Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

96/2024 Laugavegur

Árið 2024, þriðjudaginn 10. september, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 96/2024, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 4. júlí 2024 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.0 vegna lóðarinnar nr. 1 við Laugaveg.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. september 2024, er barst nefndinni 6. s.m., kærir húsfélag Laugavegs 3 þá ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 4. júlí 2024 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.0 vegna lóðarinnar nr. 1 við Laugaveg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur 4. maí 2023 var tekin fyrir umsókn um breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.0 vegna lóðarinnar nr. 1 við Laugaveg. Fólst breytingin í því að fella úr gildi heimild til að rífa steinhús á bakhluta lóðar, Laugavegur 1A, ásamt því að færa leyfilegt byggingarmagn til. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 3. apríl 2024 var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 1. mgr. 43. gr. laganna. Samþykkti borgarráð þá afgreiðslu á fundi 11. apríl 2024. Tillagan var auglýst 25. s.m. með athugasemdafresti til 11. júní s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá félagsmeðlimum kæranda. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. júlí 2024 var breytingartillagan samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa sem og með vísan til a-liðar 2. gr. viðauka 2.3 við samþykkt um stjórn Reykjavíkur.

Kærandi tekur fram að ekkert tillit hafi verið tekið til þeirra athugasemda sem gerðar hafi verið á kynningartíma þrátt fyrir að þær hafi verið rökstuddar ítarlega. Deiliskipulagsbreytingin muni hafa í för með sér gífurlegt rask og trufla alla starfsemi í nálægu umhverfi. Sé þess krafist að við framkvæmdir verði tryggt að öll umgengni og umferð vegna framkvæmdanna verði um lóð Laugavegar 1 en verði hvorki beint um sund í húsinu að Laugavegi 3 né um baklóð lóðarinnar. Brot á klöpp, steypuvinna og aðfangaflutningar verði einungis heimilað á milli kl. 07:00 og 11:00. Jafnframt verði framkvæmdaáætlun kynnt fyrir eigendum Laugavegar 3 sem skuli fela í sér verulega háar dagsektir til að tryggja að framkvæmdum verði hraðað. Einnig að byggingarleyfishafa verði gert að leggja fram tryggingu til eigenda Laugavegs 3 fyrir öllu hugsanlegu tjóni sem framkvæmdin kunni að valda.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan sex mánaða frá því að frestur til athugasemda rann út. Jafnframt skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, en slík auglýsing er skilyrði gildistöku deiliskipulags og markar jafnframt upphaf eins mánaðar kærufrests til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Samkvæmt upplýsingum frá borgaryfirvöldum hefur hin kærða deiliskipulagsbreyting ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Liggur því ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.