Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

98/2021 Eyrartún

Árið 2021, fimmtudaginn 16. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2021, kæra á ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar frá 28. maí 2021 um að verða ekki við beiðni um að færa ærslabelg á Eyrartúni á Ísafirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. júní 2021, er barst nefndinni 25. s.m., kærir eigandi Túngötu 5, Ísafirði, þá ákvörðun skipulags- og mann­virkjanefndar Ísafjarðarbæjar að verða ekki við beiðni hans um að færa ærslabelg á Eyrartúni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Ísafjarðarbæ 12. ágúst 2021.

Málavextir: Árið 2017 óskaði hverfisráð Eyrar og efri bæjar, Ísafirði, eftir því að keyptur yrði ærslabelgur sem settur yrði upp á „túnið við gamla sjúkrahúsið, vinstra megin við húsið, í skotin við trén“. Beiðni hverfisráðsins var kynnt bæjarráði 13. nóvember 2017 og var henni vísað til frekari úrvinnslu í umhverfis- og framkvæmdanefnd og íþrótta- og tómstundanefnd. Var fundargerð hverfisráðsins lögð fram til kynningar í umhverfis- og framkvæmdanefnd 21. s.m. og íþrótta- og tómstundanefnd 6. desember s.á. Íbúar Túngötu 12 og Eyrargötu 3 leituðu til tæknideildar Ísafjarðarbæjar 5. september 2018 vegna óánægju með fyrirhugaða staðsetningu ærsla­belgsins. Voru íbúarnir óánægðir með að þeim hefði ekki verið tilkynnt um fyrirhugaða uppsetningu leiktækisins og að ekki hefði farið fram grenndarkynning. Eftir samráð bæjarins við forstöðumann Safnahússins var ærslabelgurinn færður af Túngötu 10 og inn á Eyrartún. Kærandi lagði fram beiðni til skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar, dags. 19. maí 2021, um að umræddur ærslabelgur yrði fluttur á annan stað. Ekki hefði verið sótt um leyfi fyrir framkvæmdinni, hvorki til skipulags- og mannvirkjanefndar né til Minjastofnunar. Samkvæmt svari frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun væri um mannvirki að ræða og bæri umhverfis- og eignasviði að breyta deiliskipulagi eða að lágmarki að láta fara fram grenndar­kynningu. Synjaði skipulags- og mannvirkjanefnd beiðni kæranda á fundi hinn 27. maí s.á. á þeim grundvelli að staðsetning ærslabelgsins væri í samræmi við deiliskipulag. Var kæranda tilkynnt um þá niðurstöðu í tölvupósti daginn eftir.

 Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að með ákvörðun sinni um að staðsetja svokallaðan ærslabelg á Eyrartúni og færa hann nær Túngötu 5 hafi verið brotið gegn andmælarétti íbúa í nærumhverfi framkvæmdarinnar enda hafi ekki farið fram grenndarkynning. Í kjölfar athuga­semda íbúa við Túngötu 12 og Eyrargötu 3 hafi belgurinn verið færður í 48,35 m fjarlægð frá þeim húsum en hin nýja staðsetning sé hins vegar einungis í 39,39 m fjarlægð frá húsi kæranda og því hafi ekki verið gætt jafnræðis við framkvæmdina. Ekki hafi verið hugað að umferðaröryggi eða aðgengi og séu börn ítrekað að skjótast milli kyrrstæðra bifreiða á leið sinni til og frá ærslabelgnum og legið hafi við stórslysum. Ekki hafi verið fengið leyfi hjá Minjastofnun fyrir framkvæmdinni á Eyrartúni, eins og beri að gera samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012, en bæði sé Eyrartún friðhelgað svæði og njóti hverfisverndar. Krefst kærandi þess að framkvæmd við ærslabelginn verði dæmd ólögleg og til vara að belgurinn verði fluttur á annan stað með að lágmarki sömu fjarlægðarmörkum og ákvörðuð hafi verið gagnvart íbúum Túngötu 12 og Eyrargötu 3.

 Málsrök Ísafjarðarbæjar: Sveitarfélagið telur að vísa beri kærunni frá. Rétt sé að Eyrartún falli undir hverfisvernd en í henni felist ekki lögformleg friðun heldur sé með hverfisvernd verið að leitast við að varðveita gömul hús sem hafi verndargildi. Það sé á hendi sveitarstjórnar að taka ákvörðun um hverfisvernd með skipulagsáætlunum og að henni sé ekki ætlað að koma í veg fyrir uppbyggingu og þróun í hverfum. Minjastofnun hafi eftirlit með friðuðum húsum og minjum en Eyrartún sé ekki friðað í heild sinni heldur einungis lóð safnahússins, húsið sjálft og friðlýstar minjar bæjarhólsins. Þá hafi Minjastofnun verið upplýst um breytingar á deiliskipulagi svæðisins í nóvember 2018 og engar athugasemdir hafi borist vegna þessa.

Framkvæmdin hafi verið í samræmi við gildandi deiliskipulag og staðsetning belgsins sé á skipulögðu leiksvæði. Ærlsabelgurinn sé hvorki byggingarleyfisskyldur, sbr. lög um mann­virki nr. 160/2010, né framkvæmdaleyfisskyldur m.t.t. reglugerðar 771/2012 um framkvæmda­leyfi og skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Kærandi hafi fest kaup á fasteigninni að Túngötu 5 árið 2018 og hafi honum mátt vera ljóst að svæðið hefði verið nýtt sem gæsluvöllur og bolta­völlur í áratugi. Þá sé jafnræðisreglunni ekki ætlað að tryggja jafna fjarlægð frá leiktækjum heldur að gætt sé jafnræðis á grundvelli sjónarmiða byggðum á kynferði, kynþætti, litarhætti o.fl.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að umræddur ærslabelgur sé ekki staðsettur að Túngötu 10, líkt og sveitarfélagið haldi fram, heldur á Eyrartúni. Komið hafi fram í svari frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að ærslabelgurinn teljist mannvirki í skilningi laga um mannvirki og því hafi sveitarfélaginu borið að láta fara fram grenndarkynningu.

 Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða breytir efni ákvörðunar. Þá brestur úrskurðarnefndina heimild til þess að leggja fyrir stjórnvöld að taka tilteknar ákvarðanir. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að byggingarfulltrúa verði gert að flytja umdeildan ærslabelg á annan stað með að lágmarki sömu fjarlægðarmörkum og ákvörðuð hafi verið gagnvart íbúum Túngötu 12 og Eyrargötu 3.

 Í máli þessu er deilt um staðsetningu svonefnds ærslabelgs sem er uppblásinn dýna ætluð fyrir börn til leikja. Hann er staðsettur á Eyrartúni og er 164 m2 að stærð. Ærslabelgnum var upphaflega ætlaður staður á lóðinni Túngötu 10 en hann var síðan færður inn á Eyrartún í kjölfar athugasemda íbúa.

Samkvæmt Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 telst Eyrartún opið svæði til sérstakra nota og fellur túnið undir hverfisvernd. Í gildandi deiliskipulagi Eyrarinnar á Ísafirði er Eyrartún skilgreint sem leiksvæði og almenningsgarður og gert er ráð fyrir sparkvelli næst gæsluvelli, þar sem ærslabelgurinn er nú staðsettur. Verður að telja að staðsetning ærslabelgsins sé í samræmi við gildandi aðal- og deiliskipulag svæðisins.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki gilda lögin um öll mannvirki sem reist eru á landi, ofanjarðar eða neðan, innan landhelginnar og efnahagslögsögunnar, sbr. þó 2. mgr. Lögin gilda einnig um gróður á lóðum, frágang og útlit lóða, girðingar í þéttbýli, skilti, möstur, þ.m.t. fjarskiptamöstur, móttökudiska og tengivirki, gáma og leik- og íþróttasvæði. Í 1. mgr. 9. gr. laganna segir að óheimilt sé að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., eða Mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr. Jafn­framt segir þar að ráðherra geti í reglugerð kveðið á um að minni háttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar skuli undanþiggja byggingarleyfi. Í 60. gr. laganna er tekið fram að ráðherra setji að tillögu Mannvirkjastofnunar og í samráði við hagsmunaaðila reglugerðir sem nái til alls landsins þar sem nánar sé kveðið á um framkvæmd laganna. Í reglugerðinni skuli kveðið á um tiltekin atriði sem talin eru upp í þrettán tölusettum liðum. Í 10. töluliðnum segir að í reglugerðinni skuli kveðið á um frágang leiksvæða, íþróttasvæða og annarra opinna svæða.

Í samræmi við framanritað er í byggingarreglugerð nr. 112/2012 ákvæði um opin svæði í gr. 7.2.5. og kemur þar fram að til opinna svæða teljist leiksvæði, íþróttasvæði og önnur manngerð svæði sem séu opin almenningi. Við frágang búnaðar allra opinna svæða skuli þess gætt að öryggi og aðgengi notenda sé sem best tryggt. Þá segir í gr. 7.1.6. um dvalar- og leiksvæði innan lóða eða opinna svæða við mannvirki að slík svæði skuli henta til útivistar, hvíldar og leikja og skuli staðsett og gerð með tilliti til skjóls, sólar og birtuskilyrða, hljóðvistar og annarra umhverfis­áhrifa. Öryggi fólks skuli tryggt á öllum dvalar- og leiksvæðum. Um kröfur til öryggis dvalarsvæða og opinna svæða gildi ákvæði 12. hluta reglugerðarinnar og eftir því sem við eigi ákvæði reglugerðar nr. 942/2002 um öryggi leiktækja og leiksvæða og eftirlit með þeim.

Með ákvæðum þeim sem að framan eru rakin eru settar reglur um frágang útivistarsvæða á vegum sveitarfélaga og felst í þeim krafa um að minni háttar mannvirki á slíkum svæðum sem ekki hafi umtalsverð umhverfisáhrif skuli fullnægja kröfum um öryggi og aðgengi notenda. Það felst síðan í lögbundnu eftirlitshlutverki sveitarfélaga að gæta þess að þessar kröfur séu uppfylltar. Af þessum sérákvæðum, er taka til leiksvæða og leiktækja, leiðir að leiktæki það sem hér um ræðir er ekki háð byggingarleyfi enda er fyrrgreindum  reglugerðarákvæðum ætlað að gæta sambærilegra hagsmuna og búa að baki byggingarleyfisskyldu.

Jafnræðisreglu íslensks stjórnsýsluréttar er að finna í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kveður sú regla á um að við úrlausn mála skuli stjórnvald gæta samræmis og jafnræðis milli aðila. Í reglunni felst að almennt sé óheimilt að mismuna aðilum sem eins sé ástatt um og að sambærileg mál beri að afgreiða á sambærilegan hátt. Reglan á að hindra að ákvarðanir verði tilviljunarkenndar, byggðar á geðþótta eða annarlegum viðhorfum. Verður hins vegar að telja að staðsetning hins umdeilda ærslabelgs brjóti ekki gegn jafnræðisreglu, en hann er staðsettur u.þ.b. 10 m nær húsi kæranda en húsum þeim er hann hefur bent á í því sambandi.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar frá 28. maí 2021 um að verða ekki við kröfu hans um að ærslabelgur á Eyrartúni verði færður.