Árið 2012, miðvikudaginn 14. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 9/2012, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 20. janúar 2012 um að veita starfsleyfi til að framleiða allt að 6.000 tonn af laxi á ári í sjókvíum í Reyðarfirði.
Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur
úrskurður
um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. febrúar 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Eyvindur Sólnes hrl., f.h. S hf., fyrrum handhafa starfsleyfis fyrir kvíaeldi í Reyðarfirði, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 20. janúar 2012 að veita L ehf. starfsleyfi til að framleiða allt að 6.000 tonn af laxi á ári í sjókvíum í Reyðarfirði.
Af hálfu kærenda er gerð sú krafa að hið kærða starfsleyfi verði fellt úr gildi og að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar á meðan beðið sé endanlegs úrskurðar í málinu. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa.
Málsatvik og rök: Á árinu 2000 tilkynnti kærandi Skipulagsstofnun um fyrirhugað allt að 6.000 tonna kvíaeldi fyrirtækisins fyrir lax í Reyðarfirði. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að um matskylda framkvæmd væri að ræða og lét kærandi gera mat á umhverfisáhrifum kvíaeldisins. Var starfsemin og umhverfisáhrif hennar kynnt í matsskýrslu í júlí 2002. Hinn 14. mars 2003 gaf Umhverfisstofnun síðan út starfsleyfi til kæranda fyrir kvíaeldinu með gildistíma til 1. apríl 2010. Á gildistímanum var ekki hafin starfræksla laxeldis í sjókvíum samkvæmt starfsleyfinu. Í aprílmánuði 2011 tilkynnti handhafi hins kærða leyfis Skipulagsstofnun um fyrirhugað 6.000 tonna laxeldi í sjókvíum í Reyðarfirði og taldi stofnunin ekki þörf á mati á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðs rekstrar. Umhverfisstofnun veitti síðan starfsleyfi fyrir kvíaeldinu hinn 20. janúar 2012 að undangenginni kynningu á starfsleyfistillögu stofnunarinnar.
Af hálfu kæranda er á það bent að hið kærða starfsleyfi fari gegn lögum og hagsmunum hans. Kærandi fyrirhugi að reka sjókvíaeldi í Reyðarfirði og hafi í tengslum við það kostað mat á umhverfisáhrifum sem nemi tugum milljóna króna, en slíkt mat sé á kostnað og ábyrgð rekstaraðila, sbr. 1. mgr. 23. gr. rgl. nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Nýr leyfishafi laxeldis í Reyðarfirði hafi við undirbúning að umsókn sinni m.a. stuðst við matsskýrslu kæranda án heimildar, en ótvírætt sé samkvæmt 16. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 að slíkt mat sé á ábyrgð og kostnað framkvæmdaraðila. Þessi notkun á matsskýrslu kæranda orki tvímælis en fram komi í 33. gr. rgl. nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum að almennar reglur eigna- og höfundarréttar gildi um gögn þau sem lögð séu fram samkvæmt þeirri reglugerð. Kærandi hafi sótt um endurnýjun fyrra starfsleyfis fyrir laxeldi í Reyðarfirði en Umhverfisstofnun hafi komið því á framfæri að umdeild notkun nýs leyfishafa á mati á umhverfisáhrifum á vegum kæranda hindri að hann geti notað matið við starfsleyfisumsókn sína. Skipulagsstofnun hafi á sínum tíma komist að þeirri niðurstöðu að umrætt laxeldi í Reyðarfirði væri háð mati á umhverfisáhrifum og verði að gera þá kröfu til nýs leyfishafa að hann láti gera nýtt mat á sinn kostnað og ábyrgð í samræmi við lög. Þótt stjórnsýslulög og upplýsingalög tryggi almenningi aðgang að gögnum feli það ekki í sér heimild til að nota þau gögn til hagsbóta öðrum en eiganda þeirra.
Umhverfisstofnun vísar til þess að frestun réttaráhrifa við málskot sé undantekning frá meginreglu stjórnsýsluréttar, sem fram komi í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og beri samkvæmt viðurkenndum lögskýringarsjónarmiðum að skýra slíka undantekningarreglu þröngt. Það sé talið mæla gegn frestun réttaráhrifa þegar hagsmunir fleiri aðila stangist á. Úrræðið eigi frekar við þegar kærð stjórnvaldsákvörðun kveði á um rétt eða skyldu eins aðila en sem tæki þriðja aðila til gæslu sinna hagsmuna á kostnað annars, eins og við eigi í máli þessu. Þá skuli taka tillit til þess hvort aðstæður séu með þeim hætti að kæruheimild verði í raun þýðingarlaus verði réttaráhrifum ekki frestað og hvaða líkur séu á að ákvörðun verði breytt. Frestun réttaráhrifa verði fyrst og fremst beitt þegar um sé að ræða neikvæða ákvörðun sem geti skaðað þann aðila sem hún beinist að. Ljóst sé að sá rekstur sem mál þetta snúist um verði ekki hafinn með skömmum fyrirvara, enda þurfi önnur leyfi að koma til, og verði ekki séð að hagsmunir kæranda séu í hættu þótt beðið verði endanlegs úrskurðar í málinu. Starfsleyfi séu gefin út af Umhverfisstofnun eftir mikinn undirbúning og strangt kynningar- og athugasemdaferli og bendi fátt til að forsendur séu til að fella hið kærða starfsleyfi úr gildi.
Leyfishafi mótmælir kröfu um ógildingu hins kærða starfsleyfis og kröfu um frestun réttaráhrifa. Í kæru séu engin rök færð fram fyrir kröfunni um frestun réttaráhrifa enda sé staðreyndin sú að framkvæmdir byggðar á starfsleyfinu séu hvorki hafnar né yfirvofandi. Leyfishafi hyggi ekki á framkvæmdir vegna starfsleyfisins fyrr en á árinu 2013 og séu skilyrði fyrir frestun réttaráhrifa skv. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála því ekki uppfyllt. Kærandi hafi af þessum sökum ekki lögvarða hagsmuni af því að krafa hans um frestun réttaráhrifa verði tekin til greina. Í 6. mgr. 4. gr. nefndra laga komi fram tímamörk sem úrskurðarnefndin hafi til að afgreiða mál og með hliðsjón af þeim tímamörkum megi vænta að endanleg úrlausn í málinu liggi fyrir löngu áður en leyfishafi hefji framkvæmdir við þá starfsemi sem starfsleyfið taki til.
Niðurstaða: Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa ákvörðunar til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 1. og 3. mgr. ákvæðisins.
Fyrir liggur að framkvæmdir í tengslum við hið kærða starfsleyfi eru ekki hafnar eða fyrirhugaðar á næstunni en áður en til þeirra getur komið þarf að afla rekstrarleyfis samkvæmt lögum nr. 71/2008 um fiskeldi auk framkvæmda- og /eða byggingarleyfa samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum um mannvirki nr. 160/2010. Af þessum sökum, og þegar litið er til mögulegra annarra réttaráhrifa hins kærða leyfis, verður ekki séð að hagsmunir kæranda knýi á um frestun þeirra og verður kröfu kæranda þar að lútandi því hafnað.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa ákvörðunar Umhverfisstofnunar frá 20. janúar 2012 um að veita starfsleyfi fyrir framleiðslu allt að 6.000 tonna af laxi á ári í sjókvíum í Reyðarfirði.
_________________________________
Hjalti Steinþórsson
____________________________ ___________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson