Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

94/2023 Víðiholt

Árið 2023, þriðjudaginn 31. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 94/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 6. október 2022, um að samþykkja deiliskipulag íbúðarbyggðar við Víðiholt á Álftanesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 9. ágúst 2023, kærir íbúi við Asparholt 6, Garðabæ, ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 6. október 2022 um deiliskipulag íbúðarbyggðar við Víðiholt á Álftanesi. Er þess krafist að sveitarfélagið svari ítrekuðum spurningum íbúa við Asparholt og að nýtt hverfi við Víðiholt rísi ekki hærra en kynnt hafi verið fyrir íbúum og samþykkt hafi verið af bæjaryfirvöldum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 28. ágúst 2023.

Málavextir: Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 4. nóvember 2021 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi íbúðarbyggðar við Víðiholt á Álftanesi. Tillagan var auglýst frá 10. nóvember 2021 til og með 16. febrúar 2022 og bárust 15 erindi með athugasemdum. Skipulags­tillagan var tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 27. september 2022 með til­teknum breytingum sem gerðar voru til að koma til móts við athugasemdir íbúa. Var tillagan samþykkt með vísan til 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundi bæjarráðs 4. október s.á. var samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja tillögu skipulagsnefndar um deili­skipulag íbúðar­byggðar við Víðiholt á Álftanesi. Var deiliskipulagstillagan samþykkt á fundi bæjar­stjórnar 6. s.m. og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 13. desember 2022.

Málsrök kæranda: Byggt er á því að nýtt hverfi, Víðiholt á Álftanesi, hafi ekki verið kynnt íbúum með raunsönnum hætti. Íbúar sem hagsmuna hafi átt að gæta hafi ítrekað óskað gagna um áhrif hverfisins, frá fasteignum þeirra séð, en án árangurs. Íbúar við Asparholt óttist að hverfið rísi ekki lægra en Asparholt, svo sem kynnt hafi verið, og hafi ítrekað farið fram á upplýsingar af því tilefni án þess að svör hafi borist frá fulltrúum skipulagsnefndar. Draga megi í efa að slíkt skeytingarleysi standist stjórnsýslulög.

Málsrök Garðabæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er farið fram á að máli þessu verði vísað frá þar sem kæra verði að teljast vanreifuð og tilefnislaus. Við afgreiðslu deiliskipulags íbúðar­byggðar við Víðiholt hafi þess verið gætt að uppfylla málsmeðferðarreglur skipulagslaga varðandi kynningu gagnvart íbúum og að sú ákvörðun verði nú ekki borin undir úrskurðar­nefndina. Frekari formleg kynning á deiliskipulaginu sé ekki fyrirhuguð og kæranda megi vera það ljóst. Sveitar­félagið muni hins vegar halda áfram að upplýsa kæranda og svara fyrir­spurnum um fram­gang framkvæmda eins og gert hafi verið.

Í kæru sé farið fram á að fá svör við beiðni um hæðarmælingar. Sveitarfélagið hafi hlutast til um að láta gera mælingar á sökklum lóðanna við Víðiholt 1 og 2 og verði niðurstöðurnar sendar kæranda. Samkvæmt mælingum hafi húsin verið reist samkvæmt uppgefnum kótum á hæðar­blöðum. Ekki hafi legið fyrir yfirborðsmælingar af svæðinu óröskuðu.

Á hæðarblöðum komi fram að gólfkóti Víðiholts 1 sé 5,30 og gólfkóti Víðiholts 3 sé 5,50. Á aðaluppdráttum fjölbýlishúsanna við Asparholt 2, 4 og 6 komi fram gólfkóti húsanna nr. 2 og 4 sé 5,85 og húss nr. 6 sé 6,05. Augljóst sé að fjölbýlishúsin við Víðiholt 1 og 3 standi lægra en fjölbýlishúsin við Asparholt 2, 4 og 6. Samþykktar teikningar fjölbýlishúsanna við Víðiholt 1 og 3 hafi verið yfirfarnar að nýju með tilliti til deiliskipulagsskilmála og sé hæð bygginga innan leyfilegrar hámarkshæðar. Fjölbýlishúsin séu því byggð í samræmi við deiliskipulags­skilmála og í samræmi við heimildir hvað hæðarsetningar varði.

Ljóst sé að allar upplýsingar liggi fyrir um fyrirhugaðar framkvæmdir við uppbyggingu íbúðabyggðar við Víðiholt. Sveitarfélagið muni tryggja eftirlit með því að framkvæmdir verði í samræmi við samþykkta deiliskipulagsskilmála. Hvað varði kvartanir kæranda um að fulltrúar í skipulagsnefnd hafi ekki svarað mikilvægum spurningum varðandi kynningu og fram­kvæmdir sé bent á að það sé ekki hlutverk einstakra nefndarmanna að svara spurningum í nafni nefndarinnar. Þá sé óljóst hverjar þær spurningar séu. Endanlegar ákvarðanir í málinu séu á ábyrgð bæjarstjórnar.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að íbúar við Asparholt 2, 4 og 6 hafi á öllum stigum málsins óskað eftir raunverulegri kynningu á nýju hverfi við Víðiholt og að notast yrði við myndir teknar af svölum þeirra. Sveitarfélagið hafi algjörlega hunsað að svara þeirri beiðni sem og tölvupósti með fyrirspurnum frá því í júlí 2023. Í greinargerð bæjarritara frá lok ágúst séu ekki skýr svör við spurningunum, þar á meðal varðandi hæðarsetningar á húsum og lóðum.

Niðurstaða: Skilja verður málskot kæranda svo að kærð sé málsmeðferð bæjaryfirvalda Garðabæjar vegna deiliskipulags sem tekur til hverfisins Víðiholts á Álftanesi sem samþykkt var í bæjarstjórn Garðabæjar 6. október 2022. Lúta aðfinnslur kæranda fyrst og fremst að kynningu hins nýja hverfis og ónógum svörum bæjaryfirvalda við óskum íbúa um frekari upplýsingar í kjölfar gildistöku deiliskipulagsins.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Þá kemur fram að sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Hið kærða deiliskipulag tók gildi með auglýsingu sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda 13. desember 2022 og rann kærufrestur vegna þess út 16. janúar 2023, sbr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var kærufrestur vegna deiliskipulagsins því liðinn er kæra í máli þessu barst nefndinni hinn 9. ágúst 2023. Verður því ekki tekin afstaða til lögmætis málsmeðferðar bæjaryfirvalda Garðabæjar vegna hins umdeilda deiliskipulags í máli þessu í samræmi við 28. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kæru­málum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samskipti og skoðanaskipti stjórnvalda og borgara koma einungis til skoðunar hjá úrskurðarnefndinni í tengslum við ákvörðun sem kæranleg er til nefndarinnar og tekin er til efnismeðferðar.

Að öllu framangreindu virtu liggur ekki fyrir í máli þessu ákvörðun sem sætt getur lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðar­nefndinni.

 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.