Árið 2024, föstudaginn 20. desember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 88/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 12. júlí 2024 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að gera kvist á bílskúr á lóð Múlalindar 3.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. ágúst 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Múlalind 6, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 12. júlí 2024 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að gera kvist á bílskúr á lóð Múlalindar 2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að kvisturinn verði fjarlægður.
Málsatvik og rök: Á fundi byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar 12. júlí 2024 var tekin fyrir og samþykkt umsókn eigenda Múlalindar 3 um leyfi til að gera kvist á bílskúr á lóð þeirra. Hinn 18. ágúst s.á. barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kæra þessa máls. Með bréfi byggingarfulltrúa til leyfishafa, dags. 11. september s.á., var tilgreint að við skoðun málsins hafi komið í ljós að ekki væri heimild í deiliskipulagi fyrir umræddum kvisti auk þess sem kvisturinn, sem búið væri að byggja, væri ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti. Tilkynnti embættið leyfishafa að áformað væri að fella leyfið úr gildi með vísan til 2. töluliðar 1. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Á grundvelli 13. gr. sömu laga var leyfishafa veittur 14 daga frestur til til að tjá sig um málið. Embættinu bárust engar athugasemdir frá leyfishafa og hinn 29. október 2024 tilkynnti byggingarfulltrúi honum um að leyfið væri fellt úr gildi. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 13. desember s.á. var bréfið lagt fyrir og það samþykkt.
Kærendur taka fram að þau hafi fyrst orðið vör við hina kærðu framkvæmd 11. ágúst 2024. Undanfarin ár hafi sífellt verið bætt við byggingarmagni á lóðinni áður en aflað hafi verið tilskilinna leyfa. Sú stækkun sem hér um ræði hafi aldrei verið kynnt kærendum þrátt fyrir að breytingin hafi áhrif á útsýni þeirra. Þrátt fyrir að framkvæmdin beri heitið „kvistur“ sé efnislega um að ræða hækkun á austanverðri langhlið bílskúrsins um eina hæð. Breytingin samræmist því ekki byggðamynstri þar sem öll önnur hús í götunni séu einnar hæðar, að undanskildu endahúsi á lóð nr. 2 sem falli ágætlega inn í umhverfið. Byggingarmagn á lóðinni sé komið langt umfram það sem eðlilegt geti talist.
Af hálfu eiganda Múlalindar 3 er bent á málsmeðferð byggingarleyfisins hafi verið í fullu samræmi við gildandi lög og reglur. Um smávægilega breytingu á útliti hússins sé að ræða.
Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er meginreglan sú að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Eins og að framan greinir hefur hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa frá 12. júlí 2024 verið afturkölluð og er því ljóst að hún hefur ekki lengur réttarverkan. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Vegna þeirrar kröfu kærenda að hinn umdeildi kvistur á bílskúr lóðar Múlalindar 3 verði fjarlægður er bent á að hlutverk úrskurðarnefndarinnar skv. 1. gr. laga nr. 130/2011 er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en telur það falla utan valdheimilda sinna að leggja fyrir stjórnvöld að aðhafast með tilgreindum hætti í málum. Verður því ekki tekin afstaða til framangreindrar kröfu kærenda, en rétt þykir að leiðbeina þeim um að hægt er að fara fram á við byggingarfulltrúa að beitt verði þvingunarúrræðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 55. og 56. gr. laganna.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.