Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

78/2024 Hauganes

Árið 2024, miðvikudaginn 31. júlí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 78/2024, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar frá 16. apríl 2024 um óverulega breytingu á Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008–2020 og afgreiðslu varðandi breytingu á deiliskipulagi Hauganess vegna Sjávarstígs 2.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 24. júlí 2024, kærir eigandi íbúðar að Aðalgötu 8, Hauganesi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar frá 16. apríl s.á. að samþykkja tillögu um óverulega breytingu á Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008–2020 vegna Sjávarstígs 2, Hauganesi. Skilja verður málskot þetta svo að jafnframt sé kærð afgreiðsla sveitarstjórnar um breytingu á deiliskipulagi Hauganess vegna Sjávarstígs 2.

Málsatvik og rök: Á fundi sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar hinn 16. apríl 2024 var samþykkt að gerð yrði óveruleg breyting á Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008–2020 vegna áforma um nýtt 0,05 ha iðnaðarsvæði á Hauganesi. Á sama fundi frestaði sveitarstjórn afgreiðslu á tillögu um breytingu á deiliskipulagi Hauganess vegna Sjávarstígs 2. Tillagan gerði ráð fyrir nýrri 438 m2 lóð fyrir „hafnsækna“ starfsemi með 50 m2 byggingarheimild. Kærandi færir fram rök um að undirbúningur þessa hafi verið haldinn annmörkum og krefst ógildingar.

Niðurstaða: Samkvæmt 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir sem ber undir Skipulagsstofnun og ráðherra til staðfestingar ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur síðan fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Skipulagsstofnun hefur upplýst að tillaga að breyttu aðalskipulagi hafi ekki verið staðfest af stofnuninni. Þá liggur fyrir að málsmeðferð breytingar á deiliskipulagi hefur verið frestað þar til málsmeðferð breytingar á aðalskipulagi lýkur.

Með þessu liggur ekki fyrir kæranleg stjórnvaldsákvörðun í máli þess, sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. laga nr. 37/1993. Verður því kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.