Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

79/2010 Bergstaðastræti

Ár 2011, föstudaginn 4. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 79/2010, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. desember 2010 um að veita takmarkað byggingarleyfi fyrir uppsteypu 2. hæðar nýbyggingar við húsið að Bergstaðastræti 13 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. desember 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir Arnar Þór Stefánsson hdl., f.h. D, eiganda eignarhluta í fasteigninni að Bergstaðastræti 15, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. desember 2010 að veita takmarkað byggingarleyfi fyrir uppsteypu 2. hæðar nýbyggingar við húsið að Bergstaðastræti 13 í Reykjavík. 

Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um að framkvæmdir við heimilaða byggingu yrðu stöðvaðar meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og kvað úrskurðarnefndin upp bráðabirgða-úrskurð hinn 24. janúar 2011 þar sem framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi voru stöðvaðar. 

Málsatvik og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 23. febrúar 2010 var tekin fyrir umsókn um endurnýjun byggingarleyfis sem samþykkt hafði verið 19. ágúst 2008 fyrir fjögurra hæða viðbyggingu með atvinnuhúsnæði á fyrstu hæð og þremur íbúðum á annarri til fjórðu hæð á lóðinni nr. 13 við Bergstaðastræti.  Samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 25. febrúar 2010.  Byggingarleyfi sem heimilaði að hefja framkvæmdir var gefið út hinn 30. ágúst 2010. 

Kærandi, ásamt öðrum, kærði ákvörðun um veitingu fyrrgreinds byggingarleyfis til úrskurðarnefndarinnar, sem með úrskurði uppkveðnum 6. október 2010 felldi hana úr gildi, þar sem notkun annarrar til fjórðu hæðar heimilaðrar byggingar samræmdist ekki landnotkun gildandi aðalskipulags fyrir umrædda lóð. 

Í kjölfarið var veitt sérstakt byggingarleyfi fyrir fyrstu hæð hússins og leituðu borgaryfirvöld jafnframt til Skipulagsstofnunar með erindi um að á grundvelli 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda leiðrétting á landnotkun umrædds svæðis, þar sem landnotkun hefði fyrir mistök borið lit athafna-svæðis í stað íbúðarsvæðis á aðalskipulagsuppdrætti.  Féllst Skipulagsstofnun á erindið fyrir sitt leyti og var málinu síðan vísað til umhverfisráðuneytisins sem annaðist staðfestingu og auglýsingu aðalskipulags samkvæmt þágildandi skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997. 

Byggingarfulltrúinn í Reykjavík gaf út byggingarleyfi samkvæmt 2. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga hinn 8. desember 2010, er takmarkaðist við uppsteypu annarrar hæðar nýbyggingar sem verið er að reisa að Bergstaðastræti 13, en veiting leyfisins var afgreidd á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. desember sama ár.  Sú afgreiðsla var lögð fram á fundi skipulagsráðs 15. desember og staðfest í borgarráði 16. desember 2010.  Hefur veitingu þessa byggingarleyfis verið skotið til úrskurðar-nefndarinnar eins og að framan greinir. 

Eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni tilkynnti umhverfisráðuneytið Reykjavíkurborg í bréfi, dags. 17. janúar 2011, að ráðuneytið gæti ekki fallist á erindi borgarinnar um leiðréttingu á landnotkun umrædds svæðis á gildandi aðalskipulags-uppdrætti samkvæmt 23. gr. stjórnsýslulaga.  Byggðist sú niðurstaða á því að stjórnsýslulög ættu ekki við um skipulagsáætlanir, sbr. 1. gr. laganna, þar sem þær teldust vera almenn stjórnvaldsfyrirmæli. 

Hinn 26. janúar 2011 samþykkti borgarráð tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 sem fól í sér að landnotkun umrædds götureits var breytt úr athafnasvæði í íbúðarsvæði.  Skipulagsstofnun staðfesti þá breytingu 17. febrúar 2011 og var auglýsing þar um birt í B-deild Stjórnartíðinda 18. febrúar s.á. 

Byggingarfulltrúi samþykkti síðan hinn 22. febrúar 2011 að endurnýja byggingarleyfið fyrir fjögurra hæða viðbyggingu að Bergstaðastræti 13, sem úrskurðarnefndin ógilti hinn 6. október 2010.  Borgarráð staðfesti veitingu byggingarleyfisins 24. febrúar sama ár og skaut kærandi þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 23. febrúar 2011. 

Af hálfu kæranda er vísað til þess að byggingarleyfi fyrir umdeildri fjögurra hæða viðbyggingu að Bergstaðastræti 13 hafi með úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála verið fellt úr gildi þar sem leyfið hafi farið í bága við gildandi landnotkun svæðisins.  Kærandi hafi í kjölfarið krafist þess af borgaryfirvöldum að hin ólögmæta bygging yrði fjarlægð og lóðinni komið í fyrra horf í samræmi við þágildandi 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Borgaryfirvöld hafi hins vegar hinn 7. október 2010 veitt takmarkað byggingarleyfi fyrir uppsteypu fyrstu hæðar viðbyggingarinnar.  Byggingarfulltrúi hafi nú veitt takmarkað byggingarleyfi fyrir uppsteypu annarrar hæðar sem ætluð sé til íbúðar þrátt fyrir óbreytta landnotkun á svæðinu frá því að fyrrgreindur úrskurður gekk. 

Borgaryfirvöld benda á að í ljósi aðstæðna hafi verið heimilt og eðlilegt að veita hið umþrætta byggingarleyfi.  Fyrir liggi að umrædd bygging og það sem þegar hafi verið byggt sé hvorki í andstöðu við deiliskipulag né aðalskipulag.  Aðeins fyrirhuguð notkun hluta byggingarinnar til íbúðar komi þar til álita, en ekki sé búið að taka nýbygginguna í notkun.  Landnotkun á reitnum sé íbúðarsvæði og hafi svo alltaf verið.  Nú sé unnið að leiðréttingu mistaka við prentun aðalskipulagsuppdráttar.   Það sé vandséð hvaða hagsmuna kærandi eigi að gæta í máli þessu þar sem öllum efnislegum málatilbúnaði hans hafi verið hafnað í fyrri úrskurði úrskurðarnefndarinnar um umrædda byggingu. 

———-

Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að koma að í málinu athugasemdum sínum og sjónarmiðum en greinargerð af hans hálfu hefur ekki borist úrskurðarnefndinni. 

Niðurstaða:  Eins og fram er komið veitti byggingarfulltúinn í Reykjavík nýtt byggingarleyfi fyrir umdeildri viðbyggingu að Bergstaðastræti 13 í Reykjavík hinn 22. febrúar 2011.  Tekur það byggingarleyfi m.a. til byggingar annarrar hæðar viðbyggingarinnar sem hið kærða byggingarleyfi í máli þessu tekur til. 

Verður að líta svo á að með ákvörðuninni um veitingu hins nýja byggingarleyfis hafi hin kærða ákvörðun í máli þessu fallið úr gildi og hafi hún ekki lengur réttarverkun að lögum.  Samkvæmt því hefur kærandi, sem þegar hefur kært hina nýju ákvörðun um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu að Bergstaðastræti 13, ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. nú 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_______________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________        _____________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson