Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

78/1007 Dverghamar

Ár 2009, fimmtudaginn 15. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 78/2007, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar frá 21. júní 2007 um breytingu á deiliskipulagi vesturbæjarins vegna lóðar nr. 27-29 við Dverghamar, Vestmannaeyjum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 31. júlí 2007, er barst nefndinni 3. ágúst sama ár, kærir H, Dverghamri 33, samþykkt bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar frá 21. júní 2007 um breytt deiliskipulag vesturbæjar, að því er tekur til lóðar nr. 27-29 við Dverghamar.  Var auglýsing um gildistöku breytts deiliskipulags birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 25. júlí s.á.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en lóð kæranda liggur að umræddri lóð.

Málavextir:  Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar hinn 4. apríl 2007 var tekið fyrir erindi um úthlutun lóðar nr. 27-29 við Dverghamar til byggingar einbýlishúss á lóðinni.  Var erindið samþykkt enda yrði fullnægjandi teikningum skilað fyrir 1. júní 2007.  Þá var lögð áhersla á að bygging yrði, eins og fram kæmi í umsókn, í samræmi við húsin að Dverghamri 24-42.

Hinn 18. apríl s.á. var lagt fyrir umhverfis- og skipulagsráð nýtt lóðarblað fyrir umrædda lóð.  Var samþykkt að gera óverulega breytingu á skipulagi við Dverghamar og skipulags- og byggingarfulltrúa falið að grenndarkynna breytingartillögu skv. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga sem hann og gerði með bréfi, dags. 20. apríl 2007.

Barst athugasemdabréf frá 37 aðilum er töldu m.a. að breytingin gæti ekki talist óveruleg en nú væri heimiluð bygging einbýlishúss í stað parhúss, byggingarreiturinn væri stækkaður og að breytt aðkoma að lóðinni fæli í sér aukna slysahættu.

Umhverfis- og skipulagsráð fór yfir framlagðar athugasemdir á fundi sínum hinn 12. júní 2007 og var svohljóðandi bókað:  „Fyrirhugað er að byggja á lóðunum einbýlishús í stað parhúss og telur ráðið það ívilnandi fyrir íbúa svæðisins en ekki íþyngjandi.  Fram kemur í bókun ráðsins frá 4. apríl 2007 að fyrirhuguð bygging skuli taka mið af og vera í samræmi við önnur hús við Dverghamar 24-42, sbr. ákvæði um byggingarefni, útlit, hæðir og þakform hússins í greinargerð deiliskipulagstillögu.  Heildarbyggingarreitur á lóðum Dverghamars nr. 27-29 er minnkaður og færður til suðurs vegna umferðaröryggissjónarmiða.  Innkeyrsla og bílskúr muni taka mið af öðrum byggingum í hverfinu.  Ráðið samþykkir deiliskipulagsbreytinguna.  Afgreiðsla þessi er skv. skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.“  Samþykkti bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar greinda afgreiðslu hinn 21. júní 2007.

Skaut kærandi áðurnefndri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að í bænum séu um 70 lausar lóðir fyrir einbýlishús en aðeins tvær parhúsalóðir.  Nú eigi að taka aðra lóðina undir byggingu einbýlishúss þrátt fyrir að þar hafi til margra ára staðið steyptur grunnur fyrir parhús.  Þar með sé ásýnd hverfisins, sem sé eina parhúsahverfi bæjarins, fórnað fyrir minni hagsmuni.  Um einstakt hverfi sé að ræða sem skipulagt sé og hannað af sama arkitekt og hafi byggðin þótt falla einstaklega vel inn í umhverfið.

Kærandi bendi jafnframt á að fjöldi íbúa hafi mótmælt fyrirhugaðri breytingu á deiliskipulagi.  Þá átelji kærandi þau vinnubrögð umhverfis- og tæknisviðs að úthluta lóðinni undir einbýlishús án þess að hafa áður grenndarkynnt málið eða boðað til almenns fundar um það.  Um gerræðisleg vinnubrögð sé að ræða sem angi af einhverju allt öðru en faglegum vinnubrögðum.

Málsrök Vestmannaeyjarbæjar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er farið fram á að kröfum kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði hafnað.

Vestmannaeyjabær bendir á að umrætt hverfi sé íbúðahverfi, skipulagt fyrir einbýlis- og parhúsabyggð, og sé hluti af byggingaráætlun fyrir Vestmannaeyjar sem samþykkt hafi verið árið 1973 en þar hafi verið gert ráð fyrir talsvert meiri byggð en raun hafi orðið á.  Umrædd breyting á notkun lóðarinnar sé óveruleg og hafi grenndarkynning farið fram skv. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Sé engan veginn talið að heildarmynd hverfisins sé raskað með samþykktri breytingu.

Ekki hafi verið talin rök fyrir því að verða við framkomnum mótmælum íbúa en tekið skuli fram að það skilyrði hafi m.a. verið sett að mannvirkið á umræddri lóð tæki mið af þegar reistum mannvirkjum við Dverghamar.  Því hafi verið talið að ekki væri um íþyngjandi ákvörðun að ræða fyrir hagsmunaðila.  Ítrekað sé að í öllu hafi verið farið eftir ákvæðum tilvitnaðra laga, sbr. sérstaklega 26. og 43. gr. laganna.

Niðurstaða:  Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna og annast þær og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags, sbr. 2. mgr. 3. gr. og 23. gr. laganna.  Skal í deiliskipulagi útfæra nánar ákvæði aðalskipulags um viðkomandi svæði svo sem segir m.a. í 4. mgr. 23. gr. sömu laga.

Í máli þessu er deilt um lögmæti breytts deiliskipulags vesturbæjar vegna lóðar nr. 27-29 við Dverghamar.  Á svæði því er um ræðir er í gildi byggingaráætlun fyrir Vestmannaeyjar er samþykkt var í bæjarstjórn í desember 1973.  Verður að líta svo á að áætlunin hafi gildi sem deiliskipulag fyrir svæði það sem hér skiptir máli, sbr. ákvæði 11. tl. til bráðabirgða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir byggingu allt að 350 íbúða af mismunandi stærðum og í mismunandi húsagerðum í nýju byggðahverfi í hrauninu vestan Illugagötu.  Við Dverghamar er gert ráð fyrir parhúsum og einbýlishúsum og var lóðin nr. 27-29  parhúsalóð en með hinni kærðu ákvörðun er heimilað að reisa á henni eitt einbýlishús í stað parhúsa.  Í samþykkt skipulags- og umhverfisráðs frá 12. júní 2007, er bæjarstjórn staðfesti 21. júní 2007, er áskilið að fyrirhuguð bygging taki mið af og verði í samræmi við önnur hús við Dverghamar 24-42.  Telur úrskurðarnefndin að með þessu ákvæði sé tryggt að ekki sé vikið verulega frá byggðamynstri svæðisins með hinni kærðu ákvörðun og verður hún ekki talin veruleg.  Verður því ekki talið að hagsmunum kæranda sé raskað með þeim hætti að ógildingu varði og ekki verður séð að aðrir þeir annmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun er leitt geti til ógildingar hennar.  Verður kröfu um ógildingu því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á samþykkt bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar frá 21. júní 2007 um breytingu á deiliskipulagi vesturbæjar vegna lóðar nr. 27-29 við Dverghamar.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________         ______________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson