Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

9/2011 Fjörður 1

Ár 2011, föstudaginn 1. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 9/2011, kæra á afgreiðslu byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar á erindi vegna framkvæmda í landi Fjarðar 1 í Mjóafirði, Fjarðabyggð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. janúar 2011, er barst nefndinni 21. sama mánaðar, kærir A, einn sameigenda jarðarinnar Fjarðar 1 í Mjóafirði, Fjarðabyggð, afgreiðslu byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar á erindi vegna framkvæmda á nefndri jörð. 

Gerir kærandi þá kröfu að byggingarfulltrúa verði gert að fjarlægja ólöglegar byggingar og veg á umræddu landi en að öðrum kosti að þvingunarúrræði 3. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 verði beitt og Skipulagstofnun láti fjarlægja greindar byggingar á kostnað Fjarðabyggðar. 

Málsástæður og rök:  Hinn 3. ágúst 2010 sendi kærandi byggingaryfirvöldum í Fjarðabyggð erindi vegna framkvæmda í landi Fjarðar 1 í Mjóafirði.  Kom þar fram að um væri að ræða tvær byggingar, annars vegar byggingu yfir tvo 20 feta gáma og hins vegar smáhýsi yfir rafstöð.  Þá var og nefndur til sögunnar 400 metra langur nýr vegur frá Mjóafjarðarvegi og að húsi framkvæmdaaðila er lægi um 50 m innar í dalnum en eldri vegur.  Í bréfinu vísaði kærandi til þess að ekki hefði verið aflað leyfis fyrir nefndum framkvæmdum og skort hefði samþykki sameigenda að umræddu landi fyrir þeim.  Var þess farið á leit við byggingarfulltrúa að framkvæmdaaðila yrði gert að afla tilskilinna leyfa hjá yfirvöldum sveitarfélagsins og samþykkis annarra landeigenda.  Að öðrum kosti yrði þeim gert að fjarlægja greindar byggingar og veg.  Byggingarfulltrúi svaraði erindinu með bréfi, dags. 20. desember 2010, þar sem viðhorfum byggingaryfirvalda var lýst.  Var þar tekið fram að eigendum umræddra bygginga yrði gert að sækja um byggingarleyfi fyrir þeim og framkvæmdaleyfi fyrir veginum. 

Kærandi vísar til þess að hin kærða afgreiðsla byggingarfulltrúa sé með öllu óviðunandi og hafi ekki verið borin undir sveitarstjórn Fjarðabyggðar.  Af svarbréfi byggingarfulltrúa við erindi hans megi ráða að kæranda sé óviðkomandi hvað meðeigendur framkvæmi á sameiginlegu landi þeirra og með því sé gert lítið úr eignarréttindum kæranda að landinu.  Byggingaryfirvöldum hafi verið kunnugt um nefndar óleyfisbyggingar frá því í maí 2009 en hafi þó ekkert aðhafst vegna þeirra.  Kærandi hafi reynt að ná samningum um uppskipti sameiginlegs lands í séreignarhluta, þannig að umræddar byggingar yrðu á séreignarlandi framkvæmdaaðila, en án árangurs. 

Af hálfu Fjarðabyggðar er þess aðallega krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að kröfum kæranda verði hafnað.  Ekki sé búið að taka stjórnsýsluákvörðun í máli sem hófst með erindi kæranda, dags. 3. ágúst 2010.  Með bréfi byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar, dags. 20. desember 2010, hafi kæranda einungis verið kynnt ákvörðun um meðferð málsins.  Slík ákvörðun sé eðlilegur liður í undirbúningi máls og byggi m.a. á rannsóknarreglu stjórnsýslulaga,  Ljóst sé að ágreiningsefni málsins varði m.a. deilu um eignarhald og legu um 5.000 m2 lóðar og geti byggingarfulltrúi ekki skorið úr um slíkan ágreining.  Þegar umsókn og fylgigögn hafi borist, eða sýnt sé að frestur til framlagningar slíkra gagna verði ekki nýttur, muni erindi kæranda verða tekið til efnislegrar umfjöllunar og ákvörðun tekin í kjölfar þess. 

Í tilefni af frávísunarkröfu Fjarðabyggðar bendir kærandi á að með bréfi, dags. 27. desember 2010, hafi hann farið fram á rökstuðning fyrir fullyrðingum í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 10. desember sama ár, og tilkynnt að ella yrði niðurstaðan kærð til æðra stjórnvalds.  Beiðni um rökstuðning hafi ekki verið svarað og engar leiðbeiningar veittar eða meintur misskilningur um innihald bréfs byggingarfulltrúa leiðréttur.  Augljóst hafi mátt vera að kærandi hafi talið að um endanlega ákvörðun væri að ræða enda hafi í fyrrgreindu bréfi byggingarfulltrúa verið talað um niðurstöðu.  Það bréf beri og með sér að byggingarfulltrúi hafi tekið afstöðu í málinu, byggða á sjónarmiðum framkvæmdaaðila, án þess að gengið hafi verið úr skugga um staðreyndir málsins. 

Aðilar að hinum umdeildu framkvæmdum benda á að kæranda hafi verið fullkunnugt um framkvæmdirnar sem átt hafi sér stað á árunum 2006-2007 og hafi þá aldrei lýst öðru en ánægju með þær.  Á árinu 2009 hafi komið upp hugmyndir hjá fjölskyldumeðlimum kæranda um stórfellda uppbyggingu í Fjarðarlandi sem gengið hafi í berhögg við sameiginlegar hugmyndir annarra eigenda landsins.  Hafi kærandi þá knúið á um helmingaskipti á túni Fjarðar 1 og hafi framkvæmdaaðilum verið hótað málsókn yrði ekki fallist á fyrrnefndar hugmyndir um uppbyggingu.  Gámahúsið, þ.e. gamla fjárhúsið í Firði, sé séreign og ekki þurfi að afla samþykkis annarra fyrir framkvæmdum þar.  Þá hafi bygging bráðabirgðaskúrs yfir rafstöð á staðnum verið neyðarúrræði vegna slæms ásigkomulags fjóssins, en þak þess hafi fokið af í janúar 2011.  Framkvæmdaaðilar hafi leitað lausna á málinu gangvart kæranda en án árangurs. 

Niðurstaða:  Kæra í máli þessu er reist á efni bréfs byggingarfulltrúans í Fjarðabyggð, dags. 20. desember 2010, sem sent var í tilefni af erindi kæranda vegna byggingarframkvæmda og veglagningar í landi Fjarðar 1 í Mjóafirði.  Í nefndu bréfi byggingarfulltrúa kemur fram að þeim sem að framkvæmdunum stóðu yrði gert að afla nauðsynlegra leyfa en þar er ekki að finna ákvörðun sem felur í sér afstöðu til kröfu kæranda um beitingu þvingunarúrræða gagnvart framkvæmdaaðilum. 

Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. og 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar og verður ákvörðunin að binda endi á meðferð máls samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Í tilvitnuðu bréfi byggingarfulltrúa er ekki að finna slíkar ákvarðanir og ber því með vísan til greindra lagaákvæða að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_______________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________         _____________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson