Árið 2025, föstudaginn 4. júlí, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:
Mál nr. 96/2025, kæra á afgreiðslu lögmanns á bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar frá 27. júní 2025 á fyrirspurn um innheimtu byggingarleyfisgjalda.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 30. júní 2025, kærir A afgreiðslu lögmanns á bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar frá 27. júní 2025 á fyrirspurn um innheimtu byggingarleyfisgjalda. Er þess krafist að innheimta afgreiðslugjalds og gjalds fyrir lokaúttekt og lokaúttektarvottorð verði felld niður.
Málsatvik og rök: Á árinu 2008 sótti kærandi um byggingarleyfi fyrir stækkun húss á lóð nr. 47 við Arnartanga í Mosfellsbæ. Voru byggingaráform samþykkt og byggingarleyfisgjöld innheimt, en engar framkvæmdir áttu sér stað í kjölfarið. Árið 2013 sótti kærandi að nýju um byggingarleyfi vegna sömu byggingaráforma. Voru þau samþykkt og munu framkvæmdir á grundvelli þess hafa farið fram. Árið 2023 fékk kærandi samþykkt byggingaráform fyrir innanhúsbreytingum. Hinn 29. mars s.á. var gefinn út reikningur þar sem m.a. var innheimt fyrir gjaldaliðina afgreiðslugjald að upphæð 14.100 kr., lokaúttekt að upphæð 25.000 kr. og lokaúttektarvottorð að upphæð 15.800 kr. Í janúar 2024 mótmælti kærandi álagningu greindra gjalda á þeim grundvelli að hann hefði þegar greitt gjöldin og óskaði útskýringa á því hvers vegna gjöldin hefðu verið innheimt. Mun hann hafa ítrekað erindið margsinnis þar til svar barst frá lögmanni á bæjarskrifstofu sveitarfélagsins hinn 27. júní 2025. Í svarinu kemur fram að reikningurinn hafi verið gefinn út í samræmi við gjaldskrá Mosfellsbæjar um byggingargjöld. Samþykkt byggingaráforma falli niður hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út innan tveggja ára frá samþykkt þeirra, sbr. gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Telji sveitarfélagið eðlilegt að hið sama eigi við um byggingarleyfisumsóknir, þ.e. hafi ekki verið hafist handa í samræmi við umsókn þá falli málið niður í heild sinni og þar með þær greiðslur sem reiddar hafi verið fram vegna umsóknarinnar. Að lokum var leiðbeint um að hægt væri að kæra afgreiðsluna til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
Kærandi telur það sanngirnismál að þurfa ekki að greiða byggingarleyfisgjöld í tvígang fyrir sömu framkvæmd.
Niðurstaða: Í máli þessu er kærð afgreiðsla lögmanns á bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar á fyrirspurn um innheimtu byggingarleyfisgjalda. Í fyrirspurninni kom fram að kærandi skildi ekki innheimtu sveitarfélagsins frá 29. mars 2023 þar sem honum var gert að greiða afgreiðslugjald og gjald fyrir lokaúttekt og lokaúttektarvottorð. Hann hefði þegar greitt gjöldin og vissi ekki ástæðu þess að hann væri nú krafinn um greiðslu gjaldanna að nýju en yrði þakklátur að fá útskýringu á því.
Af gögnum málsins verður ráðið að erindi kæranda hafi falið í sér fyrirspurn þar sem óskað var útskýringa á innheimtu þjónustugjalda. Svar lögmanns á bæjarskrifstofu sveitarfélagsins við slíku erindi getur eðli máls samkvæmt ekki talist stjórnvaldsákvörðun þar til bærs stjórnvalds með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgir, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Getur engu um það breytt þótt kæruleiðbeiningar hafi verið veittar af hálfu sveitarfélagsins. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.