Ár 2009, föstudaginn 18. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Sigurður Erlingsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 85/2009, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 10. desember 2009 á tillögu byggingarfulltrúa um að samkomutjald, sem sett hafi verið upp í óleyfi á lóð Hressingarskálans að Austurstræti 20, verði fjarlægt á kostnað eiganda, fjarlægi hann það ekki sjálfur innan tilskilins frests.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. desember 2009, er barst nefndinni samdægurs, kærir Björgvin Halldór Björnsson hdl., f.h. E, fyrirsvarsmanns Hressingarskálans ehf., þá samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 10. desember 2009 að samkomutjald sem sett hafi verið upp í óleyfi á lóðinni að Austurstræti 20 í Reykjavík verði fjarlægt á kostnað eiganda hafi hann ekki fjarlægt það innan tilskilins frests.
Af hálfu kæranda er þess krafist að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um að framkvæmdir verði stöðvaðar en ella að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og eru þær kröfur nú teknar til úrskurðar.
Málsatvik og rök: Kærandi máls þessa reisti, án heimildar skipulags- og byggingaryfirvalda, samkomutjald í bakgarði lóðarinnar að Austurstræti 20, þar sem rekinn er veitingastaður. Af því tilefni ritaði byggingarfulltrúi kæranda bréf, dags. 2. nóvember 2009, þar sem honum var m.a. veittur fimm daga frestur frá móttöku bréfsins til að fjarlægja tjaldið. Kærandi varð ekki við tilmælunum og með bréfi, dags. 27. sama mánaðar mótmælti hann framgöngu borgaryfirvalda með vísan til jafnræðis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins. Sama dag ritaði embætti byggingarfulltrúa kæranda bréf þar sem röksemdum hans var hafnað og m.a. vísað til þess að um óleyfisframkvæmdir væri að ræða. Þá sagði einnig að embættið myndi leggja til við skipulagsráð að frestur yrði veittur til 4. desember 2009 til að fjarlægja tjaldið og yrði ekki orðið við því myndi embættið fjarlægja það án frekari fyrirvara á kostnað kæranda með vísan til ákvæða gr. 209 og gr. 210 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Á fundi skipulagsráðs 2. desember 2009 var eftirfarandi fært til bókar: „Lagt fram bréf byggingarfulltrúa, dags. 2. nóv. 2009, vegna samkomutjalds í bakgarði Hressingarskálans á lóð nr. 20 við Austurstræti. Jafnframt er lagt fram bréf lögfræðinga Hressingarskálans, dags. 27. nóv., bréf lögfræði- og stjórnsýslu, dags. 27. nóv., og tölvubréf, dags. 27. og 30. nóv. 2009. Bréf lögfræði- og stjórnsýslu samþykkt.“ Á fundi borgarráðs 10. desember 2009 var af sama tilefni eftirfarandi bókað: „Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 3. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs frá 2. s.m., þar sem lagt er til að samkomutjald, sem sett hefur verið upp í óleyfi á lóð Hressingarskálans að Austurstræti 20, verði fjarlægt á kostnað eiganda, fjarlægi hann það ekki sjálfur innan tilskilins frests… Samþykkt“
Kæranda var tilkynnt um þessa ákvörðun með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 11. desember 2009, og honum veittur frestur til 14. desember s.á. til þess að fjarlægja margnefnt tjald. Var í því bréfi einnig vísað til bréfs byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 3. desember 2009, en þar sagði að auk þess að framkvæmdin hefði verið gerð í óleyfi væri, að mati forvarnardeildar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, „…umtalsverð hætta fyrir hendi á öryggi gesta veitingastaðarins.“
Skaut kærandi málinu til úrskurðarnefndarinnar 15. desember 2009 svo sem fyrr greinir.
Af hálfu kæranda er m.a. vísað til þess að miklu varði fyrir hann að fá úr því skorið, áður en úrskurðarnefndin kveði upp lokaúrskurð í málinu, hvort borgaryfirvöldum sé stætt á að mæta á starfsstöð hans og taka niður umrætt tjald á hans kostnað. Kærandi hafi mikla hagsmuni af því að hafa tjaldið uppi. Enginn beri skaða af því að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað, enda hafi ástandið varað í nokkurn tíma án þess að vandamál hafi hlotist af. Engar framkvæmdir séu í gangi og því sé fyrirséð að ástandið muni ekki breytast í náinni framtíð. Atvinnufrelsi kæranda sé verndað af 75. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, en skipun um að rífa niður tjald sem sé hluti af starfsemi sé verulega íþyngjandi ákvörðun í garð kæranda og þurfi því að vera vel ígrunduð.
Þá mótmælir kærandi því að slík hætta stafi frá tjaldinu að réttlætt geti þá ákvörðun borgaryfirvalda að láta fjarlægja tjaldið með svo skjótum hætti sem ætlunin sé. Kveður hann sviðsstjóra forvarnarsviðs Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hafa tjáð sér í símtali að ekki væri talið að tjaldið skapaði bráða hætti.
Þá vísi kærandi til þess að samþykkt skipulagsráðs hafi verið staðfest í borgarráði 10. desember 2009. Honum hafi borist bréf 14. s.m., sem sé dagsett 11. desember 2009, þar sem honum hafi verið kynnt ákvörðunin. Í ljósi þess hve skamman tíma kærandi hafi haft til að bregðast við ákvörðuninni sé enn mikilvægara að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað.
Af hálfu Reykjavíkurborgar er mótmælt þeirri kröfu kæranda að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunarinnar verði frestað á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Því til rökstuðnings sé vísað til tölvubréfs sviðstjóra forvarnarsviðs Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins til byggingarfulltrúa, dags. 3. desember 2009, en þar segi eftirfarandi:
„Vegna fyrirspurnar þinnar um afstöðu slökkviliðs til tjalds við Hressingarskálann vil ég greina þér frá eftirfarandi: Þann 22. október sl. fór undirritaður ásamt eldvarnareftirlitsmanni að skoða aðstæður í Austurstræti 20. Umræddu tjaldi var þannig fyrir komið að það liggur alveg upp að vegg á bakhluta Hressingarskálans og u.þ.b. fjóra metra frá vegg þess hluta er liggur að Austurstræti. Við þetta breytast flóttaleiðir frá veitingastaðnum á þann hátt að þar sem áður var farið beint út í garð er nú farið í gegnum tjaldið. Þetta lengir flóttaleið til öruggs staðar undir beru lofti og skerðir öryggi hennar umtalsvert. Þá er leiðin torfarin þar sem frá bakhluta húsnæðisins þarf að fara í gegnum tvöfalda lokun tjalddúks sem haldið er með frönskum rennilásum til að komast út í tjaldið. Einnig liggur flóttaleið úr tjaldinu að stóru tré sem heftir leið og veldur augljósri slysahættu ef hópur fólks þarf að flýja þarna um. Verði eldur laus í húsnæði Hressingarskálans geta flóttamerkingar í tjaldi einnig valdið þeim misskilningi að fólk flýji á öðrum stað aftur inn í húsið sem er að brenna og er það ótækt. Tjaldið sjálft er um 150 fm. að stærð og samkvæmt reiknireglu Brunamálastofnunar má ætla að þar geti verið á þriðja hundrað manns sem er veruleg aukning miðað við samþykktan gestafjölda á staðnum. Þá hefur Brunamálastofnun staðfest að ekki liggi fyrir vottun stofnunarinnar á dúknum. Af þessum sökum er það mat slökkviliðsstjóra að þessar aðstæður geti haft umtalsverð áhrif á öryggi fólks í eldsvoða á staðnum. Þá gerir rekstrarleyfi staðarins ekki ráð fyrir þessu tjaldi og það reist án nokkurra leyfa. Það er því eindregin ósk slökkviliðsstjóra að embætti byggingarfulltrúa hlutist til um að tjaldið verði fjarlægt hið fyrsta.“
Þá hafi lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins haft afskipti af málinu. Það sé því einlægt mat skipulags- og byggingarsviðs að nauðsyn beri að fjarlægja tjaldið án ástæðulauss dráttar.
—————-
Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu sem ekki verða rakin nánar í bráðbirgðaúrskurði þessum, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þessa þáttar málsins.
Niðurstaða: Í máli þessu er gerð krafa um að framkvæmdir borgaryfirvalda við að rífa niður umrætt tjald verið stöðvaðar með vísun til 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 en ella að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað með stoð í 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 73/1997 og eru þær kröfur hér til úrlausnar.
Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga getur kærandi krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Segir í ákvæðinu að komi fram krafa um slíkt skuli úrskurðarnefndin svo fljótt sem verða megi kveða upp úrskurð um það atriði. Úrskurði um stöðvun framkvæmda beri sveitarstjórn að framfylgja þegar í stað, með aðstoð lögreglu ef með þurfi.
Ákvæði þetta verður að skilja svo að það heimili úrskurarnefndinni að stöðva framkvæmdir sem hafnar eru eða yfirvofandi á grundvelli leyfis sem byggingaryfirvöld hafa veit til mannvirkjagerðar og borið hefur verið undir nefndina. Verður ákvæðið ekki talið taka til þess þegar framfylgt er ákvörðunum sveitarstjórnar um beitingu þvingunarúræða svo sem í máli þessu. Verður kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda samkvæmt 8. gr. skipulags- og byggingarlaga því hafnað.
Samkvæmt mgr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er æðra stjórnvaldi heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar þar sem ástæður mæla með því. Við mat á því hvort fallast eigi á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa verður að líta til þess að hvorki er umfangsmikla né óafturtæka framkvæmd að ræða og hefur hún því ekki í för með stórfellda röskun á hagsmunum kæranda.
Af hálfu borgaryfirvalda er upplýst að áformað sé að fjarlægja umrætt tjald í dag, hinn 18. desember. Gefst því ekki ráðrúm til þess að leita umsagnar Brunamálastofnunar um þá hættu sem stafa kann frá margnefndu tjaldi. Verður, í ljósi allra atvika, að telja að mögulegir almannahagmunir, sem borgaryfirvöld vísa til, vegi þyngra en hagsmunir kæranda og verður kröfu hans um frestun réttaráhrifa því hafnað þrátt fyrir að ágallar kunni að vera á gerð og efni hinnar kærðu ákvörðunar, enda er framkvæmd hennar á ábyrgð og áhættu borgayfirvalda meðan ekki er genginn efnisúrskurður í málinu.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda við niðurrif umdeilds tjalds. Jafnframt er hafnað kröfu hans um frestun réttarháhrifa samþykktar borgarráðs Reykjavíkur frá 10. desember 2009 á tillögu byggingarfulltrúa um að samkomutjald, sem sett hafi verið upp í óleyfi á lóð Hressingarskálans að Austurstræti 20, verði fjarlægt á kostnað eiganda, fjarlægi hann það ekki sjálfur innan tilskilins frests.
_____________________________
Hjalti Steinþórsson
______________________________ ______________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir Sigurður Erlingsson