Árið 2021, miðvikudaginn 22. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 90/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar frá 11. maí 2021 um að samþykkja leyfi til að reisa verönd og setja dyr á suðausturhluta hússins að Engjavegi 7, Ísafirði.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. júní 2021, er barst nefndinni 21. s.m., kæra eigendur Engjavegar 9, Ísafirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar frá 11. maí 2021 að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa verönd og setja dyr á suðausturhluta hússins að Engjavegi 7. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Ísafjarðarbæ 19. júlí og 3. desember 2021.
Málavextir: Vorið 2020 ákváðu eigendur húsanna að Engjavegi 7 og 9 að smíða sólpalla við hús sín. Þegar framkvæmdir hófust við sólpall á Engjavegi 7 töldu eigendur Engjavegar 9 að líklega þyrfti byggingarleyfi fyrir þeim palli. Höfðu þeir því samband við byggingarfulltrúa 20. júlí 2020 og óskuðu eftir að hann skoðaði framkvæmdirnar. Var það mat byggingarfulltrúans eftir skoðun að framkvæmdin væri byggingarleyfisskyld. Með umsókn, dags. 31. júlí 2020, sóttu eigendur Engjavegar 7 um leyfi fyrir nýjum dyrum og verönd við suðvesturenda hússins. Hinn 18. september s.á. var erindið grenndarkynnt í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og bárust athugasemdir frá eigendum Engjavegar 9. Á fundi skiplags- og mannvirkjanefndar 14. apríl 2021 var málið tekið fyrir og eftirfarandi bókun gerð: „Skipulags- og mannvirkjanefnd tekur tillit til athugasemda eigenda Engjavegar 9. Breytingar skulu gerðar á sólpalli svo þær samræmist byggingarreglugerð.“ Eigendur Engjavegar 7 skiluðu inn nýjum uppdrætti að sólpallinum 16. apríl s.á. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 11. maí s.á. var umsókn þeirra um byggingarleyfi síðan samþykkt með vísan til þess að hún samræmdist lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012. Til grundvallar ákvörðun byggingarfulltrúa var m.a. minnisblað hans, dags. 29. mars 2021, þar sem eigendur Engjavegar 7 höfðu áritað samþykki sitt fyrir breytingum á umræddum sólpalli svo hann samræmdist byggingarreglugerð.
Málsrök kærenda: Kærendur byggja á því að með hinni kærðu ákvörðun hafi verið brotið gegn byggingarreglugerð og að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra athugasemda sem gerðar hafi verið við grenndarkynningu vegna málsins. Gerðar hafi verið athugasemdir við að skjólveggur við pallinn væri of hár miðað við að standa í 80-90 cm fjarlægð frá lóðamörkum. Hæð veggjarins væri þar 180 cm og enn meiri meðfram götunni. Skjólveggurinn myndi auka á snjósöfnun á bílastæði kærenda og minnka útsýni á götuna þegar bakkað væri út úr bílastæðinu. Framkvæmdin væri ekki í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar varðandi hæð skjólveggjar og hæð á verönd/svölum. Byggingarfulltrúi hefði haft samband í desember s.á. og viljað halda fund með eigendum húsanna tveggja þar sem afdrif sólpalla beggja húsa yrðu rædd. Hefði þetta verið í fyrsta skipti sem þeirra sólpallur hefði blandast inn í málið. Kærendur hafi ekki séð tilgang með þessum fundi þar sem sólpallurinn að Engjavegi 7 væri byggingarleyfisskyldur.
Þegar eigandi Engjavegar 7 hefði haldið áfram með byggingu sólpallsins hefðu kærendur haft samband við byggingarfulltrúa 18. maí 2021 og óskað upplýsinga um hvort búið væri að veita leyfi fyrir framkvæmdunum. Þar sem engin svör hefðu borist hefðu kærendur farið á skrifstofu sveitarfélagsins 20. s.m. og hitt byggingarfulltrúann, sem hefði upplýst að búið væri að samþykkja framkvæmdirnar eftir einhverjar breytingar og að þau þyrftu að rífa sinn pall. Byggingarfulltrúinn hefði neitað að afhenda teikningar og gögn um leyfið og bent á að hægt væri að nálgast þetta á netinu. Í kjölfarið hefðu kærendur sent bréf á alla starfsmenn umhverfis- og eignasviðs þar sem þau hefðu óskað eftir teikningum, afriti af byggingarleyfi og fundargerð, en engin svör hefðu borist. Þeim hefði borist tölvupóstur frá byggingarfulltrúa 26. maí s.á. með loftmynd, sem að mati kærenda væri sama loftmynd og fylgt hefði með upphaflegu byggingarleyfisumsókninni og hafnað hefði verið af umhverfis- og skipulagsnefnd. Stuttu síðar hefði þeim borist annað bréf þar þeim hefði verið gefinn 20 daga frestur til að rífa sólpall sinn eða færa hann 1,8 m inn á lóðina. Óskað hefði verið eftir málsettum teikningum sem hið kærða byggingarleyfi byggðist á en engin svör hefðu borist. Viti kærendur ekki hvaða breytingar hefðu verið gerðar sem leitt hefðu til þess að leyfið var veitt.
Málsrök Ísafjarðarbæjar: Sveitarfélagið bendir á að ákvörðun byggingarfulltrúa um að veita byggingarleyfi fyrir umræddum sólpalli hafi grundvallast á heildstæðu mat á atvikum og aðstæðum. Horft hafi verið til þeirra athugasemda sem fram hafi komið við grenndarkynningu og til undirritaðrar yfirlýsingar eigenda Engjavegar 7 þess efnis að sólpallurinn yrði færður í það horf að hann uppfyllti byggingarreglugerð. Skjólveggir sem snúi að lóðamörkum gagnvart Engjavegi 9 hefðu verið lækkaðir niður í 120 cm en þeir stæðu í 120 cm fjarlægð frá lóðamörkunum.
Viðbótarathugasemdir kærenda: Vísað er til þess að teikningarnar sem byggingarleyfið byggi á séu ófullnægjandi. Einungis sé um að ræða loftmynd þar sem lína hafi verið færð til en engar málsettar teikningar. Byggingarfulltrúi hafi ekki svarað erindi þeirra um að fá málsettar teikningar. Þá geti það varla talist viðurkennt verklag að eigendur Engjavegar 7 hafi undirritað yfirlýsingu um að byggingaráformum yrði breytt á þann hátt að þau stæðust byggingarreglugerð. Byggður hefði verið skúr við hlið bílskúrs þeirra sem hvergi sé að finna á teikningum, girðingar við götu og bílskúrsplan séu mun hærri en gert sé ráð fyrir á teikningum og ekki hafi verið upplýst um hvaða breytingar hafi verið gerðar frá upphaflegum teikningum. Byggingarfulltrúi hafi ekki sinnt skyldum sínum sem eftirlitsaðili með framkvæmdinni þar sem hún sé nokkuð mikið frábrugðin teikningum og hafi kærendur vakið athygli hans á því.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar að samþykkja byggingarleyfi fyrir sólpalli á lóðinni Engjavegi 7 og þá sérstaklega að því er varðar hæð skjólveggjar sem liggur samhliða lóðamörkum nefndrar lóðar og lóðar kærenda nr. 9 við Engjaveg.
Í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 eru taldar upp minniháttar framkvæmdir sem ekki séu háðar byggingarleyfi enda séu þær í samræmi við deiliskipulag. Í f-lið greinarinnar er tekið fram að skjólveggir og girðingar sem séu allt að 1,8 m að hæð og ekki nær lóðamörkum en 1,8 m séu undanþegnar byggingarleyfi. Enn fremur girðingar eða skjólveggir sem séu nær lóðarmörkum en 1,8 m og séu ekki hærri en sem nemi fjarlægðinni frá lóðamörkum.
Samkvæmt lóðarleigusamningi fyrir lóðina Engjaveg 7 er bílskúrinn að Engjavegi 9 byggður yfir mörk lóðanna tveggja en þau eru í 5,4 m fjarlægð frá húsinu að Engjavegi 7. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er hinn umdeildi skjólveggur í 4,2 m fjarlægð frá húsinu að Engjavegi 7 og því 1,2 m frá lóðamörkum. Samkvæmt upplýsingum frá byggingarfulltrúa var hið kærða byggingarleyfi samþykkt á þeim grundvelli að leyfishöfum væri heimilt að byggja skjólvegg sem væri 1,2 m á hæð og stæði í 1,2 m fjarlægð frá mörkum lóðanna tveggja. Verður því að telja að hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við fyrrgreint ákv. gr. 2.3.5 í byggingarreglugerðinni. Ber því að hafna kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.
Fram hefur komið að kærendur telji að umræddur skjólveggur á lóðinni Engjavegi 7 sé í raun allt að 2,2 m á hæð við bílastæði. Samkvæmt 8. gr. laga um nr. 160/2010 um mannvirki fer byggingarfulltrúi með eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi og er m.a. tekið fram í gr. 3.10.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að byggingarfulltrúi skuli grípa til viðeigandi aðgerða samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar og 10. kafla mannvirkjalaga sé framkvæmd ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög, reglugerðir og byggingarlýsingu. Telji kærendur að sólpallurinn sé ekki í samræmi við byggingarleyfi geta þeir leitað til byggingarfulltrúa, sbr. framangreint ákvæði, og krafist íhlutunar hans svo mannvirkið verði í samræmi við veitt byggingarleyfi. Afgreiðsla slíks erindis er eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.
Uppkvaðning úrskurðar í kærumáli þessu hefur dregist vegna tafa við gagnaöflun frá sveitarfélaginu.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar frá 11. maí 2021 um að samþykkja leyfi til að reisa verönd og setja dyr á suðausturhluta hússins að Engjavegi 7, Ísafirði.