Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

89/2022 Vellir

Árið 2022, fimmtudaginn 25. ágúst, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 89/2022, kæra á ákvörðun byggðaráðs Rangárþings eystra frá 7. júlí 2022 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vega í nýrri frístundabyggð á jörðinni Velli 1.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. ágúst 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir dánarbú A eigandi 60% eignarhlutar í jörðinni Bakkavelli, þá ákvörðun byggðaráðs Rangárþings eystra frá 7. júlí 2022 að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vega í nýrri frístundabyggð á jörðinni Velli 1. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök: Með tölvupósti til skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra hinn 9. júní 2022 var fyrir hönd eigenda jarðarinnar Bakkavallar athygli vakin á því hafin væri vegalagning í landi þeirra. Óskað var eftir upplýsingum um hvort gefið hefði verið út framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdunum og þess krafist að þær yrðu stöðvaðar tafarlaust. Skipulags- og byggingarfulltrúi svaraði erindinu 10. s.m. og upplýsti að lögð hefði verið fram umsókn um framkvæmdaleyfi. Á fundi skipulagsnefndar 20. s.m. var tekin fyrir umsókn eigenda jarðarinnar Vallar 1 um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vega í nýrri frístundahúsabyggð jarðarinnar, en afgreiðslu málsins var frestað. Staðfesti byggðaráð þá afgreiðslu á fundi sínum 23. s.m. en á fundi ráðsins 7. júlí s.á. var umsóknin samþykkt með vísan til fyrirliggjandi gagna.

Kærandi telur ljóst að hið kærða framkvæmdaleyfi feli í sér lagningu vega í þinglýstu landi hans og því beri að stöðva framkvæmdir, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Framkvæmdirnar hafi hafist áður en leyfi hafi verið gefið út, standi yfir á þeim tímapunkti sem kæra sé lögð fram og séu langt komnar. Brýnt sé að stöðva þær áður en frekari skaði verði unnin á landi kæranda með afleiddu fjártjóni.

Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að ágreiningur málsins eigi fyrst og fremst rót sína að rekja til deilna um eignarhald á landi. Tæpast sé um það ágreiningur að það sé ekki á valdi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að skera úr deilum um eignarrétt að landi heldur eigi slíkar deilur undir dómstóla.  Þegar af þeirri ástæðu sé ekki hægt að taka til greina kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. Hitt skipti þó enn meira máli að hin kærða framkvæmd mun vera yfirstaðin og yrði stöðvun framkvæmda því marklaus.

Leyfishafi bendir á að framkvæmdum sé lokið og hafi verkið verið unnið samkvæmt framkvæmdaleyfi sveitarfélagsins.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Hið kærða framkvæmdaleyfi heimilar lagningu vega í nýrri frístundabyggð á jörðinni Velli 1, en kærandi telur að hluti framkvæmdanna fari fram á landi hans. Í kæru kemur fram að framkvæmdir séu langt á veg komnar og í athugasemdum leyfishafa er upplýst að þeim sé lokið. Með hliðsjón af því og framangreindum lagaákvæðum verður ekki séð að tilefni sé til að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda vegna ákvörðunar byggðaráðs Rangárþings eystra frá 7. júlí 2022 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vega í nýrri frístundabyggð á jörðinni Velli 1.