Árið 2012, þriðjudaginn 5. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 8/2012, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 10. janúar 2012 um breytt deiliskipulag varðandi lóðina nr. 6 við Akrakór í Kópavogi og á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi um að veita leyfi til breytinga á húsi á þeirri lóð.
Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur
úrskurður:
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. febrúar 2012, er barst nefndinni 10. s.m., kæra Ó og J, Aflakór 7, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 10. janúar 2012 að samþykkja breytt deiliskipulag varðandi lóðina nr. 6 við Akrakór. Með bréfi, dags. 13. apríl s.á., kæra sömu aðilar ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi um að veita leyfi til breytinga á húsi á þeirri lóð. Hefur það mál, sem er nr. 29/2012 í málaskrá nefndarinnar, verið sameinað máli þessu. Loks gera kærendur með bréfi, dags. 15. maí 2012, er barst úrskurðarnefndinni 16. s.m. kröfu til þess að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu.
Málsatvik og rök: Hinn 20. september 2011 var á fundi skipulagsnefndar Kópavogs tekið fyrir erindi lóðarhafa Akrakórs 6 þar sem óskað var eftir að breyta einbýlishúsi á lóðinni í tvíbýlishús og fjölga bílastæðum um eitt. Samþykkti nefndin að grenndarkynna erindið og var frestur til athugasemda veittur til 4. nóvember 2011. Athugasemd barst frá kærendum, sem töldu að breytingin gæti skapað fordæmi fyrir breyttri byggð. Í umsögn skipulags- og byggingardeildar, dags. 14. nóvember 2011, segir m.a. að það breyti ekki heildaryfirbragði hverfisins þó svo einu einbýlishúsi verði breytt í parhús en hverfið sé nú þegar byggt upp af einbýlishúsum og parhúsum. Á fundi skipulagsnefndar hinn 14. desember 2011 var tillagan samþykkt og vísað til bæjarstjórnar, sem staðfesti hina umdeildu skipulagsbreytingu á fundi sínum hinn 10. janúar 2012, og tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 13. s.m.
Byggingarleyfi mun hafa verið gefið út í kjölfar skipulagsbreytingarinnar. Að sögn kærenda hófust framkvæmdir við breytingar á húsinu í byrjun apríl, en upplýsingar liggja ekki enn fyrir um byggingarleyfið eða framvindu verks. Kærendur skutu ákvörðun byggingarfulltrúa um byggingarleyfið til úrskurðarnefndarinnar, með bréfi dags. 13. apríl 2012, og kröfðust síðan stöðvunar framkvæmda með bréfi, dags. 15. maí s.á., sem barst nefndinni 16. s.m.
Kærendur vísa til þess að í skipulagi svæðisins hafi aðeins verið gert ráð fyrir einbýlishúsum og parhúsum við Akrakór og Aflakór. Í umsögn skipulags- og byggingardeildar komi fram að einbýlishúsi sé breytt í parhús, en kærendur telji að með hinni kærðu ákvörðun sé verið að breyta þegar byggðu einbýlishúsi í tvíbýlishús. Um sé að ræða grundvallarbreytingu sem skapi fordæmi og rýri eign kærenda. Af hálfu bæjaryfirvalda er því haldið fram að um sé að ræða óverulega breytingu sem ekki muni raska heildaryfirbragði hverfisins, sem sé nær fullbyggt. Byggingaleyfishafi vísar til þess að framkvæmdir hans styðjist við lögmætt byggingarleyfi. Vandséð sé að kærendur muni verða fyrir fjárhagslegu tjóni vegna hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar, en hins vegar muni stöðvun framkvæmda hafa í för með sér mikið tjón fyrir byggingarleyfishafa.
———————————
Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin frekar í bráðabirgðaúrskurði þessum en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þessa þáttar málsins.
Niðurstaða: Samkvæmt 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi getur þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við meðferð kærumáls.
Úrskurðarnefndin ritaði umhverfisssviði Kópavogsbæjar bréf hinn 14. febrúar 2012 þar sem tilkynnt var um kæru á hinni umdeildu skipulagsákvörðun og var veittur 30 daga frestur til að senda nefndinni gögn málsins, svo sem lögskylt er, sbr. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Var frestur jafnframt veittur til sama tíma til að koma að sjónarmiðum bæjaryfirvalda í málinu. Sambærilegt bréf var sent umhverfissviði hinn 16. apríl 2012 með tilkynningu um fram komna kæru á byggingarleyfi. Hinn 16. maí s.á. var byggingarfulltrúa sent tölvubréf þar sem tilkynnt var um fram komna kröfu um stöðvun framkvæmda og frestur veittur til 23. s.m. til að skila gögnum og koma að athugasemdum. Sama dag var byggingarleyfishafa ritað bréf og honum gefinn kostur á að andmæla fram komnum kröfum. Andmæli bárust frá byggingarleyfishafa hinn 29. s.m. þar sem hann mótmælir kröfum kærenda og gerir grein fyrir sjónarmiðum sínum. Krefst hann þess að kærendum verði gert að setja tryggingu komi til þess að framkvæmdir hans verði stöðvaðar.
Þrátt fyrir að beiðni nefndarinnar um gögn í málinu hefði verið ítrekuð, m.a. með tölvubréfi til skipulagsstjóra og byggingarfulltrúa hinn 21. maí 2012, bárust engin viðbrögð frá bæjaryfirvöldum fyrr en með bréfi, sem móttekið var hjá úrskurðarnefndinni hinn 1. júní s.á. Fylgdu því gögn sem þó aðeins varða hina umdeildu skipulagsbreytingu og eru að mati nefndarinnar ekki fullnægjandi. Engin gögn fylgdu um útgefið byggingarleyfi. Í bréfinu, sem dagsett er 30. maí 2012, er boðað að greinargerð Kópavogsbæjar muni berast innan sjö virkra daga frá dagsetningu bréfsins.
Í máli þessu er krafist ógildingar deiliskipulagsákvörðunar og byggingarleyfis sem við hana styðst. Eins og að framan greinir bárust úrskurðarnefndinni gögn vegna málsins ekki fyrr en 1. júní 2012 og þá ekki nema að hluta til. Af þeim gögnum sem þegar liggja fyrir verður þó ráðið að uppi séu álitaefni í málinu sem gætu varðað gildi hinna kærðu ákvarðana.
Eins og atvikum er háttað þykir rétt að verða við kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi en byggingarleyfishafi getur óskað þess að málið sæti flýtimeðferð, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011. Lagaheimild skortir til að gera kærendum að leggja fram tryggingu og verður kröfu byggingarleyfishafa þar að lútandi því hafnað.
Úrskurðarorð:
Framkvæmdir sem hafnar eru við breytingar á húsinu nr. 6 við Akrakór á grundvelli hinna kærðu ákvarðana skulu stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Kröfu byggingarleyfishafa um tryggingu er hafnað.
____________________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ ___________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson