Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

80/2006 Hamrahlíð

Ár 2008, fimmtudaginn 28. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 80/2006, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Fljótsdalshéraðs frá 28. ágúst 2006 um að falla frá hugmyndum um lóð nr. 5 við Hamrahlíð á Egilsstöðum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. október 2006, er barst nefndinni 19. sama mánaðar, kærir S, Lagarfelli 25, Egilsstöðum, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Fljótsdalshéraðs frá 28. ágúst 2006 að falla frá hugmyndum um lóð nr. 5 við Hamrahlíð á Egilsstöðum.  Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs samþykkti nefnda bókun skipulags- og byggingarnefndar hinn 6. september 2006.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun en farið er fram á að kærandi fái að byggja hús á óskipulagðri lóð að Hamrahlíð 5 á Egilsstöðum og kveðið verði á um skaðabótaskyldu vegna þess fjártjóns sem hlotist hafi af málinu.

Málsatvik og rök:  Á árinu 2005 sendi kærandi erindi til byggingarfulltrúa Fljótsdalshéraðs þar sem óskað var eftir skipulagningu byggingarlóðar norðan Hamrahlíðar 3 á Egilsstöðum.  Eigandi umrædds lands var Kaupfélag Héraðsbúa og hafði kærandi fengið yfirlýsingu frá landeiganda, dags. 25. febrúar 2005, þar sem fram kom að ekki væri gerð athugasemd við að kærandi léti hanna hús og byggja á óskipulagðri lóð við hlið Hamrahlíðar 3.  Var tekið jákvætt í erindið en til þess að verða við ósk kæranda þurfti að breyta landnotkun aðalskipulags fyrir umrætt land og gera deiliskipulag þar sem lóðin yrði mörkuð.  Tillaga um lóð að Hamrahlíð 5 ásamt byggingarskilmálum var kynnt nágrönnum og deiliskipulagstillaga auglýst til kynningar á árinu 2006.  Nokkrar athugasemdir bárust við tillöguna.  Deiliskipulagstillagan var á dagskrá fundar skipulags- og byggingarnefndar hinn 28. ágúst 2006 þar sem gerð var svofelld bókun um málið:  „Vilji nefndarinnar er að deiliskipulag Hlíðanna gangi ekki gegn vilja íbúa svæðisins m.a. að falla frá hugmyndum um lóð nr. 5 við Hamrahlíð.  Að öðru leyti er vísað í bókun um sama mál frá síðasta fundi.“  Var þessi bókun staðfest í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs hinn 6. september 2006.  Virðist skipulagstillagan þar með hafa verið úr sögunni og skaut kærandi þeim málalyktum til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Kveðst kærandi hafa gert samkomulag við þáverandi landeiganda um kaup á umræddu landi.  Hafi verið sótt um skipulagningu umræddrar lóðar í ljósi áhersla sveitarstjórnar Fljótsdalshéraðs um þéttingu byggðar.  Málið hafi tekið á sig sérstaka mynd en engu sé líkara en tíma, fjármunum og fyrirhöfn einstaklinga sé lögð fyrir róða um leið og ákvarðanataka sveitarfélagsins sé látin mótast af áliti aðila sem ætla megi að engar forsendur hafi til að gefa marktækt álit.  Kærandi hafi varið miklum tíma og fjármunum í mál þetta vegna deiliskipulagstillögu og teikninga að mögulegu húsi.  Vinnubrögð skipulags- og byggingaryfirvalda í málinu hafi verið  ábótavant og beri þeim að bæta kæranda fjártjón sem hann hafi orðið fyrir vegna málsins.  Frávísunarkröfu Fljótsdalshéraðs sé mótmælt.  Kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu, í ljósi samkomulags hans um kaup á landinu á sínum tíma, og hafi bæjaryfirvöldum Fljótsdalshéraðs verið kunnugt um yfirlýsingu þáverandi eiganda, dags. 25. febrúar 2005.

Bæjaryfirvöld Fljótsdalshéraðs krefjast frávísunar málsins þar sem kærandi eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta  í málinu en Fljótsdalshérað sé eigandi að landi því sem um ræði.

Niðurstaða:  Úrskurðarnefndinni hefur borist þinglýst afsal, dags. 15. desember 2006, ásamt fylgigögnum, þar sem Kaupfélag Héraðsbúa lýsir sveitarfélagið Fljótsdalshérað m.a. eiganda að landi því sem lóðin að Hamrahlíð 5 skyldi vera samkvæmt deiliskipulagstillögu á sínum tíma.  Verður eignaréttur Fljótsdalshéraðs að umræddu landi lagður til grundvallar í máli þessu enda hefur hinu þinglýsta afsali ekki verið hnekkt.  Í afsalinu kemur fram að allir lóðaleigusamningar um hið selda land haldi gildi sínu.

Ekki verður séð að efni hinnar kærðu ákvörðunar um að falla frá skipulagningu lóðar norðan við Hamrahlíð 3 á Egilsstöðum snerti einstaklega lögvarða hagsmuni kæranda með þeim hætti að játa verði honum kæruaðild um gildi þeirrar ákvörðunar.  Fyrir liggur að Fljótsdalshérað er þinglýstur eigandi að umræddu landi en kærandi hefur ekki lagt fram gögn í málinu um að hann telji eða hafi talið til beinna eða óbeinna eignaréttinda að fyrrgreindu landi.

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála er falið úrskurðarvald um gildi stjórnvaldsákvarðana á sviði skipulags- og byggingarmála skv. 1. og 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Nefndin hefur, eðli máls samkvæmt, ekki boðvald um meðferð og afgreiðslu mála hjá skipulags- og byggingaryfirvöldum og kveður ekki á um bótaskyldu vegna meðferðar skipulags- og byggingarmála enda taka almennar reglur skaðabótaréttarins til þess álitaefnis sem á undir dómstóla.   Krafa kæranda um að hann fái leyfi til að byggja hús á óskipulagðri lóð að Hamrahlíð 5 á Egilsstöðum og að afstaða verði tekin til skaðabótaskyldu vegna málsins á því ekki undir úrskurðarnefndina.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________             ______________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson