Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

80/2007 Laugavegur

Ár 2008, föstudaginn 5. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 80/2007, kæra á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 20. desember 2006 um breytt deiliskipulag staðgreinireits 1.171.3 er tekur til hluta Laugavegar, Skólavörðustígs og Bergstaðastrætis í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. ágúst 2007, er barst nefndinni hinn 7. sama mánaðar, kærir H, til heimilis að Laugavegi 5 í Reykjavík, samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 20. desember 2007 um breytt deiliskipulag staðgreinireits 1.171.3, þ.e. svæðis er tekur til hluta Laugavegar, Skólavörðustígs og Bergstaðastrætis í Reykjavík.  Fundargerð skipulagsráðs var lögð fram til kynningar á fundi borgarráðs hinn 21. desember 2006.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á árinu 2002 var samþykkt deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.3.  Var þar heimilað að fjarlægja húsin á lóðunum nr. 4 og 6 við Laugaveg og reisa í þeirra stað þriggja hæða hús með risi og kjallara.  Á syðri hluta lóðarinnar að Laugavegi 6 var þó aðeins heimilað að byggja einnar hæðar hús með kjallara.  Hinn 31. ágúst 2006 tók gildi breyting á deiliskipulagi umrædds reits.  Fól hún í sér sameiningu lóðanna að Laugavegi 4 og 6 og Skólavörðustíg 1A í eina lóð og að reisa mætti fjögurra hæða byggingu við Laugaveg en byggingarmagn við Skólavörðustíg yrði óbreytt. 

Á fundi skipulagsráðs hinn 20. september 2006 var lögð fram tillaga að breyttu deiliskipulagi vegna lóðanna að Laugavegi 4 og 6 og Skólavörðustíg 1A.  Í tillögunni fólst m.a. að húsin að Laugavegi  4 og 6 og Skólavörðustíg 1A yrðu tengd saman og þar byggt hótel með móttöku á fyrstu hæð sem tengd yrði veitingastað.  Þá var gert ráð fyrir að hæð hússins við Laugaveg yrði óbreytt, eða 12,5 metrar, hæð þakskeggs þess fylgdi þakskeggshæð hússins að Laugavegi 8 og að heimiluð yrði stækkun hússins um 171 fermetra.  Samþykkti skipulagsráð að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum á svæðinu.  Var tillagan kynnt nágrönnum og bárust athugasemdir, m.a. frá kæranda.  Skipulagsráð samþykkti síðan skipulagstillöguna hinn 20. desember 2006 á grundvelli 12. gr. samþykktar fyrir skipulagsráð og með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa.  Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 9. júlí 2007.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að grenndarkynningu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi verið ábótavant, m.a. hafi kæranda ekki verið kynnt tillagan, öll gögn hafi ekki legið frammi og skort hafi upplýsingar um skuggavarp.  Fjölgun veitingastaða á svæðinu fari í bága við þróunaráætlun miðborgar og muni hin fyrirhugaða bygging hafa veruleg áhrif á eign kæranda, m.a. vegna þess hve há hún komi til með að vera.   

Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að hámarksnýtingarhlutfall umræddrar lóðar hækki úr 3,96 í 4,20 en hæð húss og skuggavarp taki ekki breytingum frá gildandi deiliskipulagi reitsins.  Unnin hafi verið ítarleg greinargerð um skuggavarp sem sýni með ótvíræðum hætti að frekar sé dregið úr skuggavarpi en gera hafi mátti ráð fyrir samkvæmt elda skipulagi.  Grenndarkynning hafi ekki náð til kæranda þar sem umdeild breyting hafi ekki verið talin hafa grenndaráhrif á fasteignir handan götunnar.  Kærandi hafi engu að síður komið að athugasemdum sínum á kynningartíma tillögunnar og þeim verið svarað af skipulagsyfirvöldum.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að eftir að hin kærða deiliskipulagsbreyting tók gildi hefur skipulagi umrædds reits verið breytt.  Hinn 2. október 2008 samþykkti borgarráð breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.3 vegna lóðanna við Laugaveg 4 og 6, þar sem m.a. er gert ráð fyrir verndun þeirra húsa er nú standa á þeim lóðum.  Var auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. nóvember 2008.

Samkvæmt framangreindu hefur deiliskipulagi svæðis þess er hin kærða ákvörðun tekur til verið breytt í svo veigamiklum atriðum að ekki verður séð að kærandi eigi lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hennar, en slíkir hagsmunir eru skilyrði kæruaðildar samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________ 
Hjalti Steinþórsson

 

 

____________________________       ___________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson