Árið 2024, þriðjudaginn 9. apríl, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 43/2024, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 3. apríl 2024 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi fyrir lóðirnar nr. 19 og 21–23 við Laufásveg.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 8. apríl 2024, kærir eigandi, Laufásvegi 22, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 3. apríl 2024 að samþykkja tillögu að deiliskipulagi fyrir lóðirnar nr. 19 og 21–23 við Laufásveg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Málsatvik og rök: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar 13. desember 2023 var tekin fyrir tillaga að deiliskipulagi fyrir lóðirnar nr. 19 og 21–23 við Laufásveg. Í tillögunni fólst breytt notkun á húsnæði því sem áður hýsti sendiráð Bandaríkjanna við Laufásveg 21–23 ásamt breyttri notkun á skrifstofum baklóðar Laufásvegar 19 í íbúðarhúsnæði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Var samþykkt að auglýsa tillöguna í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 1. mgr. 43. gr. sömu laga, og var sú afgreiðsla samþykkt af borgarráði á fundi þess 21. desember 2023. Tillagan var auglýst 11. janúar 2024 með athugasemdafresti til 22. febrúar s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda. Að kynningartíma loknum var tillagan tekin fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 3. apríl 2024. Samþykkti ráðið tillöguna og var málinu vísað til borgarráðs.
Kærandi bendir á að í kynningarbréfi, auglýsingu og sjálfri deiliskipulagstillögunni komi fram að markmið deiliskipulagsins hafi verið að heimila breytingu úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði. Nokkrum klukkustundum áður en frestur til athugasemda við deiliskipulagstillöguna hafi runnið út hafi borgaryfirvöld staðfest að ekki stæði til að innrétta íbúðarhúsnæði heldur koma fyrir umfangsmiklu búsetuúrræði. Íbúasamtök í íbúaráði Miðborgar og Hlíða hafi ekki treyst sér til að hafa skoðun á tillögunni vegna skorts á upplýsingum. Því miður sé óhjákvæmilegt að fara fram á að úrskurðarnefndin felli deiliskipulagið úr gildi svo hægt sé að kynna málið með réttum gögnum og forsendum.
Niðurstaða: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar var samþykkt tillaga að deiliskipulagi fyrir lóðirnar nr. 19 og 21–23 við Laufásveg og málinu vísað til borgarráðs. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan sex mánaða frá því að frestur til athugasemda rann út. Að lokinni lögmætisathugun Skipulagsstofnunar skal sveitarstjórn birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, en slík auglýsing er skilyrði gildistöku deiliskipulags og markar jafnframt upphaf eins mánaðar kærufrests til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Umrædd deiliskipulagsáætlun hefur ekki verið tekin fyrir af borgarráði og birt í B-deild Stjórnartíðinda. Liggur því ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.