Úrskurður vegna kæruTrölla ehf., Hafnarbraut 50, 740 Fjarðarbyggð gegn heilbrigðiseftirliti Austurlands, Búðareyri 7, 730 Fjarðarbyggð frá 2. júlí 2003.
Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.
Ár 2003 miðvikudaginn 2. júlí, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík. Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.
Fyrir var tekið mál nr. 3/2002 kæra Trölla ehf., Hafnarbraut 50, 740 Fjarðarbyggð gegn heilbrigðiseftirliti Austurlands, Búðareyri 7, 730 Fjarðarbyggð.
Í málinu er kveðinn upp svofelldur
úrskurður
I.
Kæra lögmanns kæranda, ásamt meðfylgjandi gögnum barst nefndinni í september 2002. Með kærunni fylgdi : 1) yfirlit yfir leyfi heilbrigðiseftirlits Austurlands vegna hvers konar gistingar á Neskaupstað,
2) bréf kæranda til kærða, heilbrigðiseftirlits Austurlands,
3) svarbréf síðarnefnda til kæranda.
Þá barst ennfremur svar kærða til umhverfisráðuneytis, ásamt ljósriti af starfsleyfum og umsóknum um starfsleyfi, en ráðuneytið hafði óskað greinargerðar heilbrigðiseftirlitsins vegna málsins.
Með bréfi úrskurðarnefndar dags. 8. apríl s.l. var óskað skilgreiningar á því hvers konar leyfi kærði var að veita með starfsleyfi fyrir Hótel Egilsbúð svo og var óskað svara við eftirfarandi spurningum :
Hver var fyrirhuguð notkun starfsmannabústaða þegar ákvörðun kærða um starfsleyfi var tekin og hvaða notkun hafi verið á húsnæðinu á þeim tíma sem fyrirspurn var send. Svar barst frá framkvæmdastjóra kærða með bréfi dags. 14. apríl, 2003, ásamt viðbótargögnum um mismunandi flokka gististaða. Svarbréf það var sent lögmanni kæranda til umsagnar og barst bréf hans 25. júní s.l.
II.
Í kæru kemur fram að kærð sé sú ákvörðun kærða frá 21. maí, 2001 að veita B.G. Brosi ehf. starfsleyfi fyrir Hótel Egilsbúð að Egilsbraut 1, Neskaupstað og ennfremur sú ákvörðun að veita sama aðila starfsleyfi fyrir starfsmannabústað að Hafnarbraut 8, Neskaupstað hinn 12. janúar 2002. Gerir lögmaður kærandi þá kröfu að starfsleyfi Hótels Egilsbúðar verði breytt þannig að það beri titilinn gistiheimilið Egilsbúð og ennfremur er þess krafist að starfsleyfi fyrir starfsmannabústaði verði fellt úr gildi. Þá er gerð sú krafa að ólögmæt afnot af starfsmannabústað að Hafnarbraut 8 í Neskaupstað verði bönnuð.
Lögmaður kæranda rekur málsatvik sem hann kveður þau að kærandi reki hótel og gistiþjónustustarfsemi í Neskaupstað. Hann hafi sem slíkur orðið að hlíta mjög ströngu eftirliti kærða og þeim reglum sem þeir setji. Skjóti því skökku við að kærði hafi veitt gistiheimili B.G. Bross ehf. starfsleyfi fyrir hóteli þar sem í reynd sé um að ræða gistiheimili og beri að sæta reglum um gistiheimili. Rekur lögmaður kæranda samskipti sín við heilbrigðiseftirlitið og greinir frá að kröfum sínum um leiðréttingu hafi verið hafnað af kærða. Því leiti hann með málið til úrskurðarnefndar skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.
Lögmaður kæranda byggir kröfur sínar á því að í lögum nr. 67/1985 um veitinga- og gististaði komi skýrt fram að enginn megi stunda slíka starfsemi nema hafa til þess leyfi.
Í 8. gr laganna komi fram að gististöðum sé skipt upp í 4 flokka ; hótel, gistiheimili, gistiskála og gistingu á einkaheimilum og mismunandi skilyrði séu fyrir leyfi hvers flokks fyrir sig. Í 3. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 288/1987 um veitinga- og gististaði komi fram að óheimilt sé að nota á veitinga- eða gististað nafn, sem gefi til kynna annan rekstur en leyfi sé veitt til. Lögmaður kæranda vísar til þess að kærði sé einn eftirlitsaðila þessara reglna. Ennfremur vísar hann til þess að við veitingu leyfis í maí 2001 hafi átt að fara fram sjálfstæð könnun á vegum kærða á því hvort skilyrðum fyrir útgáfu leyfis væri fullnægt. Telur lögmaður kæranda að með veitingu starfsleyfis fyrir Hótel Egilsbúð sé um brot á fyrrgreindu lagaákvæði að ræða. Þá vísar lögmaðurinn ennfremur til jafnræðisreglu stjórnarskrár og stjórnsýslulaga. Kröfu sína um niðurfellingu eða afturköllun á starfsleyfi fyrir starfsmannabústað að Hafnarbraut 8 í Neskaupstað byggir lögmaðurinn á því að notkun kærða á húsnæðinu hafi farið í bág við það leyfi sem út var gefið. Í athugasemdum sínum dags. 20. júní s.l. ítrekar lögmaðurinn kröfuna um starfsleyfið og telur að viðurkennt sé í gögnum kærða að um brot á lögum nr. 67/1985 og rgl nr. 288/1987 sé að ræða.
Varðandi notkun húsnæðis að Hafnarbraut 8, bendir lögmaður kæranda á að starfsleyfi hafi verið breytt og sé nú um að ræða starfsleyfi fyrir gistiskála, en ekki starfsmannabústaða. Breytir lögmaður kæranda kröfugerð sinni með tilvísan til þessa.
III.
Framkvæmdastjóri kærða gerir grein fyrir leyfisveitingum til B.G. Bross ehf. í bréfi til umhverfisráðuneytis dags. 24. ágúst. s.l. . Kemur fram í gögnum að starfsleyfi fyrir Hótel Egilsbúð sé fyrir veitingastað með veitingasal fyrir allt að 40 gesti svo og veislusal fyrir allt að 400 gesti. Þá er vísað til þess að miðað sé við starfsreglur fyrir veitingastaði og gistiheimili. Það sama kemur fram í afriti af starfsleyfi sem veitt hefur verið B.G. Brosi ehf. v. Hótels Egilsbúðar og fylgdi með í gögnum heilbrigðiseftirlits. Varðandi starfsmannabústaði að Hafnarbraut 8, Neskaupstað gerir framkvæmdastjóri grein fyrir veitingu leyfisins. Í ljós kemur í gögnum málsins að sótt hefur verið um leyfi fyrir gistiheimili, en húsnæðið uppfyllti ekki kröfur sem gerðar eru til þess.
Í svarbréfi framkvæmdastjóra kærða dags. 14. apríl s.l. staðfestir hún að starfsleyfi Hótels Egilsbúðar sé vegna gistiheimils. Framkvæmdastjórinn svarar hins vegar ekki fyrirspurn um hvaða notkun hafi verið fyrirhuguð á húsnæðinu né heldur hvaða upplýsingar hafi legið fyrir um notkun þegar leyfi var veitt. Framkvæmdastjórinn upplýsir að nú hafi verið gefið út leyfi fyrir gistiskála í margumræddu húsnæði að Hafnarbraut 8. Skilyrði leyfis sé að húsið skuli leigt út til hóps eða einstaklinga í einu lagi, ekki sé heimilt að leigja stök herbergi út úr íbúðinni nema kröfur um næturvörslur séu uppfylltar.
IV.
Fram er komið í gögnum málsins að starfsleyfi það sem veitt var BG. Brosi ehf. v. Hótels Egilsbúðar var starfsleyfi gistiheimilis. Í gögnum framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits Austurlands og starfsleyfinu sjálfu kemur fram að farið skuli eftir starfsreglum heilbrigðiseftirlits Austurlands fyrir veitingahús og gistiheimili. Með tilvísan til laga nr. 67/1985 og reglugerðar nr. 288/1987, er ljóst að starfsleyfi til handa B.G. Brosi ehf. brýtur í bága við þær réttarheimildir. Starfsleyfið er villandi fyrir starfsemi sem þar er rekin.
Hvað snertir notkun á gistiskála að Hafnarbraut 8 á Neskaupstað er bent á að heilbrigðiseftirlit Austurlands er eftirlitsaðili með skálanum og ber því að gæta að því að notkun húsnæðisins sé í samræmi við útgefið leyfi og að skilyrði það sem leyfinu fylgir sé uppfyllt. Að öðrum kosti ber að fella leyfið úr gildi.
Ekki er á valdsviði úrskurðarnefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 að banna notkun húsnæðis eins og lögmaður kæranda gerir kröfu um. Þeirri kröfu er því vísað frá.
Úrskurðarorð:
Lagt er fyrir heilbrigðiseftirlit Austurlands að gefa að nýju út starfsleyfi til B.G. Bross ehf. fyrir gistiheimili.
Lára G. Hansdóttir
Gunnar Eydal hrl. Guðrún Helga Brynleifsdóttir hdl.
Date: 7/7/03