Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

19/1998 Kirkjubrú

Ár 1998, miðvikudaginn 5. ágúst kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 19/1998, kæra Á vegna synjunar hreppsnefndar Bessastaðahrepps á umsókn um byggingarleyfi að Kirkjubrú 12, Bessastaðahreppi.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 3. júní 1998 kærir Karl Axelsson hrl. f.h. Á ákvörðun hreppsnefndar Bessastaðahrepps frá 14. apríl 1998 um að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi að Kirkjubrú 12, Bessastaðahreppi.  Krefst hann þess að ákvörðun hreppsnefndar verði endurskoðuð og að kæranda verði veitt leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni með fyrirvara um samþykkt teikninga.  Um kæruheimild vísar kærandi til 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. reglugerð nr. 621/1997.

Málavextir:  Kærandi kveðst hafa óskað eftir byggingarleyfi til að byggja á lóð sinni að Kirkjubrú 12 þann 20. maí 1995. Í svari sveitarstjóra hafi komið fram að skipulagsnefnd teldi umsóknina ekki samræmast gildandi aðalskipulagi og að ekki væri unnt að taka afstöðu til byggingar á svæðinu fyrr en samþykkt deiliskipulag lægi fyrir.  Bréfaskriftir hafi átt sér stað milli aðila en áætlanir sveitarstjórnar um gerð deiliskipulags hafi í engu staðist. Hafi kærandi ítrekað umsókn sína um byggingarleyfi en umsóknin hafi enga afgreiðslu hlotið.  Kærandi krafðist formlegrar afgreiðslu umsóknar sinnar með bréfi dags. 18. mars 1998.  Segir í kærunni að svar hafi borist þann 14. apríl s. á. þar sem byggingarleyfisumsókn kæranda hafi verið hafnað á þeim grundvelli að ekki væri í gildi deiliskipulag fyrir jörðina.

Um kærufrest tekur lögmaður kæranda sérstaklega fram, að honum hafi ekki borist bréf hreppsnefndar dags. 14. apríl 1998 í hendur fyrr en þann 5. maí 1998.  Til vara er um kærufrestinn byggt á þeirri málsástæðu að byggingarleyfisumsókn kæranda hafi verið send inn í tíð byggingarlaga nr. 54/1978 en samkvæmt 8. mgr. 8. gr. þeirra laga sé kærufrestur þrír mánuðir.

Niðurstaða:  Um kærufrest í máli þessu gildir ákvæði 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og er hann einn mánuður.  Verður ekki fallist á þá málsástæðu kæranda að fara eigi að reglum byggingarlaga nr. 54/1978 um kærufrest þar sem umsókn kæranda um byggingarleyfið hafi verið send inn í gildistíð þeirra laga.  Tilvitnuð eldri lög voru felld úr gildi við gildistöku laga nr. 73/1997 hinn 1. janúar 1998 og verður reglum eldri laga um kærufrest ekki beitt í máli þessu enda var hin kærða ákvörðun tekin hinn 6. apríl 1998.  Var þar að auki í raun um að ræða afgreiðslu á erindi kæranda frá 18. mars 1998.

Samkvæmt fyrirliggjandi umsögn sveitarstjóra Bessastaðahrepps um kæruefnið eru bréf frá embætti hans samkvæmt venju póstlögð sama dag og þau eru skrifuð eða, ef sérstaklega stendur á, daginn eftir.  Er þetta í samræmi við það sem segir í atvikalýsingu í kærunni en þar segir að svar hafi borist hinn 14. apríl 1998.  Ekki verður fallist á að það lengi kærufrestinn þótt lögmanni þeim, sem með málið fór, hafi ekki borist bréf hreppsnefndar Bessastaðahrepps frá 14. apríl 1998 fyrr en þann 5. maí 1998 enda verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að bréfið hafi borist skrifstofu hans með eðlilegum hætti. Einnig er þess að gæta að enn var nokkur tími til að kæra innan lögmælts kærufrests eftir að lögmanninum varð kunnugt um efni umrædds bréfs.  Með vísun til framanritaðs og með hliðsjón af ákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.