Árið 2025, miðvikudaginn 12. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 173/2024, kæra á þeirri afgreiðslu skipulagsfulltrúa Mosfellsbæjar frá 25. nóvember 2024 að synja fyrirtöku erindis um heimild landeiganda til að vinna að gerð deiliskipulags á eigin landareign.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 10. desember 2024, kærir eigandi lands í Mosfellsbæ með landnúmer 125425, afgreiðslu skipulagsfulltrúa Mosfellsbæjar frá 25. nóvember 2024 um að synja því að skipulagsnefnd taki fyrir beiðni hennar um heimild til að vinna að deiliskipulagi á eigin landareign.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 15. janúar 2025.
Málavextir: Hinn 4. maí 2023 sendi kærandi skipulagsnefnd Mosfellsbæjar rökstudda beiðni um heimild til að vinna sjálfur að deiliskipulagi á eigin landareign, sbr. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Beiðninni fylgdu drög að deiliskipulagslýsingu þar sem greind voru áform um skipulag landsins. Að fenginni umsögn skipulagsfulltrúa hafnaði nefndin þessari beiðni á fundi 16. júní 2023. Var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun 19. s. m. Með tölvupósti til formanns skipulagsnefndar Mosfellsbæjar hinn 24. október 2024 óskaði kærandi að nýju eftir heimild til að vinna að deiliskipulagi fyrir eigin landareign. Skipulagsfulltrúi bæjarfélagsins svaraði þeirri beiðni í tölvupósti dags. 25. nóvember s.á. með þeim orðum að erindið hefði þegar hlotið efnislega meðferð, verið hafnað með rökstuddum hætti og þar sem eðli og innihald þess væri óbreytt mundi það ekki hljóta frekari fyrirtöku skipulagsnefndar. Sú afstaða er hin kærða afgreiðsla í máli þessu.
Málsrök kæranda/kærenda: Kærandi telur ekki heimilt að synja landeigendum um að gera deiliskipulag á eigin landi. Þá hafi verið skylt að taka erindið frá 24. október 2024 til afgreiðslu í skipulagsnefnd í samræmi við skipulagslög en ekki einungis með afgreiðslu skipulagsfulltrúa.
Málsrök Mosfellsbæjar: Bæjarfélagið bendir á að erindi kæranda frá 24. október 2024 hafi verið algjörlega samhljóða því sem hann hafi sent árið 2023 að því frágreindu að nokkrum skýringarmyndum hefði verið bætt við drög að deiliskipulagslýsinguna, án þess að texta hefði verið breytt. Því hafi skipulagsfulltrúi talið að það hefði þegar fengið tilhlýðilega meðferð og ekki væri hægt að líta svo á að um endurupptökubeiðni hefði verið að ræða.
Niðurstaða: Í máli þessu er kærð afgreiðsla skipulagsfulltrúa Mosfellsbæjar frá 25. nóvember 2024 sem fólst í synjun um að skipulagsnefnd tæki fyrir beiðni kæranda um heimild til að vinna að deiliskipulagi á eigin landareign. Þess er um leið krafist að kærandi „fái heimild til að gera deiliskipulag að eigin landi“. Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga fara sveitarstjórnir með vald til skipulags innan marka sveitarfélags og bera ábyrgð á deiliskipulagsgerð. Í 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga er m.a. mælt fyrir um að sveitarstjórn geti veitt landeiganda eða framkvæmdaraðila heimild til að vinna að gerð deiliskipulags. Skal hann þá taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu, sbr. 1. mgr. 40. gr., og skal hún lögð fyrir sveitarstjórn á sama tíma og beiðni um heimild til að vinna tillögu að deiliskipulagi. Um kynningu, samráð, auglýsingu og samþykkt deiliskipulags fer þá skv. 40. og 41. gr. laganna.
Kærandi beindi erindi sínu í upphafi að formanni skipulagsnefndar Mosfellsbæjar, sem sendi það áfram til skipulagsfulltrúa til afgreiðslu. Í svari skipulagsfulltrúa við erindinu upplýsti hann að þar sem um sama mál væri að ræða og áður hefði verið afgreitt mundi skipulagsnefnd ekki taka það til afgreiðslu. Við athugun á gögnum málsins sýnist ljóst að um sömu umsókn sé að ræða og fylgdi deiliskipulagslýsingu sem send var Mosfellsbæ 4. maí 2023 og 24. október 2024. Í samræmi við það segir í kæru í máli þessu til nefndarinnar að málinu hafi áður verið synjað af skipulagsnefnd og hafi erindið verið ítrekað. Virðist eðlilegt að líta svo á að í hinni kærðu afgreiðslu hafi með þessu falist synjun um endurupptöku máls eða um afturköllun fyrri ákvörðunar sbr. 24. og 25. gr. stjórnsýslulaga.
Sá möguleiki borgara að leita til stjórnvalds með erindi sem áður hefur hlotið afgreiðslu þess getur vakið álitamál um hvort líta beri fremur á erindið sem nýtt mál eða beiðni um endurupptöku máls. Það getur haft þýðingu varðandi beitingu réttarheimilda auk þess að ný atvik geta verið komin til. Synjun um afgreiðslu felur ekki í sér breytingu á réttarstöðu umsækjanda. Í þeim tilvikum að fyrir liggur að erindi hafi áður verið synjað virðist því nærtækara að líta svo á að um nýtt mál sé að ræða, sem tekið verði til umfjöllunar sem slíkt. Verður að sýna varúð við að hafna efnislegri umfjöllun um mál við slíkar aðstæður enda þótt færa megi fram almenn rök um að með endurtekinni málsmeðferð sé grafið undan ákvæðum stjórnsýslulaga um endurupptöku mála.
Hvað sem þessu líður verður ekki ráðið af fyrirliggjandi gögnum að erindi kærenda hafi komið til umfjöllunar hjá því stjórnvaldi sem valdbært verður talið til að taka afstöðu til þess, þ.e. skipulagsnefnd sveitarfélagsins Mosfellsbæjar. Liggur því ekki fyrir ákvörðun stjórnvalds um lyktir máls sem borin verði undir úrskurðarnefndina sbr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Verður því að vísa þessu máli frá úrskurðarnefndinni. Jafnframt verður bent á að dragist afgreiðsla máls óhæfilega er heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í máli verður kærð til, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.