Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

36/2022 Trostansfjörður

Árið 2022, miðvikudaginn 19. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2021, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 17. mars 2022 um að heimila ekki kynslóðaskipt eldi í sjókvíum í Trostansfirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. apríl 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir Arctic Sea Farm ehf., þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 17. mars 2022 að heimila kæranda ekki að starfrækja kynslóðaskipt eldi í sjókvíum í Trostansfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfisstofnun 1. júní 2022.

Málavextir: Hinn 24. júlí 2018 lagði kærandi fram matsskýrslu vegna áforma hans um að framleiða 4.000 tonn af laxi í Arnarfirði, en í skýrslunni var gert ráð fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi á þremur eldissvæðum, þ.e. svæði A í Trostansfirði, svæði B við Lækjarbót og svæði C við Hvestudal. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 13. júlí 2020, en áður hafði kærandi sótt um starfsleyfi til Umhverfisstofnunar 29. apríl 2019 og rekstrarleyfi til Matvælastofnunar 16. maí 2019. Stofnanirnar birtu auglýsingu 11. október 2021 um tillögu að rekstrarleyfi og starfsleyfi kæranda í Arnarfirði þar sem gert var ráð fyrir áðurnefndum þremur eldissvæðum.

Hinn 17. febrúar 2022 sendi Matvælastofnun kæranda bréf þar sem boðað var að stofnunin hygðist auglýsa rekstrarleyfi þannig að kærandi fengi úthlutað eldissvæðunum Lækjarbót og Hvestudal en ekki á eldissvæðinu í Trostansfirði. Í bréfinu kom fram að ástæða þess væri sú að stofnunin gæti hvorki tryggt að fjarlægðarmörk frá ám með villta stofna laxfiska og sjálfbæra nýtingu væru eigi styttri en 5 km, sbr. 6. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi, né tryggt að minnsta fjarlægð milli fiskeldisstöðva ótengdra aðila í sjókvíaeldi væri styttri en 5 km, sbr. 5. mgr. sömu reglugerðargreinar. Í bréfinu var m.a. vísað til umsagnar Hafrannsóknastofnunar frá 18. október 2021 þar sem fram kæmi að stofnunin gæti ekki lagt mat á sjálfbærni veiða í Sunndalsá og Norðdalsá, sem renna til sjávar í Trostansfirði, vegna skorts á gögnum.

Með bréfi, dags. 24. febrúar 2022, gerði kærandi athugasemdir við boðaða niðurstöðu Matvælastofnunar og óskaði eftir nánar tilgreindum gögnum. Hinn 17. mars s.á. gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi til handa kæranda fyrir sjókvíaeldi í Arnarfirði og 21. s.m. gaf Matvælastofnun út rekstrarleyfi fyrir sömu starfsemi, en í hvorugu leyfinu var gert ráð fyrir sjókvíaeldi í Trostansfirði. Auglýsing um útgáfu starfsleyfisins var birt á vefsíðu Umhverfisstofnunar 21. mars 2022.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann geri ekki athugasemd við útgefið starfsleyfi við Lækjarbót og Hvestudal. Hins vegar sé litið svo á að með útgáfu leyfisins hafi Umhverfisstofnun hafnað því að gefa út leyfi til kynslóðaskipts sjókvíaeldis á laxfiskum á sjókvíaeldissvæði í Trostansfirði. Sé tilgangurinn með kæru þessari að fá þá afstöðu endurskoðaða. Athafnaleysi við afgreiðslu umsókna um útgáfu starfs- og rekstrarleyfa hafi áður verið talin kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. úrskurð í máli nr. 116/2020. Rökrétt sé að líta á höfnunina sem sjálfstæða stjórnvaldsákvörðun.

Ákvörðun Umhverfisstofnunar um að víkja frá auglýstri starfsleyfistillögu sé íþyngjandi, en hún hafi neikvæð áhrif á atvinnufrelsi kæranda og skerði varanlega þá möguleika sem hann hafi til að stunda sína starfsemi. Framleiðsluáætlun kæranda miði við öll þrjú eldissvæðin svo hin leyfða 4.000 tonna framleiðsla náist. Þegar eldissvæðin séu einungis tvö geti átt sér stað stöðvun á framleiðslu sem leiði til þess að leyfið fullnýtist ekki. Við töku íþyngjandi stjórnvaldsákvörðunar séu gerðar auknar kröfur til þess að lagastoð ákvörðunar sé ótvíræð, lagatúlkun stjórnvalds sé hafin yfir vafa og að grundvöllur málsmeðferðar, ákvarðanatöku og niðurstöðu stjórnvaldsins sé eins traustur og mögulegt sé. Á þessa grunnþætti hafi skort í hinni kærðu ákvörðun sem leiði til ógildingar hennar.

Skilyrði um að fiskeldisstöð sé í minnst 5 km fjarlægð frá „ám með villta stofna laxfiska og sjálfbæra nýtingu“ sé ekki að finna í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Þá sé ekki að finna í lögunum sérstaka heimild til að setja í reglugerð nánari skilyrði fyrir staðsetningu fiskeldisstöðva við útgáfu rekstrarleyfa. Íþyngjandi ákvæði í reglugerð sem skorti lagastoð séu ólögmæt og því beri að horfa fram hjá þeim við úrlausn málslins. Til hliðsjónar vísar kærandi til niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 105/2021. Þar sem hin kærða ákvörðun Umhverfisstofnunar sé reist á ákvæðinu sé hún ógildanleg á grundvelli lögmætisreglu stjórnsýslu- og stjórnskipunarréttar.

Óháð þessu telur kærandi að 18. gr. reglugerðarinnar eigi ekki við. Þar sé kveðið á um skyldu Matvælastofnunar til að tryggja tiltekin fjarlægðarmörk frá ám með „villta stofna laxfiska“ og „sjálfbæra nýtingu“. Þessi hugtök séu bæði skilgreind í lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Þar sé sjálfbær nýting fiskstofna skilgreind sem nýting „þar sem ekki er gengið á fiskstofn. Eftir veiði er hrygningarstofn nægilega stór til þess að tryggja eðlileg nýliðun og til þess að viðhalda fjölbreytilega stofnsins.“ Þá sé villtur fiskstofn skilgreindur sem fiskstofn „þar sem meiri hluti fisks er klakinn í náttúrulegu umhverfi, elst þar upp og er kominn undan villtum foreldrum.“ Í sama lagabálki sé fiskstofn skilgreindur sem hópur „fiska sömu tegundar sem hrygnir á tilteknum stað og tíma en gerir það ekki í neinum mæli með öðrum hópum á öðrum stað eða tíma.“

Í greinargerð Matvælastofnunar með rekstrarleyfi kæranda fyrir sjókvíaeldi í Arnarfirði, sem hin kærða ákvörðun Umhverfisstofnunar byggi á, segi að uppi sé „verulegur vafi um það hvort umræddar ár teljist vera þess bærar að bera sjálfstæða stofna laxfiska. Þá er uppi vafi um það hvort veiðar í ánum séu sjálfbærar.“ Kærandi sé ósammála þessu og bendir á að það hafi alls ekki verið mat Hafrannsóknastofnunar að óvissa sé uppi um hvort í ánum séu villtir stofnar laxfiska og hvort þar séu stundaðar sjálfbærar veiðar. Þvert á móti sé því sem næst ótvíræð niðurstaða stofnunarinnar að svo sé ekki, en í áliti hennar frá 18. október 2021 segi: „Það er mat Hafrannsóknastofnunar að árnar séu það stuttar að mögulega geti þær ekki borið eiginlega stofna laxfiska til lengri tíma án innstreymis laxafiska úr öðrum ám. Líklega eru laxfiskar ánna hlutar stofneininga yfirstofna (e. metapopulation) en lög og reglugerðir taka ekki tillit til slíkra tilfella.“

Af þessari tilvitnun sé augljóst að það sé mat Hafrannsóknastofnunar að árnar geti ekki borið eiginlega stofna laxfiska. Hins vegar leiti mögulega laxfiskar úr öðrum ám upp í árnar og myndi það samansafn laxfiska sem finnist í ánum. Það sé því útilokað að árnar uppfylli skilyrði um að hýsa villta fiskstofna, enda sé ekki uppfyllt hin lagalega skilgreining á fiskstofni. Með öðrum orðum hrygni laxfiskar í Sunndals og Norðdalsá ekki á tilteknum stað og tíma heldur hrygni þeir ýmist í þeim ám eða öðrum ám í nágrenninu. Niðurstaða Hafrannsóknastofnunar í tilvísuðu áliti sé skýr: „Þegar litið er til fyrirliggjandi gagna um fiskstofna ánna í Trostansfirði eru þeir líklega það litlir einir sér að þeir falli utan skilgreiningar reglugerðar nr. 540/2020 um 5 km lágmarksfjarlægð.“

Þessi niðurstaða sé háð lítilli sem engri óvissu og langt í frá þeim mikla vafa sem haldið sé fram í greinargerð Matvælastofnunar. Óumdeilt sé að hvorki Matvælastofnun né Umhverfisstofnun hafi ráðist í sjálfstæðar rannsóknir á aðstæðum í Trostansfirði og reiði Matvælastofnun sig að öllu leyti á áliti Hafrannsóknastofnunar. Það séu því engin málefnaleg sjónarmið fyrir því að túlka álitið með þessum hætti. Ómálefnalegt sé að velta öllum hinum meinta vafa yfir á kæranda og láta hann bera hallann af því að t.d. engin veiðifélög séu starfandi í ánum og engum afladagbókum sé þar viðhaldið, sem þó sé hvort tveggja skylt að lögum ef sjálfbær veiði væri stunduð í ánum.

Þessu til viðbótar sé nefnt að í umsögn Hafrannsóknastofnunar um frummatsskýrslu framkvæmdarinnar hafi verið vikið að mikilvægi þess að framkvæmdir í fiskeldi væru innan áhættumats Hafrannsóknastofnunar á erfðablöndun villtra laxfiska frá árinu 2017. Samkvæmt umsögninni taki áhættumatið til laxáa þar sem regluleg laxveiði sé yfir 400 laxa á ári. Árnar í Trostansfirði séu með svo takmarkaða veiði að þær falli ekki undir áhættumatið. Bendi það eindregið til þess að þar sé ekki að finna villta stofna laxfiska með sjálfbæra nýtingu.

Í niðurstöðu umsagnar Hafrannsóknastofnunar komi fram að áhættumatið geri ráð fyrir að ef rannsóknir sýni fram á að innblöndun valdi varanlegum áhrifum á villta laxastofna beri að draga úr umfangi fiskeldis á nálægðum svæðum niður fyrir þau mörk sem talin séu ásættanleg. Ekki hafi verið sýnt fram á að forsendur umsagnar stofnunarinnar hafi breyst, enda sé það staðfest í greinargerð með rekstrarleyfi Matvælastofnunar að stofnunin geti ekki lagt mat á sjálfbærni veiða í Sunndalsá og Norðdalsá vegna skorts á gögnum. Við þær aðstæður beri að leggja umsögn Hafrannsóknastofnun til grundvallar sem leiði til þess að bæði Sunndals og Norðdalsá falli utan við áhættumatið og teljist þar með ekki vera með villta stofna laxfiska með sjálfbæra nýtingu. Einnig leiði það til þess að ef talin sé hætta á að innblöndun valdi varanlegum áhrifum á laxastofna þá séu viðbrögðin þau að umfang fiskeldis sé minnkað á nálægum svæðum en ekki útilokað eins og leiði af hinni kærðu ákvörðun.

Að auki telji kærandi vert að benda á skýrslu Hafrannsóknastofnunar um tillögu að skiptingu Arnarfjarðar í eldissvæði á grundvelli burðarþols og heildarnýtingar mögulegra eldissvæða frá 12. júní 2020. Í skýrslunni sé takið fram í kaflanum „Lagaumgjörð“ að við svæðaskiptingu skuli m.a. taka tillit til fjarlægðarmarka frá ám með villta laxfiska og sjálfbæra nýtingu. Með hliðsjón af þeirri lagaumgjörð leggi stofnunin til að Arnarfirði verði skipt í þrjú eldissvæði og sé eldissvæði A við Trostansfjörð. Því sé deginum ljósara að Hafrannsóknastofnun hafi nú þegar lagt mat á það hvort fjarlægðarmörk 6. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 540/2020 eigi við um árnar í botni Trostansfirði og sé augljóst að stofnunin telji svo ekki vera.

Að síðustu sé tekið fram að aldrei í hinu langa umsóknarferli fyrir starfs- og rekstrarleyfi í Arnarfirði hafi því sjónarmiði verið hreyft af fagstofnunum eða hagsmunaaðilum að eldissvæðið við Trostansfjörð bryti í bága við umrædd fjarlægðarmörk. Veki þessi málsmeðferð upp álitamál um hvort málefnalegra sjónarmiða hafi verið gætt við málsmeðferðina. Mögulegt sé að reglur um jafnræði og meðalhóf hafi verið virtar að vettugi og misbeiting valds við val á leiðum við úrlausn máls átt sér stað. Með öðrum orðum sé ástæða sem gefin sé í greinargerð Matvælastofnunar tylliástæða fyrir höfnun eldissvæðisins og hin raunverulega ástæða sé önnur. Þá er af hálfu kæranda fjallað um hvort fjarlægð eldissvæðisins í Trostansfirði í næstu fiskeldisstöð ótengds aðila sé minni en 5 km, sbr. 5. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 540/2020.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun bendir á að við útgáfu starfsleyfis kæranda hafi stofnunin ákveðið að taka út eldissvæði í Trostansfirði í samræmi við rekstrarleyfi Matvælastofnunar. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 6. og 7. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 9. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Lögin geri ráð fyrir að við útgáfu starfsleyfis skuli Umhverfisstofnun taka matskennda ákvörðun, m.a. að teknu tilliti til annarrar löggjafar. Í tilvikinu sem um ræði hafi Matvælastofnun, með hliðsjón af áliti Hafrannsóknastofnunar frá 18. október 2021, talið vafa á að eldissvæði í Trostansfirði uppfyllti skilyrði 18. gr. reglugerðar um fiskeldi nr. 540/2020 um fjarlægð frá ám með villta stofna laxfiska og sjálfbæra nýting.

Í 21. gr. laga nr. 71/2008 segi að ráðherra skuli setja nánari reglur um framkvæmd laganna með reglugerð, m.a. um útgáfu rekstrarleyfa. Reglugerð nr. 540/2020 hafi verið sett með stoð í ákvæðum laga nr. 71/2008 og með hliðsjón af úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 105/2021 megi ætla að hafi reglugerðarákvæði skýr tengsl við framkvæmd laganna sé ekki um skort á lagastoð að ræða. Samkvæmt 6. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 540/2020 skuli Matvælastofnun tryggja að fjarlægðarmörk sjókvíaeldisstöðvar frá ám með villta stofna laxfiska og sjálfbær nýtingu séu eigi styttri en 5 km þegar um laxfiska sé að ræða í eldi. Ákvæðinu sé ætlað að tryggja verndun villtra nytjastofna og koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra og tryggja hagsmuni þeirra sem nýti stofnuna sem sé í samræmi við markmið laganna og reglugerðarinnar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 71/2008. Þá segi í 2. mgr. 1. gr. laganna að við framkvæmd þeirra skuli þess ávallt gætt að sem minnst röskun verði á vistkerfi villtra fiskstofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra sé ekki stefnt í hættu.

Í umsögn Hafrannsóknastofnunar frá 18. október sé annars vegar lagt mat á hvort um sé að ræða villta stofna laxfiska og hins vegar sjálfbæra nýtingu. Hvað fyrra atriði varði þá segi að það sé möguleiki fyrir hendi að þær geti borið eiginlega „stofna laxfiska“, þetta sé því vafi. Þá segi varðandi síðara atriðið að ekki séu næg gögn til að geta lagt mat á sjálfbærni. Að mati Matvælastofnunar hafi þessi vafi verið talinn nægjanlegur til að skilyrði 6. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 540/2020 væru uppfyllt. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi talið að starfsleyfi eigi að samræmast varúðarreglu umhverfisréttarins, sbr. varúðarreglu 9. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, sbr. úrskurð í máli nr. 153/2021. Samkvæmt 7. gr. laga nr. 60/2013 skuli stjórnvöld við töku ákvarðana sem áhrif hafi á náttúruna taka mið af þeim meginreglum sem fram komi í 8.–11. gr. laganna. Í 9. gr. laganna segir að þegar ákvörðun sé tekin á grundvelli laganna, án þess að fyrir liggi með nægilegri vissu hvaða áhrif hún hafi á náttúruna, skuli leitast við að koma í veg fyrir mögulegt og verulegt tjón á náttúruverðmætum. Umhverfisstofnun hafi talið, með hliðsjón af ákvörðun Matvælastofnunar og umsagnar Hafrannsóknastofnunar, að nægileg þekking eða afleiðingar þess að heimila fiskeldi í Trostansfirði hafi ekki legið fyrir að svo stöddu. Hafi náttúrunni því verið leyft að njóta vafans í samræmi við varúðarregluna.

Mál teljist almennt nægilega upplýst þegar þeirra upplýsinga hafi verið aflað sem nauðsynlegar séu til þess að hægt sé að taka efnislega réttar ákvörðun í málinu. Vegna málshraðareglunnar sé ljóst að ekki eigi að rannsaka mál frekar ef allar nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir. Þá sé heldur ekki ástæða til að rannsaka mál frekar ef ófrávíkjanleg lagaskilyrði séu ekki uppfyllt. Með hliðsjón af málshraðareglunni og rannsóknarreglunni hafi Umhverfisstofnun talið málið nægilega upplýstur áður en ákvörðunin hafi verið tekin.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að eftir að kæra hafi verið lögð fram í máli þessu hafi hann fengið afhent svar Hafrannsóknastofnunar við fyrirspurn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi við fimm nánar tilgreindum spurningum um röksemdir að baki fjarlægðarreglu 6. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi. Athygli sé vakin á svari stofnunarinnar við fimmtu spurningu, nánar tiltekið um skilgreiningu hugtakanna „á með villta stofna laxfiska“ og „sjálfbæra nýtingu“ sem bæði séu notuð í umræddu ákvæði. Skilgreining stofnunarinnar á sjálfbærri nýtingu sé eftirfarandi: „Til að fiskstofn í veiðivatni geti talist nytjastofn þarf hann að þola að þar sé stunduð sjálfbær veiðinýting. Stofninn þarf að vera það stór að hann þoli veiðiálag og miða skal við að lágmarksmörk skráðrar veiði séu 50 fiska meðalveiði á samfelldu tíu ára tímabili.“ Þetta sé skilgreining sem stofnunin hafi gert í tillögu sinni til auðlinda- og nýsköpunarráðuneytis. Þar af leiðandi verði að leggja skilgreininguna til grundvallar þegar ákvæðið sé túlkað og því beitt í framkvæmd.

Af svari Hafrannsóknarstofnunar sé augljóst að til sé skilgreint lágmark á sjálfbærri nýtingu og við mat á því hvort lágmarkinu séð náð verði að byggja á skráðri veiði, þ.e.a.s. veiðiskýrslum sem ber að skrá, halda og varðveita skv. 13. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Skylt sé að skrá alla veiði samkvæmt lögum. Tiltekið lágmark skráðrar veiði sé fortakslaust skilyrði þess að sjálfbær nýting teljist vera til staðar samkvæmt hugtaksskilgreiningu. Óumdeilt sé að engin skráð veiði sé stunduð í ánum. Engar staðfestar upplýsingar liggi fyrir um veiði í ánum síðastliðinn áratug. Framangreind skilgreining á sjálfbærri nýtingu þeirra laxfiska sem finnast í ánum sé því ekki uppfyllt. Einu upplýsingar sem liggi fyrir um veiði í ánum sé að finna í umsögn Hafrannsóknastofnunar frá 18. október 2021 þar sem segi: „Eftir því sem næst er vitað er um þrjá aðila að ræða sem deila með sér veiðinýtingu en ekki er þar starfandi veiðifélag. Samkvæmt upplýsingum er veiði þar nokkrir tugir laxa á ári og vottur af sjóbirtingu. Í Norðdalsá er veiddur sjóbirtingur. Ekki liggur fyrir veiðiskráning úr ánum í veiðibækur.“ Augljóst sé að framangreind lýsing á veiði í ánum næri ekki því lágmarki að teljast sjálfbær nýting samkvæmt 6. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 540/202, nánar tiltekið 50 fiska meðalveiði á samfelldu 10 ára tímabili. Því sé ljóst að ganga verði út frá því að veiði í ánum feli ekki í sér sjálfbæra nýtingu og þegar af þeirri ástæðu beri að verða við kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um áform kæranda um kynslóðaskipt sjókvíaeldi í Arnarfirði. Umhverfisstofnun gaf út starfsleyfi 17. mars 2022 með hámarkslífmassa allt að 4.000 tonnum, en í leyfinu er ekki veitt heimild, í samræmi við umsókn kæranda, til að starfrækja sjókvíaeldi á svæði sem kennt er við Trostansfjörð, einn innfjarða Arnarfjarðar. Hinn 21. s.m. gaf Matvælastofnun út rekstrarleyfi en í því leyfi var heldur ekki að finna heimild fyrir sjókvíaeldi í Trostansfirði þar sem Matvælastofnunar taldi að ekki væru uppfyllt skilyrði 6. mgr. 18. gr. reglugerðar um fiskeldi nr. 540/2020 um fjarlægð sjókvíaeldisstöðvar frá ám með villta stofna laxfiska og sjálfbæra nýtingu. Byggði hin kærða ákvörðun í þessu máli, þ.e. synjun Umhverfisstofnunar á að starfsleyfi kæranda nái til sjókvíaeldissvæðis við Trostansfjörð, á því mati Matvælastofnunar.

Í 4. gr. a. í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi er tekið fram að til starfrækslu fiskeldisstöðva þurfi starfsleyfi Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfi Matvælastofnunar. Afhenda skuli Matvælastofnun umsóknir um slík leyfi og skuli þær afgreiddar samhliða. Loks skuli Matvælastofnun framsenda umsókn um starfsleyfi til Umhverfisstofnunar til meðferðar samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Löggjafinn hefur með framangreindum hætti kveðið á um málefnaleg valdmörk milli nefndra stofnana þegar kemur að veitingu leyfa fyrir fiskeldi. Ber stofnunum að halda sig innan valdmarka sinna samkvæmt þeim lögum sem þær starfa eftir. Umhverfisstofnun er óheimilt að útfæra efni starfsleyfa með hliðsjón af þeim skilyrðum sem leiða af lögum nr. 71/2008 og reglugerð nr. 540/2020, öðrum en þeim er varða áhættumat erfðablöndunar og burðarþolsmat, sbr. 6. gr. a. og 6. gr. b. laganna. Skiptir þá ekki máli þótt í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 sé kveðið á um að starfsleyfi skuli veitt starfsemi sem uppfylli þær kröfur sem til starfseminnar eru gerðar samkvæmt þeim lögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim að teknu tilliti til annarrar löggjafar, enda verður ekki séð að niðurlag þeirrar reglu hafi verið ætlað að útvíkka valdheimildir Umhverfisstofnunar.

Með hliðsjón af framangreindu verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 17. mars 2022 um að heimila ekki kynslóðaskipt eldi í sjókvíum í Trostansfirði. Lagt er fyrir Umhverfisstofnun að taka þann þátt ákvörðunar um starfsleyfi til endurskoðunar berist um það beiðni frá kæranda.