Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

30/2024 Lónsbraut

Árið 2024, fimmtudaginn 5. apríl, tók Arnór Snæbjörnsson formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 30/2024, kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu Hafnarfjarðarbæjar á erindi kærenda um tilhögun fráveitu við Lónsbraut.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 18. mars 2024, kæra eigendur Lónsbrautar 20, 22, 24, 28, 34, 36, 40, 44, 46, 52, 54, 56, 58, 60, 62, 64, 66, 68, 70 og 72 meintan óhæfilegan drátt á afgreiðslu Hafnarfjarðarbæjar á erindi þeirra er varðar tilhögun fráveitu við Lónsbraut. Er þess krafist að úrskurðarnefndin hlutist til um að svar fáist frá Hafnarfjarðarbæ.

Athugasemdir vegna málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 21. mars 2024.

Málavextir: Með bréfi kærenda til bæjarstjóra Hafnarfjarðarbæjar, dags. 30. mars 2023, óskuðu kærendur eftir fundi með forsvarsmönnum bæjarins til að ræða fráveitumál við Lónsbraut. Kærendur eru eigendur bátaskýla við Lónsbraut, sem liggur við Hvaleyrarlón í Hafnarfirði. Fram kom í bréfinu að engin fráveitulögn hefði verið lögð að fasteignum kærenda en að þangað hefði verið lagt bæði heitt og kalt vatn. Sérstaklega mikilvægt sé að leggja fráveitu að fasteignunum þar sem Hvaleyrarlón hafi verið friðlýst sem fólkvangur árið 2009 og því sé óheimilt að losa frárennsli í lónið. Móttaka bréfsins var staðfest með tölvupósti þennan sama dag.

Með tölvupósti dags. 5. apríl 2023 var kærendum tilkynnt að umhverfis- og framkvæmdaráð bæjarins hefði tekið málið fyrir á fundi þann sama dag og vísað erindinu til skipulags- og byggingarráðs, en næsti fundur þess ráðs yrði 19. apríl. Kærendur spurðust fyrir um stöðu erindisins með tölvupósti 14. maí s.á. og fengu svar 19. s.m. þess efnis að erindið hefði farið fyrir skipulags- og byggingarráð 19. apríl, sem hefði vísað erindinu til skoðunar umhverfis- og skipulagssviðs. Að þeirri skoðun lokinni yrði málið tekið fyrir að nýju hjá skipulags- og byggingarráði.

Að sögn kærenda hafi ítrekað verið spurst fyrir um málið næstu mánuði en engin svör fengist. Með tölvupósti  20. október 2023 upplýstu kærendur bæjarstjóra um að ef afstaða bæjarins lægi ekki fyrir 25. október yrði Umhverfisstofnun upplýst um gang mála. Bæjarstjóri svaraði tölvupóstinum þann sama dag þar sem fram kom að óskað hefði verið eftir skoðun á málinu en láðst hefði að fylgja því eftir og að farið yrði strax í það. Kærendur sendu Umhverfisstofnun bréf 25. október s.á. þar sem stofnunin var upplýst um gang málsins. Með tölvupósti 2. nóvember s.á. var kærendum síðan tilkynnt að á fundi skipulags- og byggingarráðs þann sama dag hefði minnisblað skipulagsfulltrúa verið lagt fram og erindi kærenda verið vísað til meðferðar hjá bæjarlögmanni.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að þeir hafi ekki fengið fráveitu tengda við hús sín og hafi þeir sent Hafnarfjarðarbæ erindi 30. mars 2023, þar sem óskað hafi verið eftir að frárennslismálum yrði komið í löglegt horf. Bæjarlögmanni hafi verið falið að svara erindi kærenda í nóvember 2023, en ekkert svar hafi þó enn borist þeim.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er bent á að ekki hafi verið tekin nein stjórnvaldsákvörðun í málinu og því beri að vísa málinu frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða: Í máli þessu er til úrlausnar hvort afgreiðsla Hafnarfjarðarbæjar á erindi kærenda vegna tilhögunar fráveitu við Lónsbraut hafi dregist óhóflega.

Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er unnt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Er um undantekningarreglu að ræða frá 2. mgr. 26. gr. laganna, þar sem gengið er út frá því að ekki sé hægt að kæra þær ákvarðanir sem ekki binda enda á stjórnsýslumál fyrr en málið hafi verið til lykta leitt.

Fjallað er um tengingu við fráveitu í lögum nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Í lögunum er t.a.m. kveðið á um í 1. mgr. 4. gr. laganna að sveitarfélag beri ábyrgð á uppbyggingu fráveitna í sveitarfélaginu og í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að í þéttbýli skuli sveitarfélag koma á fót og stafrækja sameiginlega fráveitu. Þá kemur fram í 1. mgr. 11. gr. að eigandi eða rétthafi lóðar við götu, gönguleið eða opið svæði þar sem fráveitulögn liggi eigi rétt á að fá tengingu við fráveitukerfi. Samkvæmt 22. gr. laganna sæta stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt lögunum kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Með fyrirvara um að takmarkaðra gagna nýtur við fyrir úrskurðarnefndinni um atvik þessa máls eða sjónarmið Hafnarfjarðarkaupstaðar, verður að álíta að kæru um drátt á afgreiðslu máls sé réttilega beint til úrskurðarnefndarinnar skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Í 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga segir að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Í athugasemdum með 9. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að þar sem viðfangsefni sem stjórnvöldum berist séu mjög margvísleg taki úrlausn þeirra óhjákvæmilega misjafnlega langan tíma. Sum erindi séu þess eðlis að fyrirsjáanlegt sé að afgreiðsla máls muni taka nokkurn tíma og eigi það t.d. við um mál þar sem afla þurfi umsagnar annarra aðila, svo og gagna. Með þessu er ljóst að um matskennda reglu er að ræða og verður við mat á því hvort dráttur sé á afgreiðslu máls að taka mið umfangi þess og atvikum öllum.

Fyrir liggur að nokkur samskipti voru milli kærenda og Hafnarfjarðarbæjar í framhaldi af erindi kærenda 30. mars 2023. Samskiptin urðu stopulli eftir maí s.á. og var bæjarlögmanni falin meðferð erindis kærenda 2. nóvember s.á. Síðan eru liðnir rúmlega fimm mánuðir. Af hálfu Hafnarfjarðarkaupstaðar hefur ekkert komið fram um ástæður þessa dráttar, hvorki með vísan til rannsóknar, umfangs máls eða annarra ástæðna. Að því virtu verður að álíta að óhæfilegur dráttur hafi orðið á meðferð erindis kærenda.

Rétt þykir einnig að benda á að samkvæmt 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga ber þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast að skýra aðila máls frá því og upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.

 Úrskurðarorð:

Fallist er á með kæranda að óhæfilegur dráttur hafi orðið á meðferð erindis kærenda hjá Hafnarfjarðarbæ um tilhögun fráveitu við Lónsbraut.