Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

87/2024 Tangabryggja

Árið 2024, föstudaginn 11. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 87/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. júlí 2024 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13­–15.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. ágúst 2024, er barst nefndinni 12. s.m., kærir húsfélag Tangabryggju 13–15 þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. júlí 2024 að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13–15. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að byggingarfulltrúa verði gert að endurtaka lokaúttekt samkvæmt skoðunarlista, sbr. gr. 3.5.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, eftir að byggingaraðili ljúki við bygginguna að fullu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 12. september 2024.

Málavextir: Árið 2016 var sótt um byggingarleyfi til að byggja fimm hæða fjölbýlishús með 63 íbúðum á lóðinni nr. 18–24 við Tangabryggju sem síðar var breytt í Tangabryggju 13–15. Byggingarfulltrúi gaf út vottorð um lokaúttekt 21. júní 2019, en sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Með úrskurði uppkveðnum 28. maí 2020 í máli nr. 54/2019 var ákvörðun byggingarfulltrúa felld úr gildi með vísan til þess að þáttum sem vörðuðu aðgengi skyldi ávallt vera lokið við gerð lokaúttektar, sbr. 4. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, en að mati nefndarinnar voru tiltekin skilyrði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um bílastæði hreyfihamlaðra ekki uppfyllt.

Hinn 21. október 2020 gaf byggingarfulltrúi út nýtt vottorð um lokaúttekt og kærði kærandi þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu hennar. Var þeirri kröfu hafnað með úrskurði í máli nr. 134/2020, uppkveðnum 6. maí 2021, en að virtri kvörtun kæranda til umboðsmanns Alþingis og fyrirspurnum umboðsmanns til nefndarinnar vegna kvörtunarinnar ákvað úrskurðarnefndin að endurupptaka málið að eigin frumkvæði. Í kjölfarið óskaði nefndin eftir áliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar vegna tiltekinna atriða. Úrskurður var kveðinn upp að nýju 4. maí 2022 þar sem úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að við útgáfu lokaúttektarvottorðs hefði fyrirkomulag loftræsingar mannvirkisins ekki uppfyllt skilyrði byggingarreglugerðar, en þar að auki komst meirihluti nefndarinnar að þeirri niðurstöðu að fyrirkomulag bílastæða fyrir hreyfihamlaða hefði heldur ekki uppfyllt skilyrði byggingarreglugerðar. Voru þeir annmarkar taldir leiða til ógildingar ákvörðunar byggingarfulltrúa.

Í kjölfar úrskurðarins lagði byggingaraðili fram byggingarleyfisumsókn með nýjum aðaluppdráttum og óskaði eftir því að byggingarlýsingu um loftræsingu og skilyrðum um snjóbræðslu fyrir bílastæði fyrir hreyfihamlaða yrði breytt. Hinn 21. mars 2023 samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina. Lokaúttekt fór fram að nýju 21. apríl s.á. og var hún staðfest með útgáfu vottorðs 25. s.m. Kærandi í máli þessu skaut þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu hennar. Með úrskurði í máli nr. 63/2023, uppkveðnum 22. desember 2023, var fallist á kröfu kæranda og ákvörðun um útgáfu lokaúttektarvottorðsins felld úr gildi. Byggði niðurstaðan á því að annmarkar hefðu verið á frágangi Tangabryggju 13–15 þegar lokaúttekt fór fram, en vottorð hefði þó verið gefið út án athugasemda í andstöðu við fyrirmæli 36. gr. laga um mannvirki.

Hinn 18. júlí 2024 gaf byggingarfulltrúi út að nýju vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13–15. Í vottorðinu er því lýst að skoðun á mannvirki hafi farið fram 5. júní 2019, 21. október 2020 og 21. apríl 2023. Þá kemur fram að byggingarstjóri hafi með framlagningu ljósmynda staðfest að úrbótum væri lokið í tilefni af athugasemdum húsfélags fjöleignarhússins, þ.e. kæranda þessa máls, um að handlista vanti á vegg við gangbraut skábrautar fyrir framan bílgeymslu og að skábraut vanti í stað þreps á gönguleið á lóð. Lokaúttektin er síðan staðfest með athugasemd um loftræsingu íbúða.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að fjölbýlishúsið að Tangabryggja 13–15 uppfylli ekki enn kröfur byggingarreglugerðar nr. 112/2012, enda hafi takmarkaðar úrbætur verið gerðar eftir að þrjár lokaúttektir hafi verið felldar úr gildi. Hinn 18. júní 2024 hafi byggingarfulltrúanum í Reykjavík verið send áskorun um að meta frágang fjölbýlishússins m.t.t. ákvæða byggingarreglugerðar og fylgja skoðunarhandbók og skoðunarlistum við framkvæmd úttektar.

Skilyrði byggingarreglugerðar um aðgengi fyrir alla séu með ýmsum hætti ekki uppfyllt. Fjögur bílastæði fyrir hreyfihamlaða sem staðsett séu í bílgeymslu séu þinglýst eign og tilheyri af þeim sökum fjórum íbúðum. Aðgengi frá þeim stæðum að íbúðum sé um fimm eldvarnardyr sem ekki hafi sjálfvirkan opnunarbúnað og því ekki á færi einstaklinga í hjólastól að fara þar um, sbr. gr. 6.4.2. í byggingarreglugerð. Þá sé aðkeyrslurampur að bílgeymslu ekki hannaður fyrir hreyfihamlaða. Eigendur fjögurra íbúða í fjölbýlishúsinu séu handhafar bílastæðamerkis fyrir hreyfihamlaða, en enginn þeirra eigi eitt af þeim fjórum bílastæðum fyrir hreyfihamlaða sem eru í bílgeymslu. Þeir þurfi því að deila þessu eina stæði á lóð fjölbýlishússins, en skv. töflu 6.01. í gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð eigi fjölbýlishúsið að hafa að lágmarki fjögur stæði fyrir hreyfihamlaða íbúa og gesti.

Flóttaleiðir í kjallara séu ekki færar hreyfihömluðum og uppfylli ekki skilyrði gr. 9.5.3. og 9.5.4. í byggingarreglugerð. Það að ekki séu fullnægjandi flóttaleiðir fyrir íbúa og gesti sem noti hjólastól ógni öryggi þeirra, en skortur á snúningsrými á báðum merktu flóttaleiðum bílgeymslu sé augljóst merki um þau mistök sem hafi átt sér stað við hönnun og byggingu fjölbýlishússins. Það hafi verið óskiljanleg niðurstaða hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 63/2023 að skortur á snúningsrými geri hjólastólanotendum ekki ókleift að nýta neyðarútganga úr bílgeymslu þegar forsenda þess að flýja eld og reyk sé einmitt sú að hægt sé að loka brunahurð á eftir sér. Það feli í sér brot á gr. 9.5.1. byggingarreglugerðar. Í vagna- og hjólageymslu Tangabryggju 15 séu aðeins tvö björgunarop sem þurfi að fara upp neyðarstiga til að komast út um. Ekki séu merktar flóttaleiðir úr hjólageymslunni í annað brunahólf. Af lyftugangi í kjallara Tangabryggju 15 sé ein flóttaleið merkt og leiði hún í stigahús en aðstæður séu með þeim hætti að hreyfihamlaðir geti ekki lokað hurð á eftir sér. Í öryggisúttekt frá 25. febrúar 2019 hafi úttektarfulltrúi Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. gert athugasemd við flóttaleiðir í hjólageymslunni og merkt þær sem „ógreiðfærar/flóknar“. Byggingaraðili hafi svarað því að því er virðist með mynd af björgunaropi og látið þar við sitja.

Í niðurstöðukafla úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 63/2023 hafi verið tilgreint að fækka megi flóttaleiðum úr tveimur í eina að fenginni jákvæðri umsögn slökkviliðs. Slík umsögn liggi á hinn bóginn ekki fyrir. Mikilvægt sé að úrskurðarnefndin fái álit sérfróðra á tilhögun flóttaleiða í fjölbýlinu, enda ólíklegt að sérfræðiþekking á brunahönnun sé til staðar innan nefndarinnar að teknu tilliti til niðurstöðu fyrra kærumáls.

Samkvæmt áðurnefndum úrskurði nefndarinnar sé fyrirkomulag loftræsingar úr eldhúsum íbúða ekki í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Þrátt fyrir það hafi byggingarfulltrúi ekki krafið byggingaraðila um úrbætur. Í athugasemd um þetta atriði á hinu kærða lokaúttektarvottorði sé vísað til texta í byggingarlýsingu hvað loftræsingu varði. Með því fari byggingarfulltrúi enn gegn niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar sem sé æðra stjórnvald. Sama gildi um loftun í svefnherbergjum. Þá sé ófullnægjandi loftræsing á baðherbergjum og á stigapalli. Það leiði til þess að í vindasömu veðri myndist undirþrýstingur á gangi sem sogi hurðir íbúða fastar þannig að börn og hreyfihamlaðir geti illmögulega opnað þær. Sé mikilvægt að úrskurðarnefndin fái sérfræðiálit um þetta atriði eins og gert hafi verið um loftræsingu íbúða.

Bílgeymslan sé óeinangruð og í henni sé útbreiddur leki um sprungur og kverkar. Borið hafi á myglu og molnað hafi úr holplötum. Takmarkaðar aðgerðir af hálfu byggingaraðila hafi átt sér stað. Frágangurinn sé í ósamræmi við 3. mgr. gr. 6.11.5. og 1. mgr. gr. 8.2.1. í byggingarreglugerð. Útidyr beggja stigaganga fjölbýlishússins, bæði anddyri og bakdyr, standist ekki veðurálag, en það fyrirkomulag sé í ósamræmi við gr. 6.3.1. og 6.3.2. byggingarreglugerðar. Þá hafi músagangur á svölum íbúða verið viðvarandi frá því að fyrstu íbúar hafi flutt inn árið 2019 og hafi byggingaraðila ekki enn tekist að binda enda á það. Brjóti það fyrirkomulag í bága við gr. 10.1.1. og 10.7.1. í byggingarreglugerð. Það sé með ólíkindum að í nýlegu fjölbýli sé hægt að kenna aldri byggingar um framangreinda þætti eins og úrskurðarnefndin hafi gert í úrskurði í máli nr. 63/2023

Það sé augljóst að fjölbýlishúsið að Tangabryggju 13–15 hafi ekki verið tekið út samkvæmt ákvæðum skoðunarhandbókar og skoðunarlista, sbr. gr. 3.5.1. byggingarreglugerðar. Þrátt fyrir að fimm ár séu liðin frá því að fyrstu íbúar hafi flutt inn og lokaúttekt verið gerð sé byggingarfulltrúa skylt að endurtaka lokaúttektina að fullu, enda hafi vottorðið verið fellt úr gildi í heild sinni og ekki sé hægt að byggja nýja úttekt á eldri úttekt sem hafi verið ómerkt. Augljóst sé að lokaúttektin hafi ekki verið framkvæmd í heild þar sem enginn hafi verið viðstaddur hana eins og fyrri lokaúttektir og aðeins hafi verið stuðst við ljósmyndir. Þegar skylt sé að framkvæma nýja lokaúttekt beri að skoða bygginguna í því ástandi sem hún sé á þeim tíma. Bent sé á að byggingarreglugerðinni sé ætlað að tryggja lágmarkskröfur sem gera eigi til bygginga á Íslandi. Einnig sé ljóst að ekki sé hægt að gefa út lokaúttektarvottorð þegar ekki séu uppfyllt skilyrði reglugerðarinnar varðandi aðgengi, hollustuhætti og öryggismál, sbr. gr. 3.9.4.

Með því að gefa út hið kærða lokaúttektarvottorð og krefja byggingaraðila ekki um úrbætur á húsnæðinu virði byggingarfulltrúi úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 63/2023 að vettugi. Fram hafi komið í úrskurðinum að þeir annmarkar sem til staðar voru hefðu átt að leiða til synjunar úttektar og kröfu um endurtekningu hennar, sbr. gr. 5.3. í II. í viðauka við byggingarreglugerð. Í skoðunarlista Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar vegna lokaúttektar komi fram í þætti 43 að ef loftræsing sé ekki til staðar í lokuðu rými, leiði það til athugasemdar um frávik í flokki 3, þ.e. synjun úttektar og kröfu um endurtekningu.

Málflutningur Reykjavíkurborgar og byggingaraðila hafi verið á þá leið að fjölbýlið sé byggt á sama hátt og önnur fjölbýli í borginni og því sé úrbóta ekki þörf. Það að önnur fjölbýli uppfylli heldur ekki ákvæði byggingarreglugerðar geti ekki leitt til þess að lokaúttekt Tangabryggja 13–15 fái sömu meðferð, ellegar myndu lög og reglugerðir missa mark sitt.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er tekið fram að kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn þeirra atriða sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi þegar tekið afstöðu til. Varðandi þann hluta sem snúi að loftræsingu íbúða fjölbýlishússins að Tangabryggju 13–15 þá sé það mat byggingarfulltrúa að fyrirkomulag þess stangist ekki á við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Hvað það varði sé vísað til umsagnar borgarinnar í máli nr. 63/2023. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar í fyrrnefndu máli bendi til þess að lokaúttektarvottorðið hafi verið fellt úr gildi að hluta enda hafi einungis tilteknir annmarkar verið látnir leiða til ógildingar þess.

Bætt hafi verið úr þeim þáttum sem varði aðgengi og hafi það verið staðfest með framlagningu ljósmynda. Bent sé á að samkvæmt byggingarreglugerð sé lokaúttekt framkvæmd með sjónskoðun og því verði að teljast fullnægjandi skoðun að meta ljósmyndir frá byggingarstjóra sem staðfesti úrbætur, enda hefði niðurstaðan orðið sú sama og ef byggingarfulltrúi hefði mætt á staðinn.

Í gr. 3.9.4. byggingarreglugerðar segi að ef mannvirki uppfylli ekki öryggis- eða hollustukröfur geti leyfisveitandi synjað um útgáfu vottorðs um lokaúttekt, fyrirskipað lokun mannvirkis og lagt fyrir eiganda þess að bæta úr. Skuli þá lokaúttektarvottorð ekki gefið út fyrr en úrbætur hafi verið framkvæmdar. Af lestri ákvæðisins verði ekki annað ráðið en að byggingarfulltrúa sé veitt heimild til að beita ákveðnum úrræðum ef mannvirki uppfylli ekki öryggis- eða hollustukröfur, en ekkert bendi til þess að honum sé óheimilt að gefa út vottorð um lokaúttekt ef annmarkar teljast vera á þessum kröfum. Hins vegar segir svo í lokin að þáttum sem varði aðgengi skuli ávallt vera lokið við gerð lokaúttektar. Það orðalag bendi aftur á móti til þess að ekki sé um heimild að ræða.

 Athugasemdir byggingaraðila: Af hálfu byggingaraðila er bent á að upphaflega hafi lokaúttektarvottorð verið gefið út fyrir fimm árum. Húseigendur beri alla ábyrgð á því að lokaúttektir hafi verið felldar úr gildi í millitíðinni og hafi byggingaraðili reynt að koma til móts við kröfur húseigenda eftir fremsta megni. Fari svo að fjármálastofnanir gjaldfelli lánasamninga íbúðareigenda sökum þess að lokaúttekt sé ekki í gildi geti byggingaraðili ekki á nokkurn hátt orðið ábyrgur fyrir því tjóni sem eigendurnir kunni að verða fyrir. Þannig telji byggingaraðili sig ekki beinan hagsmunaaðila að kærumáli þessu en vilji samt sem áður koma á framfæri nokkrum grundvallarsjónarmiðum.

Kæran innihaldi að miklu leyti endurtekið efni sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi þegar fjallað um. Annað hvort eigi úrskurðarnefndin að vísa þeim atriðum frá eða þá að líta svo á að hún sé bundin af fyrri niðurstöðum um þau úrlausnaratriði. Í úrskurði í máli nr. 63/2023 hafi nefndin tekið fram þrjú atriði sem þarfnist frekari skoðunar. Það séu þrep á upphitaðri gönguleið að inngangi, handrið að gangbraut skábraut sem liggi frá bílgeymslu hússins og útsog úr íbúðum. Þrep á upphitaðri gönguleið hafi nú verið fjarlægt og handrið verið sett upp að gangbraut skábrautar. Eftir standi þá eitt atriði, útsog úr íbúðum. Hvað sem líði túlkun aðila á byggingarreglugerð nr. 112/2012 hvað það varði, liggi fyrir að byggingarfulltrúi hafi gert athugasemd vegna þess við útgáfu hins kærða lokaúttektarvottorðs eins og honum sé heimilt skv. 1. málslið 4. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Útsogið varði hvorki aðgengi né öryggis- eða hollustukröfur og hafi engin gögn verið lögð fram sem sýni fram á það. Einungis virðist byggt á því að matarlykt og undirþrýstingur sé meiri en kærandi vilji meina að sé eðlilegt. Af þessum sökum sé ekkert sem geti komið í veg fyrir að lokaúttektin haldi gildi sínu. Þá sé minnt á, eins og komið hafi fram í fyrri kærumálum, að útsog byggingarinnar sé í samræmi við teikningar og með sambærilegum hætti og í fjölmörgum öðrum fjölbýlishúsum sem byggð séu á sama tíma af öðrum byggingaraðilum í Reykjavík. Ástæða þess sé sú að fyrirkomulagið samræmist almennri og hefðbundinni túlkun byggingarreglugerðarinnar.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi hafnar því að það sé á ábyrgð eigenda íbúða fjölbýlishússins að Tangabryggju 13–15 að ekki hafi verið gefið út gilt vottorð um lokaúttekt, en ábyrgðin sé augljóslega hjá þeim sem hanni og byggi mannvirki sem eigi að vera í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 svo og hjá þeim sem hafi eftirlit með byggingu hússins og taki það út. Byggingarfulltrúa og byggingaraðila hafi verið gefin fjölmörg tækifæri til að bæta úr annmörkum byggingarinnar, enda hafi ábendingum verið komið á framfæri áður en fyrsta lokaúttektarvottorð fjölbýlishússins hafi verið gefið út 21. júní 2019.

Hvað varði tilvísun til þess að útsog frá íbúðum fjölbýlishússins sé í samræmi við önnur fjölbýli sem byggð hafi verið á síðustu árum í Reykjavík sé bent á að hefð geti ekki breytt ákvæðum byggingarreglugerðarinnar. Reglugerðin hafi þann tilgang að kaupendur fasteigna og íbúar þeirra geti gengið að þáttum er varði aðgengi og öryggis- og hollustuhætti vísum. Það sé ólíðandi að byggingarfulltrúi skuli skapa hefð fyrir undanþágum og skipuleggja lokaúttektir sínar þannig að illmögulegt sé að krefjast úrbóta, enda séu skoðunarlistar Reykjavíkurborgar með öðrum hætti en skoðunarlistar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Það sé ekki í samræmi við gr. 5.1. í II viðauka við byggingarreglugerð þar sem segi að við framkvæmd lokaúttektar skuli styðjast við skoðunarlista stofnunarinnar.

Niðurstaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 63/2023 sé skýr um það að lokaúttektarvottorðið hafi verið fellt úr gildi og felist í því krafa um að úttektin verði endurtekin. Hvergi komi fram að nægilegt sé að fá sendar myndir og yfirfara þær til að gefa út nýtt vottorð um lokaúttekt.

—–

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. júlí 2024 að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13–15.

Meðal markmiða laga nr. 160/2010 um mannvirki er að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi með því að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi mannvirkja og heilnæmi sé fullnægt, sbr. a-lið 1. gr. laganna. Jafnframt er það markmið þeirra að tryggja aðgengi fyrir alla, sbr. e-lið sömu lagagreinar. Í því skyni mæla lögin fyrir um lögbundið eftirlit byggingarfulltrúa með mannvirkjagerð, sbr. 2. og 3. mgr. 16. gr. þeirra laga, en hluti af því eftirliti felur í sér framkvæmd lokaúttektar og útgáfu vottorðs. Samkvæmt 3. mgr. 36. gr. laganna skal við lokaúttekt gera úttekt á því hvort mannvirkið uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið samkvæmt þeim og hvort byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Þá er mælt fyrir um í 4. mgr. lagagreinarinnar að ef mannvirkið uppfylli ekki að öllu leyti ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafi verið samkvæmt þeim þá geti útgefandi byggingarleyfis gefið út vottorð um lokaúttektina með athugasemdum. Þáttum sem varði aðgengi skuli þó ávallt hafa verið lokið við gerð lokaúttektar. Segir jafnframt í 5. mgr. sömu lagagreinar að eftirlitsaðili geti fyrirskipað lokun mannvirkis komi í ljós við lokaúttekt að mannvirki uppfylli ekki öryggis- eða hollustukröfur og lagt fyrir eiganda þess að bæta úr, en lokaúttektarvottorð skuli þá ekki gefið út fyrr en það hafi verið gert.

Ágreiningsefni málsins hefur áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar eins og rakið er í málavöxtum. Í máli þessu færir kærandi fram ýmis rök og sjónarmið sem hann hefur áður fært fram fyrir úrskurðarnefndinni vegna atriða sem hann telur að uppfylli ekki skilyrði byggingarreglugerðar nr. 112/2012, s.s. um bílastæði í bílgeymslu, flóttaleiðir, loftræsingu á stigagangi, rakaskemmdir og ytra form. Úrskurðarnefndin hefur í fyrri málum tekið þá afstöðu til þeirra álitaefna að þau raski ekki gildi umdeilds úttektarvottorðs og þykja ekki rök til þess að breyta þeirri afstöðu.

Í kærumáli nr. 63/2023 komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að nokkrir annmarkar hefðu verið á frágangi fjölbýlishússins að Tangabryggju 13–15 við lokaúttekt þess, en þrátt fyrir það hefði vottorð um úttekt verið gefið út án athugasemda. Benti nefndin á að umræddir annmarkar vörðuðu aðgengi og öryggis- eða hollustukröfur, sbr. 4. og 5. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010, og að slíkir annmarkar leiddu að jafnaði til synjunar úttektar og kröfu um að hún yrði endurtekin með vísan til gr. 5.3. í viðauka II með byggingarreglugerð.

Þeir annmarkar sem um ræddi sneru sem fyrr segir m.a. að þáttum sem varða aðgengi, en í málinu lá fyrir að frá inngangsdyrum fjölbýlishússins að sorpgeymslu, bílgeymslu og bílastæðum var að finna þrep á upphitaðri gönguleið. Taldi nefndin það fyrirkomulag ekki vera í samræmi við gr. 6.2.2. í byggingarreglugerð. Jafnframt lá fyrir að ekki var að finna handrið meðfram gangbraut skábrautar í samræmi við kröfur gr. 6.5.1. í byggingarreglugerð. Í kjölfar úrskurðarins fjarlægði byggingaraðili áðurnefnt þrep og kom fyrir handriði á gangbrautinni og hefur því verið bætt úr greindum annmörkum.

Jafnframt var það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar í fyrrgreindu máli að fyrirkomulag loftræsingar í íbúðum fjölbýlishússins, þ.e. hvað varðar útsog frá eldhúsum íbúða og magn fersklofts sem berst til svefnherbergja, væri ekki í samræmi við kröfur byggingarreglugerðar þar að lútandi. Byggði sú niðurstaða á áliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem nefndin aflaði og lagði til grundvallar úrlausn sinni. Fyrir liggur í máli þessu að engar úrbætur hafa verið gerðar af hálfu byggingaraðila hvað það varðar. Aftur á móti gaf byggingarfulltrúi út hið kærða lokaúttektarvottorð með eftirfarandi athugasemd:

Í uppfærðum texta byggingarlýsingar á samþykktum aðaluppdráttum erindis BN061380 kemur fram að loftræsing íbúða skuli vera blanda af náttúrulegri og [vélrænni] loftræsingu. Þann 29. apríl 2016 tók í gildi reglugerð nr. 360/2016 þar sem gerðar eru breytingar á gr. 10.2.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í gr. 22 í reglugerð nr. 360/2016 um loftræsingu íbúða og tengdra rýma kemur fram að útsog skuli vera úr eldhúsi og að ekki megi draga loft í gegnum önnur rými hússins. Í greinargerð loftræsihönnuðar hússins sem dagsett er 24. júní 2020 kemur fram að útfærsla loftræsingar í eldhúsum uppfylli kröfur gr. 22 og sé útfærslan ekki frábrugðin loftræsingu í öðrum sambærilegum íbúðarhúsum sem hönnuð voru og byggð á svipuðum tíma og standist kröfur byggingarreglugerðar um hollustu.

Bent skal á að í húsinu er ekki um lokuð eldhúsrými að ræða heldur eru eldhúsin opin og ekki sérstaklega afmörkuð í alrýmum. Kolafilter er í viftu yfir eldavél sem tekur matarlykt og fitu og filterað loft í alrými er dregið út um loftútsog á baðherbergi. Ferskloft er dregið inn um opnanleg fög í gluggum og um ferskloftsventla í útveggjum en þeir eru með filter og hljóðgildru.

Sem fyrr greinir er gert ráð fyrir því í 4. mgr. 36. gr. laga um mannvirki að byggingarfulltrúi geti gefið út vottorð með athugasemdum ef mannvirkið er „ekki fullgert við lokaúttekt, ef það uppfyllir ekki að öllu leyti ákvæði laga þessara eða reglugerða sem settar hafa verið samkvæmt þeim eða er ekki að öllu leyti í samræmi við samþykkt hönnunargögn“. Með því er skýrlega gert ráð fyrir að athugasemdir lúti að þeim þáttum sem uppfylla ekki kröfur byggingarreglugerðar eða eru ekki í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Framangreind athugasemd byggingarfulltrúa í hinu kærða lokaúttektarvottorði er þó ekki af þeim toga. Er hún fremur árétting á þeirri afstöðu byggingarfulltrúa, sem úrskurðarnefndin féllst ekki á í máli nr. 63/2023, að fyrirkomulag loftræsingar íbúðanna sé í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar, en eðli málsins samkvæmt er ekki þörf á slíkum athugasemdum. Af þeim sökum skal bent á að úrskurður nefndarinnar er fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, og hefur honum ekki verið hnekkt. Er hann af þeim sökum bindandi fyrir aðila málsins og byggingarfulltrúa, en ekki liggur fyrir að forsendur að þessu leyti hafi breyst frá uppkvaðningu úrskurðarins. Að teknu tilliti til framangreinds verður að líta svo á að byggingarfulltrúa hafi ekki verið stætt á að gefa út vottorðið með þeirri athugasemd sem gerð hefur verið grein fyrir. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki hjá því komist að fella hið kærða lokaúttektarvottorð úr gildi.

Úrskurðarnefndin telur tilefni til að koma þeirri ábendingu á framfæri að þegar lokaúttekt fer fram og fyrir liggur að mannvirki uppfyllir ekki að öllu leyti kröfur byggingarreglugerðar ber byggingarfulltrúa að fylgja fyrirmælum hennar um framkvæmd lokaúttektar, sbr. kafla 3.9. reglugerðarinnar og kafla 5 í II. viðauka. Er honum skylt að skrá athugasemd um frávikið og flokka það með viðeigandi hætti, sbr. gr. 5.3. í II. viðauka. Sé um að ræða athugasemd um frávik í flokki 2 eða 3 er honum óheimilt að gefa út vottorð nema skoðunar­skýrsla hafi borist sem staðfestir að lagfæringar hafi verið gerðar. Sé aftur á móti um að ræða athugasemd um frávik í flokki 1 getur hann gefið út vottorðið með athugasemd. Er þannig gert ráð fyrir að ekki einungis sé frávikið skráð heldur fari jafnframt fram mat um vægi þess og réttaráhrif.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. júlí 2024 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13–15.