Árið 2020, mánudaginn 6. apríl, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 88/2019, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 6. júní 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Safamýrar – Álftamýrar vegna lóðarinnar nr. 7-9 við Álftamýri.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. september 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Álftamýrar 21, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 6. júní 2019 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Safamýrar – Álftamýrar vegna lóðarinnar nr. 7-9 við Álftamýri. Skilja verður málskot kæranda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 30. október 2019.
Málavextir: Á árinu 2004 var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Safamýrar – Álftamýrar vegna lóðanna Álftamýrar 1-5 og 7-9. Fól tillagan m.a. í sér heimild til að byggja hæð ofan á tveggja hæða hús við Álftamýri 7-9. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar frá eigendum raðhúsa við Álftamýri 15-27, þ. á m. kæranda, þar sem lagst var gegn hækkun byggingarinnar. Var í kjölfarið fallið frá fyrirhugaðri hækkun en í stað þess var í samþykktri deiliskipulagsbreytingu, sem tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 23. mars 2005, veitt heimild til byggingar tveggja hæða viðbyggingar á baklóð. Mun lóðarhafi ekki hafa sótt um byggingarleyfi fyrir þeirri viðbyggingu.
Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 13. febrúar 2019 var tekin fyrir umsókn um breytingu á deiliskipulagi Safamýrar – Álftamýrar vegna lóðarinnar nr. 7-9 við Álftamýri. Í breytingunni fólst m.a. að byggja eina hæð ofan á núverandi tveggja hæða byggingu, að hækka viðbyggingu á lóðarmörkum um tvær hæðir til jafns við aðalhúsið og að fjarlægja byggingarreit fyrir viðbyggingu á baklóð. Samþykkt var að auglýsa framlagða tillögu skv. 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr., skipulagslaga nr. 123/2010 og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu á fundi sínum 22. febrúar s.á. Tillagan var auglýst í Fréttablaðinu 4. mars s.á. með athugasemdafresti til 15. apríl s.á. og bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá íbúum og eigendum raðhúsa við Álftamýri 15-27. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs var tillagan lögð fram að nýju ásamt umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir, en þar var lagt til að tillagan yrði samþykkt með uppfærðum bílastæðaskilmálum. Með vísan til umsagnarinnar var tillagan samþykkt og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu á fundi sínum 6. júní s.á. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. ágúst 2019.
Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að árið 2005 hafi verið gerð tilraun til þess að afla samþykkis fyrir hækkun húsanna á lóðunum Álftamýri 1-5 og 7-9 en því hafi verið hafnað. Náðst hafi samkomulag um umtalsverðar breytingar á húsunum við Álftamýri 1-5, m.a. hækkun þeirra um eina hæð, en samræmi í hæð húsanna hafi verið meginrök þeirra breytinga. Með hinni kærðu ákvörðun 14 árum síðar sé brotið gegn þessu samkomulagi. Sjónarmiðið um samræmi virðist ekki lengur henta borgaryfirvöldum. Íbúar hverfisins megi vænta þess að Álftamýri 1-5 hækki enn frekar samræmisins vegna og höfrungahlaup borgarinnar í hækkun húsa haldi áfram. Í umsögn skipulagsfulltrúa sé ekki tekið á athugasemdum um hækkun húsa með vísan í fyrri deiliskipulagsbreytingu frá árinu 2005. Þá verði birta og yfirbragð allt annað þegar búið sé að hækka húsið, sem muni þá gnæfa enn meira yfir nálæg raðhús. Af svörum skipulagsfulltrúa megi ráða að þar sem Álftamýri 1-5 og 7-9 séu nærþjónustukjarni þá megi gera hvað sem er með tilliti til hæðar húsanna. Borgaryfirvöld taki hagsmuni húseigenda og atvinnurekenda fram yfir hagsmuni íbúa í grónu íbúðarhverfi og engu varði fyrra samkomulag.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að það samkomulag sem kærandi vísi til sé breyting á umræddu deiliskipulagi frá árinu 2005. Tillaga að breyttu deiliskipulagi hafi falið í sér stækkun húseignarinnar Álftamýri 1-5 í fullar tvær hæðir og að bætt yrði einni hæð ofan á Álftamýri 7-9, þannig að hún yrði samtals þrjár hæðir. Einnig hafi tillagan falið í sér heimild til að rífa bílskúr sunnanmegin á lóðinni Álftamýri 1-5 og koma fyrir byggingarreit fyrir bílaapótek á austurhluta lóðarinnar. Kærandi hafi ásamt fleirum sent inn athugasemdir við stækkun húsanna. Niðurstaðan hafi orðið sú að samþykkja tillöguna á þann hátt að byggingaraðili hafi verið beðinn um að skoða þá möguleika „að hafa inndregna ofaná byggingu á framhúsi eða tveggja hæða viðbyggingu sunnan við fram hús við Álftamýri 7-9 en að ofanábyggingar við Álftamýri 1-5 verði inndregna um a.m.k. 3 m til suðurs“. Með hinni kærðu ákvörðun sé einungis verið að breyta skipulagi fyrir Álftamýri 7-9. Við mat á tillögunni hafi m.a. verið horft til þess að hækkun hússins hefði ekki í för með sér aukið skuggavarp á nágrannalóðir vegna staðsetningar þess norðan raðhúsabyggðarinnar, en húsið á lóð Álftamýri 7-9 sé í um 23-37 m fjarlægð frá raðhúsunum. Deiliskipulagið hafi verið auglýst skv. 1. mgr. 43. gr., sbr. 1. mgr. 41. gr., skipulagslaga nr. 123/2010, og hafi málsmeðferðin verið í fullu samræmi við þær málsmeðferðarreglur sem kveðið sé á um í skipulagslögum og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Álftamýrar – Safamýrar vegna lóðarinnar nr. 7-9 við Álftamýri, sem felur m.a. í sér heimild til að byggja eina hæð ofan á núverandi tveggja hæða byggingu, að hækka viðbyggingu á lóðarmörkum um tvær hæðir til jafns við aðalhúsið og að fjarlægja byggingarreit fyrir viðbyggingu á baklóð. Kærandi er eigandi raðhúss í raðhúsalengjunni nr. 15-27 við Álftamýri og stendur hús hans í u.þ.b. 25 m fjarlægð frá hinni umdeildu byggingu.
Sveitarstjórn fer með skipulagsvald innan marka sveitarfélags, eins og fram kemur í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og ber ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. laganna. Í skipulagsvaldinu felst víðtæk heimild til breytinga á þegar gerðum deiliskipulagsáætlunum, sbr. 1. mgr. 43. gr. sömu laga. Við gerð deiliskipulags ber að gæta þess að skipulagið, og þá jafnframt breytingar á því, rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga, sem og að haga málsmeðferð þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þó svo að hagur heildarinnar verði hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið 1. mgr. 1. gr. laganna. Skipulagsvaldið er jafnframt bundið af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað.
Hin kærða deiliskipulagsbreyting var kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Að loknum athugasemdafresti var hún afgreidd í umhverfis- og skipulagsráði, þar sem framkomnum athugasemdum var svarað í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga og tillagan síðan staðfest af borgarráði. Tók hún gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni lögboðinni yfirferð Skipulagsstofnunar. Var þannig farið að lögum við málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar.
Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er lóðin Álftamýri 7-9 á skilgreindu íbúðarsvæði, ÍB13, sem sé fullbyggt og fastmótað. Lóðin sé ætluð fyrir nærþjónustukjarna fyrir verslun og þjónustu sem sinni daglegum þörfum íbúa. Í aðalskipulaginu kemur fram að í fastmótaðri byggð megi gera ráð fyrir breytingum á núverandi húsnæði, viðbyggingum og öðrum endurbótum, svo og nýbyggingum, eftir því sem ákveðið sé í hverfis- og/eða deiliskipulagi. Verður því ekki séð að hin kærða deiliskipulagsbreyting, er felur aðallega í sér aukið byggingarmagn á fyrrgreindri lóð, gangi gegn stefnu aðalskipulags um svæðið og er því áskilnaði laga um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana fullnægt, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Þá kemur fram í umdeildri deiliskipulagsbreytingu að markmiðið með henni sé að yfirbragð byggðar verði heillegt og sterkt með því að heimila fyrirhugaðar breytingar. Búa því efnis- og skipulagsrök að baki hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.
Umdeild deiliskipulagsbreyting felur í sér heimild til að hækka húsið að Álftamýri 7-9, en sem fyrr segir er lóð kæranda í u.þ.b. 25 m fjarlægð frá byggingunni. Ljóst er að sú breyting hefur grenndaráhrif í för með sér gagnvart fasteign kæranda með tilliti til breytts útsýnis. Að virtum skýringaruppdráttum deiliskipulagsbreytingarinnar, þar sem finna má rýmismyndir og skuggavarp vegna heimilaðra breytinga, verða grenndaráhrif hennar þó ekki talin svo veruleg að réttur kæranda sé fyrir borð borinn í skilningi c-liðar 1. gr. skipulagslaga.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 6. júní 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Safamýrar – Álftamýrar vegna lóðarinnar nr. 7-9 við Álftamýri.