Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

9/2008 Hólmaþing

Ár 2008, þriðjudaginn 6. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 9/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 9. janúar 2008 um að veita leyfi til að byggja einbýlishús á lóðinni nr. 1 við Hólmaþing í Kópavogi.  

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. febrúar 2008, er barst úrskurðarnefndinni samdægurs, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. R og Á, lóðarhafa Gulaþings 5 í Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 9. janúar 2008 um að veita leyfi til að byggja einbýlishús á lóðinni nr. 1 við Hólmaþing í Kópavogi.  

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að kveðinn verði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu.  Er krafan um stöðvun framkvæmda nú tekin til úrskurðar. 

Málavextir og rök:  Á svæðinu Vatnsendi-Þing er í gildi deiliskipulag frá árinu 2005.  Samkvæmt því er heimilt að byggja á lóðinni að Hólmaþingi 1 einbýlishús á einni hæð auk kjallara.  Í greinargerð deiliskipulagsins segir m.a. eftirfarandi:  „Lóðarstærðir á deiliskipulagsuppdrætti eru leiðbeinandi og ákvarðast nánar við gerð mæliblaða.  Hæðakótar húsa og lóða koma fram á hæðarblaði.  Mæli- og hæðarblöð verða unnin og gefin út í kjölfar deiliskipulagsins.  Sá fyrirvari er gerður að lóðastærðir og hæðarlega getur breyst við gerð hæði og mæliblaða.“ 

Upphaflegt hæðarblað vegna lóðarinnar að Hólmaþingi 1 var dagsett hinn 12. janúar 2006.  Samkvæmt því var kóti efri hæðar 98,00.  Með bréfi, dags. 9. nóvember 2006, óskaði lóðarhafi lóðarinnar eftir því að hæðarblaðið yrði leiðrétt.  Var kóta efri hæðar hússins að Hólmaþing 1 breytt úr 98,00 í 99,20 með hæðarblaði, dagsettu 27. júní 2007.

Á fundi byggingarnefndar hinn 21. nóvember 2007 var lögð fram umsókn um leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 1 við Hólmaþing.  Var byggingarfulltrúa falið að ljúka afgreiðslu málsins, að uppfylltum framlögðum athugasemdum.  Hinn 16. janúar 2008 var á fundi byggingarnefndar lögð fram afgreiðsla byggingarfulltrúa frá 9. sama mánaðar þar sem áðurnefnd umsókn var samþykkt.  Var framangreint staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 22. janúar 2008.

Af hálfu kærenda er bent á að hæðarsetningu hússins að Hólmaþingi 1 hafi verið breytt með afgerandi hætti og það án nokkurrar kynningar.  Kóti aðalhæðar hafi verið hækkaður úr 98,00 í 99,20.  Sé þetta hækkun um 1,20 m (um 1/2 hæð) sem augljóslega hafi áhrif á útsýni af efri hæð Gulaþings 5.  Samkvæmt upplýsingum sem kærendur hafi fengið frá skipulagsfulltrúa séu rökin fyrir breyttri hæðarlegu hússins að Hólmaþingi 1 þau að það liggi of neðarlega miðað við G-kóta lóðarinnar að Hólmaþingi 3.  Húsið hafi verið 0,88 m neðar en G-kótinn við Hólmaþing sem sé 98,88.  Þessi rök haldi augljóslega ekki.  Aðkoma að húsinu sé frá Gulaþingi, ekki Hólmaþingi.  Hæsti kóti lóðarinnar sé 98,88 en lægsti kóti í norðausturhorni lóðarinnar sé 95,20.  Hæðarmunur innan lóðarinnar sé því 3,68 m. 

Hið umdeilda byggingarleyfi sé í ósamræmi við deiliskipulag, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Sú breyting sem virðist hafa verið gerð á deiliskipulagi, þ.e. hin breytta hæðarlega, hafi ekki verið kynnt samkvæmt 26. gr. skipulags- og byggingarlaga eða hlotið fullnaðarafgreiðslu samkvæmt fyrirmælum laganna og því ekki tekið gildi.  Samkvæmt gildandi skipulagi sé húsið að Hólmaþingi 1 skilgreint sem einnar hæðar hús með kjallara en með hinni umdeildu breytingu líti það út sem tveggja hæða hús.  Byggingarleyfi hússins sé því ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag.  Beri því að fallast á kröfur kærenda. 

Af hálfu Kópavogsbæjar er krafist frávísunar málsins.  Bent sé á að deiliskipulag umrædds svæðis hafi tekið gildi árið 2005.  Í skilmálum þess sé kveðið á um að heimilt sé að byggja á lóðinni að Hólmaþingi 1 einbýlishús á einni hæð auk kjallara.  Hvorki séu gefnir upp hæðarkótar fyrir mannvirkið í deiliskipulagsskilmálum né á skipulagsuppdráttum, en í 6. gr. deiliskipulagsskilmála segi að hæðarkótar fyrir aðkomuhæðir húsa séu sýndir á hæðarblaði.
 
Haustið 2006 hafi Kópavogsbæ borist ábending frá hönnuði hússins að Hólmaþingi 1 um villu í hæðarblöðum og í erindi, dags. 9. nóvember 2006, hafi formlega verið óskað eftir leiðréttingu á hæðarkótum.  Í framhaldinu hafi málið verið skoðað af deildarstjóra hönnunardeildar sem hafi komist að þeirri niðurstöðu að hæðarkótar samræmdust ekki gildandi deiliskipulagi og væru því rangir á hæðarblaði.  Hæðarkótar á hæðarblöðum hafi því verið leiðréttir til samræmis við deiliskipulagið. 

Af hálfu byggingarleyfishafa er tekið undir kröfur Kópavogsbæjar og kröfum kærenda mótmælt. 

Vettvangsskoðun:  Fulltrúar úrskurðarnefndarinnar kynntu sér aðstæður á vettvangi með óformlegum hætti þriðjudaginn 22. apríl 2008. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti leyfis byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 9. janúar 2008 til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 1 við Hólmaþing og er krafist ógildingar þess.  Af hálfu Kópavogsbæjar og byggingarleyfishafa er krafist frávísunar málsins.  Verður í bráðabirgðaúrskurði þessum ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu heldur verður það gert við uppkvaðningu endanlegs úrskurðar málsins.

Í gildi er deiliskipulag Vatnsendi-Þing frá árinu 2005.  Samkvæmt því er heimilt að byggja á lóðinni að Hólmaþingi 1 einbýlishús á einni hæð auk kjallara.  Á deiliskipulagsuppdrætti svæðisins eru lóðir ekki hæðarsettar, en fram kemur í greinargerð að mæli- og hæðarblöð verði unnin og gefin út í kjölfar deiliskipulagsins.   Eins og mál þetta liggur nú fyrir, og eftir óformlega skoðun á vettvangi, telur úrskurðarnefndin ekki augljóst að hin kærða ákvörðun sé haldin annmörkum er leitt geti til ógildingar hennar og verður því ekki fallist á kröfu kærenda um að framkvæmdir verði stöðvaðar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda við byggingu einbýlishúss á lóðinni nr. 1 við Hólmaþing í Kópavogi.  

 

__________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________    ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                            Aðalheiður Jóhannsdóttir