Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

87/2005 Ólafsgeisli

Ár 2007, miðvikudaginn 22. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 87/2005, kæra eigenda fasteignarinnar að Ólafsgeisla 67 á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkur frá 11. október 2005 þess efnis að synja umsókn kærenda um að breyta lagnarými í kjallara og setja þrjá glugga á vesturhlið þess.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. nóvember 2005, er barst nefndinni sama dag, kæra V og Þ eigendur að fasteigninni Ólafsgeisla 67, Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. október 2005 að synja umsókn þeirra um að setja þrjá glugga á vesturhlið lagnarýmis í húsinu að Ólafsgeisla 67 og breyta því rými í kjallara.  Framangreind ákvörðun var staðfest á fundi borgarráðs hinn 13. október 2005. 

Er þess krafist að framangreind synjun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Fasteignin að Ólafsgeisla 67 er íbúðarhús á tveimur hæðum auk lagnarýmis.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 27. september 2005 var tekin fyrir áður greind umsókn kærenda.  Var málinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa.  Á fundi hans hinn 7. október 2005, sem og á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 11. október 2005, var umsókn kærenda synjað á þeirri forsendu að hún samræmdist ekki deiliskipulagi.  

Málsrök kærenda:  Kærendur taka fram að þeir hafi staðið í þeirri trú við kaup sín á fasteigninni að fyrri eigandi hennar hefði leyfi fyrir ófylltu lagnarými sem mögulegt væri að nýta.  Óeðlilegt teljist að slík nýting sé ekki möguleg þar sem rýmið sé nú þegar til staðar undir húsinu.  Bent sé á að gluggar muni ekki sjást frá götu en landið liggi lægra en sýnt sé á upprunalegum teikningum og lítið jarðrask verði vegna þessa. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgarinnar er þess krafist að hin kærða ákvörðun standi óröskuð.

Reykjavíkurborg telji sig ekki bera ábyrgð á því hvaða skilning kærendur hafi haft á nýtingarmöguleikum hússins við kaup þeirra á fasteigninni.  Vísi borgin til skilmála fyrir húsagerð I, er eigi við 26 einbýlishús við Ólafsgeisla nr. 25-75 og 89-97, en þar segi meðal annars að um sé að ræða tveggja hæða einbýlishús með innbyggðri bílageymslu.  Ekki sé getið um kjallara undir húsum en samþykktir hafi verið lagnakjallarar undir húsi vegna jarðvegsdýptar.  Hámarksstærð húsanna sé samkvæmt skilmálum 210 fermetrar að meðtöldum innbyggðum bílgeymslum, en verði 323,9 fermetrar verði breytingar heimilaðar og því langt yfir því hámark sem leyft sé samkvæmt þeim. 

Samkvæmt fyrrgreindum skilmálum skuli vanda til allrar hönnunar og frágangs bygginga og lóða og þess gætt að hvort tveggja falli sem best að landi.  Kappkosta skuli að halda góðu heildaryfirbragði allra húsa hverrar húsagötu.  Verði kjallaragluggi settur á húsið muni það virka hærra í umhverfinu miðað við önnur hús og breyta götumyndinni verulega sem sé ekki í samræmi við skipulagsskilmála svæðisins. 

Niðurstaða:  Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir Grafarholt frá árinu 2000.  Samkvæmt sérákvæði í skilmálum um einbýlishús við Ólafsgeisla 25-75 og 89-97 skulu hús á umræddu svæði vera tveggja hæða einbýlishús með innbyggðri bílgeymslu.  Hámarksstærð húsanna er samkvæmt sérákvæðinu 210 fermetrar að meðtöldum innbyggðum bílgeymslum. 

Deiliskipulag sem tekið hefur gildi er bindandi fyrir stjórnvöld og borgara, sbr. 2. mgr. greinar 6.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Er þar kveðið á um hvaða heimildir eru fyrir hendi til nýtingar einstakra lóða og fyrirkomulags bygginga og verða borgarar að geta treyst því að festa sé í framkvæmd byggingarmála og að mannvirki séu reist í samræmi við gildandi skipulag.

Af gögnum málsins verður ráðið að sú breyting á húsi kærenda að Ólafsgeisla 67 að  setja glugga á lagnarými og nýta það sem kjallara verði til þess að heildarstærð hússins verði 323,9 fermetrar.  Felur hin umsótta breyting því í sér verulegt frávik frá ákvæði gildandi skipulags hverfisins um hámarksstærð húsa og væri samþykkt  hennar í andstöðu við 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda í máli þessu hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á synjun byggingarfulltrúa Reykjavíkur frá 11. október 2005 á umsókn þeirra um leyfi til að breyta lagnarými í kjallara og setja þrjá glugga á vesturhlið þess.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________                  _____________________________
Ásgeir Magnússon                                    Þorsteinn Þorsteinsson