Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

83/2009 Rafveitueftirlitsgjald

Ár 2009, miðvikudaginn 16. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 83/2009, kæra Landsvirkjunar frá 10. nóvember 2009 á ákvörðun Neytendastofu og Fjársýslu ríkisins um að hafna því að fella niður dráttarvexti vegna meintra vanskila á rafveitueftirlitsgjaldi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. desember 2009, er barst nefndinni 4. sama mánaðar, framsendir fjármálaráðuneytið nefndinni erindi Þórðar Bogasonar hrl., f.h. Landsvirkjunar, dags. 10. nóvember 2009, þar sem kærð er ákvörðun Neytendastofu og Fjársýslu ríkisins um að hafna því að fella niður dráttarvexti vegna meintra vanskila á rafveitueftirlitsgjaldi vegna áranna 2004 og 2005. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Til vara er þess krafist að ákvörðuninni verið vísað á ný til Fjársýslu ríkisins til lögmætrar meðferðar.

Málavextir og rök:  Fjármálaráðuneytið vísar í framangreindu bréfi til úrskurðarnefndarinnar til reglugerðar nr. 678/2009 og bendir á að í 9. gr. hennar sé kveðið á um að bera megi ágreining um gjaldskyldu eða gjaldstofn rafveitueftirlitsgjalds undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.

Málsástæður og lagarök kæranda koma fram í stjórnsýslukæru, dags. 10. nóvember 2009.  Byggir kærandi á því að fyrir liggi staðfesting á því að hann hafi verið skuldlaus hvað umrædd gjöld varði hinn 13. ágúst 2008 og því geti ekki verið um að ræða neina ógreidda dráttarvexti frá fyrri tíma.  Þá hafi Neytendastofa sýnt af sér slíkt tómlæti að hið opinbera hafi fyrirgert rétti sínum til að hafa kröfuna uppi, auk þess sem meint krafa sé fyrnd.

Niðurstaða:  Með lögum nr. 29/2009 voru gerðar umtalsverðar breytingar á lögum nr. 146/1996 um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, og var Brunamálastofnun m.a. falið eftirlit samkvæmt lögunum með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga í mannvirkjum.  Segir nú í 7. mgr. 11. gr. laga nr. 146/1996 að stjórnvaldsákvarðanir Brunamálastofnunar sem teknar séu á grundvelli laganna séu kæranlegar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem starfi á grundvelli 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, að undanskildum ákvörðunum um dagsektir.

Að orðnum þeim lagabreytingum sem nú var lýst setti umhverfisráðherra reglugerð nr. 678/2009 með stoð í lögum nr. 146/1996 m.s.br.  Segir þar í 2. mgr. gr. 9.4 að ágreining um gjaldskyldu eða gjaldstofn samkvæmt greininni megi bera undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, að því undanskildu að ágreining um gjaldskyldu eða gjaldstofn vegna þeirra raffanga er heyri undir markaðseftirlit Neytendastofu megi bera undir áfrýjunarnefnd neytendamála.

Þótt talið væri að tilvitnað reglugerðarákvæði ætti sér fullnægjandi stoð í 7. mgr. 11. gr. laga nr. 146/1996 m.s.br. er augljóst að álagning þeirra gjalda sem liggja ættu að baki hinni umdeildu vaxtakröfu getur ekki átt rót að rekja til neinnar stjórnvaldsákvörðunar Brunamálastofnunar sem borin verði undir úrskurðarnefndina.  Jafnframt þykir einsýnt að hvað sem líður stjórnskipulegu gildi ákvæðis 2. mgr. gr. 9.4 í reglugerð nr. 678/2009 yrði því ekki beitt afturvirkt um ágreining, sem á rót að rekja til álagningar gjalda vegna áranna 2004 og 2005.  Á ágreiningsefni máls þessa því ekki undir úrskurðarnefndina og verður málinu af þeim sökum vísað frá.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________       ___________________________
         Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson