Ár 1998, miðvikudaginn 15. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 4/1998
Ágreiningur milli húseiganda að Bjarkarhlíð 6 í Egilsstæðabæ og byggingaryfirvalda um opnun veitingastaðar með vínveitingaleyfi að Lyngási 5 – 7.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til umhverfisráðuneytisins, dags. 8.2. 1998, kærir G, Bjarkarhlíð 6, Egilsstöðum samþykkt bæjarstjórnar Egilsstaðabæjar frá 18. nóvember 1997 „um opnun á veitingastað með vínveitingaleyfi við Lyngás 1 – 3 á Egilsstöðum.“
Gerir hann kröfu til þess að ofangreind samþykkt bæjarstjórnar verði ógilt.
Um kæruheimild er vísað til 7. mgr. 8. gr. byggingarlaga nr. 54/1978.
Með bréfi úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. febrúar 1998, var kæran kynnt byggingarnefnd og bæjarstjórn Egilsstaðabæjar og þeim gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Sama dag var óskað umsagnar Skipulagsstofnunar um kæruefnið skv. eð-lið 4. gr. laga nr. 73/1997. Þá var rekstraraðila veitingastaðarins að Lyngási 5 – 7, Egilsstöðum, jafnframt gefinn kostur á að að koma að athugasemdum sínum við framkominni kæru. Úrskurðarnefnd hafa borist álit og umsagnir ofangreindra aðila. Þá hefur nefndinni ennfremur borist bréf frá kæranda, dags. 25. mars s.l., þar sem hann gerir frekari grein fyrir kröfum sínum. Í því bréfi leiðréttir kærandi tilgreiningu á húsnúmeri umrædds veitingastaðar, hið rétta sé að húsið sé nr. 5 – 7 við Lyngás á Egilsstöðum.
Með nýjum skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, sem tóku gildi þann 1. janúar 1998, voru byggingarlög nr. 54/1978 felld úr gildi. Samkvæmt 8. gr. hinna nýju laga, sbr. og 2. gr. reglugerðar um úrskurðarnefnd nr. 621/1997, fjallar úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarlaga um ágreining um skipulags- og byggingarmál samkvæmt þeim lögum.
Umhverfisráðuneytið framsendi erindi þetta til úrskurðarnefndar þann 9. febrúar s.l.
Málsatvik: Samkvæmt gögnum málsins eru helstu atvik þessi.
Með bréfi til bæjarstjóra Egilsstaðabæjar, dags. 15. september 1997, sækir Ágúst Ólafsson f. h. Valkyrja ehf. um rekstrarleyfi fyrir veitingahús á efri hæð hússins að Lyngási 3 (sic.) Í bréfinu segir að ætlunin sé að starfrækja þar matsölustað undir nafninu PIZZA´67, ásamt vínveitingum. Með bréfinu fylgdi teikning af húsnæðinu eins og fyrirhugað var að það yrði eftir breytingar.
Umsókninni var hafnað af skipulags- og byggingarráði Egilsstaðabæjar þann 18.9.1997 og þá bókað að ganga þyrfti frá teikningu í samræmi við byggingarreglugerð. Ennfremur var byggingarfulltrúa falið að kynna nágrönnum fyrirhugaða starfsemi í húsinu.
Með bréfi, dags. 22. september 1997 sækir sami aðili um leyfi til skipulagsnefndar til að breyta notkun efri hæðar hússins að Lyngási 5, úr íbúðar og skrifstofuhúsnæði, í húsnæði fyrir veitingarekstur.
Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 25. september 1997 var húseigendum við Bjarkarhlíð, Tjarnarás og Lyngás gefinn kostur á að tjá sig um fyrirhugaðan veitingarekstur að Lyngási 5 fyrir 27.10. 1997. Af því tilefni sendu kærandi og nokkrir húseigendur bréf til byggingarfulltrúa. Í bréfi sínu mótmælir kærandi því að leyfi verði veitt til sölu áfengis í húsinu, og óskar jafnframt eftir því að bæjarstjórn lýsi yfir andstöðu sinni við að sýslumaður veiti fyrirhuguðum veitingastað slíkt leyfi. Myndi slíkt leiða til aukins ónæðis í næsta nágrenni og verðlækkunar á fasteignum. Þá nefnir kærandi að fjöldi vínveitingaleyfa hafi þegar verið gefinn út í næsta nágrenni, og því ekki á bætandi.
Á fundi skipulags- og byggingarráðs þann 30.10.1997 var byggingarfulltrúa heimilað að gefa út byggingarleyfi til að breyta efri hæð hússins að Lyngási 5 í veitingastað. Bæjarstjórn staðfesti þá ákvörðun á fundi sínum 4.11. 1997.
Á fundi bæjarstjórnar Egilsstaðabæjar frá 8. nóvember 1997 er svo bókað um afgreiðslu á áfengisveitingaleyfi að Lyngási 5 – 7: „Bæjarstjóri kynnti málið, sem varðar starfsemi Pizza 67 að Lyngási 5 – 7. Sagði hann frá viðræðum við rekstraraðila um fyrirhugaðan rekstur. Að því búnu samþykkt samhljóða að mæla með vínveitingaleyfi til Pizza 67 á grundvelli þess samkomulags sem bæjarstjóri og rekstraraðilar gerðu, en þar er gert ráð fyrir opnunartíma sunnudaga til og með fimmtudaga til 23:30 en föstudaga og laugardaga til kl. 24:00. Þessi opnunartími verður endurskoðaður eftir 3 mánuði í rekstri ef ástæða þykir til.“
Rökstuðningur málsaðila: Kærandi rökstyður kröfu sína með því að opnun veitingastaður með vínveitingaleyfi að Lyngási 5-7 eigi ekkert erindi svo nálægt íbúðabyggð og að slíkur rekstur sé svo ólíkur þeim rekstri sem áður hafi verið á þessum stað að engin rök fyrir því að leyfa hann án þess að breyta skipulagi. Með samþykkt um vínveitinga- og rekstrarleyfi sé verið að opna möguleika til að hafa staðinn opinn til tvö til þrjú eftir miðnætti. Sé það ámælisvert af bæjarstjórn að vera þannig að læða leyfi fyrir veitinga- og skemmtistað yfir íbúa í nágrenninu, með þeim átroðningi sem vínveitingahúsum venjulega fylgi.
Í bréfi sínu til úrskurðarnefndar, dags. 25. mars s.l., segir kærandi svo ennfremur: „Það furðulegasta í þessu máli er sú sundurgreining sem er á leyfi fyrir matsölustað og vínveitingaleyfi. Vitað var strax í upphafi að Pizza 67 bæði um vínveitingaleyfið og að bæjarstjórn ætti að afgreiða það erindi. Sem síðan yrði forsenda þess að sýslumaður gæti gefið út vínveitingaleyfi skv. 12. gr. áfengislaga nr. 82/1969. Á þeim forsendum tel ég að ógilda þurfi afgreiðslu byggingarnefndar og bæjarstjórnar til að fá þessari ákvörðun hnekkt. Krafa mín er sú að úrskurðað verði að byggingarnefnd og bæjarstjórn Egilsstaða hafi brotið gildandi skipulag á þessu svæði með afgreiðslum sínum í þessu máli og samþykktir þeirra verði felldar úr gildi.“
Í bréfi byggingarfulltrúa, dags .9. mars s.l. er skýrð afstaða skipulags- og byggingaryfirvalda til kröfu kæranda. Þar segir m.a. að ekkert deiliskipulag sé til af þessu svæði, en í aðalskipulagi sé það skilgreint sem „blönduð landnýting, einkum verslun og iðnaður“ Í húsinu að Lyngási 5 – 7 hafi áður verið og/eða sé nú verslun, skrifstofa, íbúð, vélaverkstæði. Telur skipulags- og byggingarráð að ekki hafi komið fram mótmæli gegn matsölustað í húsinu, eins og um var sótt, og því engin rök gegn þeirri ákvörðun að leyfa þar matsölustað.
Niðurstaða: Með bréfi byggingarfulltrúa Egilsstaðabæjar þann 25. september 1997 var kæranda ásamt öðrum íbúum við Bjarkarhlíð, Tjarnarás og Lyngás, gefinn kostur á að tjá sig um fyrirhugaðan veitingarekstur að Lyngási 5 – 7. Því bréfi svaraði kærandi með bréfi þann 23. október 1997. Af því bréfi verður ekki ráðið að kærandi hafi lagst gegn því að veitt yrði byggingarleyfi vegna fyrirhugaðra breytinga á húsnæðinu. Hins vegar lýsir hann eindreginni andstöðu sinni við því að þar verði veitt leyfi til áfengisveitinga og færir fram rök fyrir þeirri afstöðu sinni.
Þann 30. október 1997 samþykkti skipulags- og byggingarráð bæjarins að heimila byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi til breytinga á efri hæð hússins að Lyngási 5, og var sú samþykkt staðfest af bæjarstjórn Egilsstaðabæjar þann 4. nóvember 1997.
Fram er komið að ekkert deiliskipulag er til af umræddu svæði við Lyngás, en það er skilgreint sem „blönduð landnýting, einkum verslun og iðnaður.“ Því verður ekki talið að bæjaryfirvöldum hafi borið að breyta skipulagi, áður en veitt var leyfi til veitingareksturs á efri hæð hússins nr. 5 – 7 við Lyngás. Af þeim sökum einum eru því engar forsendur til þess að verða við kröfu kæranda um að fella úr gildi samþykktir skipulags- og byggingarráðs og bæjarstjórnar Egilsstaðabæjar um leyfi til breytinga á umræddu húsnæði.
Hin kærða samþykkt bæjarstjórnar Egilsstaðabæjar frá 18. nóvember 1997 felur í sér umsögn hlutaðeigandi sveitarstjórnar til lögreglustjóra vegna umsóknar um leyfi til áfengisveitinga, sbr. 12. gr. áfengislaga nr. 82/1969, með síðari breytingum. Í ákvæðinu kemur fram, að áður en sveitarstjórn lætur uppi umsögn, skuli hún leita álits áfengisvarnarnefndar.
Úrlausn ágreinings um ofangreinda umsögn bæjarstjórnar til lögreglustjóra fellur ekki undir valdsvið úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Kröfu kæranda um að samþykkt bæjarstjórnar frá 18. nóvember 1997 er því vísað frá nefndinni.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda, G, um að fella úr gildi samþykktir skipulags- og byggingarráðs og bæjarstjórnar Egilsstaðabæjar frá 30. október og 4. nóvember 1997 um leyfi til að breyta efri hæð hússins nr. 5 – 7 við Lyngás í matsölustað.
Kröfu kæranda um ógildingu samþykktar bæjarstjórnar Egilsstaðabæjar frá 18. nóvember 1997 er vísað frá úrskurðarnefnd.