. 7a og 7b við Ingólfsstræti séu rétt um 9 metrar en að bil milli timburhúsa eigi að vera 10 metrar samkvæmt reglugerð.  Ekkert samráð hafi verið haft við eigendur Ingólfsstrætis 7a um þetta atriði.  Þá tekur kærandi fram að aldrei hafi farið fram grenndarkynning vegna breytinganna á Ingólfsstræti 7b.  Telur kærandi að um sé að ræða svo umfangsmiklar breytingar að skylt hafi verið að viðhafa slíka kynningu.  Þá hafi mótmælum íbúa nærliggjandi húsa ekki verið svarað en mótmæli hafi verið send til byggingarfulltrúa.  Loks bendir kærandi á að eigandi Ingólfsstrætis 7b hafi nú í bráðum fimm ár „baslað við að byggja og breyta húsi sínu.“  Séu nágrannar orðnir langþreyttir á hamarshöggum og öðrum hávaða.

Málsrök byggingarnefndar og byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarnefndar Reykjavíkur er á það bent að ákvörðun nefndarinnar frá 14. maí 1998 feli ekki í sér neinar stærðarbreytingar né hækkun á  húsi.  Einungis hafi verið um að ræða breytingar á byggingarlýsingu og efni ofanábyggingar. Löngu hafi verið búið að heimila að byggja 2. hæð og ris ofan á húsið að Ingólfsstræti 7b og hafi áform um þær framkvæmdir verið kynnt í tillögu að deiliskipulagi á árinu 1994, sem staðfest hafi verið hinn 30. júní það ár.  Hafi því ekki þurft að láta fara fram grenndarkynningu vegna þeirrar breytingar á húsinu.  Af hálfu byggingarnefndar er hins vegar fallist á það að svalir á húsinu og stigahús austast á lóðinni séu ekki í samræmi við staðfest deiliskipulag en ábending um þetta kemur fram í umsögn Skipulagsstofnunar í málinu.  Samkvæmt fyrirliggjandi uppdrætti Borgarskipulags frá því í júní 1995 sé ljóst, að áformað hafi verið að breyta byggingarreit hússins þannig að stigahús og svalir yrðu innan marka deiliskipulags.  Jafnframt hafi verið gerð tillaga að breytingu á lóðarmörkum sunnan við húsið.  Kveður byggingarnefnd þennan uppdrátt hafa verið kynntan við auglýsingu á breyttu deiliskipulagi á árinu 1995.  Við endanlegan frágang uppdráttar til staðfestingar hafi hins vegar fallið niður breytingin á byggingarreit hússins og því hafi aðeins verið staðfest breyting á deiliskipulagi varðandi breytt lóðarmörk. Byggingarleyfi, sem veitt hafi verið á fundi byggingarnefndar hinn 14. desember 1995, þar sem leyft hafi verið að setja svalir á húsið, breyta anddyri og stækka kjallaraíbúð, hafi því verið veitt á þeirri röngu forsendu að tillaga Borgarskipulags frá júní 1995 að breyttu deiliskipulagi hafi hlotið staðfestingu.  Hins vegar er á það bent, að unnið hafi verið eftir umræddu byggingarleyfi allt frá útgáfu þess og hafi nágrönnum mátt vera full kunnugt um þær framkvæmdir, sem leyfið tekur til, þegar á árinu 1996.  Kærufrestur vegna þess leyfis sé því löngu liðinn og geti gildi þess því ekki komið til endurskoðunar úrskurðarnefndar í máli þessu.  Að því er varðar fjarlægð milli húsa og eldvarnarkröfur vísar byggingarnefnd til bréfs Eldvarnaeftirlits Reykjavíkur dags. 11. ágúst 1998 þar sem fram kemur að sé tekið tillit til klæðninga húsanna nr. 7a og 7b við Ingólfsstræti sé fjarlægð sem mælist milli þeirra nægileg til að fullnægt sé kröfum byggingarreglugerðar.  Byggingarnefnd fellst á það að umkvörtun kæranda um óhóflega langan byggingartíma  sé réttmæt og hefur byggingarfulltrúi með bréfi dags. 18. ágúst 1998 til byggingarleyfishafa beint tilmælum til hans um að hraða framkvæmdum og að framkvæmdum utanhúss verði lokið eigi síðar en hinn 1. nóvember 1998. 

Byggingarleyfishafanum, Hrafnhildi Hafberg, hefur verið gefinn kostur á að tjá sig um kæruefni máls þessa með vísun til 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Af hennar hálfu hefur ekki verið skilað greinargerð í málinu en munnlega hefur verið lýst fyrir nefndinni sjónarmiðum hennar, sem eru í aðalatriðum hin sömu og sjónarmið byggingarnefndar.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Úrskurðarnefndin leitaði umsagnar Skipulagsstofnunar um kæruefni málsins.  Í umsögn stofnunarinnar eru raktar þær breytingar, sem gerðar hafa verið á stærð og mörkum lóðarinnar að Ingólfsstræti 7b og á deiliskipulagi nærliggjandi svæðis. Er það niðurstaða Skipulagsstofnunar að teikningar þær af Ingólfsstræti 7b, sem samþykktar voru í byggingarnefnd hinn 14. maí 1998, séu ekki í samræmi við staðfest deiliskipulag.  Í umsögninni kemur jafnframt fram að þessar breytingar virðist reyndar þegar hafa verið búið að gera þegar byggingarnefnd fjallaði um Ingólfsstræti 7b á fundi sínum 14. desember 1995 og samþykkti nýjar teikningar.  Þá kemur fram í umsögninni að ekki hafi komið til þess að eigendum Skólavörðustígs 6b væri kynnt áform um stigahús austast á lóðinni að Ingólfsstræti 7b enda þótt slík kynning hafi komið til tals.  Er það álit Skipulagsstofnunar að fella beri hið kærða byggingarleyfi úr gildi.

Niðurstaða:   Eins og að framan er rakið var með samþykkt byggingarnefndar hinn 14. desember 1995 heimiluð breyting á húsinu nr. 7b við Ingólfsstræti, sem ekki var í samræmi við staðfest deiliskipulag.  Breyting þessi verður að teljast minni háttar og hefði verið hægt að taka um hana ákvörðun að undangenginni málsmeðferð skv. 3. mgr. 19. gr. þágildandi skipulagslaga nr. 19/1964, en kynna hefði átt nágrönnum breytinguna skv. ákvæði 2. mgr. greinar 3. 1. 1. í þágildandi byggingarreglugerð nr. 177/1992 með síðari breytingum.  Ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 14. desember 1995 varðandi stækkun Ingólfsstrætis 7b var að þessu leyti áfátt en fallast verður á það sjónarmið byggingarnefndar að kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar sé liðinn, sbr. 8. mgr. 8. gr. þágildandi byggingarlaga nr. 54/1978 með síðari breytingum, sbr. og 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Á grundvelli umræddrar ákvörðunar var gefið út byggingarleyfi og hefur verið unnið eftir því allt frá því á vormánuðum 1996 án þess að kærandi eða aðrir nágrannar hafi séð ástæðu til þess að bera umrædda  ákvörðun byggingarnefndar undir æðra stjórnvald. Verður, samkvæmt því sem nú var rakið, ekki tekin afstaða í úrskurði þessum til þeirra annmarka sem kunna að hafa verið á áðurnefndri ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 14. desember 1995.

Ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 14. maí 1998, sem kærð er í máli þessu, tekur einungis til óverulegra útlitsbreytinga auk breytinga á byggingarlýsingu og byggingarefni viðbyggingar þeirrar, sem áður hafði verið leyfð.  Fer þessi ákvörðun ein og sér ekki í bága við staðfest deiliskipulag og var því ekki skylt að kynna nágrönnum hana.  Breyting sú, sem leyfð var á byggingarefni viðbyggingar fer ekki heldur í bága við ákvæði þágildandi byggingarreglugerðar nr. 177/1992 með síðari breytingum, sbr. grein 5. 9. 2., sbr. og reglugerð um brunavarnir og brunamál nr. 269/1978, grein 2. 1. 1. enda verður viðbyggingin klædd bárujárni. Verður því, með vísun til þess sem að framan er rakið, ekki fallist á aðalkröfu kæranda um að samþykktar teikningar af Ingólfsstræti 7b verði felldar úr gildi. Úrskurðarnefndin fellst hins vegar á varakröfu kæranda um að viðbyggingin skuli tekin út af Eldvarnaeftirliti Reykjavíkur þegar frágangi útveggja og þaks er lokið.  Lagaskilyrði skortir til þess að verða við varakröfu kæranda um að byggingaraðila verði sett tímamörk til að ljúka framkvæmdum en vísað er til tilmæla í bréfi byggingarfulltrúa til byggingarleyfishafa dags. 18. ágúst 1998 um verklok utanhúss.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felldar verði úr gildi samþykktar teikningar af Ingólfsstræti 7b.  Lagt er fyrir byggingarnefnd Reykjavíkur að hlutast til um það að fram fari úttekt Eldvarnaeftirlits Reykjavíkur á viðbyggingu við húsið þegar frágangi útveggja og þaks er lokið.  Kröfu kæranda um að byggingaraðila verði sett tímamörk til að ljúka framkvæmdum er hafnað.