Árið 2020, mánudaginn 6. apríl, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 86/2019, kæra á ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 22. ágúst 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vatnsenda – Þings vegna lóðarinnar Gulaþings 21.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. september 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Gulaþings 62, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 22. ágúst 2019 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vatnsenda – Þings vegna lóðarinnar Gulaþings 21. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 9. október 2019.
Málavextir: Á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 15. júlí 2019 var tekin fyrir tillaga að breytingu á deiliskipulagi Vatnsenda – Þings vegna lóðarinnar Gulaþings 21. Í breytingunni fólst annars vegar að vegghæð suðausturhliðar húss lóðarinnar myndi hækka úr 6,3 m í 7,5 m og hins vegar að vegghæð norðvesturhliðar hússins myndi hækka úr 6,3 m í 7,0 m. Samþykkti nefndin að grenndarkynna tillöguna með vísan til 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var tillagan grenndarkynnt með bréfi, dags. 17. s.m., og kostur gefinn á að koma að athugasemdum til 14. ágúst s.á. Á kynningartíma tillögunnar bárust athugasemdir frá kæranda. Deiliskipulagstillagan var lögð fram að nýju á fundi skipulagsráðs 19. s.m. ásamt umsögn skipulags- og byggingardeildar sveitarfélagsins um athugasemdir kæranda. Samþykkti skipulagsráð deiliskipulagsbreytinguna og var sú afgreiðsla staðfest í bæjarráði 22. ágúst 2019. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 12. september s.á.
Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að umdeild breyting feli í sér umtalsverða hækkun hússins á lóðinni Gulaþingi 21, sem muni hafa áhrif á skuggamyndun á lóð kæranda. Teikningar sem fylgt hafi umsögn deiliskipulagstillögunnar hafi verið mjög óskýrar. Þannig liggi ekkert fyrir um áhrif skuggamyndunar frá júlí til september eða október. Í umsögninni segi að ekki sé hægt að sjá að skuggavarp muni hafa meiri áhrif gagnvart lóð kæranda en núverandi skipulag heimili. Þó sé ljóst að umrædd skipulagsbreyting muni hafa áhrif á útsýni frá húsi sem byggt verði á lóðinni. Skilyrði til breytingar á deiliskipulagi í þá veru sem hér um ræði séu ekki fyrir hendi þar sem ekki sé um svo óveruleg frávik að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp og innsýn, sbr. 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sú fullyrðing í athugasemdum með deiliskipulagstillögunni sé með öllu ósönnuð og enginn rökstuðningur sé fyrir hendi til að fallast á breytingartillöguna.
Kæranda hafi ekki verið kynnt hvaða rök séu fyrir því að fallast á tillögu lóðarahafa Gulaþings 21 um breytingu á deiliskipulagi. Í íslenskum rétti sé viðurkennt að deiliskipulag sé bindandi bæði fyrir lóðarhafa og sveitarfélög og treysta megi því að deiliskipulagi verði ekki breytt nema til komi almannahagsmunir. Þá taki fræðimenn sérstaklega fram að gjalda skuli varhug við óskum einstakra lóðarhafa um breytingar. Lóðarhafi Gulaþings 21 hafi ekki mátt gera ráð fyrir því að honum yrði heimilað að hækka hús sitt jafnmikið og fyrirliggjandi breyting heimili. Einnig hafi kærandi mátt geta treyst því að deiliskipulag stæði áfram óbreytt eins og það hefði verið samþykkt. Ekkert réttlæti að sveitarfélög hlaupi á eftir óskum einstakra lóðarhafa um breytingar gegn hagsmunum annarra lóðarhafa án þess að brýna nauðsyn beri til.
Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að hin kærða deiliskipulagsbreyting teljist óveruleg breyting á deiliskipulagi, eins og hún hafi verið grenndarkynnt lögum samkvæmt, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá hafi á málsmeðferðartíma verið óskað eftir skuggavarpsteikningum, sem sýnt hafi að litlar breytingar myndu verða á skuggavarpi við breytinguna. Hvað varði tilgang deiliskipulags sé það svo að þrátt fyrir að deiliskipulag eigi að gefa ákveðna sýn á skipulag tiltekins svæðis sé ekki hægt að gera ráð fyrir því að skipulag haldist óbreytt um ókomna tíð. Skipulagsvaldið sé í höndum bæjarstjórnar innan marka sveitarfélagsins, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga, og hafi hún talsvert svigrúm við þróun byggðar og umhverfis þess. Þá hafi málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar verið í fullu samræmi við gildandi lög og reglur.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Vatnsenda – Þings vegna lóðarinnar Gulaþings 21, sem felur í sér heimild til að hækka vegghæðir á suðaustur- og norðvesturhlið húss þess sem mun vera í byggingu á lóðinni, úr 6,3 m í 7,5 m annars vegar og úr 6,3 m í 7,0 m hins vegar. Lóð kæranda stendur öndvert handan götu til austurs í um 25 m fjarlægð frá umræddu húsi.
Sveitarstjórn fer með skipulagsvald innan marka sveitarfélags, eins og fram kemur í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og ber ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. laganna. Í skipulagsvaldinu felst víðtæk heimild til breytinga á þegar gerðum deiliskipulagsáætlunum, sbr. 1. mgr. 43. gr. sömu laga. Almennt ber að haga málsmeðferð deiliskipulagsbreytinga þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn.
Hin kærða deiliskipulagsbreyting var grenndarkynnt í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Var því ekki um það að ræða að beitt hefði verið ákvæði 3. mgr. 43. gr. eins og kærandi heldur fram. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. á að taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Breytingin snýr aðeins að einni lóð þar sem heimiluð er hækkun húss á lóðinni um 0,7-1,2 m. Hvorki er um það að ræða að nýtingarhlutfall eða notkun lóðarinnar breytist né að vikið sé að marki frá útliti eða formi byggðarinnar samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Var því heimilt að grenndarkynna deiliskipulagstillöguna í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Hún var svo afgreidd í skipulagsráði, þar sem framkomnum athugasemdum kæranda var svarað í samræmi við 3. mgr. 41. gr. laganna. Að lokum var breytingin samþykkt í bæjarráði Kópavogs lögum samkvæmt. Verður því ekki annað séð en að málsmeðferð tillögunnar hafi að formi til verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.
Með hinni kærðu breytingu eykst vegghæð hússins á lóðinni Gulaþingi 21 á suðaustur- og norðvesturhlið, eins og að framan er rakið, en lóð kæranda er samkvæmt núgildandi skipulagi í um 25 m fjarlægð frá því húsi. Af skýringarmyndum deiliskipulagstillögunnar og gögnum um skuggavarp verður ekki ráðið að breytingin raski grenndarhagsmunum kæranda að nokkru marki umfram það sem vænta mátti að óbreyttu skipulagi, svo sem vegna skerðingar á útsýni, breytingar á skuggavarpi eða með öðrum hætti. Verður með hliðsjón af því ekki talið að umfang breytingarinnar sé slíkt að raski lögvörðum hagsmunum kæranda raskist á þann hátt að leitt geti til ógildingar ákvörðunarinnar.
Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarráðs Kópavogs frá 22. ágúst 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vatnsenda – Þings vegna lóðarinnar Gulaþings 21.