Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

85/2006 Hellisheiði

Ár 2007, föstudaginn 14. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 85/2006, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 30. mars 2006 um að veita Orkuveitu Reykjavíkur bráðabirgðaframkvæmdaleyfi fyrir vegagerð upp á Stóra-Skarðsmýrarfjall og gerð niðurrennslisholu vegna Hellisheiðarvirkjunar.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. október 2006, er barst nefndinni hinn 31. sama mánaðar, kæra Bergur Sigurðsson, f.h. Landverndar, Hróðmar Bjarnason f.h. Eldhesta ehf. og Björn Pálsson leiðsögumaður, þá ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 30. mars 2006 að veita Orkuveitu Reykjavíkur bráðabirgðaframkvæmdaleyfi fyrir vegagerð upp á Stóra-Skarðsmýrarfjall og gerð niðurrennslisholu vegna Hellisheiðarvirkjunar.  

Gera kærendur þá kröfu að hið kærða leyfi verði fellt úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á fundi bæjarstjórnar Ölfuss hinn 30. mars 2006 var tekið fyrir erindi frá Orkuveitu Reykjavíkur og af því tilefni var eftirfarandi fært til bókar:  „Orkuveita Reykjavíkur.  Óskað er eftir því að sveitarfélagið veiti bráðabirgðaframkvæmdaleyfi fyrir eftirfarandi framkvæmdum við Hellisheiðarvirkjun:  1. Vegagerð upp á Stóra-Skarðsmýrarfjall. 2. Gerð niðurrennslisholu, HN05 sem verður um 150 m norðan við niðurrennslisholuna HN-03.  Samþykkt samhljóða.“

Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 9. nóvember 2006, var þeim tilmælum beint til sveitarfélagsins að það stöðvaði framkvæmdir þær er hið kærða leyfi heimilaði og að þeim yrði ekki haldið áfram fyrr en nauðsynlegar breytingar hefðu verið gerðar á aðal- og deiliskipulagi svæðisins.  Með bréfi sveitarfélagins til Skipulagsstofnunar, dags. 14. nóvember 2006, var tilkynnt að orðið yrði við tilmælum stofnunarinnar og að stöðvuninni yrði hagað þannig að fyllsta öryggis yrði gætt.  Verður ráðið af málsgögnum að frágangi hafi verið lokið og framkvæmdum hætt í byrjun desember 2006.

Á fundi bæjarráðs hinn 12. apríl 2007 var eftirfarandi fær til bókar:  „Framkvæmdaleyfi vegna framkvæmda á Hellisheiði.  Tekið fyrir bráðabirgðaframkvæmdaleyfi sem bæjarstjórn Ölfuss veitti Orkuveitu Reykjavíkur þann 30. mars 2006 vegna eftirfarandi framkvæmda:  1. Vegagerð upp á Stóra-Skarðsmýrarfjall.  2. Gerð niðurrennslisholu HN05 sem verður um 150 m norðan við niðurrennslisholuna HN-03.  Eftirfarandi tillaga lögð fram:  Bæjarráð Ölfuss samþykkir að fella úr gildi framkvæmdaleyfi sem bæjarstjórn Ölfuss gaf út 30. mars 2006 vegna framkvæmda Orkuveitu Reykjavíkur á Stóra-Skarðsmýrarfjalli og við gerð niðurrennslisholu, HN05 um 150 m norðan við niðurrennslisholuna HN-03.   Samþykkt samhljóða.“

Af hálfu kæranda, Landverndar, er því haldið fram að samtökin eigi kæruaðild þar sem um sé að ræða framkvæmd sem háð sé mati á umhverfisáhrifum, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þá halda aðrir kærendur því fram að þeir eigi einnig aðild að kæru þessari þar sem hið kærða leyfi komi til með að takmarka atvinnu og starfsemi þeirra sem varin sé af 75. gr. stjórnarskrárinnar.  

Kærendum hafi ekki verið kunnugt um hið kærða leyfi fyrr en tillaga að breyttu aðalskipulagi sveitarfélagsins hafi verið auglýst til kynningar í Sunnlenska fréttablaðinu hinn 5. október 2006 og um hið kærða leyfi fjallað í blaðgrein Blaðsins hinn 20. október 2006.  Af þessum sökum sé kæra þeirra borin undir úrskurðarnefndina innan kærufrests, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Bent sé á að hið kærða leyfi sé ekki í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins og kalli það á breytingar á því sem og deiliskipulagi fyrir virkjun á Hellisheiði.  Þá hafi ekki hafi legið fyrir áætlun um efnistöku, sbr. lög um náttúruvernd nr. 44/1999.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að hið kærða bráðabirgðaframkvæmdaleyfi var afturkallað á fundi bæjarráðs Sveitarfélagins Ölfuss hinn 12. apríl 2007 en áður hafði sveitarfélagið fallist á tilmæli Skipulagsstofnunar um að láta af framkvæmdum þeim sem heimilaðar voru með leyfinu. 

Eiga kærendur af framangreindum sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hins umdeilda leyfis og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson