Árið 2024, þriðjudaginn 9. apríl, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 26/2024, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá 7. febrúar 2024 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Bollagarða og Hofgarða vegna lóðar nr. 16 við Hofgarða.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður
um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. mars 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Melabraut 40, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá 7. febrúar 2024 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Bollagarða og Hofgarða vegna lóðar nr. 16 við Hofgarða. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu.
Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og umferðarnefndar Seltjarnarnesbæjar 13. apríl 2023 var lögð fram tillaga um breytingu á deiliskipulagi Bollagarða of Hofgarða vegna lóðar nr. 16 við Hofgarða. Fólst breytingartillagan í því að hækka nýtingarhlutfall lóðarinnar úr 0,41 í 0,48. Samþykkti nefndin að grenndarkynna tillöguna í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi hennar 26. s.m. Á kynningartíma komu kærendur á framfæri athugasemdum þar sem breytingartillögunni var mótmælt. Skipulags- og umferðarnefnd tók tillöguna fyrir að nýju á fundi 16. nóvember s.á. og bókaði um að tekið yrði tillit til mótmælanna með því að leyfa einungis 0,46 nýtingarhlutfall í staðinn fyrir hlutfallið 0,48 sem kynnt hefði verið. Beindi nefndin því til bæjarstjórnar að ganga frá málinu í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Samþykkti bæjarstjórn þessa afgreiðslu á fundi 7. febrúar 2024. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 9. febrúar 2024.
Kærendur telja ljóst að hin kærða ákvörðun sé haldin efnisannmörkum auk þess sem hún brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar og grenndarsjónarmiðum. Rangar forsendur og ómálefnaleg sjónarmið hafi verið lagðar til grundvallar hinni kærði ákvörðun. Nýtingarhlutfall Hofgarða 16 hafi fyrir breytinguna verið með því allra mesta sem fyrirfinnist á svæðinu. Bent sé á að veigamiklar ástæður þurfi að liggja fyrir til að breyta tiltölulega nýlegu skipulagi.
Af hálfu Seltjarnarnesbæjar hefur verið bent á að eigendur lóðarinnar að Hofgörðum 16 muni ekki aðhafast á meðan mál þetta sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.
Eigendur lóðarinnar Hofgarða 16 vísa til þess að kæran sé byggð á misskilningi. Deiliskipulagsbreytingin valdi kærendum eða öðrum nágrönnum engu tjóni þar sem hvorki sé um frekari skerðingu á útsýni að ræða né aukna innsýn. Á deiliskipulagssvæðinu sé fjöldi lóða með hærra nýtingarhlutfall og því sé hið breytta nýtingarhlutfall ekki einsdæmi.
Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.
Mál þetta snýst um gildi ákvörðunar um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi. Gildistaka deiliskipulagsáætlunar felur almennt ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra leyfisveitinga er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulags eða breytingu á slíkri áætlun. Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis skipulagsáætlana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa vegna hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa ákvörðunar bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá 7. febrúar 2024 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Bollagarða og Hofgarða vegna lóðar nr. 16 við Hofgarða.