Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

79/2007 Sómatún

Ár 2007, miðvikudaginn 22. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 79/2007, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúans á Akureyri frá 18. júlí 2007 um að heimila byggingu einbýlishúss, að hluta til á tveimur hæðum, á lóðinni nr. 6 við Sómatún. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. ágúst 2007, er barst nefndinni hinn 8. sama mánaðar, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. K og A, til heimilis að Sómatúni 4 og H og E, til heimilis að Sómatúni 8, þá ákvörðun skipulags og byggingarfulltrúans á Akureyri frá 18. júlí 2007 um að heimila byggingu einbýlishúss, að hluta á tveimur hæðum, á lóðinni nr. 6 við Sómatún. á Akureyri. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að kveðinn verði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu.  Verður krafan um stöðvun framkvæmda nú tekin til úrskurðar. 

Málsatvik og rök:  Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 27. október 2006 var fellt úr gildi leyfi til byggingar einbýlishúss að Sómatúni 6 á Akureyri, þar sem það var talið andstætt samþykktu deiliskipulagi svæðisins frá árinu 2005 að heimila byggingu tveggja hæða húss á lóðinni.  Ákvað bæjarstjórn hinn 14. mars 2007 að auglýsa breytingu á deiliskipulagi hverfisins þar sem heimilað var að reisa eins til tveggja hæða einbýlishús að Sómatúni 4, 6 og 8 í stað einnar hæða húsa, svo sem áður hafði verið gert ráð fyrir á skipulagsuppdrætti.  Var deiliskipulagstillögunni andmælt, þar á meðal af hálfu kærenda.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 16. maí 2007 var tillagan samþykkt með eftirfarandi rökum:  „Hönnuðir deiliskipulagsins hafa skýrt út með breytingartillögunni, grunnhugsun og hugmyndafræði deiliskipulagsins varðandi byggingu einbýlishúsa þar sem landhalli er fyrir hendi.  Skipulagsnefnd telur að með breytingu þessari sé verið að skýra og leiðrétta misræmi, annars vegar á uppdráttum og í sérskilmálum til þess að fyrirbyggja mismunandi túlkun deiliskipulagsskilmála við afgreiðslu mála í hverfinu til framtíðar.  Meirihluti skipulagsnefndar leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagsbreytingin verði samþykkt og skipulags- og byggingarfulltrúa falið að annast gildistöku hennar.“   Staðfesti bæjarstjórn skipulagsbreytinguna á fundi hinn 22. maí 2007.  Skipulagsstofnun staðfesti með bréfi, dags. 14. júní 2007, að stofnunin gerði ekki athugasemdir við málsmeðferðina og birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda hinn 5. júlí 2007.  Skutu kærendur deiliskipulagsbreytingunni til úrskurðarnefndarinnar og er mál það nú til meðferðar hjá nefndinni. 

Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 18. júlí 2007 var samþykkt að heimila byggingu einbýlishúss á þremur pöllum á lóðinni nr. 6 við Sómatún og staðfesti bæjarráð framangreint á fundi hinn 2. ágúst 2007.  Kærendur hafa nú skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Af hálfu kærenda er vísað til þess að þau hafi áður kært til úrskurðarnefndarinnar deiliskipulagsbreytingu þá er taki til lóðanna að Sómatúni 4, 6 og 8 og krafist ógildingar hennar.  Verði deiliskipulagsbreytingin felld úr gildi leiði það til þess að jafnframt beri að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi.  Í kæru vegna deiliskipulagsbreytingarinnar sé m.a. vísað til þess að breytingin taki aðeins til þriggja lóða og þar af séu einnar hæðar hús þegar risin á tveimur lóðanna.  Sé breytingin í andstöðu við skipulag það sem gengið hafi verið út frá er kærendur hafi fengið sínum lóðum úthlutað og reist hús sín.  Þá sé breytingin í andstöðu við fyrsta kafla skipulagsreglugerðar þar sem segi að deiliskipulag skuli ná til einstakra svæða eða reita innan aðalskipulags og skuli jafnan miðast við að ná til svæða sem myndi heildstæða einingu ásamt því að í þéttbýli skuli deiliskipulag að jafnaði ekki taka yfir minna svæði en götureit.  Augljóst sé að breytingunni sé einungis ætlað að taka til einnar lóðar, þ.e. Sómatúns 6.  Þá telji kærendur að slík breyting á tiltölulega nýlegu deiliskipulagi verði að byggja á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum.  Hagsmunir eins lóðarhafa um aukna nýtingu og rýmri skilmála gegn hagsmunum annarra húseiganda á svæðinu geti ekki talist málefnaleg sjónarmið.  Breytingin sé því ólögmæt.  Kærendur hafi gengið út frá deiliskipulagi, uppdrætti og fyrirmælum við ákvörðun um hönnun og byggingu húsa þeirra.  Breytingin mæli fyrir um nýja húsagerð, sem ekki hafi verið kveðið á um áður, augljóslega aðeins gerða til að þóknast einum lóðarhafa umfram aðra. 

Þar að auki bjóði landhalli ekki upp á slíka byggingu sem hið kærða leyfi taki til. Auk þess sé brotið gegn skipulagsskilmálum, þar sem segi að jarðvegspúðar séu bannaðir, en á aðaluppdráttum fyrir Sómatún 6 komi fram að húsið standi að hluta á jarðvegspúða þar sem búið sé að hækka það upp að framan. 

Bent sé á að um sé að ræða mál þar sem miklir hagsmunir séu í húfi og sýnt að kærendur yrðu fyrir umfangsmiklu tjóni ef ekki yrði fallist á kröfu um stöðvun framkvæmda.  Framkvæmdir á lóðinni séu á byrjunarstigi og því brýnt að kveðinn verði upp úrskurður um að ekki skuli hefja framkvæmdir á lóðinni meðan mál þetta sé til meðferðar.

Af hálfu Akureyrarbæjar er þess krafist að kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda verði synjað enda sé hið kærða byggingarleyfi í samræmi við lögformlegt skipulag svæðisins svo sem því hafi nú verið breytt.  Tilgangur umdeildrar skipulagsbreytingar hafi verið sá að skýra og leiðrétta misræmi sem fyrir hafi verið milli skipulagsuppdráttar og skipulagsskilmála eins og fram komi í bókun skipulagsnefndar um samþykkt breytingarinnar. 

Niðurstaða:  Hið kærða byggingarleyfi á stoð í skipulagsbreytingu þeirri sem samþykkt var í bæjarstjórn Akureyrar hinn 22. maí 2007 og kærð hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.  Hús kærenda eru einnar hæðar í samræmi við skipulagsuppdrátt fyrir umdeilda skipulagsbreytingu og standa þau sitt hvoru megin við lóðina að Sómatúni 6, þar sem nú hefur verið heimilað að reisa hús að hluta til á tveimur hæðum. 

Í ljósi þess að uppi eru álitaefni sem geta varðað gildi skipulagsbreytingarinnar sem hið kærða byggingarleyfi styðst við og þar sem fyrirhuguð húsbygging getur haft töluverð grenndaráhrif á fasteignir kærenda þykir eftir atvikum rétt að verða við kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda þar til málið er til lykta leitt fyrir úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir á lóðinni nr. 6 við Sómatún á Akureyri, með stoð í hinu kærða byggingarleyfi, skulu stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________          ___________________________          Ásgeir Magnússon                              Þorsteinn Þorsteinsson