Árið 2021, föstudaginn 22. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 91/2021, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. apríl 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kiðjabergs.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. júní 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi lóðar nr. 111 í Kiðjabergi þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. apríl 2021 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kiðjabergs. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að réttaráhrifum deiliskipulagsbreytingarinnar yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 21. júní 2021.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 13. september 2021.
Málavextir: Á fundi skipulagsnefndar umhverfis- og tæknisviðs uppsveita 9. september 2020 var fjallað um fyrirspurn eiganda frístundalóðar nr. 110 í Kiðjabergi varðandi stækkun byggingarreits lóðarinnar. Með bókun nefndarinnar var mælst til þess að sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkti breytingar á deiliskipulagi lóðarinnar með fyrirvara um uppfærð gögn. Sveitarstjórn staðfesti bókun nefndarinnar á fundi sínum 16. s.m. og samþykkti að málið skyldi fá meðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um óverulega breytingu á deiliskipulagi og að grenndarkynningin skyldi ná til næstu nágranna og landeigenda. Í kjölfar grenndarkynningar kom í ljós misræmi milli deiliskipulags og þinglýstra heimilda lóðarhafa á svæðinu. Á fundi skipulagsnefndar 10. febrúar 2021 var lögð fram umsókn frá Kiðjabergsfélaginu um leiðréttingu á deiliskipulagi Kiðjabergs. Í umsókninni kom fram að þegar deiliskipulag Kiðjabergs hefði verið uppfært frá handteiknuðu í stafrænt form hefðu orðið þau mistök að ein lóðin hefði verið teiknuð 4 m of breið. Það hefði orðið til þess að hliðrun hefði orðið á teiknigrunni fleiri lóða. Var þess farið á leit að stærðir lóða nr. 108, 109, 110 og 111 yrðu leiðréttar í samræmi við þinglýst skjöl og núverandi kvaðir deiliskipulags. Samhliða yrði byggingarreitur á lóð nr. 110 stækkaður í takt við umsókn þess efnis. Mæltist skipulagsnefnd til þess við sveitarstjórn að hún samþykkti viðkomandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins. Á fundi sveitarstjórnar 17. s.m. var niðurstaða skipulagsnefndar samþykkt með bókun um að málið fengi málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga um óverulega breytingu á deiliskipulagi og yrði grenndarkynnt hlutaðeigandi lóðarhöfum. Var breytingartillaga deiliskipulagsins grenndarkynnt með athugasemdafresti frá 23. febrúar til 25. mars s.á. og bárust athugasemdir frá kæranda 29. mars s.á. Málið var tekið fyrir í skipulagsnefnd 15. apríl s.á. þar sem tekin var afstaða til framkominna athugasemda með bókun og var hún staðfest í sveitarstjórn 21. apríl s.á. Kæranda var kynnt niðurstaða sveitarstjórnar með tölvupósti 4. maí 2021, auk þess sem samhliða var send tilkynning í bréfpósti. Deiliskipulagsbreytingin öðlaðist gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 21. maí 2021.
Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að mál þetta eigi sér nokkra forsögu, en deilur hafi verið um deiliskipulagsákvarðanir sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps er varði frístundasvæði í landi Kiðjabergs. Mikið og freklega hafi verið þrengt að lóð kæranda í gegnum árin með breytingum á skipulagi og framkvæmdum og ekkert tillit hafi verið tekið til athugasemda og mótmæla. Kærandi hefði óskað eftir frekari gögnum í kjölfar grenndarkynningar í október 2020, s.s. gögn um hnitsetningu lóða nr. 108-112, uppdráttum þar sem lóð nr. 112 sæist, hnitsetningu húsa á lóðum nr. 109, 110 og 112 og mælistikum á lóðamörk. Aðeins hnitsetningar lóða nr. 109-111 hefðu borist við grenndarkynningu deiliskipulagsins. Skipulagsfulltrúi hafi upplýst á kynningartíma að skekkjur hefðu komið í ljós við nánari skoðun og verið væri að útbúa ný gögn. Gögnin hefðu ekki borist fyrir lok athugasemdarfrests kynningar og aðeins að hluta fyrir samþykkt deiliskipulags. Mælistikur sem sýndu lóðamörk greinilega hafi ekki verið settar út. Þá hafi byggingarreitur á lóð nr. 110 verið stækkaður um fimm metra í átt að lóðarmörkum. Ekki séu fordæmi fyrir því að byggingarreitir séu færðir þetta nálægt öðrum lóðum og verið sé að ganga á réttindi kæranda enn einu sinni. Komið hafi verið til móts við óskir annarra lóðareigenda hvað eftir annað en brotið gegn grenndarrétti og friðhelgi eignarréttar kæranda.
Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Sveitarfélagið bendir á að málsrök kæranda taki fyrst og síðast til eldri mála sem ekki falli undir hina kærðu ákvörðun. Fyrir liggi hverjar þinglýstar eignarheimildir lóða á svæðinu séu og þar á meðal sé lóðarleigusamningur á milli kæranda og Kiðjabergsfélagsins ehf. sem sé eigandi upprunalandsins. Af þeim gögnum megi ætla að málsettar stærðir lóða á svæðinu liggi fyrir og að breidd lóðar nr. 111 eigi að vera 50 m en ekki 54 m, eins og tilgreint hafi verið í deiliskipulagi. Ekkert liggi fyrir um að breytingar hafi verið gerðar á stærðarmörkum lóðanna sem skýri eða réttlæti þá stærð sem tilgreind hafi verið í deiliskipulaginu. Misræmið kunni að hafa áhrif á byggingarheimildir aðliggjandi lóða þar sem byggingarreitir skerðist í samræmi við skilgreind lóðamörk samkvæmt deiliskipulagi.
Bent sé á að deiliskipulagsákvarðanir geti ekki falið í sér ráðstöfun eignarréttinda að íslenskum rétti. Þannig geti deiliskipulag eitt og sér ekki markað stærð lóða sem séu í einkaeigu heldur verði deiliskipulagið að endurspegla þinglýstar eignarheimildir. Ef misræmi sé á milli tilgreindrar stærðar lóðar í deiliskipulagi annars vegar og þinglýstra eignarheimilda hins vegar gildi hinar þinglýstu eignarheimildir. Hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi fyrst og fremst snúist um að lagfæra þau mörk sem birst hafi í deiliskipulagi svæðisins í takt við þinglýstar eignarheimildir og lóðarleigusamning sem taki til lóðar nr. 111. Mælingar sem gerðar hafi verið hafi staðfest að skekkja væri á milli raunverulegra lóðamarka og marka samkvæmt deiliskipulagi. Ekki sé verið að skerða eignarréttindi kæranda með hinni kærðu ákvörðun. Úrskurðarnefndin sé ekki til þess bær að lögum að skera úr um ágreining um bein eða óbein eignarréttindi, svo sem um stærð lóða eða eignarlanda, en slíkan ágreining verði eftir atvikum að leiða til lykta fyrir dómstólum.
Breytingar á byggingarreit lóðar nr. 110 hafi engin grenndaráhrif gagnvart lóð nr. 111 enda séu byggingarreitir lóðanna ekki samliggjandi auk þess sem hús kæranda standi í 115 m fjarlægð frá umræddum byggingarreit.
Athugasemdir leyfishafa: Eigandi lóðar nr. 110 í Kiðjabergi vísar til þess að það sem kærandi hafi ekki borið fram athugasemdir við skipulagsnefnd og sveitarstjórn fyrr en að liðnum athugasemdafresti eigi að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni án frekari umfjöllunar.
Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi vísar til þess að sveitarfélagið haldi því ranglega fram að kæran snúi einungis að eldra skipulagi. Nýja skipulagið byggi á breytingum sem gerðar hafi verið með skipulagi árið 2015 og felli úr gildi breytingar á stærð lóðar kæranda. Enn sé óljóst hvaða breytingar sé verið að gera í Kiðjabergi og að sveitarfélagið hafi ekki sent gögn sem skýri málið. Það hafi ekki orðið við beiðnum um frekari gögn en svo virðist sem verið sé að færa lóð nr. 111 í norðaustur inn á aðra lóð og færa tvær aðlægar lóðir inn á lóð nr. 111. Stikur hafi ekki verið settar út til afmörkunar lóða fyrr en 28. september 2021 eftir ítrekaðar beiðnir. Þá hafi einungis verið settar út fjórar stikur við horn lóðar nr. 111 en engar til að afmarka aðlægar lóðir. Samkvæmt myndum af stikunum sé lóð nr. 111 komin langt inn á lóð nr. 112. Telur kærandi jafnvel að rangir hnitpunktar hafi verið settir út en skipulagsfulltrúi hafi hvorki svarað fyrirspurn um það né beiðni um frekari gögn. Myndir virðist ekki samræmast hnitunum á loftmynd. Lóð kæranda hafi allt frá upphafi mælst 50 m breið og sé hún með gróðurbeltum á langhliðum. Því sé mótmælt að sveitarfélaginu hafi ekki borist umsóknir um lóðarstækkun, en margar beiðnir og umræður um lóðarstækkun hafi verið til umfjöllunar af fulltrúum sveitarfélagsins. Lóðin hafi svo verið stækkuð í 7.561 m2 með deiliskipulagi árið 2015.
—–
Færð hafa verið fram ítarlegri rök í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps um breytingu á deiliskipulagi Kiðjabergs er lýtur m.a. að því að tilgreindri stærð leigulóðar kæranda sé breytt úr 7.561 m2 í 6.150 m2.
Árið 2015 var gildandi deiliskipulag Kiðjabergs tekið til endurskoðunar og tók breytt deiliskipulag svæðisins gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 25. september 2015. Með deiliskipulagsbreytingunni var lóð nr. 111 í Kiðjabergi stækkuð úr 6.762 m2 í 7.561 m2 til að koma til móts við óskir kæranda þar um. Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 29. september 2017, er varðaði hið endurskoðaða deiliskipulag frá 2015, sagði svo um stækkun lóðar kæranda: „Tilkall kæranda til stærri lóðar ræðst af samningi hans við landeiganda, en hvorki beinum né óbeinum eignarréttindum verður ráðstafað með deiliskipulagi.“
Í hinni umdeildu deiliskipulagsbreytingu kemur fram að markalínur lóða nr. 108, 109, 110 og 111 hafi ekki verið réttar á teiknigrunni miðað við þinglýst skjöl. Hafi lóðirnar því verið mældar upp á staðnum og hnitsettar á uppdrætti til samræmis við skjölin. Með skipulagsbreytingunni sé verið að leiðrétta framangreint misræmi. Um lóð nr. 111 segir enn fremur „Lóðin er á teikningu 7561 m2 en er skv. þinglýstum skjölum 6150 m2. Um 4 metra hliðrun er á teiknigrunni sem er leiðrétt, en lóðin var teiknuð á teiknigrunni 64 metrar á breidd en áttu að vera 60 metrar sbr. þinglýst gögn. Lóðin er leiðrétt í 6150 m2.“
Samkvæmt þinglýstum heimildum um umrædda lóð, þ.e. lóðaleigusamningi, dags. 19. júlí 1990, og stofnskjali lóðarinnar, dags. 21. júní 2005, er stærð hennar 6.150 m2 og liggja engar þinglýstar heimildir fyrir sem skýra stækkun lóðarinnar við deiliskipulagsbreytinguna árið 2015. Deiliskipulag getur hvorki myndað né fellt niður bein eða óbein eignarréttindi, svo sem lóðarréttindi, sem byggjast á einkaréttarlegum samningum, ýmist um kaup á eignarlandi eða um leigu lóðarréttinda. Þinglýstar heimildir um lóðarréttindi, hvort sem um eignarland eða leigulóð er að ræða, eru stofnskjöl slíkra réttinda. Stækkun lóðar nr. 111 samkvæmt deiliskipulagi getur því ekki skapað eignarréttindi umfram þinglýstar heimildir.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála starfar samkvæmt lögum nr. 130/2011 og hefur það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Er það því ekki á færi nefndarinnar að taka til úrlausnar álitamál er snúa að beinum eða óbeinum eignarréttindum og gildi þinglýstra heimilda í því sambandi.
Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu var byggingarreitur á lóð nr. 110 stækkaður. Sú breyting verður ekki talin hafa áhrif á grenndarhagsmuni kæranda enda mun hús kæranda vera í um 115 m fjarlægð frá umræddum byggingarreit.
Með vísan til þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem leitt geta til ógildingar hennar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. apríl 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kiðjabergs í nefndum hreppi.